Sýnir færslur með efnisorðinu flóttaherbergi. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu flóttaherbergi. Sýna allar færslur

13 apríl, 2024

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (fyrri hluti)

Það voru 12 tápmiklir Kvisthyltingar, sem héldu fótgangandi, síðla kvölds á vit ævintýris á sólareyjunni Tenerife. Gönguferðin hófst við dvalarstaðinn, Parque Cristobal og ferðinni var heitið um 2,5 km. leið að svokölluðum flóttaherbergjum, þar sem ætlunin var að láta reyna á hæfileika hópsins til að bjarga sér úr lokuðum herbergjum.  Enginn efaðist svo sem um, að hæfileikarnir væru fyrir hendi og því var hópurinn talsvert vonglaður þar sem hann þrammaði á þennan áfangastað, aðeins mishratt, enda fólkið á ýmsum aldri. Þau yngstu og jafnframt áköfustu, leiddu hópinn, en þau sem voru orðin  talsvert eldri og þroskaðri, ráku lestina, sannarlega ekki vegna slakara líkamlegs ástands, heldur fyrst og fremst til að tryggja að hópurinn kæmist allur þangað sem ferðinni var heitið.  
Þar sem leiðin lá eftir göngugötu, breiðri og nokkuð vel upplýstri, háttaði svo til að annað þeirra sem lestina ráku, fD, varð tímabundið síðust, og segir ekki af því fyrr en hún birtist við hlið þeirra sem næst aftastir voru, í talsverðu uppnámi: "Þær tóku símann og kortin!". Hún laug sannarlega engu um það. Síminn hennar og þau kort sem geymd voru í hulstrinu utan um hann, voru horfin. Hún hafði komið þeim fyrir í litla bakpokanum sínum áður en gangan hófst og taldi verðmæti vel geymd við þær aðstæður, en pokanum hafði hún komið fyrir á bakinu, lokuðum með rennilás, rétt eins og gert er með bakpoka.
Við upprifjun á því hvernig þetta fífldjarfa rán hafði gengið fyrir sig, kvaðst hún hafa gengið þarna á sínum hraða, þegar hún fann að einhver rakst á hana og þegar hún snéri sér við til að kanna hvað þar væri um að ræða, sá hún tvær vel klæddar konur ganga rösklega í öfuga átt. Þessu næst hafði hún ákveðið að athuga bakpokann, sem reyndist opinn og sími og kort horfin.

Það var við þessar aðstæður sem hin tápmiklu 12 tóku til sinna ráða. Fyrsta skrefið fólst í því að hringt var í neyðarþjónustu bankans, til að láta loka kortinu, sem gekk nokkuð hnökralaust. Því næst réðst símasérfræðingur hópsins í það, að leita uppi símann, með aðferðum sem sá sem þetta ritar kann ekki að greina frá að svo stöddu, og viti menn síminn fannst og merkið um hann virtist benda til að hann væri ekki á hreyfingu. Símanum var umsvifalaust lokað, svo ekki yrði nú hægt að brjótast inn í hann. Eigandinn hafði mestar áhyggjur af því að tapa öllum myndunum sem síminn geymdi, en síðar kom í ljós, að hann er þannig stilltur, að allar myndir á honum vistast sjálfkrafa upp í skýið, svo ekki myndu þær vara glataðar.

Þegar hér var komið styttist í úthlutaðan tíma í flóttaherberginu, en hann hafði verið pantaður kl 21.30. Þar sem Kvisthyltingar eru ekki aðeins tápmiklir, heldur einnig yfirvegaðir í allri nálgun sinni að vandamálum, ákváðu þeir að standast þá tímasetningu. Urðu ásáttir um, að ef síminn fyndist ekki eftir að ævintýrinu í herberginu lyki, þá væri það bara svo, þar sem þetta var nú bara sími.

Nú, það var ekkert með það, hin tápmiklu tólf deildu sér að sitthvort flóttaherbergið. Sex tókust á við Sherlock Holmes herbergið en hin sex skelltu sér í Magic School herbergið. Það var misjafnt, hve mikið hugur fólksins var við að leysa þessar gátur og það veit ég að fD var að mestu með hugann við þá ömurlegu tilfinningu, að hafa verið rænd og lái henni hver sem vill. Ekki gerði sá sem þetta ritar, heldur mikið gagn, þar sem hópurinn leysti þrautir hvers herbergisins á fætur öðru og tókst á rúmum klukkutíma, að komast aftur út í frelsið, til þess að láta taka af sér myndir þær sem hér fylgja.



Svo tók alvaran við. Hin tápmiklu tólf yfirgáfu ævintýraheiminn, þar sem þau höfðu hitað upp hæfileikann til að leita vísbendinga og draga ályktanir af þeim. Þau voru þarna tilbúin til að hefja leitina að þjófunum og ná úr krumlum þeirra símanum og kortunum þrem, ökuskírteini, greiðslukorti og félagskorti í Félagi eldri borgara á Selfossi. Greiðslukortinu hafð verið lokað, en hin tvö hvort öðru mikilvægari og því forgangsatriði að ná þeim til baka úr skúmaskoti, einhversstaðar þarna utan ævintýraheimsins.  

Þar sem hópurinn stóð fyrir utan húsnæðið sem geymdi flóttaherbergin, var skotið á örstuttum fundi, þar sem leitin sem lagðar voru línurnar fyrir leitina að glæpamönnunum og síðan héldu hin tápmiklu tólf á vit þessa nýja ævintýris um skuggalegar götur bæjarins með aðstoð rakningartækni.

Svo kemur framhaldið fljótlega ....  FRAMHALD




Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...