Sýnir færslur með efnisorðinu áttræðisafmæli. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu áttræðisafmæli. Sýna allar færslur

20 október, 2019

Ég vissi það reyndar alltaf.....

Bubba og Valdi með dætrum sínum árið 2000
f.v. Pálína, Auður, Dröfn og Sóley 
...að ég væri einhverskonar snillingur. Þannig hefur mér stundum þótt ég vera bara nokkuð glúrinn á ýmsum sviðum, en síðan gleymt því jafnharðan. Síðan tínist eitt og eitt snilldarverkið upp úr lúnum skúffum, þar sem það hafði þá legið í einhverja áratugi, grafið og gleymt.
Svo er um þetta sem ég ætla nú að skella hér inn til varðveislu í skýinu, hvað svo sem er nú á það að treysta.

Tengdaforeldrar mínir þau Guðbjörg Petrea Jónsdóttir (Bubba)(1920-2005) og Þorvaldur Runólfsson (1920-2007) náðu áttræðisaldri aldamótaárið 2000.
Fyrir veisluna, sem Bubbu var haldin þessu tilefni, æxlaðist það svo, að mér var falin einhverskonar veislustjórn, sem ég tók auðvitað alvarlega, rétt eins og allt sem ég tek mér fyrir hendur. Svo alvarlega tók ég þetta hlutverk mitt, að ég samdi mikla drápu, sem átti í upphafi að fjalla um ævi  afmælisbarnsins, en gerði það svo ekki í raun, undir  bragarhætti sem ég held ég kalli bara Pálshátt og sem gæti orðið góð fyrirmynd mörgu ungskáldinu.
Hvað svo sem má um það segja, þá kemur hér drápan/bragurinn/ljóðið, eins og hún/hann/það fannst neðst í gamalli kommóðuskúffu:

1. þáttur

Kópavogur, þar sem kúrir hver við sitt,
þangað fór ég til að nálgast mitt.
Sú ferð var farin fyrir löngu.

Fyrir góðum fjórðungi aldar ég fann
það fljóð er til fylgdar mér ég vann
og foreldrarnir fylgdu með.

Sína framtíð saklaus sveitapiltur síðan skóp
með sendibílstjóranum og afgreiðslustúlkunni í Kóp
og yngstu dótturinni á bænum.

Eldri systur, ekki færri en eina' og tvær
sá ég síðla kvölds í gær
á heimleið af ónefndum stað, - en ekki meira um það.

Guðbjörg Petrea gengur hér um sali
svo hnarreist að það tekur engu tali
og skemmtir sér.

Hvert örstutt spor á ævilöngum vegi
færði hana fram að þessum degi.
Átta tugir ára eru að baki - sem er bara vel af sér vikið.

Sögu hennar segja má svo gjörla
því í ljóði þessu má engan veginn örla
á rangfærslum af neinu tagi.

Um æði margt í lífi hennar veit ég ekki
og er rangt fer með þá kastast mun í kekki
milli mín og áðurnefndra Þorvaldsdætra.

Upp skal þó dregin mynd af lífi
þó ekki teljist nákvæm öllum lýði
og jafnvel í mörgum atriðum röng.

Verði svo, þá vil ég fá að heyra
og ekki mun þá kveða um það meira
Nú er tíminn til að stöðva þennan lestur finnist mönnum nóg komið af svo góðu.

2. þáttur

Bubba fór í bæinn og Bubba fór í búð.
Hún valdi Valda og varð þá stillt og prúð.
Með honum hefur arkað æviveg
og arkar enn, svo undur skemmtileg.

Fyrir lá að fara´ í gegnum lífið,
en ekki veit ég hvort það fékk á vífið
að eignast dætur, eina, tvær og þrjár og fjórar,
sem allar eru orðnar stórar.

Gestir myndu ganga héðan burtu
og geysast heim og fá sér kalda sturtu,
ef bragur yrði borinn hér á borð
um dætur upp á fleiri þúsund orð.

Bíða mun slíkur bragur betri tíma,
enda mikil ógnar ofboðs glíma.
Eflaust mun hann aldrei ná í höfn,
Auður, nei Sóley, nei Palla, nei Dröfn.    (þetta var oft viðkvæðið hjá Bubbu þegar hún var að ávarpa einhverja dætranna)

Hvert örstutt spor í átt á Álfhólsvegi
var örstutt spor í átt að þessum degi.
Verkið dætra virtist ekki létt
og yfirborðið sýndist fellt og slétt.

Undirbúning hófu allar fyrir löngu
um höf og lönd var staðið mjög í ströngu.   (ein dætranna bjó í Danmörku)
Um málið var talað og talað og talað,
og talað og talað og talað og talað.

Í dag er stund, í dag er tími góður
til að fagna traustri tengdamóður,
með flatkökum og frómas fylltum maga
og iðrumst síðar, það er önnur saga.

Til lukku með lífið, frú mín góð,
hér læt ég flakka þetta fagra ljóð.
Áfram munum bera lífsins okið
en ljóðinu er, í það minnsta, hér með lokið.

------
Ég segi ekki meira!

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...