Sýnir færslur með efnisorðinu Arenal. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Arenal. Sýna allar færslur

21 desember, 2025

Costa Rica (9) - Auðsæld, vötn og eldfjall

FRAMHALD AF ÞESSU

Enn verð ég að játa skort minn á umhverfislæsi. Vissulega var mér ljóst, að leið okkar, eftir að hafa komið við hjá friðartrénu (Arbol del Paz), myndi liggja í suðurátt, en einhvern veginn greyptist það í huga minn, að leiðin lægi fyrir vestan  flekaskilin, eða fjallgarðinn, eða hvað svo sem hálendið, sem liggur eftir endilangri Mið-Ameríku kallast. Ég var svo viss í minni sök, að mér meira að segja blöskraði þegar Alejandro og Guðni átu það hvor upp eftir öðrum að það hefði orðið eldgos í vesturhlíðum Arenal, eldfjallsins, en ekki austurhlíðum! "Þekkja þessir menn ekki muninn á austri og vestri?" hvíslaði púkinn á vinstri öxlinni á mér. Ég var á þessum tímapunkti alveg viss um, að við værum á leið til staðar, sem er við rætur Arenal, vestan megin.  Ég var eiginlega ekki í rónni fyrr en ég var búinn að komast að því, á korti af svæðinu, að bærinn La Fortuna (Auðsældin t.d.) er austan fjallsins og þar með í skjóli frá eldgosahrinu í Arenal, sem hófst 1968 og stóð með hléum til 2010, með smá gusti 2013. 
Hér fyrir neðan má sjá, á korti, ranghugmyndir mínar um leiðina. Rauða línan sýnir leiðina, svona nokkurnveginn, sem ég taldi okkur vera að fara, en sú gula, raunverulega leið. Sannarlega hefði átt að átta mig strax á þessari vitleysu, en ég bara gerði það ekki. Þannig vissi ég það vel, að leiðin lá upp undir landamæri Nicaragua.  Ætli sé ekki best að ég segi bara ekki meira um þetta mál.


Ekki mynd úr ferðinni.

La Fortuna, Los Lagos, Arenal

Segir ekki af ferð okkar fyrr en við komum í bæinn La Fortuna. Yfir honum gnæfir eldfjallið, Arenal, 1,633 metra hátt, keilulaga og á toppi þess er gígur sem er 140 m. í þvermál. Arenal telst til ungra eldfjalla, minna en 7500 ára gamalt.


Við áttum ekki viðdvöl í La Fortuna í þetta skiptið, heldur héldum áfram sem leið lá, til ferðamannasvæðis (resort) rétt hjá, sem heitir Los Lagos (Vötnin).  Það var nú nokkuð undarlegur staður, svo undarlegur að ég nánast gleymdi bara að taka myndir þar.  Þetta er sem sagt sannkallað "svæði"  og ég held að kort af því lýsi því bara best. 

Los Lagos Resort
Neðst vistra megin er aðkoman að svæðinu og móttaka. Þarna fengum við lykil að herberginu okkar, án þess að hafa hugmynd um hvað biði okkar í þeim efnum. Því næst fluttum við farangur úr rútunni yfir í smárútu á vegum hótelsins. Því næst stigum við upp í aðra smárútu, sem ók með okkur á áfangastað, upp talsverða brekku í átt að eldfjallinu og þar biðu töskurnar okkar fyrir utan einskonar þríbýli (guli hringurinn á kortinu.  Við komumst að því, þegar við gengum þessa leið einu sinni (niður á við), að hún er um 800 metrar.
Herbergið (mynd af Tripadvisor)
Þegar inn var komið vorum við stödd í risastóru herbergi, með tveim tvöföldum rekkjum, eins og á Blue River.  Þetta var einkar glæsileg aðstaða, umlukin ótrúlegasta gróðri, eins og nærri má geta. 

Þarna hlaut að vera í gangi eitthvert skipulag við að flytja gesti þessa "hótels" milli staða. Varla var til þess ætlast að við bara værum þarna allan tímann í glæsilegu raðhúsinu. Auðvitað ekki. Ef við ætluðum að hreyfa okkur, t.d. fara í mat, þá bara hringdum við, og áður en við var litið, var komin smárúta til að keyra okkur hvert sem við vildum, innan svæðisins. Reyndar höfðum við, þann tíma sem við dvöldum á þessum dásamlega stað, samvisku af því að láta aumingja bílstjórana vera stöðugt að eltast við einhverja dynti í okkur, svo oftast reyndum við og nágrannarnir, að samaeina okkur í bíl. 



Við vorum varla búin að leggja niður töskurnar, þegar annar nágranninn kallaði og benti okkur á að koma út, bakdyramegin (já, það voru bæði fram- og bakdyr á herberginu). Þar blasti við undarlegur fugl í berjarunna og týndi í sig berin. Atarna var skrítið fyrirbæri, einna líkastur hænu, en miklu stærri, prílandi þarna efst í berjarunnanum, alls óhræddur við mig þar sem ég athafnaði mig með myndavélina. 
 
Cauca Guan (Penelope perspicax) - eftir því sem ég kemst næst.
Þessi fugl er um 85 cm langur og vegur um 1.6 kg.
 

   

Það leið ekki á löngu áður en annað dýr birtist okkur, þessu sinni þar sem við sátum og virtum fyrir okkur Arenal eldfjallið fyrir ofan okkur.  Þetta dýr var greinilega af ætt þvottabjarna (racoon) og við nánari skoðum þóttumst við komast að því að um væri að ræða svokallaðan nefbjörn (Nasua Nasua). Þetta dýr kom alloft fyrir augu okkar og einu sinni, meðan við dvöldum í Los Lagos birtist heil fjölskylda í brekkunni fyrir utan raðhúsið okkar.  Svo merkilegt sem það nú er, þá náði ég aldrei mynd af þessu dýri, þar sem svo vildi til að vélin var aldrei við höndina þegar því brá fyrir. Því miður verð ég að láta mynd af Wikipedia duga.  Fyrsti gestur okkar af þessari tegund birtist rétt fyrir utan herbergið okkar og ég kallaði á hann, með mínum hætti, hann leit upp og rölti síðan í átt til mín (líklegaga í von um bita), en þar sem ég hafði þá ekki upplýsingar um hvort þarna væri á ferðinni varasamt dýr, afturkallaði ég kallið, og nefbjörninn hélt leiðar sinnar, að næstu ruslafötu, fann ekkert þar og hvarf á braut.


Ekki leið á löngu áður en þriðja dýrið gladdi okkur með návist sinni. Að þessu sinni var það fremur smávaxin eðla af óskilgreindri tegund.


Svo söfnuðum við nágrannarnir í hópferð á veitingastaðinn, hringdum og bíllinn kom strax, ágætri máltíð voru gerð góð skil og svo tók nóttin við, og framundan ævintýri komandi dags.

FRAMHALD SÍÐAR




Costa Rica (9) - Auðsæld, vötn og eldfjall

FRAMHALD AF ÞESSU Enn verð ég að játa skort minn á umhverfislæsi. Vissulega var mér ljóst, að leið okkar, eftir að hafa komið við hjá friðar...