Framhald af Aldarminning 3 (1) og Aldarminning 3 (2).
Í dag er öld liðin frá því tengdamóðir mín fæddist norður í Fljótum. Það er ástæða til að óska afkomendum hennar til hamingju með líf hennar og þennan dag.
Ég kom til sögunnar, sagði ég. Það gerðist um miðjan áttunda áratuginn, þegar Bubba var hálf sextug, á besta aldri, sem sagt. Það fer næstum um mig að hugsa til þess að hún var þá rúmum áratug yngri en ég nú. Á þeim tíma var lífið komið í all fastar skorður á Álfhólsvegi 17A. Dæturnar komnar, eða næstum komnar á skrið með eigið líf, Valdi keyrði sendibílinn sinn og Bubba sótti vinnu í Kóp, sem ég tel að hafi heitið Verslunin Vogar og var á Víghólastíg 15. Ég minnist hennar fyrst við að elda mat, vaska upp, reykja Camel og leggja kapal - og vera fyndin. Mér fannst hún vera orðin rígfullorðin, sem er eðlilegt í ljósi þess, að þeim yngri finnst þeir eldri alltaf vera miklu eldri en raunin er.
Samskipti okkar við Valda og Bubbu voru mest í formi heimsókna, enda bjuggum við einhversstaðar "langt uppi í sveit" að mestu, utan þau fjögur ár sem við gistum höfuðborgarsvæðið milli áranna 1975 og 1979.
Bubba við eldhúsborðið á efri hæðinni að leggja kapal meðan reykurinn liðaðist upp af öskubakkanum, er mynd sem mér dettur alltaf fyrst í hug varðandi tengdamóður mína. Mig minnir að hún hafi einhverntíma hætt að reykja, en þar sem henni var fyrirmunað að segja ósatt, þar sem svipbrigðin komu upp um hana, tókst henni ekki að fela það þegar hún sprakk á limminu og fór að reyna að reykja í laumi.
Kapla lagði hún og ég held bara að þegar upp var staðið hafi kapall lífs hennar gengið upp. Að því búnu kvaddi hún í rólegheitum, 85 ára að aldri, þann 15. október, 2005.
Ég æt fylgja hér með minningargrein sem ég skrifaði á sínum tíma.
Þegar maður er orðinn 85 ára er svo sem við öllu að búast. Undir það síðasta var eins og Bubba teldi sig vera búna að neyta fylli sinnar af þeim skammti sem hún hlaut af gnægtaborði jarðlífsins. Hún var líklegast tilbúin þegar kom að kveðjustund. Þeir sem eftir lifa þurfa að sætta sig orðinn hlut þótt það geti verið sárt um stund. Þeirra upplifun af ömmu í Kópavogi breytist í góðar minningar og þakklæti fyrir samfylgdina.
Það er ekki annað hægt að segja en að tengdamamma hafi farið hljótt um jarðlífið; giftist Valda sínum og saman komu þau 4 dætrum á legg við Álfhólsveginn í Kópavogi. Hún vann lengst af starfsævinnar við verslun og þegar starfi hennar á vinnumarkaðnum lauk tók hún eins mikinn þátt í tómstundastarfi með eldri borgurum í Kópavogi og henni reyndist unnt. Hún fór reglulega á spilakvöld og var þátttakandi í sundhópi eins lengi og heilsan leyfði. Hún var mikil félagsvera og ég held að henni hafi þótt það miður síðustu mánuðina að geta ekki sinnt félagslífinu eins mikið og hún hefði kosið. Heima við stytti hún sér stundir með því að leggja kapal eða spila við þá sem komu í heimsókn og deildu með henni spilaáhuganum. Snjáður spilastokkurinn var alltaf á vísum stað.
Þegar reynt að gera manneskju einhver skil eftir 30 ára kynni, getur verið vandi að finna rétta flötinn, en það fyrsta sem mér kemur til hugar um persónueinkenni tengdamömmu er, að mér finnst hún hafa verið hálfgerður grallari. Ekki veit ég nákvæmlega hversvegna þessi mynd birtist mér; líklegast þó í tengslum við umræður okkar um menn og málefni gegnum árin. Hún var alltaf tilbúin til að fjalla um stjórnmálaástandið á hverjum tíma; oft lét hún gamminn geisa í þeim efnum og í þeirri umræðu hallaði á hægri öflin og peningahyggjuna í samfélaginu.
Almennt held ég að megi segja að Bubba hafi átt góða ævi, þrátt fyrir að hún hafi fengið sinn skerf af erfiðum áföllum. Þau hjónin misstu tvö börn við fæðingu og það hefur tekið á þegar bóndinn veiktist alvarlega á blómaskeiði lífsins og hún þurfti að sjá um öll mál á stóru heimili.
Ég heyrði Bubbu aldrei hafa mörg orð um byrðar sem voru lagðir á herðar henni, enda má segja að þegar hún stendur upp frá borðinu og vaskar upp eftir borðhaldið, geti hún bara verið stolt af afkomendunum 39, tengdabörnunum og honum Valda sínum, sem hún gekk með í gegnum súrt og sætt í ríflega sextíu ár.
Blessuð sé minning Guðbjargar Jónsdóttur.