Sýnir færslur með efnisorðinu brauðbakstur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu brauðbakstur. Sýna allar færslur

28 mars, 2020

Súrdeigsmóðirin

Súrdeig, fyrir bakstur
Fá orð hef ég heyrt oftar undanfarin misseri en "súrdeigsmóðirin", ekki "súrdeigsmóðir", heldur kemur þetta orð aldrei fyrir nema með ákveðnum greini. Ég þarf auðvitað ekki að taka það fram, að aldrei er minnst á neinn "súrdeigsföður" í þessu sambandi og reikna með að það orð sé ekki til í íslensku máli. Líklega heitir þetta fyrirbæri "súrdeigsmóðir" vegna að að þessi grunnur af súrdeigsbakstri elur stöðugt af sér afkvæmi sem bandað er með einhverjum hætti við einhverjar mjöltegundir sem síðan eiga að verða að brauði. Ég treysti mér alveg til að halda því fram, að "súrdegsfaðir" sé alveg jafn mikið réttnefni á þessu fyrirbæri, af sömu ástæðu. Ég tla samt ekki að fara að gera neitt mál úr því.

Ætli sé ekki rétt að ég byrji á að viðurkenna, að ég veit harla fátt um súrdeigsbakstur, þó svo hann hafi verið harla áberandi umræðuefni hér í Kvistholti, lengi.  Þetta hófst, að mig minnir, í tengslum við hugmyndir um mögulegt glútenóþol hér á bæ og í framhaldi af því pælingar um þær slæmu afleiðingar sem ger, af einhverju tagi, getur haft í för með sér. Þá varð eindregin niðurstaða um, að allt svokallað "hvítt hveiti" væri nánast verk djöfulsins og því var það bannfært. Í staðinn er ekki notað annað mjöl við þennan bakstur en rúgmjöl og heilhveiti, eða annað mjöl sem mun teljast hollara en allt sem hollt er.. Loks er rétt að geta þess, að sykur í sambandi við brauðbakstur, hefur nú lengi verið bannvara.

Súrdeigsbrauð að bakast

Þar með fór af stað súrdeigsbakstursnámið, sem staðið hefur óslitið í 2-3 ár. Þessi námsferill hefur átt sína góður daga og slæmu. Ætli heildarniðurstaðan geti ekki orðið sú, að flestar þeirra aðferða við að baka súrdeigsbrauð, sem er að finna á samfélagsmiðlum, vefsvæðum eða á upplýsingafundum, sé rangar, með einhverjum hætti, eða í það minnsta verulega brenglaðar og/eða ónákvæmar. Heyrt hef ég til dæmis talsverða umfjöllun um hvort "súrdeigsmóðirin" eigi að fá að blómstra í loftleysi eða óvarin fyrir veðri og vindum, eða hvort eigi að geyma hana í kæliskáp eða við stofuhita, eða jafnvel þvottahússhita. Þessi óvissa hefur leitt af sér nokkurt angur, en áfram er haldið, aðferðir þróaðar og ræddar. Ræddar, án þess ég sé miklu nær, í rauninni. Harla oft eru uppskriftir og aðferðir lesnar upphátt, sennilega í tilraun til að virkja áhuga minn, en þar sem ég hef, fyrir talsvert löngu, greint sjálfan mig með athyglisbrest (ADD) á ríflega miðlungs háu stigi, hefur hugur minn oftar en ekki leitað á önnur mið fljótlega eftir að lesturinn hefst, hverju sinni.

Súrdeigsbrauð eftir bakstur

Þar sem ég hef ekki rekist á vísindarannsóknir, þar sem óvéfengjanleg niðurstaða er um, að "hvítt hveiti" sé beinlínis skaðlegt, hef ég ekki sannfærst um, að rétt sé að kasta því úr í ystu myrkur og að rétt sé að fjarlægja það með öllu úr búrinu.
Ég hef fengið að njóta ákveðins skilning á sérvisku minni þegar kemur að "hvítu hveiti", sem ég tel vera mjöltegund sem er ekki síður viðurkennd í mannheimi en rúgmjöl og heilhveiti, eða haframjöl.  Það er nefnilega svo að hér á bæ þykir gott að eiga flatkökur í frystinum og þær því bakaðar með reglulegu millibili. Vissulega er það ekki einfalt mál, enda eru þá bakaðar tvær tegundir, svona "þíns" og "míns", þar sem í "mínum" flatkökum fær hvítt hveiti að njóta sín með eðlilegum hætti, en að öðru leyti, eða í hinni tegundinni, er ekki að finna örðu af þeirri mjöltegund. 

Súrdeigsbrauð eftir bakstur

Nú eru nýjar vendingar, eftir nýjar upplýsingar og niðurstöðu beðið í ofvæni. Bæði uppgötvaðist einhver tiltekin ný aðferð við svona bakstur og einnig hefur hafist samráð og samanburður milli landa, en  yngsti sonurinn, sem dvelur í Álaborg um þessar mundir, í góðu yfirlæti, í kórónusmituðu konungsríkinu Danmörku, tók upp á því að freista þess að baka súrdeigsbrauð og snerti með því einhvern streng í hjarta móðurinnar, sem fékk þar með að njóta áhugamáls síns með öðrum.  Nú gengur á með spjalli um súrdeigsbrauðabakstur, útlit, bragð og áferð, þvert yfir hafið.

Það er rétt að geta þess, að mér var bakað brauð af þessu tagi fyrir nokkru, þar sem "hvítt hveiti" fékk að koma við sögu. Þetta brauð hef ég síðan nýtt mér með reglubundnum hætti og kann bara hreint ekki illa við gripinn.

Þegar þetta er ritað er nýbakað súrdeigsbrauðið komið úr ofninum og bíður smökkunar og "súrdeigsmóðirin" sem gaf af sér til brauðgerðarinnar bíður hlýðin í skálinni sinni eftir því að ala af sér næsta súrdeigsbarn.

Súrdeigsmóðirin

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...