Sýnir færslur með efnisorðinu lljósleiðari. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu lljósleiðari. Sýna allar færslur

05 júní, 2019

Fundur um ljósleiðara

Það hvarflar nú ekki að mér, annað en halda þeirri stefnu minni að reyna að fylgjast með í umhverfi mínu svo lengi sem þess er nokkur kostur. Það var ein ástæða þess, að ég fór á fund í gærkvöld í Slakka, þar sem oddiviti og sveitarstjóri Bláskógabyggðar voru mætt til að upplýsa um áætlanir og fyrirkomulag ljósleiðaravæðingar í sveitarfélaginu.
Ég ætla ekki hér að reyna að fara í gegnum þær upplýsingar sem þegar liggja fyrir um þessi mál á vef sveitarfélagsins. Bara nefna það sem fram kom á fundinum, eins og það blasti við mér.

Ég hef hikað við að sækja um aðgang að þessu vegna þess sem stendur á umsóknarblaðinu um skuldbindingu og sem sjá má hér til hliðar. Ég var einhvernveginn ekki tilbúinn til að sækja um eitthvað sem ég vissi ekki hve mikið myndi kosta. Eftir fundinn í gær veit ég hinsvegar, að þetta er ekki eins og ég hafði skilið og óttast.

Þegar fyrir liggur hve margir hafa sótt um verður haft samband við hvern og einn, enda munu þá liggja fyrir nákvæmari útlistanir að endanlegum kostnaði.

Á fundinum kom fram, að samkvæmt skilgreiningu í þessu verkefni, telst Laugarás vera þéttbýlisstaður, með sama hætti og Reykholt og Laugarvatn, en nokkuð hefur verið á reiki hvernig þessi þéttbýliskjarni flokkast, eftir því hver flokkar. Það sem þarna mun ráða úrslitum er, að svokallað "ljósnet" hefur verið lagt í tengiskúrinn við Asparlund, (eða Kirkjuholtsveg 1). Þar sem ljósnetið er komið, telst vera þéttbýli. Þá er það frá.

„Ísland ljóstengt“, sem er verkefni á vegum ríkisins þar sem veitt er styrkjum til sveitarfélaga til lagningar ljósleiðara í dreifbýli, gera það að verkum að ekki eru veittir styrkir til að tengja íbúðarhús og fyrirtæki í þéttbýli og heldur ekki til að tengja sumarhús. Því til grundvallar liggur það mat stjórnvalda að tengingar í þéttbýli séu almennt betri en í dreifbýli og því sé ekki eins mikil þörf á að leggja opinbert fé í að bæta tengingar þar.
 Það er sem sagt svo að styrkur ríkisins nær ekki til þéttbýlisstaða - eins og Laugaráss.

Það hefur komið fram, að grunngjaldið sem allir verða að greiða, sem tengjast vilja við ljósleiðara, er kr. 250.000. Þetta er sú upphæð sem staðir sem teljast til dreifbýlis þurfa að greiða og ekkert umfram það. Afgangurinn er greiddur með ríkisstyrknum.

Þar sem um er að ræða skilgreinda þéttbýlisstaði, eins og Laugarás, þarf fólk að greiða sín 250.000, en síðan ræðst það af fjölda umsókna hvort sú upphæð dugi fyrir kostnaði af lagningunni. Ef ég einn myndi til dæmis sækja um hér í Laugarási, gæti ég reiknað með talsvert háum reikningi umfram 250 þúsundin. Ákveðum við hinsvegar öll að sækja um, er, að sögn oddvita og sveitarstjóra, líklegast að kostnaður umfram þessa upphæð verði jafnvel enginn.
Þetta þýðir augljóslega, að því fleiri sem sækja um, því líklegra er að enginn aukakostnaður verði.

Lítilsháttar pæling í þessu sambandi: 
Ég á íbúðarhús í Laugarási, sem mun væntanlega standa hér inn í framtíðina. Ég hef kannski engan áhuga á að fá einhvern ljósleiðara inn á gafl hjá mér - tel mig engu bættari með honum. Með því viðhorfi er ég auðvitað að minnka verðgildi eignar minnar til framtíðar, en þeir sem ekki tengjast í þessari atrennu, en vilja gera það síðar, munu standa frammi fyrir miklum aukakostnaði (þetta kom fram hjá oddvita).
Mín niðurstaða er sú, að ef ég reyni nú að hugsa lengra en til næstu mánaða, sé engin spurning um mikilvægi þess að taka inn hjá mér ljósleiðara. Ég tel þetta vera tækifærið.

Við þurfum ef til vill að átta okkur á að breytingar eru að verða á flestu í Þorpinu í skóginum eins og almennt þar sem garðyrkja, eða önnur yrkja hefur átt sinn blómatíma. Það er líklegra en ekki að garðyrkjubýli muni, mörg hver, ekki lifa til næstu kynslóðar íbúa. Leitt, en fátt sem við getum gert í því.
Af þessum sökum er mikilvægt að brúa bilið eins og nokkur er kostur.
Ljósleiðarinn er ein leiðin til þess, þó svo maður geti alveg ímyndað sér, að innan ekki svo langs tíma kom fram önnur og enn öflugri aðferð við að tengja fólk við hvað sem er.
Pælingu lokið.
----------------------

Við þurfum að sækja um fyrir lok júní, eða sem allra fyrst, þar sem unnið er að skipulagningu verksins sem er framundan svo hægt verði að bjóða það út. Það er líklegt að þetta útboð verði í tvennu lagi: annarsvegar vegna dreifbylisins og hinsvegar vegna þéttbýliskjarnanna.

Þegar fundum oddvita og sveitarstjóra í þéttbýliskjörnunum er lokið (þeir eru í þessari viku og næstu) verður sent dreifibréf  á alla bæi, þar sem fjallað verður um ljósleiðaramálin.

Ýmislegt fleira var rætt varðandi Laugarás á þessum fundi, en flest af því finnst mér að ætti heima á íbúafélagi/hagsmunafélagi eða hverfisráði Laugaráss. Slíkt félag myndi geta gert mikið gagn - um það varð ég enn sannfærðari í gær.

Ég verð nú að segja, að mæting Laugarásbúa hefði mátt vera meiri, en öfugt við mig, þá er nú margt fólk í vinnu á þeim tíma sem þarna var um að ræða, svo þetta er að vissu leyti skiljanlegt, allt saman.

Loks finnst mér, að reglulegir smáfundir af þessu tagi með íbúum á hverjum stað, gætu breytt miklu varðandi samskipti íbúa við sveitarstjórn.







Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...