08 janúar, 2017

Hvað svo?

Það er unnið við að rífa sláturhúsið og staðan á því verki nú er eins og meðfylgjandi myndir sýna. Það virðist styttast í að þakið verði fjarlægt og síðan annað það sem fjarlægt verður.  Ekki neita ég því, að ég hefði hreint ekki slegið hendinni á móti einhverskonar grenndarkynningu á þessu verkefni. Einu upplýsingarnar sem ég hef séð um þetta er teikning sem fór um samfélagsmiðla, viðtal við oddvitann í sjónvarpi, óstaðfest nafn á manni sem á að hafa verið ráðinn framkvæmdastjóri, og svo fregnir af hótelbyggingu sem eru hafðar eftir MÉR, sem er harla fyndið bara.


Nú getur það auðvitað vel verið að fólk almennt hér í Laugarási viti heilmikið um hvað framundan er og þá er auðvitað bara við mig sjálfan að sakast að hafa ekki verið nægilega forvitinn.

Það væri nú ekki slæmt að fá til dæmis að vita hvað félagið heitir sem á Sláturhúslóðina, hverjir eru í forsvari fyrir þá sem ætla að byggja þarna hóteli. Hver stærðin á að vera, í herbergjum talið, og svo framvegis.

Ég vildi gjarnan vita meira, skil þó að þar sem einkaaðilar eru á ferð, ber þeim engin skylda til að upplýsa um áform sína, eða jafnvel hverjir þeir eru.

Já mér finnst fremur óljóst hvað gerist í framhaldi af því að sláturhúsið hverfur.  Mér finnst að við sem hér búum, ættum að fá fyllri upplýsingar um það sem þarna er um að ræða.

Segi og skrifa.





Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...