Sýnir færslur með efnisorðinu Þórsmörk. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Þórsmörk. Sýna allar færslur

08 september, 2019

Retró rómantík

Rómantík í Þórsmörk í lok áttunda áratugarins (Mynd ÁS).
Stundum hef ég fengið að heyra það að ég sé órómantískur. Ég er jafnvel skilgreindur þannig út frá þeim skilningi þess sem leggur þetta mat á persónu mína, að rómantík felist í einhverri tiltekinni *múshí, múshí* framkomu af minni hálfu; framkomu sem felur þá í sér eitthvað það sem amerísk lágmenning er iðin við að halda að okkur.
Ég hafna því hinsvegar ávallt að ég sé ekki rómantískur. Skilningur minn á hugtakinu er þá allt annar en að ofan greinir og ég virðist upplifa rómantík samkvæmt þeim skilningi æ meir eftir því sem tímar líða.
Samkvæmt mínum skilningi á hugtakinu rómantík, þá er það tilfinning þar sem hlýjar minningar um fortíðina dúkka upp í textum eða á myndum.
Meiri rómantík í Þórsmörk (Mynd ÁS)
Það var til dæmis ekkert rómatískt á sínum tíma, við það þegar ég var að keyra að vorlagi á Laugarvatn í vinnuna og undir hælinn lagt hvort ég kæmist yfir hvörfin í veginum, svo ekki sé nú talað um áhættuferðir í blindbyl í febrúar eða mars, á hvítri, mökkryðgaðri volvódruslu. Nú upplifi þetta hinsvegar sem rómantík - hluta þeirra sögu sem ég er búinn að lifa. Minningarnar um þessi ævintýri eru hlýjar, vegna þess að ég komst óskaddaður frá þeim, upplifði mig jafnvel sem nokkurskonar hetju, sem lagði flest í sölurnar til að sinna því starfi sem ég var ráðinn til (fyrir lélegt kaup, jafnvel).

Rómantík í Bláa hellinum. (mynd PMS)
Nei, rómantíkin felst í minningum og þá þeim minningum sem maður á, sem ekki geta verið almenningseign. Það er, til dæmis, að mínu mati, harla lítið rómantískt við að skella sér til Tenerife og syngja íslenska slagara með hinum Íslendingunum í sundlaugargarðinum á síðkvöldum.  Það verður hinsvegar að teljast ofurrómantískt atvik, þegar Skálholtskórinn fór í siglingu í sjóræningjaskipi á spegilsléttu Adríahafinu við sólarlag. Það er rómantískt, eftir á, að braska við að byggja yfir sig hús, rómantískt að komast yfir erfiða þröskulda í lífinu, rómantískt að hringja í Matthildi um miðja nótt þegar yngsti sonurinn tilkynnti um að nú væri hans tími kominn, rómantískt að fara í hópferð garðyrkjubænda í Þórsmörk, rómantískt að villast í Glasgow með alla fjölskylduna í fyrstu utanlandsferðinni saman, eða sigla í árabát inn í Bláa hellinn á Caprí, rómatík að minnast allra þeirra sem maður hefur lifað með súrt og sætt, en sem nú eru horfnir af sjónarsviðinu..
Allt þetta og svo miklu meira breytist í hlýjar minningar, sem jafngilda rómantík, að mínu mati og hananú.

Rómantík við húsbyggingu (Mynd DÞ)
Sennilega getur eitthvað af því sem ég hef talið hér að ofan flokkast sem svona *múshí, múshí*  í ströngum skilning og með einbeittum vilja, en því hafna ég jafnharðan.

Rómantíkin felst oftar en ekki í einhverju sem var, frekar en því sem er og rómantíska stund er ekki hægt að skipulegga. Hún þarf að vera óundirbúin, bara spretta fram.

Þá er ég búinn að afgreiða rómantíkina.




Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...