Sýnir færslur með efnisorðinu Mílanó. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Mílanó. Sýna allar færslur

06 júlí, 2022

Kórferð - heit og áhrifamikil (8 - lok))

Torre Civica í Bergamo
...Framhald af þessu.

Fimm rétta máltíðin í San Martino della Battaglia og beinakapellan Ossario di san Martino virtust ekki hafa haft nein sýnileg skaðleg áhrif á Flóamenn. Morgunverðinum voru gerð góð skil og síðan fór hver að sinna sínu: pakka niður í töskurnar, fanga síðastu augnablikin á sundlaugarbakkanum, gera upp við hótelið, eða bara íhuga allt það sem á dagana hafði drifið. Þarna var, sem sagt, kominn síðasti dagur þessarar langþráðu ferðar Kirkjukórs Selfosskirkju til Ítalíu. Nú lá fyrir að kveðja Gardavatnið og halda áleiðis til Malpensa flugvallar við Mílanó. Þetta var svo bara gert og gekk áfallalaust fyrir sig.
Hvort það var tilviljun, veit ég ekki, en ferðaáætlunin gerði ráð fyrir, að á leiðinni á völlinn, yrði komið við í Bergamo.
Ástandið er sérstaklega slæmt í bænum Bergamo. Þar hefur herinn þurft að grípa inn í flytja lík frá bænum til brennslu. Um sextíu lík voru flutt í gærkvöldi. Líkbrennslan í Bergamo getur sinnt um 25 líkum á dag, sé hún starfrækt allan sólarhringinn. (Vísir.is 19. mars, 2020)

Já, einmitt. Þarna þurfti að halda okkur við efnið - minna okkur á að Covid er hreint ekki horfið úr  veröldinni. Bergamo fékk aldeilis að kenna á því, en bar þess engin sjáanleg merki þar sem hópurinn brunaði í hlað, eftir gatnakerfi sem sagt var frekar erfitt viðureignar. Leiðin lá  að toglest, einhverskonar, sem flutti grímubúinn hópinn alla leið upp í gömlu borgina, þar sem ýmislegt var að sjá og reyna, feikna mikla dómkirkju, teiknimyndabók eftir Íslending og trufflusveppi í búðarglugga, bar sem tók við 500 kalli íslenskum, sem óbeina þóknun fyrir að fá að pissa í sérkennilegt salerni, matsölustað sem lokaði um miðjan dag og fleira og fleira. 


Meðan á heimsókninni þarna í Bergamo stóð, kom tilkynning um seinkun á fluginu til Íslands um klukkutíma. Síðar kom svo tilkynning um klukkutíma seinkun í viðbót, en svo kom í ljós, að meðvindur frá Íslandi varð til þess að seinkunin varð ekki nema klukkutími og tuttugu mínútur. 
Fararstjórinn sleppti af hópnum hendinni við flugstöðna, eftir að hafa bent á lyftu sem þyrfti að taka til að komast í innritunarsal. Flestum gekk nokkuð vel að finna lyftuna og síðan rétta hnappinn til að ýta á, en í einhverjum tilvikum þurfti að gera fleiri tilraunir til að komast upp í risastóran sal, þar sem við tók heillöng bið eftir að innritun hæfist, bið sem kostaði einhvern dýrasta bjór á jarðríki, en að því kom að innritunin hófst og þá einnig biðin í röðinni. 

Þar sem við fD komum loks að innritunarborðinu, bar ég fram hina augljósu beiðni: "Getum við ekki setið saman?" og svar hinnar ítölsku innritunarkonu var þvert nei og þá varð ég ósköp sorgmæddur á svipinn og tók ekki eftir hvort fD setti um samskonar svip, eða einhvern allt annan. Í framhaldinu setti ég upp "gerðu það" svipinn og í framhaldi af því, svona til að veita náðarhöggið, dró fram fegursta bros sem ég átti til, en þar er úr ýmsu að velja.
Þetta varð til þess að stöðva alla innritun í talsvert langan tíma, þar sem allar innritunarkonurnar, sem voru þrjár, tóku til við að ræða þessa uppákomu fram og til baka og meira að segja ég var farinn að hafa samviskubit yfir að hafa valdið því, að ferðalangarnir sem biðu eftir að komast að, urðu að bíða þarna von úr viti. Ætli afgreiðsla mál okkar hafi ekki tekið 5-10 mínútur. Þar kom þó, að ákvörðun hafði verið tekin, og orðalaust prentaði innritunarkonan mín út brottfararspjöldin og hinar tvær tóku til við að afgreiða bíðandi fólkið í röðinni á ný.  Brottfararspjöldin okkar fD sýndu, svo ekki varð um villst, að okkur voru ætluð sæti hlið við hlið og þar að auki talsvert framarlega í vélinni. Þar sem við tókum við spjöldunum og ég rak augun í sætanúmerin, setti ég upp geislandi gleðibros, en tók ekki eftir hvort fD gerði hið sama.  Þá var þetta frá.

Engin athugasemd var gerð við okkur í vopnaleitinni, utan að ég lenti í úrtaki vegna mögulegs fíkniefnasmygls og viti menn, grunur minn var staðfestur, ég hefði, samkvæmt mælingum sem gerðar voru, ekkert verið að fást við slíkt, en það vissi ég svo sem fyrir. Alltaf gott að fá staðfestinguna, samt.

Þar sem hópuinn týndist inn á fríhafnar- veitinga- og brottfarasvæðið, kom fljótt í ljós að veitingastaðir og verslanir voru að skella í lás, hvert af öðru. Þar með var ekkert annað að gera, en bíða. Þá þarf stundum að leita eftir aðstöðu til að púðra nefið og fD rakst á skilti sem benti í ákveðna átt þar sem slíka aðstöðu væri að finna. Svo hvarf hún inn eftir löngum og breiðum gangi og fylgdist grannt með öllum skiltum sem gáfu til kynna hvar aðstaðan væri. Þar kom, að ég var farinn að leggja drög að því að senda út leitarflokk, en til þess kom þó ekki, enda birtist frúin í nokkru ójafnvægi og hafði þá tekið einhverjar beygjur sem höfðu ekki leitt hana aftur til mín. Ég skildi hana vel.

Það er svo sem ekki frá mörgu að segja í viðbót. Úr ríflega 30°C hita (reyndar með smá aðlögun á leiðinni) stigum við út í norðan strekking og 6°C fyrir utan Flugstöð Leifs Eiríkssonar og fjarlægð hópferðabifreiðarinnar sem beið okkar var slík, að sólarlandakvartbuxurnar sem ég hafði valið sem heimferðarfatnað gerðu minna en ekkert gagn til skjóls frá þeim íslenska veruleika sem þarna beið okkar.   Ferðin austur gekk bara vel og hlýtt rúmið hrópaði. Það fékk ósk sína uppfyllta þegar klukkan var að verð 04.30 að morgni.

----------------------

Þessi Ítalíuferð var afskaplega vel heppnuð og við fD afar þakklát fyrir hafa, þrátt fyrir að hafa bara lagt fram krafta okkar í einn vetur, fengið að taka þátt. Undirbúningur að ferðinni hafði staðið árum saman, en af ástæðum sem allir þekkja frestaðist hún nokkrum sinnum.

Nú er framundan að njóta íslenska sumarsins, laus við allar áhyggjur að öngþveiti á erlendum flugvöllum.



Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...