28 júní, 2022

Kórferð - heit og áhrifamikil (2)

....framhald af þessu.

Einmitt það. Þarna hófst dvölin við Gardavatnið á Ítalíu, í 40.000 manna bænum Desenzano, á hóteli sem ber nafnið Oliveto.
Eftir nætursvefn risum við upp til dags, sem einkenndist af bláum himni og hlýju sem jaðraði við að vera of mikið af svo góðu. Ég get þess hér strax, til að vera ekki alltaf að tilkynna það, að hiti á þessum slóðum þann tíma sem dvöl okkar stóð var í kringum 30°C - fór upp í 35°C og niður í 28°C, Eins og fólk getur ímyndað sér, þá er þetta í hærri kantinum. Mér finnst erfitt að ímynda mér hvernig fólk fer að því að búa við hita umfram þetta, en æ oftar eru fluttar fréttir að miklu hærri hita víða um heim. Ætli ég segi ekki bara "ÚFF!" Lýkur þar með veðurfregnum.

Eftir hóflega gönguferð með strönd Gardavatnsins, niður í miðbæ Desenzano, sem var svona tveggja km. gangur, um það bil,  fór fólk aðeins að prófa sólbaðsaðstöðuna og ég dáist eiginlega að sjálfum mér, að hafa kunnað mér hóf, enda hokinn af reynslu þegar sólböð eru annars vegar.
Matseðillinn

Síðdegis hófst undirbúningur fyrir fyrsta útstáelsið, mikinn kvöldverð á stað sem heitir Cascina (býli) Capuzza eða Selva (skógur) Capuzza, sem er í nokkurra kílómetra fjarlægð frá Desenzano. Kvöldverðurinn var utandyra, svo ekki var um annað að ræða en hálfbaða sig í skordýraeitri af einhverju tagi.  Þegar við komum á staðinn, biðu okkar dekkuð borð í síðdegissólinni, sem síðan hvarf af himni eftir því sem á leið. Fljótlega kom í ljós, að einn einstaklingur hafði gleymst á hótelinu, sem kostaði hann ferð með leigubíl. Ég reyndi að setja mig í spor viðkomandi og þau spor virtust mér ekki vera sérlega eftirsóknarverð, en síðdegisblundur mun hafa farið aðeins úr böndunum, eftir því sem næst verður komist.
Annað fólk, annar tími, svipað umhverfi.
Þarna var einkar skemmtilegt umhverfi til utanhússborðhalds og fram var borin fjögurra rétta máltíð með óþrjótandi, heimaræktuðum veigum, svokallaðs Lugano víns. Vínið og mögulega einnig maturinn snertu á þeim streng sem kallar á söng, og það var sungið, jafnvel af meiri söngþrá en söngfegurð, í einhverjum tilvikum.  
Lokalagið var tekið þar sem hópurinn beið eftir að rútubílstjóranum tækist að troða farartækinu á nægilega hentugan stað fyrir hópinn til að stíga um borð. Áheyrendurnir voru matargestir sem enn höfðu ekki lokið borðhaldi. Þeir reyndust varla geta haldið aftur af sér í fagnaðarlátum eftir sönginn og heim á leið hélt saddur og sæll kór, þess fullviss, að hafa slegið í gegn á alþjóðamarkaði. 


Leiðin milli Hotel Oliveto og Cascina Capuzza. Ekki veit ég hver þeirra þriggja leiða, 
sem þarna eru sýndar, var valin.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...