Sýnir færslur með efnisorðinu lúsmý. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu lúsmý. Sýna allar færslur

01 júlí, 2019

Varnarleysi dauðans

Við getum varast það sem við sjáum og höfum reynslu af. Þetta líf okkar snýst að talsverðum hluta um að sneiða hjá þeim hættum sem felast í að eiga líf á þessari jörð. Það plaga okkur sjúkdómar, við eigum á hættu að slasast eða láta lífið í hvert skipti sem við hreyfum okkur.  Við notum  allskyns hættuleg efni til að gera gönguna um þennan táradal léttbærari, setjum ofan í okkur hitt og þetta sem við hefðum betur sleppt. Svona er þetta bara og við sættum okkur við það, svo lengi sem við gerum okkur grein fyrir þeim hættum sem allsstaðar er að finna. Ef maður fer svo að ofhugsa málið, þá blasir það við að það er nánast kraftaverk að við höldum lífi til lengdar. 

Á jörðinni lærir fólk á hverjum stað að takast á við hætturnar sem þar er að finna og lifi með þeim. Sumsstaðar eru þessar hættur algengari og líklegri til að valda því skaða. Annarsstaðar eru þær fátíðari og súa staða uppi að maður getur verið nokkuð viss um það, að ef allt gengur eftir sem ætlað er, þá eru meiri líkur en minni á því að maður ná að ljúka eðlilegri ævilengd miðað við kyn og allt annað sem ævilengt fólks ræður.

Ísland er tiltölulega hættulaust land, þannig séð. Hér eru ekki mikil hætta á að óargadýr verði þér að aldurtila, hryðjuverkaárasir fátíðar, fárviðri heyra til algerra undantekninga, veðurfar almennt bara vel þolanlegt og laust við ógnir af einhverju tagi. Það má  eiginlega segja að Ísland sé eitt besta land heims til að búa á um þessar mundir, eða allavega þar til .......

Allt þetta sem ég er búinn að segja hér fyrir ofan er auðvitað ekkert nema almennt kjaftæði, þó auðvitað sé það allt satt, en með því er ég að reyna að búa til samhengi við meginefni þessa pistils, bévítans (nú eða bara helvítis) LÚSMÝIÐ.

Hvernig má það vera að svona kvikindi séu yfirleitt til?  Hversvegna geta þau þá ekki allavega verið af stærð sem maður ræður við?
Nei, yfir fréttum eitthvert kvöldið fyrir nokkrum vikum fórum við að taka eftir örsmáum kvikindum sem flögruðu í kringum okkur Kvisthyltinga. Í okkar huga var þetta bara það sem við höfum kallað MOR (sbr. það er morandi í flugum). Þar er um að ræða örsmáar flugur sem eru algengar t.d. í gróðurhúsum, sem valda engum skaða öðrum en þeim að vera pirrandi.
Daginn eftir kom svo í ljós að þarna hafði ekki verið saklaust mor á ferð, heldur margumrætt lúsmý.  Ég hefði fengið meira að kenna á því en fD og pælingar voru uppi um að það tengdist blóðflokki, án þess að nokkur þekking lægi fyrir um það.

Lúsmý (mynd Karl Skírnisson)
Þarna þurfti að grípa til aðgerða ef ekki ætti að fara ver. Í þessum heimshluta er ekki um að ræða aldalanga þekkingu á að takast á við svona kvikindi, svo það var fylgst grannt með ráðleggingum á öllum tiltækum miðlum þar sem jafnfram voru birtar hryllingsmyndir af afleiðingum nætursvefns fólks sem hafði sofið nakið ofan á sænginni sinni við opin glugga í þessu sumarhitum. Það var allvega ljóst, að það var ekki viturlegt.

Framvegis var tekið á að ráð í Kvistholti að loka öllum dyrum og gluggum þegar kvöldaði. Það er gengið á allt sem opnanlegt var í húsinu að minnsta kosti tvisvar. Síðan var kvöldinu og nóttinni eytt í svitakófi, enda húsið með eindæmum vel einangrað.  Þetta var tekið til bragðs vegna þessara örsmáu kvikinda sem láta sér ekki nægja að drekka blóðið úr manni, heldur þurfa einnig að sprauta í mann einhverju ensími í leiðinni.

Það telst ekki nóg að loka öllum opnanlegum götum á húsinu, því þegar kvöldar úða Kvistholtshjónin yfir sig skordýrafælum og bera á sig sig einhver efni til að takast á við kláðann af því sem komið er og fylgjast síðan grannt með því hvort örsmáar flugur sjáist einhversstaðar í umhverfinu.

Svona er þetta búið að ganga fyrir sig og gekk sæmilega þar til eitt kvöldið, þegar lokunin virðist hafa átt sér stað of seint, eða þá að einhver glugginn hafði gleymst. Þá gerðist það sem sjá má á myndinni hér efst.

Lúsmý felur í sér óþolandi skerðingu á lífsgæðum og er, eins og svo margt annað sem þarf að kljást við þessi árin, hvar sem er á þessari jörð, afleiðing loftslagsvár eða hamfarahlýnunar.
Má ég þá frekar biðja um frostavor,  rigningarsumur, sumarið sem aldrei kom, og allt það.



Laugarási ljúfast er að búa‘ í
lognið elskar hvern þann sem hér er.
Þar með talið þetta árans lúsmý
sem þyrst í blóð mitt sækir, því er ver.

En lúsmýið má leika sér í friði
ég læt það ekki fjötra huga minn.
Ekki mun ég liggja á mínu liði 
og læt það finna að ég er tilbúinn.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...