14 janúar, 2026

Costa Rica (16) Á kafi í kyrru hafi

Frásögnin hefst hér
FRAMHALD AF ÞESSU

--------------------------------------

Nú rann upp sunnudagurinn, 23. nóvember, síðasti heili dagurinn á Costa Rica. Æ. æ, var þatta nú að verða búið?

Flugeldasýningar enda yfirleitt með stærstu og mikilfenglegastu bombunum og þær eru þá jafnframt fyrirboði þess, að nú sé eiginlega bara allt búið og tími 
kominn til að halda heim á leið. 
Fyrri hluta dagsins, eftir öflugan morgunverð, notuðum mest í göngu á ströndinni, en upp úr hádegi var lagt af stað í rútunni og ferðinni heitið í norðurátt til einnar af fjölmörgum ströndum (playas), sem eru þarna við Kyrrahafið. Ég taldi einar 16 á korti af þessu svæði. Leið okkar lá frá Tamarindo til Flamingo, eins og sjá má á kortinu hér til hliðar. 
Þarna í Flamingo er smábátahöfn og þar stigum við frá borði og svo um borð, því framundan var sigling um Kyrrahafið.
Í ferðalýsingunni segir svo: 
Sigling á Kyrrahafinu í snekkju með ferðafélögum þínum. Keyrum í um einn tíma í átt að ströndinni Playa Flamingo þar sem báturinn okkar bíður eftir okkur. 
Hægt að snorkla og fara í sjóinn. Innifalið í siglingunni eru drykkir og smáréttir. 
Um kl 16:00 borðum við síðbúinn hádegisverð því er mikilvægt að borða á hótelinu áður en við förum af stað. 
 Mjög mikilvægt að vera með sólarvörn. Hægt að stinga sér til sunds og snorkla í kristaltæru Kyrrahafinu.
Hvernig var hægt að búast við öðru og yndislegu síðdegi á stærsta úthafi jarðarkringlunnar? 
Það var spenntur hópur sem steig um borð í  Panache sem er tvíbytna (catamaran). Til að lesendur fái nú betri hugmynd um þessa lúxus fleyti, er hér hlekkur á myndir af og úr henni. Mögulega er fólkið á myndunum öðruvísi glæsilegt, en það sem hér var á ferð, en eina ástæða þess er þá sú, að þannig glæsilegt fólk er talið geta selt varninginn betur. 





Hópurinn, bara talsvert glæsilegur, steig um borð, eftir að hafa farið úr skófatnaði og skilið eftir á tilteknum stað. Svo kom það sér fyrir, að mestu leyti fyrir fremst á skútunni. Svo var bara siglt út í buskann. 
Ekki hafði verið siglt lengi, þegar boðið var upp á drykki og til að gera langa sögu stutta, þá var ekki um það að ræða að hömlur væru settar á það magn drykkja sem okkur stóð þarna til boða, en að sjálfsögðu voru farþegarnir fólk, sem kunni að finna æskilegt jafnvægi þar á, enda mikil neysla á göróttum drykkjum til þess fallin að deyfa svo stórskemmtilega upplifun sem stóð okkur þarna til boða.

Eftir talsverða siglingu fór að styttast í áfangastað, skammt frá strönd og lítilli klettaeyju.
Þegar þangað var komið, var akkeri varpað og siglingarfólkinu boðið að kynnast Kyrrahafinu aðeins nánar. Þarna var hægt að snorkla, róa á kajak, liggja á flotdýnu, eða bara busla með eða án flotstangar.
Minnugur fyrra ævintýris míns í Atlantshafinu fyrir átta árum, var ég staðráðinn í að fara að öllu með gát, en ekki var, í mínum huga, um það að ræða að sleppa þessu bara öllu og þannig varð það úr, að ég ákvað að velja snorklið, en það hafði ég aldrei prófað áður. Ætlunin var að við syntum í hóp í átt að ströndinni, umvafin neðansjávardýrum í öllum regnbogans litm. Eins og segir í ferðalýsingunni: "Hægt að stinga sér til sunds og snorkla í kristaltæru Kyrrahafinu." 
Þannig atvikaðist það, að ég setti upp snorklgræjur, og skellti mér til sunds í Kyrrahafinu, en á meðan vopnaðist fD símanum sínum og ætlaði hreint ekki að missa af myndrænni útgáfu þessa ævintýris eins og þess síðasta. 


Ég verð að viðurkenna, að ég treysti hreint ekki þessum græjum sem ég setti þarna á mig. Hvað ef ég færi nú það djúpt, að þessi stutti stútur (öndunarpípan)  sem stóð upp úr, lenti undir yfirborðinu, eða vatn frá ölduganginum gusaðist inn í hann?  Að vísu fékk ég upplýsingar um að hættan á slíku væri ekki mikil og það útskýrt með einhverjum hætti, sem ég lagði ekkert sérstaklega á minnið. Ég yrði bara að passa mig að pípan stæði ávallt upp úr sjónum.
Svo klifraði ég niður úr skútunni og ylvolgur útsærinn tók við mér og næst á dagskrá að hverfa undir yhfirborðið og njóta dýrðarinnar sem við myndi blasa í "kristaltæru Kyrrahafinu". Ég komst að því að það er með kristaltært Kyrrahafið, eins og norðurljósin: stundum eru engin norðurljós á Íslandi og stundum er ekkert útsýni í Kyrrahafinu.
Útsýnið í Kyrrahafinu var um það bil svona (tekið úr mynd af netinu)
Ég undi mér í skamma stund þarna neðansjávar, enda fátt við að vera þar, nema reyna að komast hjá því að fá vatn í öndunarpípuna. Varð mér úti um flotstöng og buslaði þarna við skútuna hríð. Svo tók ég eftir að hún var farin að fjarlægjast mig óeðlilega mikið, og fékk óþægilega á tilfinninguna að þarna stefndi í óefni. Þar með hóf ég tiltölulega ákaft sund í átt að henni, en miðaði lítið áfram, en þó nóg til þess að ég mat sundárangurinn það góðan að mér tækist að bjargast úr þessum aðstæðum. Það reyndist lítið mál að komast upp í skútuna, enda búnaður við hæfi fólks af ýmsu tagi, ekka bara ætlaður unglingum, sem sagt.
Þegar fólk steig um borð eftir að hafa notið sín í sjónum, var það smúlað hátt með ferskvatni, sem var ágætis ráðstöfun.

Þegar allir höfðu þarna notið í botn við sjódýfur og sundiðkanir eins og hverjum þótti við hæfi, komnir um borð, búnir að þurrka sér, biðu kræsingar í "lúkarnum" (nota þetta nefn því ég veit ekkert betra), en það var eins konar setustofa, þarn sem útbúið hafði verið hlaðborð allskyns rétta sem reyndust afar bragðgóðir. Svo gat sjófólkið auðvitað skolað saltvatnið úr hálsinum og rennt niður matnum með miklu úrvali drykkja. 

Þegar borðhaldinu var lokið var augljóst, að sólin var farin að nálgast sjóndeildarhringinn og þar með, að sólsetur væri ekki ýkja langt undan.  Þá var akkerum létt og við tók siglingin til baka til Flamingo, en það gerðist meðan eldhnötturinn, forsenda lífs á litlu plánetunni okkar, seig æ neðar, þar til hann hvarf smátt og smátt undir yfirborð úthafsins. Um borð sat fólkið dolfallið yfir fegurðinni - nú eða smellandi af myndum á símana sína, eða önnur tæki. Sighvatur fékk að taka í stýrið um stund, en ég veit ekki hvort þeir settu á sjálfstýringu á meðan, allavega virtist hann beita valdi sínu af mildi.








Ekki þarf að fjölyrða um siglinguna til baka, fólkið ánægt með daginn, satt og sælt. Allri fengu skóna sína þegar gengið var frá borði og svo tók við rútuferðin til baka til Tamarindo, þar sem fólk kom saman á mathúsi og fór yfir daginn, áður en nóttin tók við - nóttin fyrir brottfarardaginn. 



Ætli ég skoði hann ekki bráðlega, og mögulega það sem á eftir fylgdi, því ferðinni, sem slíkri, lauk ekki þar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Costa Rica (16) Á kafi í kyrru hafi

Frásögnin hefst  hér FRAMHALD AF  ÞESSU -------------------------------------- Nú rann upp sunnudagurinn, 23. nóvember, síðasti heili daguri...