Sýnir færslur með efnisorðinu bakpoki. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu bakpoki. Sýna allar færslur

29 júní, 2022

Kórferð - heit og áhrifamikil (3)


Framhald af  Kórferð - heit og áhrifamikil (1) og Kórferð - heit og áhrifamikil (2)

Þriðji dagur (20.06.): Sigling á Gardavatninu og annað það sem á daginn dreif
Þetta var eiginlega svona fyrsti alvöru ferðadagurinn og eins gott að hafa gengið tiltölulega hægt um gleðinnar dyr í útikvöldverðinum. Það var lagt af stað árla, eða upp úr kl. 6 að íslenskum tíma, því framundan var sigling með strætó þeirra Gardavatnsbúa, sem átti að taka ungann úr deginum. 
Þetta hófst með göngu niður að ferjuhöfninni í Desenzano, um 1,5 km. leið og þar var gengið um borð í ferju sem sinnti bæjum á austurströnd þessa mikla vatns.
FFP2 andlitsgríma

Til þess að fá að fara um borð, þurftu farþegar að setja upp ffp2 andlitsgrímu til varnar C-pestinni, en kaup á slíkum varnarbúnaði höfðu verið framkvæmd á landinu bláa, eins og fyrir hafði verið lagt fyrir upphaf ferðar. Þetta voru sko alvöru grímur CE-vottaðar í bak og fyrir.
Þessi grímunotkun var nú eitthvað sem fólk umgekkst eins og ákveðinn leikþátt, sem fólst í því að setja búnaðinn upp ca. 5 metrum áður en stigið var um borð og taka niður ca. 5 metrum eftir að um borð var komið (en hvaða efni hef ég svo sem á að gera lítið úr mikilvægi grímunotkunar?).
Upphaflega stóð til að sigla til bæjarins Sirmione, sem ku vera afar fagur og merkilegur, og ekki varð annað séð, þar sem við áttum þar stutta viðdvöl meðan farþegar þangað fóru frá borði (aðrir en við) og aðrir gengu um borð.  
Ástæða þess, að fararstjórinn hætti við að eyða deginum í Sirmione, eins og til stóð, var einfaldlega yfirþyrmandi hitinn sem spáð hafði verið að yrði þennan dag við Garda vatnið. Ég geri fastlega ráð fyrir að þarna hafi fararstjóranum ekki litist á að leiða eldri borgarana í ferðinni um Scaligero-kastalann, Grotte di Catullo hellana eða heimili Mariu Callas. Lái henni hver sem vill. Við eigum allavega eftir að heimsækja og kynna okkur Sirmionetangann.

Bardolino - einn viðkomustaðurinn
Þarna héldum við síðan áfram með austurströnd vatnsins mikla og komum við í helstu bæjum, án þess að fara frá borði. Ég viðurkenni að ég veit ekki alveg hver margir þeir voru og því kann að vera, að myndin sem fylgir hér neðst, sé ekki allskostar nákvæm.  
Það var ákveðið, að við myndum sigla til smábæjarins Garda, sem vatnið dregur væntanlega nafn sitt af, borða þar og njóta dvalarinnar að öðru leyti. Þetta varð úr. Hópurinn steig frá borði eftir að ferjan hafði lagt að bryggju. Jú, það var vissulega nokkuð hlýtt .


Pizzamálið mikla.
Þar sem komið var hádegi lá fyrir að snæða eitthvað og því vorum við fD varla komin frá borði þegar við fórum að tillögu fararstjórans, eins og fleiri og settumst inn á veitingastaðinn El Refol, sem var nánast sá fyrsti sem bið komum að. Þarna settumst við við borð og fengum í hendur matseðil, eins og venja er á svona stöðum. 
"Mig langar í pizzu" tilkynnti fD og þar með var sjónum fyrst og fremst beint að þeirri tegund rétta, enda Ítalir þekktir fyrir pizzurnar sínar, enda fundu þeir þær víst upp. Það kom einhvernveginn í minn hlut, að renna yfir matseðilinn í leit að góðum pizzum og eftir nokkurt japl og jaml varð niðurstaða um að panta sitthvora tegundina, sem við gætum svo skipst á að snæða: Pizza Romana og Pizza Calzone. Þetta átti aldeilis eftir að verða sögulegt.
"Dj.... ógeð, ég ét þetta sko ekki!", var það fyrsta sem fD varð að orði eftir að hafa tekið fyrsta bitann af  Pizza Romana, sem lenti hjá henni. "Það er ógeðslegur fiskur í þessu!" hélt hún síðan áfram. Þetta þýddi bara eitt: Pizza Calzone, sem hafði lent mín megin á borðinu, svo sérstök sem hún nú var útlits, var flutt yfir til fD og ég fékk meinta fiskpizzu í fangið til skoðunar.  Ég smakkaði og án þess að beita jafn kjarnmiklu orðfæri og fD, tók ég til við að reyna að fjarlægja ansjósurnar af pizzunni og þar með meginhlutann af ostinum líka. Ansjósubragðið hvarf þó ekki og þar með var útséð um að þessari fiskpizzu yrðu gerð frekari skil. Pizza Calzone var hinsvegar ágæt, þrátt fyrir óvenjulegt útlit. Segir ekki meira af þessu borðhaldi, en ég tók og tek á mig ábyrgð á að hafa pantað þessa Pizzu Romana, aðallega vegna þess að hún leit út fyrir að vera sérlega einkennandi fyrir ítalska matarmenningu. Hefði ég ekki gert þau grundvallar mistök, að hafa ekki lesið innihaldslýsinguna nægilega vel, hefði þetta borðhald liklega farið öðruvísi.


Töskumálið mikla
Eftir borðhaldið tók við rölt um Gardabæinn og fljótlega varð niðurstaða um kíkja inn í eina af hliðargötunum sem þarna voru, þar sem sólin ekki skein. Hliðarástæða var síðan, að kíkja á þann varning sem þar var að finna.
Þannig var háttað, að léttur bakpoki, sem til er á heimilinu, hafði gleymst þar og því ekki um annað að ræða, til að flytja með sér vatn og aðrar nauðsynjar, en umhverfisvænan plastpoka. Það þykir ekki sérlega "smart".  Af þessum sökum beindust sjónir fljótlega að bakpokum af ýmsu tagi í áðurnefndri hliðargötu. Ekki var ég nú lengi að finna afar álitlegan poka á tvöþúsund krónur. Af einhverjum ástæðum reyndist fD ekki fullsátt og vildi halda áfram leit að hinum fullkomna poka. Það var auðvitað úr. Þarna tók síðan við heilmikill göngutúr í stóran hring og um flestar hliðargötur bæjarins, í leit að poka sem uppfyllti einhverjar ótilgreindar kröfur um poka sem bæði væri hentugur til að bera í vatnsflöskur og "smart". Það þarf ekki að fjölyrða um það, en við enduðum á þeim stað þar sem ég hafði áður fundið pokann sem mér leist vel á. Ég tók umræddan poka fór inn í búðina og greiddi uppsett verð og málið var þar með dautt. Vissulega fengum við út úr þessu ágætan göngutúr um hliðargötur Garda og það er alltaf gott að hreyfa sig. Pokinn "minn" dugði vel alla ferðina eftir þetta og mun duga inn í óvissa framtíð, ef að líkum lætur. 
Það leið að brottför og síðdegið við glitrandi Gardavatnið, þar sem beðið var ferjunnar sem skyldi flytja hópinn til baka til Desenzano, með viðkomu í sömu bæjum og fyrr, var ofurhlýtt.

Fyrirsætan
Ég efast um að þessi þáttur eigi heima hér, en ég læt hann samt fylgja, þó ég skammist mín nokkuð fyrir aðgerðaleysi mitt.
Það fór ekki hjá því að á siglingunni færi maður að fylgjast með öðru en bara útsýninu til bæjanna og móðuhulins fjallahringsins. Aðrir farþegar komu einnig til nokkurrar skoðunar, þar á meðal par sem birtist í skut ferjunnar, líklega að nálgast fimmtugt. Konan hóf að stilla sér upp í skutnum með hvítan hatt og sólgleraugu, meðan karlinn myndaði hana í gríð og erg. Hún var hreint ekki óaðlaðandi, en var greinilega þeirrar skoðunar sjálf, að fegurri mannvera hefði varla stigið á þessa jörð. Þær fyrirsætustellingar sem hún kom sér þarna í fyrir framan karlinn, sem myndaði af óblandinni aðdáun, fóru talsvert út fyrir það sem mér finnst við hæfi hjá fullorðnu fólki. Sjálfsdýrkun af þessu tagi er því miður orðin ansans ári áberandi í þessum nútíma okkar.  Hvað um það, einhverju síðar sá ég þetta par síðan inni á dekki sitjandi í einni sætaröðinni. Hann, ósköp lúðalegur, greyið, lengst til vinstri, þá strákur á að giska 6 ára, þá fyrirsætan og loks stelpa sem var líleg 8 ára. Það sem varð til þess, að ég tók eftir þeim þarna var löðrungur, sem fyrirsætan veitti stráknum, en hann mun ekki hafa hegðað sér alveg eins og henni þóknaðist. Þessi samskipti þeirra héldu svo bara áfram með sama hætti og hún sló hann ítrekað, og öskraði á hann, en hann reyndi að komast í vatnsflösku, sem hann mátt víst ekki drekka úr og tárin voru farið að renna, en áfram hélt fyrirsætan og öskra og slá. Karlinn sat vandræðalegur meðan á þessu stóð og mér stóð ekki á sam og reyndi að horfa eitthvert annað. Átti ég að skerast í leikinn - eða kom mér þetta bara hreint ekki við. Það sat fólk þarna allt í kring og enginn gerði neitt.  Á endanum fóru skötuhjúin aftur aftur í skut og virtust þar ver að reyna að sættast, sem lauk með talsverðu kossaflensi, meðan börnin sátu eftir í öngum sínum í sætum sínum.  Ég gerði ekkert og skammast mín eiginlega fyrir það. Hvað hefði ég átt að gera og hverjar yrðu mögulega afleiðingar? Voru þetta kannski bara uppeldisaðferðir sem  eru viðurkenndar á þessum slóðum?  Nokkrum dögum eftir þetta varð ég vitni að því þegar óþægur strákur um 4-5 ára fékk vænan löðrung hjá föður sínum á veitingastað.  
Maður getur víst ekki bjargað heiminum.

Ferðarlok
Eftir viðkomu í sömu bæjum og fyrr, lauk siglingunni um Gardavatanið þegar nálgaðist kvöld. Sumir - þetta unga fólk og eflaust fleiri - fóru í bæinn að borða eða gera eitthvað annað, en við fD og nokkur fjöldi annarra í hópnum snæddum bara á hótelinu, enda orðin úrvinda eftir hlýjan og góðan dag á Garðavatninu.







Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...