21 júlí, 2017

Chillisulta með stürzen wollen

Margt hef ég tekið mér undarlegt fyrir hendur í þessum skrifum mínum í næstum 10 ár, en ég er viss um að þú hefur aldrei áður litið í þeim skrifum jafn undarlegan samsetning og þennan. Í það minnsta eins og hann birtist án viðhlítandi skýringar.

Að drepa Páfann og Tyrkina "
„und steur des Papsts und Türcken mord“
Ekki batnar það.
En samt allt svo saklaust nú, eða svo má segja.

Undanfarna mánuði hef ég tekið þátt í æfingum fyrir tónleika sem verða í Skálholtsdómkirkju á morgun, laugardag, kl. 16:00. Að þessum tímapunkti hefur verið stefnt og þetta virðist allt vera að komast á viðunandi ról.  Aðkoma mín og annarra þeirra sem þarna taka þátt í nafni Skálholtskórsins, eftir fjölda æfinga, tekur svo ekki nema svona 10 mínútur í flutningi í heild.
Svo er það búið og orðið hluti að sögunni.
Þetta er ekki ósvipað því þegar bardagakappi æfir nótt sem nýtan dag, mánuðum saman, flýgur síðan landa á milli og er rotaður á innan við tveim mínútum. Munurinn er auðvitað sá, að ég hyggst ekki enda í roti, heldur einhverskonar vímu og tiltölulega sáttur við mitt framlag. Það er í það minnsta markmiðið.

Tónverkið sem á að flytja í Skálholti á morgun er kantata eftir Johan Sebastian Bach sem byggir á ljóði eftir Martein Lúther og ber heitið "Erhalt uns, Herr, bei deinem Wort" eða "Haltu okkur, Drottinn, við orð þitt" (svona nokkurn veginn).
Ekki ætla ég að fjölyrða um verkið, sem er flutt í tilefni af 500 ára siðbótarfamæli, en vísa á umfjöllun HÉR 

Auðvitað hefst leikur Íslands við Sviss á sama tíma og tímamótaflutningurinn í Skálholti. Ef þú ert í vafa hvorum viðburðinum þú ættir að fylgjast með, þá bendi ég á, að það verður hægt að skoða og endurskoða allt sem gerist í leiknum, aftur og aftur, næstu daga. Flutning minn og allra hinna á Bachverkinu verður hinsvegar bara hægt að sjá einu sinni.
Það sem ég er eiginlega spenntastur fyrir, í þessu sambandi er, hvorn viðburðinn fD velur. Ég get auðveldlega fært rök fyrir hvoru vali hennar sem er, en bíð og sé til hvað gerist.

Chillimyndin af Bach er til komin vegna þess að á tíma mikils æfingaálags og jarðarfarasöngs að undanförnu flaug í hug mér, upp úr þurru, að ég ætti að skella mér í að búa til chillisultu. Mér er ekki enn ljóst samhengið þarna á milli og vænti hjálpar þinnar með tillögur.
Chillisultuna gerði ég áðan og er búinn að sannreyna að betri chillisulta hefur ekki verið gerð.

Hér er þetta svo dregið saman, leasandi góður:

Laugardagur 22. júlí, 2017  kl. 16:00



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...