Sýnir færslur með efnisorðinu 1. apríl. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu 1. apríl. Sýna allar færslur

01 apríl, 2020

Ný þjónustumiðstöð

Það er ekki hægt að halda því fram að stjórnendur Bláskógabyggðar hafi setið auðum höndum að undanförnu. Þegar mest af starfseminni í Aratungu lagðist af þegar Covid-19 faraldurinn skall á hélt starfsemin áfram, en með öðrum hætti. Fólkið sem starfar á skrifstofunni hélt áfram að stýra sveitarfélaginu með fjarfundabúnaði, auk þess sem því gafst færi á að ráðast í verkefni sem þóttu orðin brýn, en sem ekki hafði unnist tími til að sinna fyrr en við þessar fordæmalausu aðstæður.

Eitt þeirra verkefna sem hafa eiginlega hvílt eins og mara á sveitarfélaginu, hafa orðið að víkja fyrir öðru, var að koma upp þjónustumiðstöð við íbúa í neðri hluta sveitarinnar, frá Spóastöðum að Helgastöðum. Það hefur sýnt sig undanfarin ár, að talsverðar óánægju hefur gætt meðal íbúa á þessu svæði með þá þjónustu sem sveitarfélagið hefur innt af hendi við þá. Sveitarfélaginu mun vera mikið í mun að sinna öllum íbúum eins vel og kostur er, og hefur tekið það nærri sér að hafa ekki geta sinnt þessum hluta sveitarfélagsins sem skyldi. Í framhaldi af þessari stöðu mála kom upp sú hugmynd innan sveitarstjórnar, að setja upp þjónustumiðstöð í Laugarási og fljótlega fannst þar afar hentugt húsnæði til þess arna: aflagður vatnsveitukofi skammt austan brúarinnar yfir Hvítá.  Þegar veirufaraldurinn skall á, var síðan gripið tækifærið og hafin vinna við að innrétta þessa nýju miðstöð, sem ekki lætur mikið yfir sér, en er ótrúlega rúmgóð og skemmtileg, eftir að brotið var gat á milli dælukofans og vatnstanksins. Þessi vinna hefur verið unnin að einum starfsmanni í einu og hafa þeir unnið á vöktum til að takast mætt að ljúka verkinu fyrir vorið.


Helstu verkefni þjónustumiðstöðvarinnar verða þessi:
- eftirlit með snjóruðningi á opnum svæðum á veturna og með slætti á opnum svæðum á sumrin. Þarna er ætlunin að bæta mjög í frá því sem verið hefur, jafnvel ryðja gangstíga allt að 15 sinnum á hverjum vetri, og að slá vikulega í stað mánaðarlega.
- umsjón með söguskiltum við brúna og vinna að útvíkkun þeirrar hugmyndar, þannig að á þessu svæði gæti orðið til þjónustukjarni, enda sjálfsagt talið að nýta sem best þá innviði sem þarna eru komnir, t.d. með því að byggja ofan á vatnsveitukofann, eða núverandi þjóðnustumiðstöð og skapa þar  rými fyrir veitingastað að aðra slíka starfsemi.
- á þjónustumiðstöðinni verður loks starfrækt kvörtunarþjónusta, en á opnunartíma miðstöðvarinnar verður þarna starfsmaður sem tekur ljúflega við kvörtunum íbúa á svæðinu og ekki nóg með það, því með vorinu verður settur upp kassi utan á húsinu þar sem hægt er að koma á framfæri kvörtunum hvenær sem er sólarhrings. Búist er við að þetta verði einn viðamesti þátturinn í starfi miðstöðvarinnar.

Þjónustumiðstöðin verður opnuð formlega í dag kl. 16 og eru allir íbúar á svæðinu boðnir velkomnir til hátíðarinnar, en hvattir til að halda tilskilinni fjarlægð sín á milli. Þarna verður spritt, einnota hanska og grímur, sem fólk getur nýtt sér að vild.
Opnunarhátíðin verður í umsjá oddvita, sveitarstjóra og sviðsstjóra framkvæmda- og veitusviðs og verður boðið upp á heitt kakó, kleinur og flatkökur  með hangikjöti.

Þar sem veður er enn nokkuð vetrarlegt er fólk hvatt til að klæða sig vel.

-------------------------------------------

UPPFÆRT:  
Þessi færsla, sem var útbúin þann 1. apríl, 
var í tilefni þess dags.

01 apríl, 2019

Ánægjuleg tíðindi

Laufskálar
Ég neita því ekki, að það kom mér talsvert á óvart að komast að því að uppsveitahrepparnir fjórir, sem unnið hafa að því að komast að niðurstöðu um byggingu hjúkrunar- eða dvalarheimilis fyrir aldraða í uppsveitunum, hafa nú sammælst um að byggja upp kjarna þjónustuíbúða í Laugarási.

Í dag kl. 17:00 mun forystufólk í þessum sveitarfélögum koma saman á væntanlegum bygginarstað, í dalverpinu þar sem hús barnaheimilis Rauða krossins stóðu frá 1945-1984,  til að skrifa undir samkomulag þessa efnis. Þangað munu allir íbúar í uppsveitum vera velkomnir, ekki síst þeir sem eru að komast á efri ári.

Það þekkja margir til fyrri hugmynda um þjónustuíbúðir í Laugarási í lok síðustu aldar, en það verkefni gekk undir nafninu Laufskálar. Vinna við það var langt komin og sala á íbúðum jafnvel hafin, þegar skyndilega var hætt við.  Það er hluti þess samkomulags sem nú hefur verið gert, að byggja á þeim hugmyndum sem þá voru uppi, m.a. því skipulagi sem þá var unnið og sem sjá má á meðfylgjandi mynd.

Til upprifjunar þá er hér um að ræða 47 raðhús  sem öll tengjast þjónustukjarna þannig að innangengt er úr öllum íbúðunum í hann um glergang sem jafnframt er hugsaður sem sólstofa fyrir hverja íbúð. Væntanlegir íbúar munu kaupa sér íbúðarrétt í húsunum sem verða í eigu sjálfseignarstofnunar. Sú stofnun mun í öllu annast viðhald og umsjón með fasteignunum.

Raðhúsin eru skipulögð sem einstaklingsíbúðir með svefnherbergi, tveggja herbergja og þriggja herbergja íbúðir. Við afhendingu verða íbúðirnar fullfrágengnar og tilbúnar til notkunar. Allar íbúðirnar hafa verönd og þeim fylgir garðskiki og matjurtagarður ef óskað er.

Markmiðið með íbúðunum er að tryggja íbúunum sem mest öryggi og sem besta fyrirgreiðslu. Íbúar geta allan sólarhringinn haft beint samband við húsvörð eða vakt ef eitthvað bjátar á. Íbúðarrétturinn er tryggður til æviloka og framlagið endurgreiðist samkvæmt sérstökum ákvæðum þegar íbúð er yfirgefin. Við hönnun er sérstakt tillit tekið til aldraðra en þannig er unnt að búa þar við skerta hreyfigetu.

Íbúunum mun standa til boða þjónusta gegn greiðslu sem miðast við kostnaðarverð. Má þar nefna heitan hádegismat í sameiginlegum matsal í þjónustukjarnanum, alla þjónustu í heilsugæslustöðinni í Laugarási og heimahjúkrun læknishéraðsins, aðstoð við að koma fatnaði í þvottahús eða hreinsun og ýmislegt annað. Þá hafa íbúarnir aðgang að sjúkraþjálfun, hársnyrtingu, heitum pottum og verslun.

Bláskógabyggð fellir niður fasteignagjöld af sambyggðinni og Laufskálar munu njóta sérstakra vildarkjara á hitaveitu. Áætlaður hitunarkostnaður á íbúð verður einungis um eitt þúsund krónur á mánuði.

Vonast er til að sem flestir íbúar komi í Laugarás, á þessum sólríka degi, þess fyrsta í apríl, til að fagna þessari ánægjulegu niðurstöðu. 

-------------------------------------------------------------

Viðbót, sem skráð er þann 2. apríl, 2019
Pistillinn hér fyrir ofan var skráður á þessum alþjóðlega degi þar sem heimilt er að  gabba fólk. Þannig er hann nú til kominn. 
Mér þykir auðvitað leitt að í frásögninni er ekki að finna mörg sannleikskorn, miklu frekar eitthvað sem ég vildi gjarnan að væri satt, en er í raun fjarri sanni. 
Fátt fréttist af fyrirætlunum uppsveitahreppanna í uppbyggingu af einhverju tagi fyrir þá sem aldraðir eru og verður ekki af því ráðið annað en það, að ekki sé um neitt að ræða í þá veru. 
Það er miður.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...