16 janúar, 2026

Costa Rica (17) Norður í svalann - lok

Frásögnin hefst hér
FRAMHALD AF ÞESSU

--------------------------------------
Að morgni mánudagsins 24. nóvember lá fyrir, eins og alltaf var reyndar ljóst, að ævintýrinu á Costa Rica væri að ljúka. Það tókust á ýmsar tilfinningar, eins og gengur og gerist. Mér sýndist, á ferðafélögunum, þar sem við sátum í móttöku Tamarindo Diria hótelsins á þessum morgni, að hugurinn væri aðeins farinn að undirbúa sig fyrir ferðalagið sem framundan var og heimkomuna. Mér sýndist hann líka dvelja við minningar í mótun, um einstaka ferð um framandi slóðir. Mér sýndist að fólkið væri sátt.
Móttakan á Diria hótelinu við brottför. Útveggir ónauðsynlegir.

Carlos kom með rútuna sína, töskum var komið um borð og síðan hófst síðasti leggurinn á Costa Rica, norður til bæjarins Liberia, þar sem flugvöllurinn er. Þetta yrði í þriðja skipti sem við ættum leið um þennan bæ. Við lentum þar, ókum í gegn á leiðinni frá La Fortuna til Tamarindo og nú ætluðum við að hefja okkur til flugs þaðan.  

Hvað skyldu ferðamennirnir sem koma til Íslands flytja mikið af landinu með sér á ári hverju? Þessi spurning kom í hugann, eftir að brýnt hafði verið fyrir hópnum að það væri stranglega bannað, að viðlagðri refsingu, að reyna að flytja einhverjar náttúrulegar minjar með sér frá landinu. Þetta væri skoðað (eða gæti verið skoðað) við brottför á flugvellinum. Þetta varð til að að einhverjir úr hópnum urðu nokkuð stressaðir, trúi ég, þar sem þeir höfðu laumað einhverju smáræði í töskurnar sínar. Mér sýndist að það hafi allt sloppið til.
Á Liberia flugvelli við brottför


Það er ekki margt að segja um þennan flugvöll, frekar en aðra. Þetta var bara flugvöllur. Þarna fer um stór hluti ferðamanna frá stóra landinu í norðri og þar sem við vorum þarna á ferð þegar mikil fríhelgi stóð þar yfir, var reiknað með ógurlegri ös, sem svo reyndist ekki vera.

Svo var bara beðið eftir að flugvélin yrði klár, því næst gengið um borð og flogið sömu leið til baka, þvert yfir undarlega landið, sem enn telur bara 50 ríki. 
Flugferð þessari lauk með lendingu á Pearson flugvelli við Toronto, og þar tók við gisting eina nótt.

Síðasti dagurinn á erlendri grund - þessu sinni.
Hér fyrir neðan er hópurinn sem skellti sér til Niagara.
 


Hluti hópsins tók þátt í ferð að Niagara fossum, sem við fD höfðum reyndar augum litið fyrir einum sjö árum, en þá við aðrar aðstæður en nú. Það sem var eins, voru fossarnir, umhverfið og hringmáfurinn á staurnum. 

 Það sem var með öðrum hætti núna fólst í ýmsu:

Rainbow Bridge
- við vorum í öruggum höndum Guðna í skipulagðri ferð sem gekk auðvitað öll eins og upp var lagt með.

-Það var lítil sem engin umferð yfir Regnbogabrúna, sem tengir Kanada við ríkið fyrir sunnan. Þar var mikil umferð þegar við komum þarna síðast. Nú hefur tiltekinn vanviti orsakað það, að þá, sem búa fyrir norðan ána, langar hreint ekki suðuryfir og þeir sem búa fyrir sunnan treysta sér ekki norður yfir, af ótta við að verða fyrir aðkasti.  
Áhrif hálfvita heimsins á líf fólks á þessari jörð, eru með ólíkindum.

-  Það var farið í ansi blauta, en skemmtilega siglingu að fossunum.

- Það var kíkt á hlynsýrópsgerð - Maple Syrup Place, þar sem við kynntumst mismunandi tegundum  sýróps og fengum að vita, að stór hluti þess "hlynsýróps" sem okkur stendur til boða í verslunum, er bara plat.

- Leið lá í bæ í nágrenninu, Niagara-on-the-Lake og þar röltum um skreytta verslunargötu í harla blautu veðri, en þetta var vinalegt umhverfi. Engir steypukassar með flöt þök þar.


Jólaverslunin var allt umlykjandi og ótrúleg jólaskreytingabúð vakti sérstaka athygli.




Það voru keyptir skór og það var keypt skyrta og allir sáttir.



Þessari dagsferð lauk svo á Pearson flugvelli og þaðan var flogið um kvöldið, lent í Keflavík með allan svefn í rugli, fyrir kl 7 um morguninn, ekið á Austurveginn og þar með var ævintýrinu lokið og framundan að tína til það sem átti að fara með á jólamarkaðinn í Aratungu.

-----------------------------------------------------------------
Að lokum.
Við fD ítrekum auðvitað þakkir okkar til ferðafélaganna, sem reyndust hið ágætasta fólk. Sérstakar þakkir til Guðna og Carlosar fyrir einstaka skipulagningu og óbilandi ljúfmennsku allan tímann. Þá má ekki gleyma ljúfmennunum, þeim Alejandro sem var óþreytandi við að fræða okkur um landið sitt og bílstjórann okkar, hann Carlos, sem flutti okkur af miklu öryggi um vegakerfið.



Að endingu 
Þakkir til þeirra ykkar sem hefur tekist að komast í gegnum 17. kafla af þessum myndum og skrifum. Þið eruð hetjur. 😉

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Costa Rica (17) Norður í svalann - lok

Frásögnin hefst  hér FRAMHALD AF  ÞESSU -------------------------------------- Að morgni mánudagsins 24. nóvember lá fyrir, eins og alltaf v...