Sýnir færslur með efnisorðinu stjórnmál. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu stjórnmál. Sýna allar færslur

15 október, 2017

Öfug sálfræði #kosningar 2017

Ef maður vill vinna málstað fylgis á þessum tímum, er vísast leiðin að beita öfugri sálfræði.
Ég get hamast þangað til ég fæ blóðbragð í munninn, og ælu upp í háls, við að leiða fram rök fyrir því að það sé hin argasta fásinna, að styðja tiltekinn stjórnmálaflokk, eða flokka, eða einstaka stjórnmálamenn.
Ég væri í rauninni aðeins að fullnægja tjáningarþörf minni: "Mikið djö.. er þetta gott hjá mér!"
"Þarna kýldi ég hann/hana kalda(n)!"
Það er nefnilega þannig, að mínu mati, með stjórnmálaskoðanir, að þær herðast eftir því sem fleiri rök eru leidd fram gegn þeim. Það gengur meira að segja svo langt, að skjöl sem tengjast suðrænum eyjum breytast í eitthvert jákvætt fyrirbæri í höfðum þeirra sem hafa stillt sér upp við hlið frambjóðanda sem tengist slíkum skjölum. Fólk herðist í trúnni, sérstaklega það fólk sem ekki býr yfir neinni sérstakri sannfæringu, eða lífsskoðun, sem er yfir hið persónulega hafin.

Fólk forherðist og þegar upp er staðið verður engin breyting. Hvenær ætlar okkur að skiljast þetta?

Að taka á einhverjum tímapunkti í lífinu ákvörðun um að kjósa tiltekið stjórnmálaafl felur í sér ákveðna skuldbindingu gagnvart sjálfum sér. Flökti maður síðan í trúnni og telji eitthvað annað mögulega betra, kostar það talsverða sálarangist, því með því að viðurkenna að maður hafi valið rangt, er maður jafnfram að tapa ákveðinni sjálfsvirðingu. Viðurkenna að maður hafi verið vitlaus síðast þegar kosið var. 

Að viðurkenna slíkt fyrir sjálfum sér, er í eðli sínu niðurbrjótandi atferli. Maður bíður hnekki gagnvart sjálfum sér. Maður er helv.... aumingi og vitleysingur. Nei, maður verður að standa keikur með sínum flokki. Annað er ekki boðlegt eða til umræðu.

Til þess að komast hjá því að upplifa sjálfan sig sem vitlausan aumngja, sem hefur enga lífsskoðun, eða hugsjón, hlýtur niðurstaðan að verða sú, að maður kýs áfram það sama og síðast, hvað sem eyjum í suðurhöfum líður.

Ég held að væri frekar reynandi, að fara hina leiðina, leggja áherslu á hið jákvæða og uppbyggilega, en það er víst ekki valkostur, og því hef ég tekið þá stefnu með sjálfum mér, að benda ekki sveitungum mínum, til dæmis, sem ég kýs að nefna ekki á nafn, frekar en ég hef þegar gert, á villuna sem þeir hafa ratað í með afstöðu sinni - það forarsvað sem þeir eru komnir út á.

Nei, ég ætla bara að þegja og leyfa þeim að vaða áfram í villu og svíma; taka með sínum hætti þátt í því að gera endanlega út af við þessa þjóð, og allt það.  Það er bara hreint ekkert sem ég get gert við því.

Vissulega viðurkenni ég, að það eru til hópar sem hægt er að hafa áhrif á, en þeir eru þessir helstir:

1. Ungt fólk, sem er svo heppið að fá tækifæri til að móta eigin lífsskoðun og hugsjónir, en taka það ekki með sér úr foreldrahúsum. Við þeim blasir hinsvegar sá vandi, að íslensk stjórnmálaumræða snýst frekar um hagsmuni en hugsjónir.

2. Fólk sem er laust við að burðast með sómakennd af einhverju tagi.

3. Fólk sem hagar seglum eftir vindi, og þá þeim vindi sem líklegastur er til að blása því, og aðeins því, áfram til betra lífs. Þá oft betra lífs sem byggir á peningalegum hagnaði af einhverju tagi.

Fólk með sjálfsvirðingu, breytir ekki pólitískri afstöðu sinni svo glatt og er tilbúið að ganga lengra en góðu hófi gegnir, til að verja eitthvað, sem allt eins líklega kemur því frekar illa  en vel.

Þetta var pólitískur pistill dagsins.

Það var fallegt við Hvítá í dag.



13 janúar, 2017

Bráðum verð ég frjálshyggjumaður

Nýleg reynsla mín er þáttur í meðvitaðri stefnu til að grafa undan opinberu heilbrigðiskerfi á Íslandi. Hún er liður í því að breyta viðhorfum þessarar þjóðar í þá veru að hún muni sættast á að okkur sé betur borgið með því að einkaaðilar sjái um heilbrigðisþjónustu.

Nú er tekin við í landinu einhver hægrisinnaðasta ríkisstjórn sem þessi þjóð hefur valið sér og þar með blasir ekki annað við en áfram verði grafið undan þjónustu sem á, ef rétt  væri á málum haldið, að standa öllum jafnt til boða og vera ókeypis, nútímaleg og vönduð.

Það sem mér virðist blasa við okkur er, að áfram verði haldið að svelta heilbrigðisþjónustuna, hækka gjöld á sjúklinga,  og skapa þannig frjóan jarðveg fyrir einkavæðingu á öllum sviðum.
Fjárfestar stökkva fram, heilbrigðisfyrirtæki spretta upp, frjáls og "gríðarlega hörð" samkeppni fær að blómsta.

"Sjúklingarnir okkar fá 10% afslátt ef þeir læka síðuna okkar eftir aðgerð".
"Sjúklingarnir okkar í þessum mánuði fá bíómiða fyrir tvo í kaupbæti".
"Skurðirnir okkar bera vönduðu handbragði vitni".
"Hjá okkur færðu endurgreitt ef þú ert ekki orðinn góður eftir viku".
"Er þér illt? Leyfðu okkur að lækna þig í glænýrri læknastöðinni okkar, þar sem gluggarnir eru pússaðir á hverjum degi og þú getur speglað þig í ítölsku gólfflísunum".
"Frábærar strandtöskur og sérmerkt strandbaðhandklæði handa öllum sem við tökum úr sambandi".

Þetta er ekki geðsleg tilhugsun.

Í tvígang, að undanförnu, hef ég þurft á þjónustu Landspítalans háskólasjúkrahúss (LSH) að halda.
Í annað skiptið kom ég þar inn og það sem við mér blasti voru ekki gljáfægðir gluggar eða gólf með ítölskum flísum sem hægt var að spegla sig í, heldur var þar allt fremur grámyglulegt og minnti mig óþyrmilega á vestrænt myndefni af austur-evrópskum sjúkrastofnunum á Stalínstímanum.  Bara gólfdúkarnir eru sjálfsagt jafngamlir mér.
Í hitt skiptið átti ég að mæta þangað í litla aðgerð, eftir margra mánaða bið eftir að komast að.
Það á sér stað heilmikill andlegur undirbúningur fyrir aðgerð á sjúkrahúsi. Það þarf að stilla sig af, skipuleggja hitt og þetta, fá frí í vinnu, og svo framvegis.
Jæja, á tilteknum tíma átti ég á að mæta á tiltekna deild á tiltekinni hæð.
Daginn fyrir þennan tiltekna tíma fékk ég tilkynningu um að tiltekinn tími hefði breyst og honum seinkað um 4 tíma.
Á aðgerðardegi, þar sem ég ók inn í höfuðborgina, hringdi síminn og mér tilkynnt, að enn væri frestun fram eftir degi af óviðráðanlegum "akút" ástæðum og að jafnvel gæti farið svo, að fresta yrði aðgerðinni.
Eftir miðjan dag var loks hringt einu sinni enn og aðgerðin slegin af.
Sannarlega tek ég fram að starfsfólkið sem ég hef verið í samskiptum við, er ekki í öfundsverðu hlutverki og hefur undantekningarlaust verið kurteist og skilningsríkt.

Auðvitað velti ég því fyrir mér, eftir svona reynslu, að það væri nú munur ef þetta væri nú bara einkarekið og menn gætu farið á hausinn ef þeir stæðu sig með þessum hætti gagnvart sjúklingum. Það væri hægt að fara í mál og krefjast tuga milljóna skaðabóta.

Þetta má ekki verða raunin og nú skulu ráðamenn þessarar þjóðar andskotast til að sjá til þess að íslenskt heilbrigðiskerfi rísi úr þessari öskustó. 
Það sem ég óttast hinsvegar er, að þessi þjóð sé búin að opna leiðina að enn frekari  niðurlægingu heilbrigðiskerfisins með því að skapa möguleikann á hægrisinnuðustu ríkisstjórn lýðveldistímans.

Hver var það aftur, sem sagði þessi fleygu orð: "Guð blessi Ísland!"






11 september, 2016

Þessir kjósendur!

Dröfn Þorvaldsdóttir: (ónefnd fuglategund) 2016
Ég vil nú bara breyta því hvernig fólk velst á Alþingi. Ég veit að það vilja margir, en á ólíkum forsendum. Mig langar að hafa meiri bein áhrif á það hvaða fólk á mínum lista hlýtur kosningu.
Aðferðirnar sem eru notaðar við þetta núna, einkennast  af því að einhver fámennur hópur velur einhver frambjóðendapakka sem ég verð síðan að samþykkja, vilji ég kjósa einhvern flokk.
Þessar aðferðir stjórnmálaflokka til að velja fólk á lista fyrir kosningar eru gallaðar og stuðla hreint ekki endilega að því að kjósendur hafi nægileg áhrif á niðurstöðuna.

Prófkjör/flokksval
Sumir stjórnmálaflokkar halda prófkjör fyrir Alþingiskosningar. Þau fara eftir einhverjum reglum sem hver flokkur fyrir sig setur. Tilgangur þeirra er að velja fólk á lista fyrir kosningar. Prófkjörum er einnig ætlað að raða fólki á listana þannig, að sá sem flest atkvæði hlýtur í einhver tiltekin sæti fái það sæti. Þannig verður til pakki frambjóðenda, sem kjósendur geta síðan valið í kosningum. Þetta hljómar allt tiltölulega einfalt og lýðræðislegt. Við þurfum bara að ganga í einhvern flokk og þar með getum við haft áhrif á hvaða fólk fer í framboð og í hvaða röð í okkar kjördæmi.

Þetta er hinsvegar ekki aldeilis svona einfalt og þar kemur ýmislegt til.
1. Aðstöðumunur
Sitjandi þingmenn geta lagt verk sín í dóm samflokksmanna.
Sumir eru þekktari en aðrir.
Sumir eru snoppufríðari en aðrir (sigurvegari í prófkjöri í Suðurkjördæmi sagði aðspurður, að listinn hefði orðið "álitlegri" með konur ofar en reyndin varð :))
Sumir eru ríkari af veraldlegum auð en aðrir. Allir vita að peningar eru afl þess sem gera skal, líka í prófkjörum.
Kjósendur sumra flokka dást frekar að ákveðnum týpum af fólki (t.d. lögfræðingum eða körlum sem geta staðið í lappirnar, eins og það er kallað) og þar með getur listinn orðið ansi einhliða.

2. Smölun
Þeir sem hafa færi á því, vegna aðstöðu sinnar, að safna í flokkinn fólki beinlínis til þessa að þeir kjósi með tilteknum hætti og þá jafnvel gegn loforðum um eitthvað í staðinn.

3. Kynjakvótar
Þessir kvótar eiga að tryggja það að karla og konur skipist á lista í sem jöfnustum hlutföllum, sem getur þýtt að niðurstöðu prófkjörs verður breytt og þar með gengið gegn vilja kjósenda í prófkjörinu.
Mér finnst að aðall góðs eða öflugs þingmanns eigi að birtast í öðrum eiginleikum en kyni. Bæði kyn geta verið góðir og öflugir þingmenn.
Mér finnst reyndar margt fleira um þetta, en læt það bara ekki uppi.

4. Annað 
Fyrir utan þetta má örugglega tína til ótal flækjur í tengslum við þessi prófkjör.

Flokkurinn raðar
Einhver fámennur hópur flokksmanna raðar frambjóðendum á lista, sem er síðan samþykktur á einhverjum flokksfundi.  Fín aðferð fyrir svokallaða "flokksgæðinga", en síðri fyrir kjósendur.
--------
Ég vil hafa kosningar þannig, að ég þurfi fyrst að velja flokkinn minn og síðan þann sem ég vil sjá frá honum á Alþingi. Þetta myndi auðvitað gera ýmsum kjósendum erfitt fyrir þar sem þeir þyrftu að kjósa í tveim skrefum í stað eins: Fyrst að velja flokkinn og síðan þingmannsefnið. Sé þetta þeim ofviða, hafa þeir hreint ekkert að gera á kjörstað yfirleitt. 
Ég er kannski tregur, en ég átta mig ekki á hvaða vandkvæði myndu fylgja þessu fyrirkomulagi, enda myndi vilji kjósenda endurspeglast í því fólki sem fengi sæti á þingi. Þessi aðferð tel ég að myndi henta mjög vel í rafrænum kosningum: fyrst kæmi gluggi þar sem maður merkti við sinn flokk. Síðan kæmi gluggi þar sem maður merkti við sitt þingmannsefni. Loks kæmi gluggi sem tilkynnti þér, að atkvæðið væri komið til skila og þér þökkuð þátttakan.
Þetta myndi ég kalla lýðræðislegar kosningar.




Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...