Sýnir færslur með efnisorðinu myndlist og meira. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu myndlist og meira. Sýna allar færslur

20 október, 2016

Hvað á maður að segja?

Ég hef nú hingað til reynst geta tekið fyrir hin ólíklegustu viðfangsefni á þessum síðum mínum, bæði umfangsmikil og alvarleg og lítilvæg og léttúðug. Nú bregður svo við að ég á í vandræðum með að finna rétta flötinn á því að segja frá, eða fjalla um síðustu helgi í lífi okkar Kvisthyltinga. Þetta var helgin þegar fD tók sig til og blés til fyrstu einkasýningar á verkum sínum. Yfirlýstur tilgangur var að þetta væri eitthvað sem þyrfti að gera, fyrr eða síðar.  Í því efni var ég alveg sammála, enda stefndi í að ég yrði að gefa eftir mitt vinnusvæði í húsinu þar sem stöðugt bættist í myndverk af ýmsu tagi í dyngju hennar og þau voru byrjuð að vætla inn til mín með fyrirsjáanlegum afleiðingum. Þarna varð eitthvað að koma til.
Við tókum Skálholtsbúðir á leigu, bjuggum til viðburð(i) á samfélagsmiðlum, auglýstum í Bláskógafréttum og reyndum að kynna í sunnlenskum prentmiðlum. Þarna átti að vera um að ræða tvo viðburði, annan opinn öllum með kynningu á sýningu sem yrði opin laugardag og sunnudag, undir heitinu "Myndlist og meira", hinn, sem var lokaður og beint að tilteknum markhópi vinnufélaga, kórfélaga, ættingja og vina, fékk heitið "Myndlist og meira - á tímamótum".

Sýninguna settum við upp á föstudegi með ómetanlegri aðstoð annarra Kvisthyltinga. Þar var mikið pælt í hvað skyldi vera hvar og um það urðu engin veruleg átök. Allt var klárt fyrir opnun á hádegi á laugardeginum. Eitthvað virðast tilraunirnar til auglýsingar hafa skilað sér því þó nokkrir lögðu leið sína í Oddsstofu í Skálholtsbúðum.
Á laugardagskvöldinu tóku gestir að streyma að, á viðburðinn "Myndlist og meira - á tímamótum" um kl. 18. "Á tímamótum" að þrennu leyti: 1. Fyrsta einkasýning fD, 2. stórafmæli fD fyrr á árinu og 3. nýtt æviskeið hjá mér. Úr þessu varð hin ágætasta kvöldstund þar sem tókst, eftir því sem best er vitað að skapa harla óþvingað og létt andrúmsloft með öruggum veislustjóranum, einkadótturinni, úthugsuðu inngangserindi fD, fádæma löngu, en innihaldsríku uppistandi þess sem þetta ritar og ekki síst yndisfögrum tónlistarflutningi Þóru Gylfadóttur (sópran), Egils Árna, Kvisthyltings (tenór) og Jóns Bjarnasonar, píanósnillings.

Það verður að segjast eins og er: okkur Kvisthyltingum var mikill heiður sýndur um þessa helgi og þakkir okkar til gestanna sem kíktu til okkar eru getum við ekki sett í einhver almenn orð.  Ætli sé ekki bara áhrifaríkast að segja einfaldlega" takk".

Síðustu daga hefur fD tekið í að jafna sig og freista þess að átta sig á bókhaldinu, sem var víst ekki alveg hannað fyrir það sem gerðist. Allt mun þó koma heima og saman áður en langt um líður.


13 október, 2016

PR í molum


Það er, eins og hver maður getur ímyndað sér, óskaplega mikilvægt, þegar maður þarf að koma einhverju á framfæri, og renna yfir þá möguleika sem í boði eru, og sem geta leitt til þess að markhópur manns viti yfirleitt af því sem maður ætlar að fara að gera og sem maður vill að sem flestir viti af.
Ég er búinn að vera í hlutverki PR-manns, sem kallast á íslensku "almannatengill", undanfarnar vikur. Ég hef þurft að koma fram með hugmyndir að myndefni og texta sem þykir við hæfi og ég hef haf með höndum að koma þessu efni á framfæri með slíkum hætti að enginn gæti sagt síðar að hann hafi ekki vitað af viðburðinum.
Þetta hefur gengið svona fyrir sig:


1. Ég bjó til samsetningu sem ég skellti sem forsíðumynd á viðburðarsíðu á samfélagsmiðlinum Facebook. Ég deildi þeim viðburði síðan og þannig hafa þeir sem teljast til fina (facebookvina) minna fengið veður af viðburðinum.

2. Ég útbjó auglýsingu í Bláskógafréttir vel tímanlega og hún birtist síðan með pomp og prakt í nýjasta eintaki. Ágætur miðill, Bláskógafréttir, þar sem auglýsingar kosta ekkert og öll heimili í Bláskógabyggð fá eintak.

3. Ég óskaði eftir því við tvö helstu héraðsfréttablöðin á Suðurlandi að þau birtu fréttatilkynningu fyrir mig, með mynd og litlum texta.
Þessi þáttur fór alveg í vaskinn, utan það að fréttatilkynningin birtist í morgun á Sunnlenska.is.
  a. Ég svo sem skil það alveg að annar sunnlenski prentmiðillinn sem ég hafði samband við, sem byggir tilveru sína á auglýsingatekjum alfarið, birti ekki fréttatilkynningar si svona, enda gerði hann það ekki. Mér hefði þótt vænt um að vita af höfnuninni svo ég gæti þá leitað annarra leiða.
  b. Ég þykist hafa vissu fyrir því að fréttatilkynningin kemur í hinum prentmiðlinum, en þar er sá hængur á, að það vill svo til að póstur er ekki borinn út í Biskupstungum á föstudegi í þessari viku og þar með kemur það blað ekki fyrr en eftir helgi.

Textinn sem átti að birtast í prentmiðlunum er svohljóðandi:


Dröfn Þorvaldsdóttir, Kvistholti í Laugarási, heldur fyrstu einkasýningu á verkum sínum í Oddsstofu í Skálholtsbúðum helgina 15. – 16. október, næstkomandi. Sýningin verður opin frá kl. 12:00 til 16:00 báða dagana.

Á sýningunni eru verk sem Dröfn hefur unnið að frá árinu 2010, að stærstum hluta akrylmyndir, en einnig verk unnin í leir og á bolla. Hrosshár koma talsvert við sögu í verkunum. Dröfn er að mestu sjálfmenntuð í listsköpun en hefur sótt námskeið bæði hérlendis og Danmörku.

Dröfn, sem er leikskólakennari að mennt, fagnar stórafmæli á þessu ári og eru þau tímamót ekki síst tilefni sýningarinnar. Hún hefur búið í Biskupstungum frá 1979, þar af í Laugarási frá 1984.

Hér situr almannatengillinn og fær fáar hugmyndir til viðbótar til að koma sýningu frúarinnar á framfæri. Hann gæti auðvitað hringt inn í símatíma á útvarpsstöðvum, skellt inn einhverjum kveikjum á Twitter (sem hann hefur nú ekki komist upp á lag með að nota), beitt sér á Instagram eða Snapchat, eða einhverju öðru slíku, sem hann á langt í land með að tileinka sér svo vel.

Hugmyndaflug mitt við þessar aðstæður leiðir mig bara að þeirri niðurstöðu að ég þurfi að leita til velviljaðra vina minna um að deila viðburðasíðunni þar sem greint er frá því sem þarna er um að ræða.   Nú velti ég því fyrir mér hvort það er vel gert.


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...