Sýnir færslur með efnisorðinu Bubba. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Bubba. Sýna allar færslur

03 júní, 2020

Aldarminning 3 (3)


Í dag er öld liðin frá því tengdamóðir mín fæddist norður í Fljótum. Það er ástæða til að óska afkomendum hennar til hamingju með líf hennar og þennan dag.

Ég kom til sögunnar, sagði ég. Það gerðist um miðjan áttunda áratuginn, þegar Bubba var hálf sextug, á besta aldri, sem sagt. Það fer næstum um mig að hugsa til þess að hún var þá rúmum áratug yngri en ég nú. Á þeim tíma var lífið komið í all fastar skorður á Álfhólsvegi 17A. Dæturnar komnar, eða næstum komnar á skrið með eigið líf, Valdi keyrði sendibílinn sinn og Bubba sótti vinnu í Kóp, sem ég tel að hafi heitið Verslunin Vogar og var á Víghólastíg 15.  Ég minnist hennar fyrst  við að elda mat, vaska upp, reykja Camel og leggja kapal - og vera fyndin. Mér fannst hún vera orðin rígfullorðin, sem er eðlilegt í ljósi þess, að þeim yngri finnst þeir eldri alltaf vera miklu eldri en raunin er.
Samskipti okkar við Valda og Bubbu voru mest í formi heimsókna, enda bjuggum við einhversstaðar "langt uppi í sveit" að mestu, utan þau fjögur ár sem við gistum höfuðborgarsvæðið milli áranna 1975 og 1979.

Bubba við eldhúsborðið á efri hæðinni að leggja kapal meðan reykurinn liðaðist upp af öskubakkanum, er mynd sem mér dettur alltaf fyrst í hug varðandi tengdamóður mína. Mig minnir að hún hafi einhverntíma hætt að reykja, en þar sem henni var fyrirmunað að segja ósatt, þar sem svipbrigðin komu upp um hana, tókst henni ekki að fela það þegar hún sprakk á limminu og fór að reyna að reykja í laumi.


Eftir að starfsævinni utan heimilis lauk fór konan að taka þátt í starfi eldri borgara í Kópavogi, stundaði sund og spil svo lengi sem heilsan leyfði. 
Kapla lagði hún og ég held bara að þegar upp var staðið hafi kapall lífs hennar gengið upp. Að því búnu kvaddi hún í rólegheitum, 85 ára að aldri, þann 15. október, 2005.


Ég æt fylgja hér með minningargrein sem ég skrifaði á sínum tíma. 

Þegar maður er orðinn 85 ára er svo sem við öllu að búast. Undir það síðasta var eins og Bubba teldi sig vera búna að neyta fylli sinnar af þeim skammti sem hún hlaut af gnægtaborði jarðlífsins. Hún var líklegast tilbúin þegar kom að kveðjustund. Þeir sem eftir lifa þurfa að sætta sig orðinn hlut þótt það geti verið sárt um stund. Þeirra upplifun af ömmu í Kópavogi breytist í góðar minningar og þakklæti fyrir samfylgdina.

Það er ekki annað hægt að segja en að tengdamamma hafi farið hljótt um jarðlífið; giftist Valda sínum og saman komu þau 4 dætrum á legg við Álfhólsveginn í Kópavogi. Hún vann lengst af starfsævinnar við verslun og þegar starfi hennar á vinnumarkaðnum lauk tók hún eins mikinn þátt í tómstundastarfi með eldri borgurum í Kópavogi og henni reyndist unnt. Hún fór reglulega á spilakvöld og var þátttakandi í sundhópi eins lengi og heilsan leyfði. Hún var mikil félagsvera og ég held að henni hafi þótt það miður síðustu mánuðina að geta ekki sinnt félagslífinu eins mikið og hún hefði kosið. Heima við stytti hún sér stundir með því að leggja kapal eða spila við þá sem komu í heimsókn og deildu með henni spilaáhuganum. Snjáður spilastokkurinn var alltaf á vísum stað.

Þegar reynt að gera manneskju einhver skil eftir 30 ára kynni, getur verið vandi að finna rétta flötinn, en það fyrsta sem mér kemur til hugar um persónueinkenni tengdamömmu er, að mér finnst hún hafa verið hálfgerður grallari. Ekki veit ég nákvæmlega hversvegna þessi mynd birtist mér; líklegast þó í tengslum við umræður okkar um menn og málefni gegnum árin. Hún var alltaf tilbúin til að fjalla um stjórnmálaástandið á hverjum tíma; oft lét hún gamminn geisa í þeim efnum og í þeirri umræðu hallaði á hægri öflin og peningahyggjuna í samfélaginu.

Almennt held ég að megi segja að Bubba hafi átt góða ævi, þrátt fyrir að hún hafi fengið sinn skerf af erfiðum áföllum. Þau hjónin misstu tvö börn við fæðingu og það hefur tekið á þegar bóndinn veiktist alvarlega á blómaskeiði lífsins og hún þurfti að sjá um öll mál á stóru heimili.

Ég heyrði Bubbu aldrei hafa mörg orð um byrðar sem voru lagðir á herðar henni, enda má segja að þegar hún stendur upp frá borðinu og vaskar upp eftir borðhaldið, geti hún bara verið stolt af afkomendunum 39, tengdabörnunum og honum Valda sínum, sem hún gekk með í gegnum súrt og sætt í ríflega sextíu ár.

Blessuð sé minning Guðbjargar Jónsdóttur.

02 júní, 2020

Aldarminning 3 (2)

Framhald af Aldarminning 3 (1)
Æska og unglingsár
Ég tók mig nú til og leitaði í kirkjubækur til að átta mig á hvernig leið tengdamóður minnar lá þar til hún hleypti heimdraganum og hélt suður á bóginn.  Hún var fædd í Fljótunum þann 3. júní, 1920, en fjölskyldan er skráð til heimilis á Eyrargötu 14 á Siglufirði í desember það ár. Í næstu skráningu sem ég fann fjölskylduna þá bjó hún í Einarshúsi á Sauðárkróki frá 1925 til 1927 og síðan í nýju húsi sem bar nafnið Hestur í þeim bæ til í það minnsta 1938. Bubba fór hinsvegar suður 1937 og var þá skráð til heimilis á Leifsgötu 13.
 

Ekki ætla ég að þykjast vita hvaða ástæður lágu að baki því að hún flutti suður, sautján ára gömul, en reikna með að það hafi tengst vinnu af einhverju tagi.

Borgarstúlkan  

Hún var í Reykjavík þegar stríðið skall á í Evrópu, svo mikið veit ég. Hagaði lífi sínu þar, væntanlega ekki ósvipað því sem ungt fólk gerði. Af þessu fer ekki sögum, í það minnsta eru þær fjarri því að vera til í mínu höfði. Ég legg ekki í að leita í kirkjubókum Reykavíkurprófastsdæmis frá þessum tíma 
Það fer hinsvegar ekkert á milli mála þegar börn fæðast, því það er skráð í bak og fyrir  og þannig var það að Bubba eignaðist dóttur í júlí, 1942, sem hlaut nafnið Pálína. Ekki geri ég ráð fyrir að það hafi reynst henni auðvelt, frekar en öðrum konum á þeim tíma, að ala barn utan hjónabands, en hvað veit ég svo sem um það? 

Hjónaband og börn
Með tveggja ára dóttur sína gekk hún að eiga framtíðar eiginmanninn Þorvald Runólfsson, í júni, nokkrum dögum áður en lýðveldi var stofnað á Íslandi. Hann gekk dóttur Bubbu í föður stað og þau héldu saman inn í framtíðina, sem ekki reyndist nú verð alveg áfallalaus.
Eins og gengur og gerist í lífinu, fylgdi það hjónabandi þeirra Bubbu og Valda, að skella sér í barneignir. Fyrsta barn þeirra, sem var stúlka, fæddist 28. júlí, 1946. Hún lést sama dag.
Annað barn þeirra, drengur, fæddist 28. mars, 1948. Hann lést fjórum dögum síðar, þann 8. mars.
Þessi fáu orð sem ég nota hér til að skrá þetta, tjá auðvitað ekki þá miklu sorg sem missir barnanna hlýtur að hafa verið.
Þriðja barnið eignuðust hjónin síðan í nóvember, 1952, dótturina Sóley Stefaníu, það fjórða í september, 1954, dótturina Auði og loks örverpið, sem leit dagsljósið í ágúst, 1956, dóttur sem hlaut nafnið Dröfn.
Þegar þarna var komið, voru þau flutt í húsið sem þau byggðu við Álfhólsveg 17 í Kópavogi, en það gerðu þau árið 1947. 

Erfiður tími enn
Undir lok sjöunda áratugsins (er mér sagt, en tíminn er ekki alveg á hreinu) fór Valdi að kenna sér alvarlegs meins, sem leiddi til þess að að þurfti að dvelja alllengi í Danmörku til lækninga. Þar með kom það í hlut Bubbu að ala önn fyrir dætrum sínum, þrem ungum og einni sem nálgaðist tvítugt. Ekki var um annað að ræða fyrir hana en að finna sér starf utan heimilis, auk þess að sjá um allt sem að laut að heimilisrekstrinum.  Ég fjölyrði ekkert um þetta, enda veit ég fátt og helsta heimild mín harla fáfróð líka, þó svo hún hafi nú tilheyrt dætrahópnum.
Valdi komst yfir veikindin, kom heim og tók til við að aka sendibíla, sem hann gerði æ síðan. Bubba sótti áfram vinnu sína í verslun sem kallaðist eða hét Kópur og stóð þar sem Víghólastígur og Brattabrekka mætast.

Þá rann upp minn tími

..... og....., jæja, ætli ég geymi það ekki um stund.

31 maí, 2020

Aldarminning 3 (1)

Það er eitthvað að byrja að líða á ævina þegar maður sest við að skrifa einhverskonar aldarminningu um foreldra sína og tengdaforeldra. Svona gengur þetta nú samt fyrir sig, þetta líf. Það er óumbreytanlega samtvinnað tímanum og þar með getur leiðin í gegnum það aðeins verið ein, frá upphafi til enda. Þetta vitum við allt fyrirfram.

Ég hef nú þegar sett niður í þessum fjölmiðli mínum punkta um ævir föður míns, Skúla Magnússonar og tengdaföður, Þorvaldar Runólfssonar. Nú er komið að því að fjalla lítillega um tengdamóður mína, sem hefði orðið 100 ára þann 3. júní, næstkomandi, en hún fæddist á þeim degi, árið 1920.


Guðbjörg Petrea Jónsdóttir, eða Bubba, eins og hún var alltaf kölluð, fæddist á Barði í Fljótum þann 3. júní árið 1920, sjöunda í röð 9 systkina. Hún var skírð á Barði þann 17. júní og hlaut nafnið Petrína Guðbjörg, samkvæmt kirkjubókum. Því hefur verið gaukað að mér að hún hafi einhverntíma látið hafa eftir sér, að hún hafi verið skírð Guðbjörg að fyrra nafni, en presturinn hafi skráð það vitlaust. Ekki nóg með þetta, heldur virðist nafnið Petrína í kirkjubókinni hafa breyst með árunum Í Petrea. Presturinn sem skírði og skráði nafnið í kirkjubókina virðist hafa verið sr. Stanley Guðmundsson eða Stanley Melax, en hann tók við Barðssókn þetta ár.


Í athugasemd í kirkjubókinni, þar sem greint er frá skírn Bubbu, segir: náðist ekki í annan karlvott, barnið var lasið og skírn mátti ekki dragast. Þar með voru þrír skírnarvottar: tvær konur og einn karl.

Foreldrar og systkini

Móðir Bubbu var Anna Egilsdóttir (1882-1959) 
Húsfreyja í Mósgerði í Flókadal, Skag. og síðar á Sauðárkróki. Húsfreyja á Sauðárkróki 1930 (Íslendingabók)
Faðir hennar var Jón Jónsson (1887-1961) 
Var á Arnarstöðum, Fellssókn, Skag. 1890. Bóndi í Mósgerði í Flókadal, Skag. Síðar verkamaður og beykir á Sauðárkróki. Verkamaður á Sauðárkróki 1930. (Íslendingabók).
Í kirkjubókinni sem birt er skjámynd úr hér að ofan, eru þau sögð vera "húshjón á Barði" árið sem Bubba fæddist. Þá höfðu þau þegar eignast sex börn og ætla ég að reyna að finna þeim stað hér fyrir neðan, eftir föngum, en upplýsingar um þau sem fædd voru fyrir 1920 er að finna í manntali frá því ári:

Áslaug (1913-2004) 
er skráð til heimilis að Bæ 2 í Hofshreppi í Skagafjarðarsýslu.
Hjú í Bæ, Hofssókn, Skag. 1930. Fósturfor: Stefán Jóhannesson og Hólmfríður Margrét Þorsteinsdóttir. Ólst upp frá fjögurra ára aldri hjá Stefáni Jóhannessyni f. 1874 hálfbróður móður sinnar. (Íslendingabók)
Hólmfríður (1914-1993) 
er skráð til heimilis með foreldrum sínum að Eyrargötu 17 á Siglufirði, Siglufjarðarkaupstað.
Vinnukona á Sauðárkróki 1930. Síðast bús. á Sauðárkróki. (Íslendingabók)

Jóhannes Pétur (1915-1967) 
er skráður til heimilis að Syðra Ósi í Hofshreppi í Skagafjarðarsýslu.
Ólst að miklu leyti upp hjá móðurbróður sínum Jóhannesi Egilssyni f. 1885. Verkamaður og sjómaður í Reykjavík. Ókvæntur og barnlaus. (Íslendingabók)
Guðvarður Sigurberg (1916-1996) 
er skráður til heimilis að Steinavöllum í Haganeshreppi í Skagafjarðarsýslu. þar ber hann nafn þáverandi bónda á bænum, sem hét Guðvarður Sigurberg Pétursson. 
Málarameistari á Siglufirði og Akureyri. Var á Illugastöðum, Knappstaðasókn, Skag. 1930. Fósturfor: Guðvarður Pétursson og María Ásgrímsdóttir. Verkamaður á Siglufirði 1946. Síðast bús. á Akureyri. (Íslendingabók)
Ingibjörg Egilsína (1917-1989) 
er skráð til heimilis með foreldrum sínum að Eyrargötu 17 á Siglufirði, Siglufjarðarkaupstað.
Var á Sauðárkróki 1930. Húsfreyja og verkakona í Hafnarfirði. (Íslendingabók)

Sigvaldi (1919-1993) 
er skráður til heimilis með foreldrum sínum að Eyrargötu 17 á Siglufirði, Siglufjarðarkaupstað.
Var á Sauðárkróki 1930. Vinnumaður víða. Sjómaður á Dalvík og síðar í Reykjavík. Síðast bús. í Reykjavík. (Íslendingabók)
Marsibil (1923-1991) 
fæddist á Sauðárkróki. Hún var húsmóðir í Hafnarfirði og á Lambeyri í Tálknafirði. (Íslendingabók)
Þóra (1926-1997) 
var á Sauðárkróki 1930. Húsfreyja á Hallgilsstöðum í Hörgárdal í Arnarneshreppi í Eyjafjarðarsýslu. Hún var síðast búsett á Akureyri. (Íslendiingabók)

Sex af þessum níu systkinum ólust upp með foreldrum sínum, síðast á Sauðárkróki. Fátt veit ég um þessi fjölskyldumál og því bera fæst orð minnsta ábyrgð. Ég verð samt að draga þá ályktun að ekki hafi verið mulið undir þessi börn.

Krákustaðaætt
Í manntali 1850 Bjuggu á Krákustöðum í Hrolleifsdal í Skagafjarðarsýslu, hjónin Þorsteinn Þórðarson og Guðrún Guðvarðardóttir. Á bænum var þá tvítugur sonur þeirra, Guðvarður (1831-1905) og einnig léttadrengur, tvö tökubörn og vinnukona.
Guðvarður tók svo við búinu á Krákustöðum og kvæntist Sigurbjörgu Margrétardóttur (1824-1900).
Eitt átta barna þeirra var Hólmfríður (1859-1942). Hún eignaðist barn 1887, með manni að nafni Jón Jónsson (1860-1941). Ári síðar giftist hún eiginmanninum Pétri Péturssyni og eignaðist með honum fjögur börn, en sonurinn sem hún hafði eignast með Jóni Jónssyni hlaut nafnið Jón og var þá auðvitað Jónsson. Það var einmitt þessi Jón Jónsson sem eignaðist Bubbu og systkin hennar með konu sinni Önnu Egilsdóttur.
Flókið? Nei, það held ég ekki.
Frá þeim Þorsteini og Guðrúnu á Krákustöðum er sprottin Krákustaðaætt.

Hér eru nokkrar myndir frá því þegar afkomendur vitjuðu Krákustaða 2008.
Fyrst kort af þessum afskekkta dal, Hrollleifsdal.

 
Svo myndir, sem segja það sem hægt er að segja, aðallega af afkomendunum að drekka í sig anda liðins tíma og reyna að sjá fyrir sér hvernig lífið hefur verið á þessum afskekkta stað á 19. öldinni. Þar er ekki margt sem minnir á það líf sem þarna fékk að verða til og dafna, áður en það dreifðist um land allt og víðar.





framhald ......

20 október, 2019

Ég vissi það reyndar alltaf.....

Bubba og Valdi með dætrum sínum árið 2000
f.v. Pálína, Auður, Dröfn og Sóley 
...að ég væri einhverskonar snillingur. Þannig hefur mér stundum þótt ég vera bara nokkuð glúrinn á ýmsum sviðum, en síðan gleymt því jafnharðan. Síðan tínist eitt og eitt snilldarverkið upp úr lúnum skúffum, þar sem það hafði þá legið í einhverja áratugi, grafið og gleymt.
Svo er um þetta sem ég ætla nú að skella hér inn til varðveislu í skýinu, hvað svo sem er nú á það að treysta.

Tengdaforeldrar mínir þau Guðbjörg Petrea Jónsdóttir (Bubba)(1920-2005) og Þorvaldur Runólfsson (1920-2007) náðu áttræðisaldri aldamótaárið 2000.
Fyrir veisluna, sem Bubbu var haldin þessu tilefni, æxlaðist það svo, að mér var falin einhverskonar veislustjórn, sem ég tók auðvitað alvarlega, rétt eins og allt sem ég tek mér fyrir hendur. Svo alvarlega tók ég þetta hlutverk mitt, að ég samdi mikla drápu, sem átti í upphafi að fjalla um ævi  afmælisbarnsins, en gerði það svo ekki í raun, undir  bragarhætti sem ég held ég kalli bara Pálshátt og sem gæti orðið góð fyrirmynd mörgu ungskáldinu.
Hvað svo sem má um það segja, þá kemur hér drápan/bragurinn/ljóðið, eins og hún/hann/það fannst neðst í gamalli kommóðuskúffu:

1. þáttur

Kópavogur, þar sem kúrir hver við sitt,
þangað fór ég til að nálgast mitt.
Sú ferð var farin fyrir löngu.

Fyrir góðum fjórðungi aldar ég fann
það fljóð er til fylgdar mér ég vann
og foreldrarnir fylgdu með.

Sína framtíð saklaus sveitapiltur síðan skóp
með sendibílstjóranum og afgreiðslustúlkunni í Kóp
og yngstu dótturinni á bænum.

Eldri systur, ekki færri en eina' og tvær
sá ég síðla kvölds í gær
á heimleið af ónefndum stað, - en ekki meira um það.

Guðbjörg Petrea gengur hér um sali
svo hnarreist að það tekur engu tali
og skemmtir sér.

Hvert örstutt spor á ævilöngum vegi
færði hana fram að þessum degi.
Átta tugir ára eru að baki - sem er bara vel af sér vikið.

Sögu hennar segja má svo gjörla
því í ljóði þessu má engan veginn örla
á rangfærslum af neinu tagi.

Um æði margt í lífi hennar veit ég ekki
og er rangt fer með þá kastast mun í kekki
milli mín og áðurnefndra Þorvaldsdætra.

Upp skal þó dregin mynd af lífi
þó ekki teljist nákvæm öllum lýði
og jafnvel í mörgum atriðum röng.

Verði svo, þá vil ég fá að heyra
og ekki mun þá kveða um það meira
Nú er tíminn til að stöðva þennan lestur finnist mönnum nóg komið af svo góðu.

2. þáttur

Bubba fór í bæinn og Bubba fór í búð.
Hún valdi Valda og varð þá stillt og prúð.
Með honum hefur arkað æviveg
og arkar enn, svo undur skemmtileg.

Fyrir lá að fara´ í gegnum lífið,
en ekki veit ég hvort það fékk á vífið
að eignast dætur, eina, tvær og þrjár og fjórar,
sem allar eru orðnar stórar.

Gestir myndu ganga héðan burtu
og geysast heim og fá sér kalda sturtu,
ef bragur yrði borinn hér á borð
um dætur upp á fleiri þúsund orð.

Bíða mun slíkur bragur betri tíma,
enda mikil ógnar ofboðs glíma.
Eflaust mun hann aldrei ná í höfn,
Auður, nei Sóley, nei Palla, nei Dröfn.    (þetta var oft viðkvæðið hjá Bubbu þegar hún var að ávarpa einhverja dætranna)

Hvert örstutt spor í átt á Álfhólsvegi
var örstutt spor í átt að þessum degi.
Verkið dætra virtist ekki létt
og yfirborðið sýndist fellt og slétt.

Undirbúning hófu allar fyrir löngu
um höf og lönd var staðið mjög í ströngu.   (ein dætranna bjó í Danmörku)
Um málið var talað og talað og talað,
og talað og talað og talað og talað.

Í dag er stund, í dag er tími góður
til að fagna traustri tengdamóður,
með flatkökum og frómas fylltum maga
og iðrumst síðar, það er önnur saga.

Til lukku með lífið, frú mín góð,
hér læt ég flakka þetta fagra ljóð.
Áfram munum bera lífsins okið
en ljóðinu er, í það minnsta, hér með lokið.

------
Ég segi ekki meira!

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...