30 maí, 2020

Þetta smáa

Við fD erum flutt úr Kvistholti, sem er í sjálfu sér frétt, allavega hvað okkur varðar, skiptir aðra líklega minna máli.
Það er nefnilega þannig, að fólk flytur og sjaldnast telst það einhver stórfrétt.
Þrátt fyrir lítið fréttagildi þessara umskipta, eða umturnunar á lífi okkar, má halda því fram að hvert einasta litla skref, eða atriði sem tengist þessum flutningum, sé þess virði að halda því til haga.

Þegar maður hverfur úr talsvert stóru einbýlishúsi eftir tæplega fjögurra áratuga dvöl og tekur sér bólsetu í tiltölulega lítilli blokkaríbúð í öðru sveitarfélagi, er að ýmsu að hyggja.
Verkefnið sem við blasir, er að finna öllu því stað , sem ekki hlaut þau örlög að hverfa ofan í gám í Vegholtinu. Þetta verkefni er stærra en margur kann að hyggja, ekki síst þegar um er að ræða að koma fyrir því sem búrið og eldhússkáparnir í Kvistholti geymdu. Vissulega eru skáparnir margir og rúmgóðir á Austurveginum á Selfossi, en það, í sjálfur sér leysir ekki þann vanda sem við blasir: að koma þar öllu fyrir, þannig að vel sé aðgengilegt og henti íbúunum, helst ekki síður en áður var.

Ég veit það, af áratuga reynslu, að ég telst ekki hæfur til ákvarðana af því tagi sem þarna er um að ræða. Hefði ég farið að raða í skápana, hefði það leitt til allskyns spurninga og upphrópana, eins og: Afhverju er þetta hér? Hvernig datt þér í hug að setja þetta hér? Það er alveg glatað að hafa þetta hér!
Ég veit nú ekki hvað þú varst að pæla, eiginlega!
Af þessum sökum, hallaði ég mér í sófann, meðan fD tíndi upp úr flutningagrindunum og inn í skápana eftir einhverju kerfi, sem hún hafði búið til í höfði sér og sem ég vissi ekkert um hvert var, fyrr en eftir á. Þessi aðgerð tók dágóðan tíma og mér fór jafnvel að renna í brjóst í sófanum meðan hún stóð yfir.
Svo lauk verkinu.
Svo kom að því að mig langaði í kaffi og eins og hver maður getur ímyndað sér fann ég það hvergi. Ég opnaði skáp eftir skáp, eftir skáp, bæði útdregna og með hurðum, en ekkert fann ég kaffið. Leitinni lauk þannig að ég stóð þarna fyrir framan óræða eldhúsinnréttinguna og braut heilann með það að markmiði að freista þess að komast inn í hugarfylgsni fD: Hvar er líklegast að hún hefði sett kaffið?
"Hvað vantar þig?" hljómaði spurningin upp úr kaplinum.
"Mig vantar kaffið. Hvar tókst þér eiginlega að koma því fyrir?"
"Nú, auðvitað er það þarna í efri skápnum vinstra megin við eldavélina!"
Hvar annarsstaðar svo sem?
Ég fékk svo útskýringu að kerfinu sem fD hafði beitt við að raða í skápana (allavega sem eru í þeirri hæð sem hún getur teygt sig í).
Kerfið hljóðar, í sem stystu máli upp á, að allt var sett á hlutfallslega sama stað og það hafði verið í Kvistholti. Það tók mig ekki langan tíma að átta mig á ýmsum göllum á þessu kerfi. Bæði er það svo, að í Kvistholti er vaskurinn vinstra megin við eldavélina, öfugt við Austurveg og að allt það sem var í búrinu í Kvistholti þurfti nýjan og fordæmalausan stað á nýjum stað.

Þetta kerfi á sjálfsagt eftir að venjast, en enn þarf ég að beita talsverðri hugarleikfimi til að komst hjá því að opna alla skápa í eldhúsinnréttingunni ef mig vantar eitthvað af einhverju.

Svo er það þetta með vangavelturnar um það hvort rafmagnið á Selfossi fari hægar en rafmagnið í Kvistholti, en þær vöknuðu þar sem beðið var eftir að suðan kæmi upp í hraðsuðukönnunni.

--------

Í gær gengum við frá kaupsamningi vegna sölu á Kvistholti og afhentum nýjum eigendum formlega.  Kaupendurnir eru þau Anna Margrét Elíasdóttir og Árni Ingason, en þau flytjast úr Kópavogi á þann fagra og ljúfa stað, sem þorpið í skóginum er.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...