Sýnir færslur með efnisorðinu Oddsstofa. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Oddsstofa. Sýna allar færslur

20 október, 2016

Hvað á maður að segja?

Ég hef nú hingað til reynst geta tekið fyrir hin ólíklegustu viðfangsefni á þessum síðum mínum, bæði umfangsmikil og alvarleg og lítilvæg og léttúðug. Nú bregður svo við að ég á í vandræðum með að finna rétta flötinn á því að segja frá, eða fjalla um síðustu helgi í lífi okkar Kvisthyltinga. Þetta var helgin þegar fD tók sig til og blés til fyrstu einkasýningar á verkum sínum. Yfirlýstur tilgangur var að þetta væri eitthvað sem þyrfti að gera, fyrr eða síðar.  Í því efni var ég alveg sammála, enda stefndi í að ég yrði að gefa eftir mitt vinnusvæði í húsinu þar sem stöðugt bættist í myndverk af ýmsu tagi í dyngju hennar og þau voru byrjuð að vætla inn til mín með fyrirsjáanlegum afleiðingum. Þarna varð eitthvað að koma til.
Við tókum Skálholtsbúðir á leigu, bjuggum til viðburð(i) á samfélagsmiðlum, auglýstum í Bláskógafréttum og reyndum að kynna í sunnlenskum prentmiðlum. Þarna átti að vera um að ræða tvo viðburði, annan opinn öllum með kynningu á sýningu sem yrði opin laugardag og sunnudag, undir heitinu "Myndlist og meira", hinn, sem var lokaður og beint að tilteknum markhópi vinnufélaga, kórfélaga, ættingja og vina, fékk heitið "Myndlist og meira - á tímamótum".

Sýninguna settum við upp á föstudegi með ómetanlegri aðstoð annarra Kvisthyltinga. Þar var mikið pælt í hvað skyldi vera hvar og um það urðu engin veruleg átök. Allt var klárt fyrir opnun á hádegi á laugardeginum. Eitthvað virðast tilraunirnar til auglýsingar hafa skilað sér því þó nokkrir lögðu leið sína í Oddsstofu í Skálholtsbúðum.
Á laugardagskvöldinu tóku gestir að streyma að, á viðburðinn "Myndlist og meira - á tímamótum" um kl. 18. "Á tímamótum" að þrennu leyti: 1. Fyrsta einkasýning fD, 2. stórafmæli fD fyrr á árinu og 3. nýtt æviskeið hjá mér. Úr þessu varð hin ágætasta kvöldstund þar sem tókst, eftir því sem best er vitað að skapa harla óþvingað og létt andrúmsloft með öruggum veislustjóranum, einkadótturinni, úthugsuðu inngangserindi fD, fádæma löngu, en innihaldsríku uppistandi þess sem þetta ritar og ekki síst yndisfögrum tónlistarflutningi Þóru Gylfadóttur (sópran), Egils Árna, Kvisthyltings (tenór) og Jóns Bjarnasonar, píanósnillings.

Það verður að segjast eins og er: okkur Kvisthyltingum var mikill heiður sýndur um þessa helgi og þakkir okkar til gestanna sem kíktu til okkar eru getum við ekki sett í einhver almenn orð.  Ætli sé ekki bara áhrifaríkast að segja einfaldlega" takk".

Síðustu daga hefur fD tekið í að jafna sig og freista þess að átta sig á bókhaldinu, sem var víst ekki alveg hannað fyrir það sem gerðist. Allt mun þó koma heima og saman áður en langt um líður.


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...