13 janúar, 2017

Bráðum verð ég frjálshyggjumaður

Nýleg reynsla mín er þáttur í meðvitaðri stefnu til að grafa undan opinberu heilbrigðiskerfi á Íslandi. Hún er liður í því að breyta viðhorfum þessarar þjóðar í þá veru að hún muni sættast á að okkur sé betur borgið með því að einkaaðilar sjái um heilbrigðisþjónustu.

Nú er tekin við í landinu einhver hægrisinnaðasta ríkisstjórn sem þessi þjóð hefur valið sér og þar með blasir ekki annað við en áfram verði grafið undan þjónustu sem á, ef rétt  væri á málum haldið, að standa öllum jafnt til boða og vera ókeypis, nútímaleg og vönduð.

Það sem mér virðist blasa við okkur er, að áfram verði haldið að svelta heilbrigðisþjónustuna, hækka gjöld á sjúklinga,  og skapa þannig frjóan jarðveg fyrir einkavæðingu á öllum sviðum.
Fjárfestar stökkva fram, heilbrigðisfyrirtæki spretta upp, frjáls og "gríðarlega hörð" samkeppni fær að blómsta.

"Sjúklingarnir okkar fá 10% afslátt ef þeir læka síðuna okkar eftir aðgerð".
"Sjúklingarnir okkar í þessum mánuði fá bíómiða fyrir tvo í kaupbæti".
"Skurðirnir okkar bera vönduðu handbragði vitni".
"Hjá okkur færðu endurgreitt ef þú ert ekki orðinn góður eftir viku".
"Er þér illt? Leyfðu okkur að lækna þig í glænýrri læknastöðinni okkar, þar sem gluggarnir eru pússaðir á hverjum degi og þú getur speglað þig í ítölsku gólfflísunum".
"Frábærar strandtöskur og sérmerkt strandbaðhandklæði handa öllum sem við tökum úr sambandi".

Þetta er ekki geðsleg tilhugsun.

Í tvígang, að undanförnu, hef ég þurft á þjónustu Landspítalans háskólasjúkrahúss (LSH) að halda.
Í annað skiptið kom ég þar inn og það sem við mér blasti voru ekki gljáfægðir gluggar eða gólf með ítölskum flísum sem hægt var að spegla sig í, heldur var þar allt fremur grámyglulegt og minnti mig óþyrmilega á vestrænt myndefni af austur-evrópskum sjúkrastofnunum á Stalínstímanum.  Bara gólfdúkarnir eru sjálfsagt jafngamlir mér.
Í hitt skiptið átti ég að mæta þangað í litla aðgerð, eftir margra mánaða bið eftir að komast að.
Það á sér stað heilmikill andlegur undirbúningur fyrir aðgerð á sjúkrahúsi. Það þarf að stilla sig af, skipuleggja hitt og þetta, fá frí í vinnu, og svo framvegis.
Jæja, á tilteknum tíma átti ég á að mæta á tiltekna deild á tiltekinni hæð.
Daginn fyrir þennan tiltekna tíma fékk ég tilkynningu um að tiltekinn tími hefði breyst og honum seinkað um 4 tíma.
Á aðgerðardegi, þar sem ég ók inn í höfuðborgina, hringdi síminn og mér tilkynnt, að enn væri frestun fram eftir degi af óviðráðanlegum "akút" ástæðum og að jafnvel gæti farið svo, að fresta yrði aðgerðinni.
Eftir miðjan dag var loks hringt einu sinni enn og aðgerðin slegin af.
Sannarlega tek ég fram að starfsfólkið sem ég hef verið í samskiptum við, er ekki í öfundsverðu hlutverki og hefur undantekningarlaust verið kurteist og skilningsríkt.

Auðvitað velti ég því fyrir mér, eftir svona reynslu, að það væri nú munur ef þetta væri nú bara einkarekið og menn gætu farið á hausinn ef þeir stæðu sig með þessum hætti gagnvart sjúklingum. Það væri hægt að fara í mál og krefjast tuga milljóna skaðabóta.

Þetta má ekki verða raunin og nú skulu ráðamenn þessarar þjóðar andskotast til að sjá til þess að íslenskt heilbrigðiskerfi rísi úr þessari öskustó. 
Það sem ég óttast hinsvegar er, að þessi þjóð sé búin að opna leiðina að enn frekari  niðurlægingu heilbrigðiskerfisins með því að skapa möguleikann á hægrisinnuðustu ríkisstjórn lýðveldistímans.

Hver var það aftur, sem sagði þessi fleygu orð: "Guð blessi Ísland!"






Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...