31 maí, 2020

Aldarminning 3 (1)

Það er eitthvað að byrja að líða á ævina þegar maður sest við að skrifa einhverskonar aldarminningu um foreldra sína og tengdaforeldra. Svona gengur þetta nú samt fyrir sig, þetta líf. Það er óumbreytanlega samtvinnað tímanum og þar með getur leiðin í gegnum það aðeins verið ein, frá upphafi til enda. Þetta vitum við allt fyrirfram.

Ég hef nú þegar sett niður í þessum fjölmiðli mínum punkta um ævir föður míns, Skúla Magnússonar og tengdaföður, Þorvaldar Runólfssonar. Nú er komið að því að fjalla lítillega um tengdamóður mína, sem hefði orðið 100 ára þann 3. júní, næstkomandi, en hún fæddist á þeim degi, árið 1920.


Guðbjörg Petrea Jónsdóttir, eða Bubba, eins og hún var alltaf kölluð, fæddist á Barði í Fljótum þann 3. júní árið 1920, sjöunda í röð 9 systkina. Hún var skírð á Barði þann 17. júní og hlaut nafnið Petrína Guðbjörg, samkvæmt kirkjubókum. Því hefur verið gaukað að mér að hún hafi einhverntíma látið hafa eftir sér, að hún hafi verið skírð Guðbjörg að fyrra nafni, en presturinn hafi skráð það vitlaust. Ekki nóg með þetta, heldur virðist nafnið Petrína í kirkjubókinni hafa breyst með árunum Í Petrea. Presturinn sem skírði og skráði nafnið í kirkjubókina virðist hafa verið sr. Stanley Guðmundsson eða Stanley Melax, en hann tók við Barðssókn þetta ár.


Í athugasemd í kirkjubókinni, þar sem greint er frá skírn Bubbu, segir: náðist ekki í annan karlvott, barnið var lasið og skírn mátti ekki dragast. Þar með voru þrír skírnarvottar: tvær konur og einn karl.

Foreldrar og systkini

Móðir Bubbu var Anna Egilsdóttir (1882-1959) 
Húsfreyja í Mósgerði í Flókadal, Skag. og síðar á Sauðárkróki. Húsfreyja á Sauðárkróki 1930 (Íslendingabók)
Faðir hennar var Jón Jónsson (1887-1961) 
Var á Arnarstöðum, Fellssókn, Skag. 1890. Bóndi í Mósgerði í Flókadal, Skag. Síðar verkamaður og beykir á Sauðárkróki. Verkamaður á Sauðárkróki 1930. (Íslendingabók).
Í kirkjubókinni sem birt er skjámynd úr hér að ofan, eru þau sögð vera "húshjón á Barði" árið sem Bubba fæddist. Þá höfðu þau þegar eignast sex börn og ætla ég að reyna að finna þeim stað hér fyrir neðan, eftir föngum, en upplýsingar um þau sem fædd voru fyrir 1920 er að finna í manntali frá því ári:

Áslaug (1913-2004) 
er skráð til heimilis að Bæ 2 í Hofshreppi í Skagafjarðarsýslu.
Hjú í Bæ, Hofssókn, Skag. 1930. Fósturfor: Stefán Jóhannesson og Hólmfríður Margrét Þorsteinsdóttir. Ólst upp frá fjögurra ára aldri hjá Stefáni Jóhannessyni f. 1874 hálfbróður móður sinnar. (Íslendingabók)
Hólmfríður (1914-1993) 
er skráð til heimilis með foreldrum sínum að Eyrargötu 17 á Siglufirði, Siglufjarðarkaupstað.
Vinnukona á Sauðárkróki 1930. Síðast bús. á Sauðárkróki. (Íslendingabók)

Jóhannes Pétur (1915-1967) 
er skráður til heimilis að Syðra Ósi í Hofshreppi í Skagafjarðarsýslu.
Ólst að miklu leyti upp hjá móðurbróður sínum Jóhannesi Egilssyni f. 1885. Verkamaður og sjómaður í Reykjavík. Ókvæntur og barnlaus. (Íslendingabók)
Guðvarður Sigurberg (1916-1996) 
er skráður til heimilis að Steinavöllum í Haganeshreppi í Skagafjarðarsýslu. þar ber hann nafn þáverandi bónda á bænum, sem hét Guðvarður Sigurberg Pétursson. 
Málarameistari á Siglufirði og Akureyri. Var á Illugastöðum, Knappstaðasókn, Skag. 1930. Fósturfor: Guðvarður Pétursson og María Ásgrímsdóttir. Verkamaður á Siglufirði 1946. Síðast bús. á Akureyri. (Íslendingabók)
Ingibjörg Egilsína (1917-1989) 
er skráð til heimilis með foreldrum sínum að Eyrargötu 17 á Siglufirði, Siglufjarðarkaupstað.
Var á Sauðárkróki 1930. Húsfreyja og verkakona í Hafnarfirði. (Íslendingabók)

Sigvaldi (1919-1993) 
er skráður til heimilis með foreldrum sínum að Eyrargötu 17 á Siglufirði, Siglufjarðarkaupstað.
Var á Sauðárkróki 1930. Vinnumaður víða. Sjómaður á Dalvík og síðar í Reykjavík. Síðast bús. í Reykjavík. (Íslendingabók)
Marsibil (1923-1991) 
fæddist á Sauðárkróki. Hún var húsmóðir í Hafnarfirði og á Lambeyri í Tálknafirði. (Íslendingabók)
Þóra (1926-1997) 
var á Sauðárkróki 1930. Húsfreyja á Hallgilsstöðum í Hörgárdal í Arnarneshreppi í Eyjafjarðarsýslu. Hún var síðast búsett á Akureyri. (Íslendiingabók)

Sex af þessum níu systkinum ólust upp með foreldrum sínum, síðast á Sauðárkróki. Fátt veit ég um þessi fjölskyldumál og því bera fæst orð minnsta ábyrgð. Ég verð samt að draga þá ályktun að ekki hafi verið mulið undir þessi börn.

Krákustaðaætt
Í manntali 1850 Bjuggu á Krákustöðum í Hrolleifsdal í Skagafjarðarsýslu, hjónin Þorsteinn Þórðarson og Guðrún Guðvarðardóttir. Á bænum var þá tvítugur sonur þeirra, Guðvarður (1831-1905) og einnig léttadrengur, tvö tökubörn og vinnukona.
Guðvarður tók svo við búinu á Krákustöðum og kvæntist Sigurbjörgu Margrétardóttur (1824-1900).
Eitt átta barna þeirra var Hólmfríður (1859-1942). Hún eignaðist barn 1887, með manni að nafni Jón Jónsson (1860-1941). Ári síðar giftist hún eiginmanninum Pétri Péturssyni og eignaðist með honum fjögur börn, en sonurinn sem hún hafði eignast með Jóni Jónssyni hlaut nafnið Jón og var þá auðvitað Jónsson. Það var einmitt þessi Jón Jónsson sem eignaðist Bubbu og systkin hennar með konu sinni Önnu Egilsdóttur.
Flókið? Nei, það held ég ekki.
Frá þeim Þorsteini og Guðrúnu á Krákustöðum er sprottin Krákustaðaætt.

Hér eru nokkrar myndir frá því þegar afkomendur vitjuðu Krákustaða 2008.
Fyrst kort af þessum afskekkta dal, Hrollleifsdal.

 
Svo myndir, sem segja það sem hægt er að segja, aðallega af afkomendunum að drekka í sig anda liðins tíma og reyna að sjá fyrir sér hvernig lífið hefur verið á þessum afskekkta stað á 19. öldinni. Þar er ekki margt sem minnir á það líf sem þarna fékk að verða til og dafna, áður en það dreifðist um land allt og víðar.





framhald ......

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...