23 maí, 2020

Tími breytinga


Fardagar voru þeir dagar ársins sem fólk skyldi flytjast búferlum af einni jörð á aðra og átti það fyrst og fremst við um leiguliða. Þeir voru frá fimmtudegi í sjöundu viku sumars íslenska misseristalsins á tímabilinu 31. maí til 6. júní í Nýja Stíl og lauk með sunnudegi. Voru þeir því um miðjan skerplu samkvæmt misseristalinu og lok vors og upphaf sumars samkvæmt Snorra-Eddu.
Ekki er vitað hvenær þessi siður var fyrst tekin upp það er að allir skyldu flytjast búferlum af einni jörð á aðra á sama tíma árs sem þó augljóslega er mikið hagræði af. En svo gömul er þessi hefð að fardagar eru nefndir í íslenskum fornritum og kemur þar fram að þeir tíðkuðust einnig í Noregi og líklega víðar og voru því ekki bara bundnir við Ísland. /íslenskt alamank
Kvistholt 1984
Lóðina fengum við þegar foreldrar mínir afsöluðu sér svæðinu sem þau höfðu þurft að taka á leigu þegar þau gerðu Hveratún að lögbýli, eftir að þau komu sér þar fyrir 1946. Þarna byggðum við okkur síðan hús  sem við fluttum í haustið 1984 og  1988 byggðum við þarna gróðurhús.
Þetta var nú þá.

Svo liðu árin og börnin uxu úr grasi, hægt og hljótt og flugu síðan úr hreiðrinu eitt af öðru og að því kom að við hættum að hafa þörf fyrir gróðurhúsið og stóran hluta íbúðarhússins.
Þarna vorum við þá orðin ein eftir í talsvert stóru einbýlishúsi, eigendur gróðurhúss, sem við vorum hætt að nota. Það var í rauninni ekkert sem átti að koma í veg fyrir að við kæmum okkur í hæfilegra húsnæði, þar sem við þyrftum ekki að ganga framhjá tómum herbergjum til að komast á milli þeirra hluta hússins sem við þó notuðum. Ég held að þetta sé saga margra, einfaldlega vegna þess að svona gengur þetta líf nú fyrir sig.
fD byggir gróðurhús
Við vildum í rauninni ekki fara úr Laugrási - ég vegna þess að þar fæddist ég og ólst upp og  fD, sem hafði sætt sig við að setjast þar að með mér, hafði fest þar talsvert djúpar rætur.
Það hefur ekki farið á milli mála, að Laugarás skipti og skiptir okkur miklu máli og því sambandi er ekki lokið.

Það tók okkur nokkur ár að komast að þeirri niðurstöðu, að stefna að því að færa okkur um set og ýmislegt kom til greina, svo sem. Stærsta ákvörðunin var að fara, hin var einhvernveginn auðveldari, þar sem fD hafði ákveðnar skoðanir á því hvar hún vildi ekki koma sér fyrir. Ég greini ekki frá nöfnum þeirra bæja vítt og breitt um landið, sem ég hef stungið upp á, en sem hefur jafnharðan hefur verið hafnað. Það geri ég þeirra vegna, enda ágætis bæir, flestir hverjir.

Það varð á endanum niðurstaða um það, þegar skynsemin og raunsæið hafði náð yfirhöndinni, að leggja í það ferli sem sala á svona hjartastað felur í sér. Það ferli hefur tekið meira á en ég, í það minnsta, hef tjáð mig mikið um. Þetta reyndist verða tími biðar og óvissu og lengri en við höfðum gert ráð fyrir í upphafi. Skildum bara ekkert í fólki að stökkva ekki á þá dásemd sem þarna er um að ræða.  Auðvitað hafði maður líka skilning á því að svona kaup færi enginn út í nema að vel athuguðu máli og allt það.

Nýtt heimili.
Nú erum við flutt með hafurtask okkar á staðinn sem ég hef oft kallað höfuðstað Suðurlands. Þessir fyrstu dagar hérna eru talsvert óraunverulegir. Það er eins og við séum bara á ferðalagi, en munum síðan í lok þess, snúa aftur heim. Það er hinsvegar sannarlega ekki svo. Hér erum við í óða önn að koma okkur fyrir og ég stelst í smá pistlaskrif til að hvíla hugann frá einhverjum verklegum framkvæmdum.
Svo þarf að fara í búð, sem er með fyrirkomulagi sem er nokkuð ný reynsla. Þó hér séu uppi hugmyndir um að haga búðarferðum bara eins og þegar við vorum í Kvistholti, þegar farið var í kaupstað einu sinni í viku að jafnaði, er óljóst enn hvernig fer með það. Ég bíð spenntur framtíðarinnar að þessu leyti.

Höfundur á ballárum. Mynd: Eiríkur jónsson
Hvernig er það svo að vera orðinn Selfyssingur? Það er góð spurning, sem ég treysti mér ekki til að svara sjálfum mér, enn sem komið er.  Á Mánaböllunum í gamla daga voru það alltaf Selfyssingar sem stóðu fyrir slagsmálunum (þannig var allavega rætt um það). Ég hef ekki rekist á slagsmálafólk hér, ennþá, og reikna ekkert sérstaklega með að svo verði. Margt ágætis fólk býr á Selfossi (ég segi það ekki vegna þess að ég óttast að verða barinn) - í það minnsta það fólk sem ég þekki til hér.
Vissulega verður maður minni hérna - með þvi að flytja úr 120 manna þorpi í tíuþúsund manna bæ. Líklega má telja það bara harla jákvætt, að mörgu leyti.



Svo er það þetta með fuglana á pallinum.
Þeirra mun ég sakna talsvert, söngvanna inn á milli trjánna, slagsmála þeirra á fóðurpallinum, tístsins í ungunum á vorin, varnaðarhrópa þrastanna þegar köttur nálgast, ánægjusöngvanna þegar þeir sitja mettir uppi í tré eftir góða máltíð, dynsins sem hundruð snjótittlinga valda þegar þeir taka á loft, allir sem einn ......
Ég þarf bara að finna mér nýja fugla og er þegar kominn með lílega kandídata. Framhjá hafa, síðustu daga, streymt glæsikerrur með splunkuný hjólhýsi og svei mér ef það er ekki bara nokkuð gaman að fylgjast með þegar nýju hjólhýsaeigendurnir reyna að komast áfram í umferðinni fyrir utan gluggann minn.
Hvert skyldu þeir vera að fara?
Ætli þeir komi við í Bónus?
Hvað ætli svona hjólhýsi kosti?
Hve miklu máli skyldi það skipta stolta eigendurna, að vera með svona falleg hjólhýsi í eftirdragi?  Svona er hægt að velta ýmsu fyrir sér, en ég mun líklega ekki taka upp á því að sitja með EOS-inn á nýja pallinum mínum og taka myndir af spegilgljáandi hjólhýsum farfuglanna úr borginni.

Það sem skiptir nú mestu nú, er ekki endilega umhverfið, sem við eigum eftir að aðlagast betur, heldur aðstaðan - þessi fína nýja íbúð, sem er bara með herbergjum sem við notum á hverjum degi, með palli sem er jafnstór pallinum í Kvistholti, bara tveim hæðum ofar.

Mig grunar að þetta verði bara harla gott og á örugglega eftir að fara betur yfir ýmsa þætti þessa nýja lífs síðar.

1 ummæli:

  1. Hrafnhildur Eyþórsdóttir24 maí, 2020 20:54

    Velkomin a Selfoss kæru hjón. Verður gaman að rekasta ykkur og spjalla yfir góðum kaffibolla 😍 Kveðja úr Álalæknum 😊

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...