Sýnir færslur með efnisorðinu Sláturhúsið. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Sláturhúsið. Sýna allar færslur

06 desember, 2019

Jaðarsett sameiningartákn (3)

Afmælisveisla hjá Gróu Kristínu Helgadóttur í janúar 1956
- tel ég víst
Þetta er framhald að tveim pistlum sem sama nafni.

Jón í Vorsabæ var umdeildur meðal Laugarásbúa, sem voru að stórum hluta sjálfstæðir garðyrkjubændur, sem voru ekkert áfjáðir í að láta utanaðkomandi yfirvöld segja sér hvað þeim væri fyrir bestu. Ég held nú samt, að Laugarásbúar eigi Jóni margt að þakka og ég held að hann hafi borið hag þessa vaxandi þéttbýlis mjög fyrir brjósti. Einhvernveginn finnst mér, þó ekki hafi ég handbær einhver gögn þar um, að Skeiðamenn hafi í gegnum tíðina verið einna jákvæðastir hreppanna gagnvart Laugarási og uppbyggingu þar.

Á níunda áratugnum gerðu Biskupstungnahreppur og Laugaráslæknishérað með sér samning, sem ég á enn eftir að sjá, þar sem hreppurinn tók að sér flest það sem að Laugarási laut. Oddvitanefndin hefur þó ávallt verið í bakgrunninum. Hvernig málefni Laugaráss voru, hafa verið og eru rædd á þeim vettvangi, veit ég svo sem ekki, en þykist þess fullviss að frá því Biskupstungnahreppur fékk verkefnið í hendur, hefur ekki verið unnið af neitt sérstökum krafti eða metnaði að uppbyggingu í Laugarási. Ástæður fyrir því fara varla á milli mála, að minnsta kosti ekki í höfðinu á mér.

Þegar tilraun var gerð til sameiningar uppsveitahreppanna á tíunda áratugnum, voru auðvitað þeir sem töldu enga þörf á sameiningu því það væri svo mikil samvinna milli þessara hreppa. Þessi samvinna átti sér ekki síst stað í gegnum sameiginlegt eignarhald þeirra á Laugarásjörðinni.  Laugarás var snertiflötur hreppanna, nokkurskonar sameiningartákn. Oddvitarnir hittust reglulega á grundvelli þessarar sameiginlegu eignar sinnar og fluttu þar inn hugmyndir og tóku þaðan með sér hugmyndir. Ég hlakka til að kynnast innihaldi  fundargerða oddvitafundanna og þar með, að hve miklu leyti umfjöllunarefni þeirra tengdist eða tengist Laugarási. Þessir fundir voru og eru enn, eftir því sem ég best veit, haldnir í nafni Laugaráshéraðs.

Starfsfólk í Krossinum sumarið 1959.
Mynd: Matthías Frímannsson
Vissulega hafa verið rekin hér fyrirtæki og stofnanir, sem eiga það þó sameiginlegt, á staðsetning þeirra var ákveðin annarsstaðar en í stjórnkerfi uppsveitanna. Sláturfélag Suðurlands byggði hér og rak sláturhús frá 1964 - 1988, Rauði kross Íslands - Reykjavíkurdeild byggði hér og rak sumardvalarheimili fyrir Reykjavíkurbörn frá 1952 - 1971.  Sláturfélagið valdi staðinn vegna þess að hann er miðsvæðis í uppsveitunum og Rauði krossinn valdi staðinn vegna þess að formaðurinn átti hér sumarhús og taldi staðinn henta vel fyrir starfsemina.  Slátrun var lögð af vegna fækkunar sauðfjár og Krossinn hætti starfsemi vegna lélegs húsakosts og breyttra viðhorfa til barnauppeldis.

Ég hugsa að það hafi verið þegar farið var af stað með verkefnið Laufskála, sem áttu að vera íbúðir, eða íbúðaklasi fyrir eldri borgara, að ég áttaði mig endanlega á að ekkert væri sjálfgefið þegar spurning væri uppi um uppbyggingu í Laugarási. Það kom á daginn, að hugur fylgdi ekki máli, enda raddir sem töldu byggð af þessu tagi betur komna í einhverju hinna þorpanna. Það var gefið út, minnir mig, að íbúðirnar hafi reynst alltof dýrar og áhugasamir þessvegna hætt við. Látum það vera. Það var byggt eitt sýningarhús og síðan ekki söguna meir.

Það hafa lengi verið uppi hugmyndir um uppbyggingu í Laugarási sem myndi styrkja heilsugæslustöðina og þar hefur helst verið horft til dvalar- og/eða hjúkrunarheimilis fyrir eldri borgara.  Jón í Vorsabæ nefndi þetta í viðtalinu við tímaritið Sveitarstjórnarmál, sem ég birti í síðasta pistli. Ég hef reynt að færa rök fyrir þessu, ítrekað, á þessum vettvangi, án þess að vart hafi orðið nokkurra viðbragða.

Svo birtist þetta allt í einu í Sunnlenska, í mars 2013:


Ég minnist þess ekki að þetta hafi hreyft neitt sérstaklega við mér, enda bara nefndarsamþykkt. Um framhaldið eftir hana, veit ég ekkert.

Ári síðar  birti Sunnlenska svo þetta:

Ég neita því ekki, að ég varð undrandi, en fyrst og fremst glaður, þar sem ég hef mikla trú á áhrifamætti kvenfélaganna, ekki síst þegar um væri að ræða það sem mannlegt er.  Þarna er það tiltekið að öll kvenfélögin hefðu samþykkt að skora á sínar sveitarstjórnir að vinna að þessu. Þessi atlaga kvenfélaganna dó drottni sínum þegar umræðan fór af stað innan sveitarfélaganna.
Það næsta sem fram kom um þessi mál, var í viðtali MHH við nýjan oddvita Hrunamannahrepps á Bylgjunni, í fyrra:




Ætla þetta sé nú ekki orðið í lengra lagi. Þvi geri ég hlé á þessum skrifum þar til næst.



14 desember, 2016

Eftir síðustu andartökin

Fremst má sjá færibandið sem fjallað er um
og í baksýn er flegið af krafti
ÞESSI FRÁSÖGN ER EKKI FYRIR VIÐKVÆMA (í alvöru)

Við tímamót verður manni hugsað til baka. Nú er hafið niðurrif á sláturhúsinu sem hefur staðið hér í Laugarási frá 1964. Það hús hefur séð tímana tvenna, bæði góða og slæma, en nú er komið að leiðarlokum. Það væri gaman að segja sögu þessa húss og starfseminnar þar, en það verður ekki gert hér og nú. Ég ætla hinsvegar að láta hugann reika til um það bil 1970, en þá starfaði ég í sláturhúsinu eitt eða tvö haust fram í lok september. Skólinn byrjaði 1. október í þá daga.


Á þeim tíma var ég einhversstaðar á bilinu 15 - 17 ára (trúi ekki að foreldrar mínir hafi leyft mér að vinna þarna yngri en það). Fyrstu störf mín fólust í að flytja lömbin milli hólfa í réttinni. Þar var réttarstjóri sem skipaði fyrir um úr hvaða hólfi lömbin skyldu færð, hvert og hvenær, en alltaf voru þau rekin í hólf sem var nær skotklefanum. Ég færðist líka stöðugt nær skotklefanum og áður en ég var fluttur til, inn í slátursalinn var ég kominn með það hlultverk að draga lömbin síðasta spölinn í lífi þeirra, inn í klefann þar sem Ásgeir á Kaldbak tók við og aflífaði þau með byssu sem var einhvern veginn þannig gerð, að hann þurfti að setja nýja patrónu í hana eftir hvert skot. Skotið fólst síðan í því að pinni skaust fram úr byssunni og vann sitt verk, en ég held að tveir menn hafi leitt hvert lamb til fullnustu á þeim dómi sem þau höfðu hlotið á einhverjum bænum. Mennirnir skelltu skrokknum síðan upp á færiband. Þar varð ég fyrir afar áhrifamikilli reynslu, sem ég ætla að reyna að koma í orð.  Mig grunar að sú tegund fólks sem staðið hefur með mótmælaspjöld fyrir utan SS á Selfossi að undanförnu, geti átt erfitt með að kyngja því sem þarna fór fram.

Ég fékk, sem sagt, eftir að hafa verið í réttinni, það hlutverk að fylgjast með færibandinu og því sem þar fór fram. Mig minnir að færiböndin hafi verið tvö, í sitthvora áttina út frá skotklefanum. Ég man ekki hvort ég þurfti að sinna þeim báðum, minnir það þó hálfpartinn.
Meðfram færibandinu endilöngu, var renna og niðurfall úr henni niður í kjallara. Þegar Ásgeir hafði unnið sitt verk var skrokkunum skellt á færibandið, eins og áður segir, fyrst í stað stífnuðu þeir upp og við þeim tók maðurinn með hnífinn, sem ég man því miður ekki hver var, en hann skar fumlaust á hálsæðrnar og blóðið  fossaði úr sárinu og ofan í rennuna. Í þann mund hófust dauðateygjurnar sem voru mismiklar, stundum svo kröftugar, að skrokkarnir flugu af bandinu niður á gólf. Mitt hlutverk var, meðal annars að sjá til þess að koma þeim aftur upp á bandið, sem var mjög miserfitt, enda skrokkarnir misþungir. Bandið var á að giska 5-6 m. langt. Eftir að blóðgunin hafði átt sér stað tók við að losa höfuðið frá búknum og ég heldað sami maðurinn hafi gert hvottveggja. Skrokkarnir sprikluðu æ minna eftir því sem nálgaðist endann á færibandinu, en þegar þangað var komið þurfti ég að vippa þeim yfir á fláningshringinn (minnir að það hafi verið hluti af starfa mínum, en er ekki viss) þar sem fláningsmennirnir tóku við og unnu hratt og örugglega að því að flá skrokkinn þannig, að hver hafði sitt hlutverk, svona eins og í bílaverksmiðju, ef svo má segja.  Aðrir eru betur til þess fallnir að segja frá þessum verkþætti.

Eftir fyrsta daginn við þetta verk verk var ég alveg búinn á sál og líkama; sál vegna þess sem fyrir augu bar og í höfðin hrærðist, líkama, vegna þess að þetta var skratti erfitt. Svo vandist þetta bara. Ég hætti smám saman að líta þannig á að það væri verið aflífa dýr, sem hugsanlega ættu að fá að halda áfram að lifa. Lömbin sem þarna voru leidd til slátrunar urðu bara hluti að verkferli; breyttust úr jarmandi ungviði í girnileg læri og hryggi áður en við var litið.
Margt af störfum mínu í sláturhúsinu er hulið gleymskuhjúp. Ég var einhvern tíma í vömbunum og eitthvað kom ég í kjallarnn hjá Gústa á Löngumýri, en þarna niðri voru innyflin orðin svo fjarlæg lífinu sem þau þjónuðu áður, að þau höfðu engin áhrif á mig. Það gerði vinnan við færibandið hinsvegar.
Núr er hafði niðurrif  á þessu sögulega húsi.


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...