Sýnir færslur með efnisorðinu knattspyrna. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu knattspyrna. Sýna allar færslur

05 desember, 2023

Ég fór svo aftur í fótbolta ....

Líklega lið annars bekkjar veturinn 1971-1972. 
Aftari röð f.v. Helgi Þorvaldsson, Eiríkur Jónsson, 
Kristján Aðalsteinsson, Páll M, Skúlason, 
Þorkell Ingimarsson.  Fremri röð f.v. Hannes
Ólafsson, Héðinn Pétursson, Smári Björgvinsson
og Magnús Jóhannsson. 
Myndin rataði til mín frá Eiríki Jónssyni.
Einu sinni var ég markmaður í knattspyrnu. Það höfðaði samt aldrei til mín að reyna að líkja eftir ensku knattspyrnuhetjunum, nema markvörðum og auðvitað var Gordon Banks þar ofarlega á blaði. 
Mér þótti mikið til þess koma, þegar andstæðingur líkti mér við þann ágæta mann, eftir að ég hafði varið skot, sem ekki hefði verið mögulegt að verja. Þetta atvik er mér enn í fersku minni. Þetta átti sér stað í leik Ungmennafélags Biskupstungna gegn Ungmennafélaginu Hvöt í Grímsnesi, á íþróttavellinum við Borg í Grímsnesi, líklegast um 1970.  
Ég stundaði knattspyrnu ekki mikið í ML, þar sem ég notaði 4 ár til að reyna að þroskast og læra eitthvað gagnlegt, enda réðu forfallnir knattspyrnumenn þar öllu knattspyrnutengdu. Þar fyrir utan hafði ég meiri áhuga á öðrum boltaíþróttum á þeim tíma. 

Hvað í veröldinni veldur því svo, að ég fer að rifja upp hálfrar aldar minningar um knattspyrnuiðkun mína?  
Þannig er mál með vexti, að ég stunda nú líkamsrækt af kappi, ásamt öðru fólki á svipuðu reki, í glæsilegri Selfosshöllinni og hef komist að því, að líkamlegt atgervi mitt hefur tekið stakkaskiptum. Sú trú mín er ef til vill helsta ástæða þess að það sem gerðist í dag, gerðist. Það er einnig tilefni þessara skrifa. 

Unga fólkið, leiðbeinendur okkar, ákváðu að brjóta aðeins upp síðasta alvöru tímann fyrir jól. Þetta fólst í því, að leyfa okkur að snerta á nokkrum íþróttagreinum, þar sem lóð og teygjur komu ekki við sögu. Þarna var tekist á við eftirfarandi greinar:  spjótkast, bandí, badminton og knattspyrnu.
Ég mun ekki fjalla um framgöngu mína í þrem fyrstnefndu greinunum, en hún var sannarlega framar vonum. 
Ég ætla aðeins að minnast á knattspyrnuna. Þarna var um að ræða það sem leiðbeinandinn kallaði "göngufótbolta". Í sem stystu mál þá þýddi það, að mátti hreint ekkert, í mesta lagi að ganga í rólegheitum fram og til baka, eða bara ganga ekki og bíða eftir að fá boltann í fæturna. Ég veit núna hversvegna þessi útgáfa af knattspyrnu var valin. 

Ég var fljótur að koma mér fyrir í markinu og hugsaði gott til glóðarinnar, að rífja þarna upp gamla takta; freista þess að verða "Gordon Banks" á ný.  Liðsmenn mínir voru ekkert sérstaklega hreyfanlegir og reyndar ekki liðsmenn hins liðsins heldur. Boltinn þvældist einhvernveginn á milli þeirra, algerlega ómarkvisst og engan veginn líklegt að það myndi koma skot á markið. Ég var allur að kólna upp. Loksins kom að því, að boltinn rúllaði í átt að markinu og ljóst að ég myndi þurfa að bregðast við og það gerði ég með eins miklum tilþrifum og geymd voru í reynslubankanum. Þetta var nú bara nokkuð glæsilegt, þó ég segi sjálfur frá - en leiknum var ekki lokið. Hann stóð í 1x5 mínútur og þótti ýmsum nóg um þá tímalengd.  Rétt áður en leiðbeinandinn ákvað að nóg væri komið og tók að ausa hópinn lofi fyrir flotta frammistöðu, kom annað "skot" að markinu, í þetta sinn nokkuð til hliðar við mig.  Það skipti engum togum, ég skutlaði mér fyrir boltann, sem hefði farið langt framhjá markinu, ef ég hefði bara látið hann vera - en ég þurfti að skutla mér. Það var þá sem það rann upp fyrir mér, að ég er ekki lengur 18 ára. Lendingin var nokkuð þung og mér varð ljóst að eitthvað hafði gerst. Ekki hvarflaði að mér að fara að kveinka mér, heldur stóð upp og tók stórmannlega við hrósi félaga og andstæðinga fyrir frammistöðuna - lét sem ekkert væri. Ég veit svo sem ekki hvort það er eitthvað. Það tekur nokkuð á ef ég hreyfi mig og ég sit undir athugasemdum fD ef ég leyfi mér að senda frá mér eina og eina sársaukastunu. 

Lexían er þessi: Við eigum okkar blómatíma aftur og aftur í gegnum allt lífið, galdurinn er bara að finna út rétta blómatímann fyrir hvert tilvik. Minn blómatími í knattspyrnunni er ekki núna, ef hann var þá einhvern tíma einhvers staðar. 

27 júní, 2018

Eins og Gordon Banks


Það æxlaðist þannig, mögulega vegna þess að ég hafði það ekki í mér að eltast við boltann um allan völl, eða verjast eða prjóna mig í gegnum varnir andstæðinganna, að ég fór að standa í marki hjá knattsoyrnuliði Ungmennafélags Biskupstungna einhverntíma í kringum 1970. Þarna var auðvitað um að ræða gullaldarlið þessa félags, eins og segja má um önnur lið félagsins sem ég var hluti af. Við æfðum eitthvað og svo kepptum við. Ég minnist þess að ég var frekar feginn að þurfa ekki að standa í þessum endalausu hlaupum, heldur fékk að einbeita mér að markvörslunni.
Sannarlega held ég því fram að fáir markvarða keppinauta okkar hafi verið magnaðri en ég. Þannig bara var þetta. Við kepptum víða í uppsveitunum og unnum glæsta sigra og niðurdrepandi töp, en um það snérist þetta auðvitað ekki.  Keppnin sjálf var aðalatriðið, að taka þátt, finna spennuna, renna sér eftir þeim tilfinningarússíbana sem einn knattspynuleikur geymir.

Ég er auðvitað ekki að ýkja þegar ég fjalla um glæsta sögu mína sem markmanns hjá Umf. Bisk. Um það get ég vitnað og þeir sem þykjast vita betur eru nú farnir að eldast talsvert og muna ekki, svo á sé byggjandi, hvernig þetta var. Þar með stendur það sem ég segi. 
Það er ekki eins og það hafi verið 50 myndavélar sem  gerðu leikjum okkar skil, engir videódómarar sem greindu örlitla snertingu við bolta eða andstæðing, engir milljarðar manna að fylgjast með. Nei, Kódak Instamatic vélarnar voru ekki einusinni notaðar til að skjalfesta undraverða markvörslu mína hvað eftir annað.  Það er leitt, svona eftir á að hyggja. Ég get þó huggað mig við það að í eitt skiptið, þegar ég hafði varið skot sem enginn hefði átt að geta varið, tautaði einn andstæðingurinn: "Bara alveg eins og Gordon Banks!"  
Myndskeiðið sem fylgir hér, sýnir stórfenglegustu markvörslu Banks á ferlinum.

Öll búum við saman í einskonar hringjum. Sá minnsti felur í sér nánasta umhverfi manns, það umhverfi sem skiptir mann mestu máli svona dags daglega. Svo stækka hringirnir sem geyma mann, allt upp í að fela í sér allan alheiminn, langt út fyrir það sem ímyndun okkar nær utan um.

Að vera aðalmarkvörður hjá unglingaliði Ungmennafélags Biskupstungna var heilmikið mál í sjálfu sér, hlutfallslega, í litla heiminum mínum í þá daga. Það sem við erum að upplifa þessa dagana er ekki ósvipað því og ef unglingalið Ungmennafélags Biskupstungna væri að leika á Wembley og standa þar í landsliði Englendinga.

Þátttaka okkar á því sviði sem heimsmeistaramót í knattspyrnu er, er einhvernveginn meira en maður nær að hugsa rökrétt um. Maður reynir að skilja hvað þessir gaurar okkar hafa lagt á sig til að ná þeim árangri sem við höfum orðið vitni að, en því meira sem maður veltir því fyrir sér, því óskiljanlegra verður það.  Þessi upplifun er nánast eins og það hafi opnast gat inn í aðra vídd, einhvern hliðarveruleika, en samt er það ekki svo. 

Sem betur fer virðist svo sem við kunnum að meta framlag piltanna þó svo ekki hafi þeir alveg náð því markmiði sem þeir stefndu að, og/eða sem við stefndum að.  Regnvotur júní sumarið 2018 er að kveðja, en í minningunni verður hans ekki minnst fyrir rigninguna, heldur sem mánaðarins þegar karlalandslið okkar í knattspyrnu var nokkrum sentimetrum frá því á komast í hóp sextán bestu knattspyrnuliða heims. Ekki svo lítið afrek það. 


21 júlí, 2017

Chillisulta með stürzen wollen

Margt hef ég tekið mér undarlegt fyrir hendur í þessum skrifum mínum í næstum 10 ár, en ég er viss um að þú hefur aldrei áður litið í þeim skrifum jafn undarlegan samsetning og þennan. Í það minnsta eins og hann birtist án viðhlítandi skýringar.

Að drepa Páfann og Tyrkina "
„und steur des Papsts und Türcken mord“
Ekki batnar það.
En samt allt svo saklaust nú, eða svo má segja.

Undanfarna mánuði hef ég tekið þátt í æfingum fyrir tónleika sem verða í Skálholtsdómkirkju á morgun, laugardag, kl. 16:00. Að þessum tímapunkti hefur verið stefnt og þetta virðist allt vera að komast á viðunandi ról.  Aðkoma mín og annarra þeirra sem þarna taka þátt í nafni Skálholtskórsins, eftir fjölda æfinga, tekur svo ekki nema svona 10 mínútur í flutningi í heild.
Svo er það búið og orðið hluti að sögunni.
Þetta er ekki ósvipað því þegar bardagakappi æfir nótt sem nýtan dag, mánuðum saman, flýgur síðan landa á milli og er rotaður á innan við tveim mínútum. Munurinn er auðvitað sá, að ég hyggst ekki enda í roti, heldur einhverskonar vímu og tiltölulega sáttur við mitt framlag. Það er í það minnsta markmiðið.

Tónverkið sem á að flytja í Skálholti á morgun er kantata eftir Johan Sebastian Bach sem byggir á ljóði eftir Martein Lúther og ber heitið "Erhalt uns, Herr, bei deinem Wort" eða "Haltu okkur, Drottinn, við orð þitt" (svona nokkurn veginn).
Ekki ætla ég að fjölyrða um verkið, sem er flutt í tilefni af 500 ára siðbótarfamæli, en vísa á umfjöllun HÉR 

Auðvitað hefst leikur Íslands við Sviss á sama tíma og tímamótaflutningurinn í Skálholti. Ef þú ert í vafa hvorum viðburðinum þú ættir að fylgjast með, þá bendi ég á, að það verður hægt að skoða og endurskoða allt sem gerist í leiknum, aftur og aftur, næstu daga. Flutning minn og allra hinna á Bachverkinu verður hinsvegar bara hægt að sjá einu sinni.
Það sem ég er eiginlega spenntastur fyrir, í þessu sambandi er, hvorn viðburðinn fD velur. Ég get auðveldlega fært rök fyrir hvoru vali hennar sem er, en bíð og sé til hvað gerist.

Chillimyndin af Bach er til komin vegna þess að á tíma mikils æfingaálags og jarðarfarasöngs að undanförnu flaug í hug mér, upp úr þurru, að ég ætti að skella mér í að búa til chillisultu. Mér er ekki enn ljóst samhengið þarna á milli og vænti hjálpar þinnar með tillögur.
Chillisultuna gerði ég áðan og er búinn að sannreyna að betri chillisulta hefur ekki verið gerð.

Hér er þetta svo dregið saman, leasandi góður:

Laugardagur 22. júlí, 2017  kl. 16:00



18 júlí, 2017

Dómarinn

Samband mitt við kattspyrnu er vísast talsvert sérstakt. Ég fylgdist aðeins með henni í gamla daga, á menntaskólaárum, aðallega vegna þess að bekkjarbræður mínir, þá aðallega Eiríkur Jónsson Vorsabæjarbur, æviráðinn talsmaður fyrir og sérfræðingur um Manchester United og Selfyssingurinn Helgi Þorvaldsson (áhangandi sama liðs), lifðu fyrir þetta og einhvernveginn sogaðist ég stundum að sjónvarpstækinu á laugardögum, þeim til samlætis.  En að halda með sama liði og þeir kom auðvitað ekki til greina.  Leeds United varð mitt lið, aðallega vegna þess að það þurfti að halda með einhverju liði til að nenna að hanga yfir þessu og til að geta verið ósammála félögunum.  Svo bara hætti ég að spá verulega í knattspyrnu. Þegar knattspyrnuáhugamenn í hópi nemenda spurðu mig eitt sinn hvað liði ég héldi með í ensku knattspyrnunni, sagði ég það fyrsta sem mér datt í hug: Grimsby. Ætli þetta hafi ekki verið þegar varðskipin okkar voru að skera aftanúr breskum togurum í íslenskri landhelgi fyrir nokkrum árum.
Ég ætlaði nú ekkert að fara að skrifa hér um löngu liðna tíma, en þetta var svona til að skapa ákveðið samhengi.
Auðvitað fylgist ég með því þegar íslenskt landslið í knattspyrnu keppir á stórmóti, eins og gerðist í fyrra og síðan aftur núna. Ég horfi meira að segja á aðra leiki í slíkum mótum eftir því sem tími gefst.

Þar með er ég kominn að raunverulegu umfjöllunarefni þessa pistils.

Ef ég á í sérstöku sambandi við knattspyrnu þá get ég fullyrt, að fD er mér miklu fremri að því leyti. Ég held ég geti fullyrt að aldrei hafi ég heyrt hana segja eitt jákvætt orð um knattspyrnu.  Í þeim fáu tilvikum sem ég kveiki á sjónvarpinu, eftir að hafa munað eftir því að þar mætti fylgjast með stórleik í Evrópukeppni landsliða, hefur hún um það einhver orð, eins og t.d.: "Þú ætlar þó ekki.....?" og svo framvegis.  Ef ég síðan leyfi mér að, að standa upp frá leiknum til að rétta úr mér, eða hvíla mig, heyrast oftar en ekki athugasemdir um tilgang þess að vera að kveikja á sjónvarpinu og horfa síðan ekki á það.
Þrátt fyrir þetta allt, kemur í ljós, þó sannarlega fari það ekki hátt og sé aldrei viðurkennt, að áhugi fD á knattspyrnu er talsvert meiri en margur gæti ímyndað sér. Auðvitað þykist hún ekki horfa, þar sem hún situr og leggur kapal, en hún býr yfir þessum öfundarvekjandi eiginleika að geta gert fleira en eitt í einu. Hér og þar á hún það til að gera aðskiljanlegustu athugasemdir við gang leiksins (hvað er eiginlega mikið eftir af þessu?), einstaka leikmenn (það á nú bara reka þessa út af!) eða dómarann (hvað er eiginlega að þessum dómara?). Það er fátt um millileiðir eða grá svæði í sófadómgæslu fD.

Ég nefndi það í gær að það gæti verið gaman að sjá hana þarna á vellinum við dómgæslu, helst þannig að hún væri með hljóðnema sem væri tengdur hátalarakerfi vallarins. Þannig gætu gestir á leikvangnum fylgst betur með gangi mála; ekki aðeins því sem leikmenn væru að dunda sér við, heldur ekki síður þeim athugasemdum sem dómarinn léti sér um munn fara.
"Þá yrði nú loksins einhver áhugi á þessum leikjum", voru viðbrögð fD.
Ég er að sumu leyti sammála.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...