Sýnir færslur með efnisorðinu geitungadráp. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu geitungadráp. Sýna allar færslur

30 júlí, 2017

Spennufíklarnir, sonabörnin (2)

Þetta er í beinu framhaldi af þessu.
Mér var það ljóst þegar svona var komið, að ekki gæti ég bara staðið þarna og tekið myndir af aðgerðum. Auðvitað var ábyrgð mín á þessum ofurspenntu og heyrnardaufu (maður heyrir stundum það sem maður vill heyra - annað ekki) ótvíræð. Ekki gæti ég tekið áhættuna af því að þurfa að skila þeim í hendur foreldranna útstungnum og í taugaáfalli.
Með eitubrúsann í vinstri hönd og prikið í þeirri hægri gerði ég þarna lokaárás á geitungabúið.
Fyrst lét ég dreggjar úr brúsanum vaða á kvikindið sem enn hafði sést hreyfa sig í gatinum á búinu. Því næst rak ég prikið í mitt búið og reif á það gat.
Þetta hljómar sannarlega saklaust, allt saman þegar það er lesið, en ekki gat ég þarna vitað hvað  þetta myndi geta haft í för með sér.
Það sem gerðist næst má líkja við að horfa á kvikmynd hægt.

1. Hátíðniöskur barnabarnanna: "Það koma geitungar út!!!"

2. Hátíðniöskurbarnabarnanna sem skáru æ minna í eyrun eftir því sem þau fjarlægðust (þau
enduðu inni í lokuðu herbergi með sæng yfir sér).

3. Ég sá 3 geitunga koma fljúgandi út úr búinu, rak hælinn í einhverja ójöfnu og þar sem báðar hendur voru uppteknar og EOS um hálsinn, vissi ég ekki fyrr til en ég lá á bakinu með geitunga sveimandi yfir mér.
Ég úðaði dreggjum í brúsanum í átt til þeirra, yfir mig og allt  um kring.

Til að setja kvikmyndina aftur á eðlilegan hraða þá lauk þessum atgangi með því geitungarnir þrír hurfu út í buskann.
Já, já, ég veit að það hefur ekki litið vel út að hlunkast þarna á bakið og ég þakka máttarvöldunum fyrir að fD var ekki í stofuglugganum til að horfa á óhappið. Þegar hún leit samsvarandi atvik síðast, hafði það í för með sér áralanga innri gleði hennar, þar sem hún rifjaði upp tiltekin viðbrögð mín á flótta unda öskubrjáluðum geitungahóp.
Á fætur fór ég og EOSinn reyndist ekki hafa skemmst.
Enn var örlítið eftir á brúsanum og það lét ég vaða inn um rifuna sem ég hafði gert á búið.
Innan skamms fór ég að heyra aftur spennuþrungnar raddir fjögurra afkomenda sem höfðu vogað sér aftur undan sænginni. Nú var komið að þeim.
Prikið var notað til að rífa búið betur. Þar blasti við gríðarlegur
fjöldi dauðra geitunga og út féll innvolsið sem geymir egg/lirfur/púpur.
Ekkert líf varð þarna séð svo ég skellti því í fötu  með vatni og lét standa yfir nótt.
Morguninn eftir taldi ég allt sem kvikt hafði verið. Ég geng út frá að upp undir hundrað geitungar hafið fallið úr búinu, 137 flughæfir voru í búinu, 200-250 lirfur og púpur fann ég. Þannig má segja að í þessu búi hafi verið allt að 600 geitungar. Ég hugsa þá hugsun varla til enda, ef þeir hefðu fengið að dansa í kringum okkur á haustdögum.

Ég reikna með, að "operation geitungabú" hverfi ekki úr huga barnanna fyrst um sinn. Þarna lærðu þau (og ég líka) aðeins meira um þessa ofurduglegu snillinga, sem njóta óttablandinnar virðingar í mannheimi.

Eftir talningu og myndatökur setti ég allt saman í poka og gegn vilja fD (en að ráði líffræðingsins í fjölskyldunni) kom ég pokanum fyrir í frystikistunni yfir nótt, áður en þetta listaverk endaði í ruslatunnunni.

(með því að smella á myndirnar má sá stærri útgáfu þeirra)


29 júlí, 2017

Spennufíklarnir, sonabörnin (1)

Ég ætlaði ekki að hafa neitt framhald á frásögninni sem birtist HÉR fyrir nokkru, eins og sjá má ef þessari niðurstöðu sem ég, í yfirlæti mínu skrifaði þar:

Engrar hreyfingar varð ég var eftir þetta og ekki síðan.Öllu var lokið.
 Þarna hafði ég, að eigin áliti, tryggt það að sumargestirnir okkar fD, á aldrinum fjögurra til níu ára myndu ekki eiga á hættu að verða fyrir geitungaárás. Með geitungadrápinu hafði ég skapað aðstæður sem myndu síðar mögulega leiða til þess að ánægjuleg sumarheimsókn breyttist í sársaukaöskur geitungastunginna barna.
Þetta vissi ég ekki þá.
Ég veit það núna.


Meðal þess sem börnunum var greint frá þegar þau komu var lítil frásögn (í framhjáhlaupi, auðvitað) um afrek afans, þar sem hann hafði eytt heilu geitungabúi. Þetta átti auðvitað að vera svona örlítil innlögn í huga barnanna um hreysti afans þegar kæmi að því að takast á við hættuleg dýr af þessu tagi, en ekkert meira.
Það brá hinsvegar fyrir glampa í augum unganna.
"Hvar er geitungabúið, afi?"
Auðvitað var ekki um annað að ræða, til að skapa ákveðinn trúverðugleika, en gefa upp staðsetninguna.  Lítið vissi ég þá til hvers það myndi leiða.
Fljótlega tók ég eftir því að leið barnanna lá æ oftar út fyrir skjólvegginn þar sem líta mátti búið, með
öllum dauðu geitungunum.
Það komu einnig spurningar um geitunga:
Hvort þeir væru ekki örugglega allir dauðir.
Hvort þau mættu kannski fjarlægja búið og sjá hvað væri inni í því.
Ég var nú ekki öruggari með árangur minn af áður lýstri aðgerð, en svo, að ég sagði þeim að það gætu vel verið lifandi geitungar í búinu ennþá og þar með skyldu þau alveg láta það eiga sig, enda geitungastungur hreint ekki þægilegar.
Það var nokkuð sama hvað ég reyndi; geitungabúið virkaði eins og segull, eins og örlagadómur, sem enginn eða ekkert gæti forðað manni frá,

Fyrr en varði sá ég hvar upp var komin eins konar keppni um hver þyrði að prófa að koma við búið. Þessu fylgdu tilheyrandi skrækir og hlátur Þarna var þetta geitungabú orðið að prófsteini á hugrekki og mér varð það fljótt ljóst, ekki síst þegar börnin voru farin að nota verkfæri við að pota í búið, að mér myndi ekki auðnast að láta þetta afskiptalaust.

Stund sannleikans.

Svo fór, áður en algert stjórnleysi næði að myndast, að ég fór út til að setja viðeigandi reglur og sjá til þess að ekkert það yrði aðhafst sem gæti valdið ósköpum.
Ég útbjó mig með eiturbrúsanum frá fD (sem var orðinn nánast tómur, eftir fyrri aðgerð) í annarri hendi, um metra löngu priki í hinni og EOS-inn um hálsinn.
Þegar ég kom, þannig búinn, á svæðið, höfðu börnin vafið um sig handklæðum, eða pakkað sér inn í dúnúlpur. Þau skiptust að á fara sem næst búinu með plastkylfur og snerta það. Eftir hverja snertingu (og þær urðu stöðugt ákveðnari) var hlaupið í burtu með viðeigandi hljóðum. Síðan reyndi það næsta sig. Svona gekk þetta: snerting kylfunnar við búið varð stöðugt ákveðnari og þar kom að eitthvað féll niður um gatið, neðst á búinu, með þeim afleiðingum, að hópurinn rak upp mikið óp og hvarf umsvifalaust á bak við skjólvegginn, bara til þess að koma aftur, þess albúinn að hefja næstu umferð.

Við þessa síðustu aðgerð héngu tveir dauðir geitungar niður úr gatinu og það það sem meira var, þegar betur var að gáð, og sem olli heilmiku fjaðrafoki (en bara um stund) mátti sjá hreyfingu í gatinu. Það fór ekki á milli mála, að það var enn líf í búinu og þar með hafði þessi "leikur" færst á annað stig, sem var þess eðlis að aðgerðir af hálfu afans urðu að koma til.
Afinn, ég var hann.
Afinn var sá sem hafði sagt frá geitungadrápinu, fyllt huga sonabarnanna af hugmyndum um hetjuskap sinn í viðureign við þetta hættulega dýr, geitunginn og haft sigur.
Reyndust þessar frásagnir hafa verið reistar á sandi?
Var afinn í stakk búinn, þar sem hann stóð þarna með nánast tómann eiturbrúsann í anndarri hendi, prik í hinni og EOS um hálsinn, til að ljúka þessu máli með farsælum hætti?

Það kemur í ljós í næsta hluta.

(stærri útgáfu af myndunum má sjá með því að smella á þær)

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...