Sýnir færslur með efnisorðinu Aratunga. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Aratunga. Sýna allar færslur

27 febrúar, 2020

Allir á sviði í uppnámi

Til að taka af allan vafa þá er hér ekki um að ræða leikdóm, þannig séð, heldur bara lítilmótlegar hugrenningar Kvisthyltings, sem nálgast það að teljast genginn í hóp eldri borgara, eða eftirlaunaþega. Ef til vill er það einmitt besta ástæðan til að taka mark á þessum skrifum, enda ekkert fólk sem uppi er á hverjum tíma sem býr yfir þeirri reynslu og yfirsýn sem einmitt fólkið sem hefur lagt að baki svo marga áratugi lífs.

Hér er fjallað um leiksýningu Leikdeildar Ungmennafélags Biskupstungna í Aratungu. Verkið sem um ræðir, ber heitið "Allir á svið" og er komið höfði náunga að nafni Michael Frayn, en það var Gísli Rúnar Jónsson sem þýddi og staðfærði. Leikstjóri er Ólafur Jens Sigurðsson. Leikarar eru 9 og hver um sig leikur tvö hlutverk. Sem nærri má geta eru ýmsir aðrir sem að þessu verki koma.

"Fjallað um", já. Við getum alveg kallað það það.
Við fD fylgjumst vel með fréttum og vitum nánast frá mínútu til mínútu hvað er á seyði í veröldinni. Af þessum sökum vissum við í gær, að veiran væri að öllum líkindum á leið til landsins. Við fylgjumst ekki bara  með fréttum, heldur erum við með eindæmum ábyrg gagnvart okkur sjálfum, ekki síður en öðrum.  Við skulum halda því fram að þekking okkar og ábyrgð hafi ráðið því að við ákváðum að skella okkur á þessa leiksýningu leikdeildarinnar í gærkvöld frekar en síðar.

"Allir á svið" er verk í þrem þáttum, þar sem sá fyrsti gerist á tækni- eða lokaæfingu á verkinu: "Nakin á svið". Strax þarna fann ég  fyrir ákveðnum óróleika. Mátti ég búast við þessum sveitungum mínum spígsporandi, jafnvel klæðalausum á sviðinu í Aratungu? Þeirra vegna og mín gerðist það svo auðvitað ekki, en saga hefði það verið til næsta bæjar.
Í þessum þætti gerist auðvitað margt skrítið og skemmtilegt, enda skrattast leikararnir milli hlutverka sinna og hlutverkanna sem þeir eru að leika og stundum erfitt að gera sér grein fyrir hvort um leik er að ræða eða leikleik.
Svo kemur annar þáttur sem gerist mánuði síðar, þegar verið hefur verið flutt allvíða og farið að reyna talsvert á samstarfið, svo ekki sé meira sagt. Þessi þáttur gerist baksviðs meðan verkið er leikið á bakvið leiktjöldin.
Þriðji þáttur, lokaþátturinn gerist síðan á lokasýningu í Aratungu einum og hálfum mánuði eftir frumsýningu. Þarna er nokkuð farið að bera á þreytu leikendanna og listrænn metnaður hefur vikið fyrir ýmsu öðru, þ.e. listrænn metnaður leikaraanna sem eru í hlutverkum leikaranna, ef það skildi skiljast.

Það skal ég segja ykkur, að ég ætla ekki að fara að fjalla um frammistöðu einstakra leikara í þessu verki. Þeir stóðu sig allir með ágætum og komu sínum hlutverkum og hlutverkahlutverkum ágætlega til skila. Framsögn var skýr og góð. Einn leikarnna mótaði, með eftirminnilegum hætti, einskonar ofursjálf úr sjálfum sér í loka þættinum og ég læt fólk um að reyna að velta fyrir sér hver það skyldi nú hafa verið.

Fernt vil ég segja til viðbótar:

1. Á þessum tíma árs (mánuður frá þorrablóti) hafa ákveðnir andlitsvöðvar fengið of mikla hvíld og sannarlega tími kominn til að nota þá. Ég er með harðsperrur í andlitinu í dag.

2. Þetta leikverk er sannarlega ekki til þess fallið að dregnar séu af því djúpar ályktanir eða yfir því sé vöngum velt fram og til baka. Það hefur í rauninni bara einn tilgang: að kalla fram bros og hlátur. Það reynir ekki einusinni að vera eitthvað annað.

3. Ef einhver lítur á tengingu mína milli COVID-19 verunnar og daglegra ákvarðana okkar fD, sem raunveruleika þann sem við búum við, þá er það misskilningur og þessi tenging  eingöngu sett fram til að búa til smá stofudrama.

4. Það er aðdáunarvert að leggja á sig alla þá vinnu sem liggur að baki svona uppsetningu, með tilheyrandi álagi á fjölskyldur þátttakenda og þá sjálfa. Fyrir þetta er ekki greitt með peningum. Hvaða máli skipta peningar svosem í þessu samhengi.

Ég þakka fyrir mig, ekki síst vegna þess að nú er margt orðið svo miklu bjartara og léttara en það var.


Þetta er hlekkur að Facebooksíðu leikdeildarinnar, en þar má alltaf sjá upplýsingar um þær sýningar sem eru framundan.


16 febrúar, 2018

Rautt af stút fyrir augliti djöfulsins

Það er upplífgandi þegar maður loksins togar sjálfan sig upp úr sófanum eftir kvöldmat og skellir sér á leiksýningu.  Togið sjálft tók auðvitað á, enda finnst mér aldeilis ágætt að vera ekkert mikið að taka þátt í einhverju útstáelsi svona þegar líður á dag og jafnvel farið að nálgast háttatíma.
Þar sem engin regla er án undantekninga og tilefnið ærið létum við fD verða af því að leggja í ökuferð upp í Aratungu í gærkvöld til að upplifa leikverkið:
Sálir Jónanna ganga aftur 
sem leikdeild Ungmennafélags Biskupstungna sýnir þessar vikurnar á milli þess sem lægðir skella á ströndinni suðaustanverðri og ná jafnvel að valda ófærð á þessu annars veðurfarslega rólega svæði.
Leikstjóri er Gunnar Björn Guðmundsson og má líklega halda því fram að hann hafi verið og sé fastráðinn hjá leikdeildinni árum saman.
Talning mín í leikskránni leiðir í ljós að hér er á ferðinni þrítugasta uppfærsla á vegum ungmennafélagsins frá því Aratunga tók við sem félagsheimili Tungnamanna árið 1961. Af þessum 30 sýningum hef ég tekið að mér hlutverk í einni, Tobacco Road sem byggir á skáldsögu eftir Erskine Caldwell. Ég hef ávallt verið jafnundrandi á því að ekki skuli hafa verið leitað til mín með þátttöku í leiksýningum síðan. Hversvegna skyldi það nú vera?

Jæja, jamm og já.

Þarna komum við í leikhúsið Aratungu, fengum þessa fínu, grænu miða og leikskrá, að lokinni hóflegri greiðslu. Við höfðum lagt af stað snemma þar sem sálfræðilegt innsæi okkar gaf skýrt til kynna að húsið yrði sneisafullt þar sem sveitungarnir væru orðnir aðframkomnir af innilokunarkennd eftir óveðurskafla og tvö sýningarföll. 15 mínútum fyrir sýningu vorum við komin með miða í hendur  frá þeim Bajrna á Brautahóli og Skúla Sæland. Þá birtist Oddný á Brautarhóli okkur í sjoppulúgunni. Hún reyndist hafa ýmislegt til sölu, svo sem rauðvín og hvítvín og bjór, svo eitthvað sé nefnt. Við létum slag standa og skelltum okkur á rauðvín, sem afgreitt var í svona litlum flöskum. Þetta gerðum við ekki síst til að það myndi losna lítillega um hláturtaugarnar undir sýningunni, því ekki var nú hægt að halda því fram að fólkið streymdi að og því nauðsynlegar að þeir sýningargestir sem til staðar voru myndu hlæja með óheftari hætti á viðeigandi stöðum og þannig teljast "góður salur".
Það fylgdi ekki glas flöskunni, og ekki heldur brúnn bréfpoki. Þetta var auðvitað til fyrirmyndar og í góðu samræmi við hið umhverfisvæna samfélag sem Bláskógabyggð er. Hvaða vit er líka í því að hella úr glerflösku í plastglas til þess, síðan, að henda plastglasinu að notkun lokinni, ásamt flöskunni.  Sannarlega viðurkenni ég, að sú aðgerð að drekka áfenga drykki af stút, lítur ekki vel út svona til að byrja með og ég viðurkenni að ég var nokkuð feiminn við það, en þessi tilfinning hvarf fljótt, þar sem ég skýldi flöskunni með leikskránni og lét sem ég þyrfti að geispa í hvert skipti sem ég fékk mér sopa. Þetta var bara hið besta mál og mér leið betur á eftir, ekki síst við þá tilhugsun að ég hafði engu bætt við ruslahauga heimsins.

Þá er best að snúa sér að leikverkinu, sem Hugleikur frumsýndi fyrir tuttugu árum: Sálir Jónanna ganga aftur.
Ég er enginn leikhúsfræðingur eða bókmennta og freista þess því ekki að dæma eitt eða neitt eða einn eða neinn.
Verkið fjallar um áhyggjur Satans sjálfs (Hjalta Gunnarssonar) af lélegri aðsókn í neðra. Hann nýtur dyggs, en vanþakkláts stuðnings Móra (Írisar Blandon) við að reyna að bæta úr þessu.  Ekki verða tilraunir þeirra hjúanna til að veiða sálir taldar mjög árangursríkar og það gengur á ýmsu, sem ég ætla auðvitað ekki að ljóstra upp um hér. Fólk verður bara að fara á stjá og sjá með eigin augum hvernig sálir Jónanna (sem eðli máls samkvæmt) láta lífið hver með sínum afar trúverðuga hætti og eru síðan háðir því hvernig maki þeirra eða nánasti vinur freistar þess að koma þeim í hið efra með mis markvissum og vel meintum hætti, undir stöðugum tilraunum Satans og Móra til að koma í veg fyrir að svo geti orðið.
Allt fer þetta einhvernveginn að lokum.

Það veit maður, áður en maður fer á svona sýningu, að hún er ekkert að reyna að keppa við Ibsen eða Albee. Hún er ekki að þykjast vera neitt annað en hún er: hreint ágæt kvöldskemmtun.

Ég heyrði sagt fyrir aftan mig (í öftustu röðinni af þeim þrem sem setnar voru): "Mér finnst miklu skemmtilegra að fara á svona áhugamannasýningu heldur en á leikrit með atvinnuleikurum".  Ég get eiginlega alveg tekið undir þessa skoðun. Maður veit að fólkið sem þarna kemur fram hefur lagt á sig feikilega mikla vinnu ofan á fullan vinnudag,  vikum saman , oftar en ekki með heilu fjölskyldurnar á bak við sig, sem verða þannig óbeint þátttakendur í uppsetningunni með því að leikarinn eða ljósamaðurinn, eða búningahönuðurinn er meira eða minna að heiman á kvöldin og um helgar allan afingatímann.  Þetta gera aðstandendur svona sýninga einvörðungu vegna þess að þeir fá út úr því ómælda ánægju.
Ég tala af reynslu, maðurinn sem einu sinn varð nánast leiklistarbakteríunni að bráð.

Við hin, sem ekki tökum þátt, skuldum þessu fólki viðveru okkar á eins og eina sýningu hvert og það sem meira er: við skuldum sjálfum okkur að rífa okkur upp af r.......nu og hafa gaman eina kvöldstund.

Myndirnar sem ég birti hér tók ég ófrjálsri hendi af Facebooksíðu Leikdeildar Ungmennafélags Biskupstungna. 
Á þessari síðu má fylgjast með næstu sýningum.

26 mars, 2017

"Við vorum ekkert hræddar"

Við skelltum okkur á leiksýningu nemenda Menntaskólans að Laugarvatni í Aratungu í gærkvöld, ég og tvær sonardætur: Júlía Freydís (8) og Emilía Ísold (5).  Þær fengu að sitja á fremsta bekk, en ég kom mér fyrir aftast, með EOS-inn í næsta nágrenni við fólkið sem stýrði ljósum, hljóði og tónlist.
Þá er ég búinn að setja upp aðstæðurnar.

Ég hef nú ekki lagt það í vana minn að setja mig á einhvern hest, sem leiklistargagnrýnanda og geri það ekki heldur hér, en auðvitað tek ég mér það bessaleyfi, að hafa skoðun samt.
Ég fékk fljótlega á tilfinninguna, að leikstjórnini væri mjög fagmannleg, enda vanur maður, Guðjón Sigvaldason, sem sá um þann mikilvæga þátt. Sviðssetningin var öll hin ágætasta.

Það þekkja nú flestir söguna um Konung ljónanna, hann Simba, foreldra hans, vini og þann hættulega heim sem hann fæddist inn í og því fjalla ég ekkert um söguþráðinn.

Hvernig komu ML-ingarnir þessu svo frá sér?
Sonardæturnar og önnur börn sem þarna voru, en þau hafa verið 20-30, voru greinilega þeirrar skoðunar, að  vel væri gert. Hópurinn sat kyrr í sætum sínum allan tímann og lifði sig inn í verkið. Gerði stundum athugasemdir, hló og klappaði.  "Mér fannst Skari, skemmtilegastur og svo var hann líka góður leikari með góða rödd", sagði önnur sonardóttirin í leikdómi sínum. "Stelpuhýenan er góður leikari, hún er svo falleg", sagði hin.  Þær eru búnar rifja upp atriði úr verkinu, hafa jafnvel brostið í sönginn "Hakuna Matata". við og við.

Aparnir voru einstaklega apalegir og hýenurnar fáránlega hýenulegar, gnýirnir gný(s)legir. Jamm, dýrin sem birtust á sviðinu voru bara sérlega dýrsleg.

Það sem ég tók eftir, standandi aftast í salnum, var hver framsögnin var skýr. Það er ekki sjálfgefið á þessum tímum, þegar maður heyrir ungt fólk oft tala álíka skýrt og Gettu betur keppndur í hraðaspurningum.  Svei mér ef ég heyrði ekki hvert orð sem barst frá sviðinu.
Framsögnin var líka afar eðlileg, lifandi og tjáningarrík við hæfi.

Ég gæti alveg farið að fjalla um frammistöðu einstakra leikenda. Ég sé engan tilgang með að fara að reyna að gera þar upp á milli, Langflestir stóðu sig með afbrigðum vel og skólanum er sómi að því að sýna myndina sem þarna birtist af hæfileikaríkum nemendum hans.





Nú skuluð þið, lesendur góðir, drífa ykkur á sýningu í nágrenni við ykkur, en Konungur ljónanna verður sýndur sem hér segir:
Sun. 26 mars kl. 14:00 í Aratungu, Reykholti
Þri. 28. mars kl. 20:00 í Þingborg
Mið. 29. mars kl. 20:00 í Félagsheimili Seltjarnarness
Fös. 31. mars kl. 20:00 í Hvoli, Hvolsvelli
Lau. 1. apríl kl. 16:00 í Hvoli, Hvolsvelli 
Sun. 2. apríl kl. 19:00 í Leikskálum, Vík

Sonardæturnar vilja fara aftur og hyggjast reyna að fá foreldra sína með.



FLEIRI MYNDIR - ef vill

28 janúar, 2017

Minni kvenna - á minn hátt

Það er ótvíræður kostur við þorrabót eldri borgara í Biskupstungum, að það er ekki boðið upp á dansiball með tilheyrandi hávaða þegar fólk hefur matast og notið þess að syngja saman og fara með gamanmál.
Ég trúi því varla að það sé ég sjálfur sem skrifaði þetta. Ég, sem einu sinni sótti böllinn af engu minni krafti en aðrir á mínum aldri. Nú er bara öldin önnur  og einhvernveginn er maður þannig forritaður að hvert aldursskeið kallar á misjafnar kröfur til þess sem kalla má skemmtun.

Við fD ákváðum fyrir nokkru, að skella okkur á þorrablót eldri borgara í Aratungu, en það er alla jafna haldið viku eftir aðal þorrablótið, þar sem aðal fólkið er sagt að finna.  Við höfum farið nokkrum sinnum á þetta "ellibelgja blót" og hefur líkað ágætlega. Þetta hafa verið fremur lágstemmdar samkomur og ekki hefur skemmt fyrir þegar skemmtiatriði af aðalblótinu hafa fylgt með, en það er upp og ofan hvernig því hefur verið háttað - heldur lítið þessu sinni.

Hvað um það. Á miðvikudag fékk ég símtal frá formanni félags eldri borgara, Guðna Lýðssyni, þar sem hann fór þess á leit við mig að ég flytti minni kvenna á blótinu, þar sem ekki yrði um að ræða að endurflutt yrði það minni sem flutt var á aðalblótinu.  
Eftir talsverðar mótbárur varð það úr að ég gekkst inn á þetta, án þess að hafa hugmynd um hvernig hægt væri að fjalla um konur á svona samkundum án þess að fara yfir ásættanleg mörk. Ég huggaði mig við það, að þarna yrðu sennilega bara konur á aldur við mig, eða eldri, sem hefðu meira þol gagnvart því að "meðtaka lof og prís" úr munni manns á mínum aldri.
Hér fyrir neðan er síðan samsetningurinn, sem auðvitað er ekki hálfur án flutningsins. Mig grunar nú að margir þeirra um það bil 60 sem voru á blótinu í gærkvöld, hafi hreint ekki skilið hvað ég var að fara oft á tíðum, en svoleiðis er það bara.

Þorrablót eldri borgara föstudag 27. janúar, 2017

Ágætu konur og aðrir gestir

Ég hef mikið hugsað um það hvernig ég get mögulega nálgast þetta viðfangsefni, svona miðað við allt og allt. Ég var á tímabili að hugsa um að hringja í Guðna og tjá honum þá niðurstöðu mína að ég treysti mér ekki í verkið. Augljóslega gerði ég það ekki og tel mig sýna af mér heilmikinn hetjuskap með því að standa hér nú, á þorra árið 2017 og mæla fyrir minni kvenna.

Fósturlandsins Freyja, fagra Vanadís
Móðir, kona, meyja, meðtak lof og prís.
Blessað sé þitt blíða bros og gullið tár
Þú ert lands og lýða, ljós í þúsund ár.

Svona tjáði Matthías Jochumsson virðingu sína fyrir íslensku konunni fyrir vel á annað hundrað árum.
Enn syngjum við karlarnir þennan texta Matthíasar á þorrablótum. 
Vitum við allir hvað við erum að syngja eiginlega? Hvernig túlka nútímakonur þennan fallega og vel meinta texta? Ég held að þær séu bara sáttar – eða vona það, í það minnsta.

Eftirfarandi er skoðun ritstjóra barnablaðsins Sólaldar, árið 1918, en hann var karlmaður:
Matthías Jochumsson orti þetta um íslenzka kvenfólkið; um íslenzku mömmurnar, íslenzku konurnar, íslenzku stúlkurnar, og engin þjóð á til eins fallegt erindi um kvenfólkið sitt. Þið eigið öll að læra þetta erindi og kenna það hinum börnunum.
------- 
Við eigum að vita að Freyja er gyðja ástar og frjósemi í norrænni goðafræði. Við vitum ef til vill síður, að Vanadís er annað nafn á Freyju, en hún tilheyrði þeim flokki goða sem kallast Vanir, hinn flokkurinn er Æsir.

Annað það sem fram kemur í textanum sem sunginn verður á eftir, læt ég liggja milli hluta, enda er þarna um að ræða orð Matthíasar og hann þar með ábyrgur fyrir þeim.

Ég get glaður tekið undir þau öll, en er hinsvegar alveg tilbúinn að draga stuðning minn við innihald vísunnar til baka, telji Freyjur nútímans orðavalið ekki við hæfi þar sem það dragi upp aðra mynd af konum en þær geta sætt sig við.

Ætli sé ekki best að ég fari að byrja á minninu – MINNI KVENNA.

Það get ég sagt ykkur og það vitum við, að minni kvenna er hreint ágætt öllu jöfnu, en getur þó birst með ýmsum hætti eftir því hvernig viðrar.

Áður en ég held lengra vil ég halda því til haga, eins og fram hefur komið áður, að ég veit fullvel að minni kvenna snýst ekki um minni kvenna, heldur nokkurskonar lofgjörð um konur.

Mig grunar nú að þetta orð í þessari merkingu, sé eitt þeirra orða á íslensku sem eru að hverfa með tímans straumi og gæti vel trúað því að innan ekki svo langs tíma muni þeir (eða þau) sem fá það hlutverk að flytja minni kvenna (eða karla), tala um minni þeirra í stað þess að flytja minni þeirra. Mig grunar að sá tími sé ekki fjarri, að sá sem beðinn verður um að flytja minni kvenna muni spyrja hvernig hann eigi nú að fara að því og hvert hann eigi þá að flytja það.

Þannig hefði það getað verið, þegar Guðni formaður bað mig að flytja minni kvenna hér í kvöld, að ég hefði einmitt byrjað að velta fyrir mér hvert ég ætti nú helst að flytja þetta merka fyrirbæri. Þá kæmi mér mögulega fyrst í hug að flytja það til mín. Þar með yrði tilvera mín hugsanlega að mörgu leyti einfaldari og þægilegri.

Með því móti yrðu svona orðaskipti úr sögunni:
„Jæja, ljúfur. Ert‘ ekki tilbúinn?“
„Tilbúinn? Til hvers, ljúfan?“
„Þú ætlar þó ekki að segja mér, að þú sért búinn að gleyma því að við erum að fara í afmæli hjá systurdóttur minni, henni Töru Mist, litlu!“
„Þú hefur aldrei minnst á að við værum að fara í eitthvert afmæli!“
Ó, jú. Ég sagði þér frá því að fimmtudaginn var, klukkan korter yfir sex.“
„Aldeilis ekki!“
„Jú, ég er nú hrædd um það.“

Þegar hér er komið er það yfirleitt niðurstaðan, að minni mitt hafi brugðist mér og ég segi:
„Jæja“.
Því segi ég það, að hefði ég færi á að sameina minni konunnar mínu minni, yrði ég í góðum málum.

Mér er samt til efs að Guðni sé í aðstöðu til að biðja mig að flytja minni kvenna á einhvern stað, þó svo Guðni sé maður yfirvegaður, rólyndur og djúpur.

Eftir sem áður öfunda ég konur af minni þeirra, sem er þannig fyrir komið, að það er í mörgum hólfum. Hverju hólfi getur konan síðan lokað, eða opnað, eftir því sem við á hverju sinni. Það er þannig hjá mér að annað hvort man ég eða ég man ekki. Það er bara eitt hólf og ekki um það að ræða að ég geti lokað fyrir eitt við einhverjar tilteknar aðstæður og opnað fyrir annað, sem hentar þá aðstæðunum betur. Þannig getur t.d. þetta samtal átt sér stað:

„Dúllan mín. Ég er þá farinn. Á að vera mættur eftir korter.“
Þarna lokar konan því minnishólfi sem geymir upplýsingar um fundinn í félagi eldri borgara sem ég er að fara á og sem ég var sannarlega búinn að ssegja henni frá,  og opnar í staðinn sérstakt hólf sem geymir óvænta minnispunkta.
„Farinn? Farinn hvert, dúllinn minn? Þú varst ekki búinn að segja mér að þú væri að fara eitthvert í kvöld. Við ætluðum að kúra, krúsídúllinn minn. Ertu búinn að gleyma því?
„Þetta var ég sko búinn að segja þér, ítrekað.“
„Ó, nei. Þetta hefurðu ekki nefnt einu orði. Við ætluðum að kúra í kvöld.“

Þarna varð, sem sagt, félag eldri borgara af vænum sauð.

Ég ætlaði hreint ekki að tala hér um minni kvenna, heldur flytja minni kvenna eins og mér var uppálagt.
Nú er ég hinsvegar búinn að koma mér í þá aðstöðu að fara talsvert fram úr þeim tímamörkum sem mér voru sett:
„Bara svona nokkur orð“, var sagt. „Bara stutt“, svar sagt.
Eftir á að hyggja, er ég líklega bara búinn að tala um minni kvenna, flytja minni kvenna og mæla fyrir minni kvenna.
Það sem meira er, þá er ég búinn að mæra konur í aðdáun minni á kraftinum, sem geislar af þeim, þar sem þær stíga fram þessi árin til forystu hvar sem er í þjóðlífinu.


16 janúar, 2017

Í kveðjuhófi fyrir lækna tvo.

Pétur og Gylfi.
Mynd: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Þann 12. janúar var haldið kveðjuhóf fyrir læknana okkar tvo, þá Gylfa HAraldsson og Pétur Z. Skarphéðinsson.  Þar hafði ég fengið það hlutverk að flyta einhverskonar ávarp fyrir hönd nágranna í Laugarási og sjúklinga. Ég var auðvitað upp méð mér að verða þarna maður með hlutverk, en svo fór að mér var ekki ætlað að verða þarna staddur í eigin persónu. Það varð samt úr, að ávarpið var flutt, jafn langt í tíma og fyrirmæli hljóðuðu upp á.  Flytjandinn var Halldór Páll Halldórsson, skólameistari og hófstjóri og kann ég honum þakkir fyrir flutninginn og að hafa sinnt þeim leiðbeiningum sem fylgdu.
Hér fyrir neðan birtist þetta ávarp, ásamt leiðbeiningum)
Halldór Páll
Mynd: MHH

Gylfi og Rut, Pétur og Sísa.

Í textanum sem hér fer á eftir er fjallað um ykkur, í stað þess að talað verði til ykkar, ef frá er talin síðasta málsgreinin.
 
Undanfarin 30 ár eða svo hefur fólki ekki fjölgað mikið í Laugarási. Íbúarnir þar hafa hinsvegar elst nokkuð. Á þessu eru örugglega ýmsar skýringar, en hér vil ég bara nefna eina: Gylfa og Pétur. Áður en þeir komu á staðinn í byrjun 9. áratugarins hafði íbúum í Laugarási fjölgað heil ósköp frá því fólk fór að flytjast þangað um 1940. Fjölgunin var sérstaklega mikil á 15 ára tímabili, eftir miðjan sjöunda áratuginn. Eftir að þeir komu tók að hægja mjög á þessu og sárafáar nýjar garðyrkjulóðir hafa verið stofnaðar síðan. Þessir fáu sem hafa byggt eitthvað eftir það er aðallega fólk sem ber í brjósti einhverjar rómantískar tilfinningar til staðarins og fólk sem virðist oft ekki vera alveg áttað, eins og sagt er á læknamáli.

Það sem styður við þessa kenningu mína, ekki síst, er sú staðreynd, að eftir að ljóst varð að starfslok félaganna voru í nánd, hefur aftur farið að heyrast í börnum í skógarþykkninu.

Samhengið? Tilgáta mín hljóðar upp á það, að þeir sem á annað borð settust hér að, hafa bara ekki viljað fara aftur, því eftir því sem aldurinn færist yfir leggur maður meira upp úr örygginu sem ein besta læknisþjónusta á landinu býður upp á.
Svo segir það sig sjálft, að því eldri sem íbúarnir verða, því minni líkur verða á að maður mæti barnavögnum á heilsubótargöngum.

Ekki fer ég lengra með þessa pælingu.
(lesari: Áhugaverð pæling)

Mér hefur oft dottið í hug að Pétur og Gylfi séu að mörgu leyti eins og tvíburar. Í fortíð og nútíð, aftur í ættir, alveg til dagsins í dag blasa við okkur sannindi, sem hafa spunnið þann örlagavef sem hefur leitt okkur til þessa kvölds. Hér mun birtast ykkur, ágætu gestir, ýmislegt sem varpar ljósi á og skýrir ríflega þriggja áratuga samstarf læknanna tveggja, sem hér sitja nú varnarlausir með fjölskyldum sínum og bíða þess sem verða vill.

Gylfi og Pétur eru jafnaldrar, en það er einn þeirra þátta sem einkennir tvíbura.
Þá er einnig er margt í ætt þeirra og uppruna sem styður vangaveltur af þessu tagi: Nöfn fólks í umhverfi þeirra, nú eða þeirra sjálfra, eru mörg hver fremur óvenjuleg. Eins og allir vita þá heitir Pétur, Zóphónías að millinafni, en það nafn fékk hann frá langafa sínum, síra Zóphóníasi Halldórssyni í Viðvík. Uppruni Gylfa er á Snæfellsnesi, en þar er að finna óvenjuleg nöfn sem fylgja ættum og viti menn, hét ekki móðurbróðir Gylfa, Soffanías? Móðir Gylfa var Kristín Cecilsdóttir og bróðir hans heitir einmitt Cecil, séra Cecil Haraldsson. Hvaða svar á Pétur við því? Jú, einmitt. Faðir Péturs var prestur; séra Skarphéðinn Pétursson, prófastur í Bjarnarnesi, Zópóníasson, en það sem meira er, þá er bróðir Péturs einnig prestur, séra Guðjón Skarphéðinsson.

Ég er sannarlega ekki hættur að tína til það sem tengir félagana Pétur og Gylfa saman, en verð auðvitað að stikla á stóru, (þó svo ég sé þess fullviss að sá sem hér stendur og les þetta, væri alveg til í að lesa fram eftir kvöldi).

Það var reyndar ekki fyrr en eftir menntaskóla (Gylfi MA embættispr HÍ 1974), Pétur ML -embættispr HÍ jan 1975) sem mennirnir tóku að bruna eftir samsvarandi braut í lífinu, eftir því sem best er vitað.

Báðir fóru þeir til Svíþjóðar í framhaldsnám, báðir sóttu þeir um stöðu í Laugarási í byrjun 9. áratugarins, og báðir fengu.

Þar með voru þeir komnir í Laugarás og hafa eiginlega bara ekkert farið þaðan síðan.

Til að tryggja varanlegt nágrennið hvor við annan völdu þeir sér, þegar þar að kom, lóðir hlið við hlið í Laugarási og ljúka loks störfum á sama tíma.

Það er varla að hægt sé að tala um æviskeið annars án þess að hinn komi við sögu.

(Hér væri upplagt ef lesarinn myndi snúa sér í tvo hringi áður en hann heldur lestrinum áfram)

Þegar nýr læknir kemur í sveitina þar sem flestir þekkja flesta, þarf hann dálítið að vinna í þvi að skapa sér ímynd. Leiðin að þessari ímyndarsköpun getur verið vandrötuð og líklegra en ekki að læknirinn falli ekki í kramið hjá öllum. Jákvæð ímynd læknisins felur í sér fullkomið traust sjúklinganna til hans sem fagmanns, annarsvegar og hinsvegar byggir hún á því hvernig persóna læknisins birtist sjúklingunum, annarsvegar í viðtalsherberginu og hinsvegar í öðrum samskiptum.
Pétur og Gylfi fengu fljótt á sig það orð, að vera fagmenn fram í fingurgóma. Um það held ég að uppsveitamenn séu almennt sammála. Það var hinsvegar þegar kom að birtingarmynd persónanna, sem þetta gat orðið aðeins skrautlegra svona til að byrja með.

Ég man eftir samstarfsmanni mínum sem fór í fyrsta skipti til Péturs og sagði farir sínar ekki sléttar eftir. Pétur mun í samskiptum þeirra hafa fjallað heldur frjálslega um málin, svona eins og hans er von og vísa. Ég gat þá, í krafti þekkingar og mannskilnings
(hér segir lesarinn: HE, HE) leiðrétt misskilninginn sem uppi var. Síðar, þegar nýr samstarfsmaður þurfti að kíkja á heilsugæslustöðina, beitti ég fyrirbyggjandi aðferðum, svo reynslan af heimsókninni ylli ekki umtalsverðu tráma (læknisfræðilegt hugtak). Þar með var allt í góðu.

Ég held að ég þurfi ekki að fjölyrða um hve samskipti læknis og nágranna geta verið snúin. Þau mega helst ekki verða of náin, þar sem þau tilvik geta komið upp þegar læknirinn þarf að fást við þá líkamsparta eða sálarkima sem enginn annar má vita af og ekki er talað um, sem síðan gæti mögulega haft í för með sér, að vissu leyti, þvingaðri samskipti en ella.

Það gæti nú aldeilis verið fróðlegt að gægjast inn í hugarheim Gylfa og Péturs; sjá þar ríflega 30 ára safn af leyndarmálum bæði gengins og núlifandi uppsveitafólks.

Félagarnir eru í huga mér svo jafn ágætir að ég man ekki hvor þeirra það var sem kallaði eftir því að ég færi að hreyfa mig meira. Á þeim tíma var ég víst byrjaður að bæta nokkuð á mig.

Auðvitað tók ég mark á tilmælunum og hóf reglubundnar gönguferðir um allar þær götur, vegi og stíga sem finna má í Þorpinu í skóginum. Ég velti því auðvitað fyrir mér, fullur réttlætiskenndar, hversvegna ég mætti þeim félögum aldrei á þessum heilsubótargöngum. Ég taldi, að ef læknir ráðlegði sjúklingi að hreyfa sig, hlyti hann sjálfur að iðka heilsubótargöngur af krafti.

Ég neita því ekki, að nokkrum sinnum hef ég séð fótspor Gylfa í nýfallinni mjöll.

Fótspor Gylfa?

Já, maður þekkir fótspor Gylfa.

Einu sinni hef ég mætt Pétri með kraftgöngustafi, sem hann útskýrði þannig að „frú Sigríður“ hefði skipað sér að fara út að ganga.

Ekki hafa félagarnir þurft að loka sig af, vegna stöðu sinnar.

Pétur fann golfið, eða golfið fann Pétur. Það hefur einhvernveginn verið viðkvæðið þegar spurt er um Pétur, þegar hann er ekki heima: „Hann er sennilega í golfi“.

Pétur er mikið í golfi.

Gylfi gekk meðal annars til liðs við Lions og það samband virðist hafa enst ansi vel, hvað sem menn nú taka sér fyrir hendur í þeim félagsskap. Hann hefur einnig verið drjúgur nefndamaður – sóknarnefnd, skógræktarnefnd og svo framvegis.

Svo sem í flestu öðru, eru Pétur og Gylfi ótrúlega samstíga í fjölskyldumálum. Miklar ágætis konur eiga þeir, þar sem eru Sísa og Rut. Ennfremur eiga þeir tvö börn hvor: pilta, sem eru eldri og stúlkur, sem eru yngri.

Gylfi eignaðist sín börn með fyrri konu sinni, en svo kom Rut til skjalanna með 3 syni.

Ekki hef ég nema gott eitt um þessar fjölskyldur að segja. Ég gæti sannarlega sett það hér í orð, en það verður að bíða betri tíma.
(það breytir engu þó lesarinn gæti vel hugsað sér að renna í gegnum slíka umfjöllun).

Ef við hugsum okkur hjónin tvenn, sem hér er um að ræða, sem blandaðan kór, þá er þar ýmsar samlíkingar að finna. Þar væri Gylfi augljóslega bassinn, Pétur tenórinn, nema hvað, Rut myndi manna altinn og Sísa sópraninn.

Bassinn er alla jafna fremur hæglátur og það er eins og hann bíði alltaf eftir að fá að reyna sig við djúpa tóninn í enda verksins. Bassar eru tregir til að taka efri tón en þann neðsta sem í boði er. Einu skiptin sem maður verður var við togstreitu innan bassans er, þegar verk sem sungið er, gerir ráð fyrir að bassinn skipti sér á milli tveggja tóna. Í þeirra huga eru það bara hálfgerðir tenórar sem taka efri tóna.

Það má að mörgu leyti segja það sama um altinn. Hann fer ekki hátt, en ef hann er ekki til staðar heyrast þess glögg merki.

Tenórinn dansar á efstu tónunum og kann hvergi betur við sig. Hann vill að til sín heyrist og það kemur æði oft fyrir að sópraninn snýr sér við í forundran og aðdáun. Það er oftast sussað á tenórinn, þegar hann þykir syngja af heldur miklum ákafa og sannarlega á hann það til að fara fram úr sér.

Sópraninn ber laglínuna á herðunum, kvartar yfir háu tónunum, en nýtur þeirra samt.

Eitt skýrasta dæmið um hvernig þessi kórsamlíking á rétt á sér er, að í Langholtinu í Laugarási eru bassinn og altinn búin að hreiðra um sig á jafnsléttu, en sópraninn og tenórinn talsvert ofar í holtinu.

Persónur Péturs og Gylfa eru afar ólíkar og þar með eru þeir kannski meira eins og mörg hjón. Það er oft sagt að því ólíkari sem hjón eru, því betur gangi sambúðin. Hjón eru oft nefnd í sömu andrá, til dæmis: Guðný og Skúli, Hjalti og Fríður, Ingibjörg og Hörður. Þannig er það einnig með þessa félaga. Við tölum um Pétur og Gylfa eða Gylfa og Pétur, reyndar einnig um Pétur og Sísu og Gylfa og Rut. Þannig eru sambandsmál þeirra flóknari en fólks yfirleitt.

Það var nefnt við mig að ég myndi verða einhverskonar fulltrúi sjúklinga og nágranna með þessu erindi, sem er auðvitað mikill heiður. Það verður hinsvegar hver og einn að lesa í þær aðstæður sem nú eru uppi og sem valda því að ég flyt ekki þennan pistil sjálfur.
Ég neita því ekki, að það, að standa ekki hér sjálfur, og flytja eigin orð, skapar ákveðið frelsi og það kann að hafa haft áhrif á þennan samsetning.

Pétur og Gylfi og fjölskyldur þeirra eru nú ekkert farin úr Laugarási þó þeir séu hættir að segja okkur til í heilsufarsmálum. Þeir eru enn á góðum aldri og geta þannig haldið áfram göngu sinni í nýfallinni mjöllinni í Þorpinu í skóginum.

Ég hef ekki trú á öðru en þeim muni takast vel að burðast með þakklæti okkar uppsveitamanna og vonast jafnvel til að það nái að lyfta þeim upp fremur en hitt.

Ég hef stundum spurt mig að því hvað ég hafi gert af mér til þess að verðskulda að þurfa að vera samtíðarmaður tiltekinna einstaklinga, sérstaklega á stjórnmálasviðinu. Ég get alveg með sama hætti spurt hvað ég hafi afrekað til að verðskulda læknaparið sem við höfum getað leitað til á nóttu sem degi í yfir þrjá áratugi.

Fyrir mína hönd og allra sjúklinganna og nágrannanna, þakka ég.

Páll M. Skúlason

14 febrúar, 2016

Á leikskólahraða í Brúðkaup

Íris Blandon í hlutverki sínu
Það verður seint ofmetið að þegar fólk í fullu starfi leggur á sig óhemju viðbótarvinnu til að gleðja samborgara sína. Vissulega er þessi vinna skemmtileg og gefandi, en hún gefur ekkert af sér í aðra hönd. Launin eru bara ánægjan af því að taka þátt, að reyna sig og taka loks við klappinu í lokin. Það eru líka ágætis laun.
Ég var einusinni í þessum sporum og fæ enn smá fiðring þegar farið er að æfa næsta verk, ekki nægilegan samt til að vera með.

Á föstudagskvöld lögðum við fD ásamt hópi þeim sem hefur gefið sjálfum sér nafnið "Gullaldargellurnar"*  leið okkar í Aratungu til að sjá leikverkið Brúðkaup eftir  Guðmundar Ólafssonar, í leikstjórn Gunnars Björns Guðmundssonar, sem leikdeild Ungmennafélags Biskupstungna sýnir þessar vikurnar og það var gaman.
Hér er ekki um að ræða leikdóm, enda þykist ég þess ekki umkominn að leggja mat á frammistöðu leikaranna, leikstjórans eða annarra. Að mínu mati stóðu leikararnir vel fyrir sínu og náðu að kalla fram hláturrokur okkar sýningargesta. Ég þakka fyrir mig.

Þessar leiksýningaferðir Gullaldargellanna eru orðinn fastur liður í tilveru okkar sem alveg má kalla "betri helminga" þeirra.  Þeim fylgir, að á undan  leiksýningunum er snæddur leikhúskvöldverður í veitingahúsi. Það stóð til einnig nú.   Þar var á borið fram einhver besta "ribeye" steik sem ég hef fengið, þegar hún var borin fram, 10 mínútum áður en tjaldið var dregið frá. Ég neita því ekki, að ég sakna þess að hafa ekki getað klárað steikina mína og notið "tira misu" í eftirrétt. Það var haft orð á því í hópnum að við yrðum bara að borða jafnhratt og vaninn var í leikskólanum á gullaldartímanum. Ekki fleiri orð um það.


*Gullaldargellurnar er lítill hópur kvenna sem starfaði saman í leikskólanum Álfaborg fyrir æ fleiri árum og telur að sá tími hafi markað gullöld þess leikskóla og þá aðallega vegna þeirra starfa þar, að sjálfsögðu.  Þetta er svipað því og þegar talað er um gullaldarlið Tungnamanna í körfubolta, sem ég tilheyrði að sjálfsögðu. Það góða lið gerði garðinn frægan um og upp úr 1980 og annað eins höfum við ekki átt í Tungunum síðan, þrátt fyrir að það hafi verið byggt heilt íþróttahús til að freista þess að ná svipuðum árangri í körfuknattleik aftur.

30 október, 2011

Aratunga, fimmtíu árum síðar (7) - lokaþáttur

Já, ætli fari nú ekki að koma nóg af þessu. Það var dálítið Aratunguhlé hjá mér frá 1975-9, en þá kom ég aftur og hóf störf við Reykholtsskóla, sem þá hét svo. Þar fengum við fD, með tvo unga syni, nýbyggt einbýlishús til afnota, sem einmitt stóð í næsta nágrenni við Aratungu - ætli það heiti ekki Miðholt 3. 
Ég var ekki lengur sá sem skellti mér á sveitaball, heldur kom ég nú í auknum mæli að þessum samkomum sem starfsmaður, enda sogðist ég fljótlega inn í starf ungmennafélagsins.
Þarna fékk ég að líta skemmtanalífið frá talsvert öðrum sjónarhóli, og þar var auðvitað margt gott og vont, eins og gengur. Auk þess var ég í þannig starfi að ekki þótti gott að vera of áberandi í skemmtanalífinu. Ég lærði það smám saman. 
Það er eins og mig minni að þegar þarna var komið hafi lögreglan ekki komið lengur að gæslunni, heldur hafi húsið sjálft útvegað fólk í þetta. Þetta ver ekki síst vegna þess hver dýrt var orðið að fá lögregluna.
Í gula húsinu þar sem við bjuggum urðum við nú ekkert sérlega mikið vör við sveitaböllin fyrir utan  bassadrunurnar  - dúmm, dúmm, dúmm - og síðan ef maður leit út á bjartri sumarnótt og leit ungt fólk  vera að dunda sér (það var gerður íslenskur texti við þetta lag, sem lýsir því hvað þarna fór stundum fram:)) á bak við kartöflukofann sem stóð við heimreiðina að skólastjórabústaðnum. 
Þetta var allt ágætt, en nú verð ég að fara setja punktinn á eftir þessari yfirreið hugans um sögu Aratungu - brot af sögu Aratungu, enda farinn að eyða allt of miklum tíma í þetta. Mörgu hef ég eðlilega ekki gert skil, enda er þetta vettvangur þar sem ég ræð nákvæmlega hvað ég skrifa og hvernig. 
Jafnóðum og ég hef verið að slá þetta inn hafa komið ný tilvik upp í hugann, sem ekki eru gerð skil hér, og mér er sagt að eftir því sem tímar líða muni opnast enn frekar fyrir þetta allt saman.

Í lokin nefni ég dæmi um ýmislegt það sem ónefnt er:


  • leiklistarstarfið
  • árshátíðir og þorrablót
  • kjúklingauppreisnina
  • foreldrabyrðina
  • minni fyrrverandi nemenda
  • afsagaðan fingur
...þetta voru bara nokkur dæmi.

Hlutverk Aratungu er mjög breytt frá því var í upphafi:
Það vita auðvitað allir að sveitaböllin eru horfin og koma varla til baka, og menn geta deilt um hvernig þróun það er.  Enn eru haldnar árshátíðir og réttaball, barnaball á jólum og þorrablót og eitthvað fleira svona fast, auk funda og annars slíks. Þá er skólmötuneytið þarna senn sem fyrr, en þar er heldur betur vel mannað í eldamennskunni nú um stundir. 
Þar sem áður var símstöð og íbúð húsvarðar, eru nú skrifstofur sveitarfélagsins, þar sem áður var þykkt rautt teppi í anddyrirnu, eru komna gráleitar flísar, þar sem áður var sjoppan, þar sem maður pantaði í gegnum gat á glervegg, svona eins og í bönkum, þar er komið salerni fyrir fatlaða, þar sem áður var ölsalan (öl og gosdrykkir var ekki selt á sama stað og sælgætið) er nú uppþvottavél.

Allt þróast og breytist þar  með talið svona félagsheimili til sveita. Það eru ýmsir möguleikar í þessu húsi sjálfsagt. Vandinn er að finna þá starfsemi sem gefur það af sér sem til þarf til viðhalds og endurbóta.

Þar með segi ég þetta gott.

29 október, 2011

Aratunga, fimmtíu árum seinna (6)

Margt er horfið í gleymskumistur frá sveitaballatíma mínum í Aratungu - nei, það er ekki vegna þess sem þú heldur - það eru nú liðin um það bil 40 ár síðan!
Hér eru nokkur leiftur, sem ég veit ekki einusinni hvort eru frá nákvæmlega þessum tíma:

- Sætaferðir frá BSÍ. Maður vildi helst vera kominn á ballið áður en rúturnar kæmu úr bænum eða frá Selfossi. Það var miðað við að dansleikir hæfust kl. 21.30 og að þeim lyki kl. 02.00. Fólk kom víða að, enda gafst ekki betra tækifæri fyrir ungt fólk til að koma saman og skemmta sér. Ég veit um marga, vítt um land sem eiga afskaplega ljúfar minningar frá þessum "svallsamkomum" eins og margir vildu nú kalla þetta.

- Löggan var á svæðinu. Viðhorfið til laganna varða var harla misjafnt og talsvert var um að það skærist í odda. Það voru sveitalöggurnar okkar sem komu best út úr þessu - höfðu mannlegri aðferðir við að hjálpa fólki að losna við streitu eða reiði, nú eða ölæðisalgleymi. Bragi á Vatnsleysu og Hárlaugur, heitinn, í Hlíðartúni voru meðal þeirra sem sinntu löggæslustörfum á þessum árum og það vita allir sem þá þekkja, að þar er/var ekki um neina svíðinga að ræða. Það er ekki óliklegt að fleiri sveitungar hafi komi fram í lögguhlutverki, en nánast viss um það.

-Niðri í kjallara í Aratungu var fangaklefi, sem mér þótti afskaplega merkilegur áður en ég hafði aldur til ballferða. Þá þótti mér þessi klefi vera til marks um illsku mannanna. Þarna gat maður séð þornaða blóðbletti  á veggjum. Seinna varð þetta í huganum eitthvað sem nýttist þjónum laga og reglu og þar með almenningi sem staður til að kæla niður einstaklinga sem ekki tókst að hafa taumhald á sjálfum sér.

Ef að kraftur orðsins þver

á andans huldu brautum,
gefa á kjaftinn verðum vér
vorum skuldunautum.
Káinn
- Það gengu af því sögur að slagsmálagengi gerði sér ferð á sveitaböll til að "snapa fæting". Aððallega heyrði ég af, eða varð var við hóp af þessu tagi sem kom frá Selfossi. Það myndaðist stundum núningur milli Selfyssinga annarsvegar og annarra hinsvegar. Þarna voru í fararbroddi miklir slagsmálahundar, sem ég sé stundum enn í dag í virðulegu afahlutverkinu. Mér fannst þeir vera hálf glataðir í þá daga, ekki síst þar sem þeir lágu, alblóðugir í rifnum fatalörfum fyrir hunda og manna fótum.




- Það losnaði sannarlega um ýmsar hömlur á sveitaböllum, svo sem eins og á öðrum samkomum af svipuðum toga fyrr og nú, hér og þar. Maðurinn er alltaf samur við sig. Þegar ég tala um að losna við hömlur, þá var ekki bara um að ræða hömlur sem leiddu af sér barsmíðar, heldur hjálpuðu aðstæðurnar ekki síður við að lyfta loki feimninnar, sem víða var nóg af, og sýna þannig hvað raunverulega bjó undir (meðan enn var ekki komið of mikið í belginn af göróttum drykkjum).





- Eftir á að hyggja finnst mér að það megi segja margt gott um sveitaböllin:

  • þau auðvelduðu mörgum leitina að framtíðar maka.
  • þau voru vettvangur fyrir ung fólk til að hittast og kynnast því nýjasta sem var í gangi 
  • þau auðvelduðu að mörgu leyti skrefin sem hver einstaklingur þarf á einhverjum tímapunkti að stíga úr bernskunni yfir í heim fullorðins fólks.
  • tilvera þeirra varð til að efla íslenska tónlistarmenn.
  • þau sköpuðu tekjur inn í sveitirnar.
Ætli það hafi ekki verið þegar félagsheimilin fengu vínveitingaleyfi sem sveitaböllin fóru smám saman að renna sitt skeið.

(enn og aftur get ég bölsótast yfir þeirri vitleysu að hækka lögræðisaldur í 18 ár og gera með þeim hætti fullorðið fólk að börnum fram eftir öllu).

(þá er bara eftir einn þáttur)


Aratunga, fimmtíu árum seinna (5)

Ég var svo óheppinn, á þeim tíma sem maður var að öðlast réttindi af ýmsu tagi, að vera fæddur síðast í árinu. Mig minnir nefnilega að það hafi verið tilgreindur fæðingardagur á nafnskírteininu sem ákvarðaði hvort mað komast inn á dansleiki þess tíma sem hér um ræðir. Ég fékk nú ekki að reyna að fara í á svona samkomur fyrr en ég var orðinn fullra 16 ára, frá og með janúarbyrjun 1970. Þá hef ég líklega átt mín fyrstu sveitaballaspor á sumarvertíðinni það ár og næstu 4 ár þar á eftir - minna eftir það.

Ég held að ég hafi nú aðallega farið á böllin í Aratungu þó vissulega hafi ég komið í hin húsin þrjú líka. Árið 1982 (sjá fundargerð í síðustu færslu) var hægt að fara á 19 dansleiki í uppsveitunum frá miðjum maí fram í lok september, þar af voru 6 í Aratungu. Það get ég fullyrt og ekki var ég svo sprækur að  eltast við þá alla 19, en mér finnst ekki ólíklegt að ég hafa farið á 5-6 yfir sumarið og þá ekki alla í Aratungu þar sem ég eyddi sumrunum á þessum árum við að smíða brýr vítt um landið.

Hljómsveitin Mánar, sem var stofnuð 1965, átti sinn blómatíma á sama tíma og sveitaballavirkni mín var mest. Það var nánast guðlast ef aðrar hljómsveitir spiluðu á sveitaböllunum - gerðist reyndar við og við, en það minnir mig að hafi nú ekki verið algengt. Ég ætla nú ekki að fara út í neina greiningu á hvað það var við þessa hljómsveit sem höfðaði til þess markaðar sem þarna var um að ræða, en allavega féll það sem þeir kusu að spila, vel að tónlistarsmekk mínum á þessum tíma. Til marks um það, hve minni mitt er gloppótt, ennþá, þá gat ég ómögulega munað hvaða lag það var sem ölllum Mánaböllum lauk á. Ég var viss um að það hafi verið eitthvað með Jethro Tull, fann ekkert líklegt. Ég fékk lítil viðbrögð við tilmælum um að lesendur gaukuðu að mér upplýsingum um þessa: einn brást við og minnti að þarna hafi verið um að ræða Black Magic Woman með Santana.

Nútímamaðurinn, ég, hélt áfram leit minni og komst á að því að til er fésbókarsíða um Hljómsveitina Mána. Ég varpaði fyrirspurn inn á vegginn þar og viti menn - ég fékk svar: Vangalagið hjá Mánum var July Morning með Uriah Heep


Þá liggur það fyrir. Margt sem Mánar og Uriah Heep hafa á samviskunni. Þetta lag kom út 1971, spurning hvert var vangalagið hjá þeim á undan því?

Ég neita því ekki, að það komu tímabil þar sem ég var búinn að fá alveg nóg af Mánum, alveg eins og margir fengu nóg af Steina Spil, Ómari Ragnarssyni nú eða hverjum þeim sem er yfir og allt um kring, of lengi.

(meira kemur..)

27 október, 2011

Aratunga, fimmtíu árum seinna (4)

Ég ætla nú að leika biðleik, áður en ég tekst á við að lýsa einhverju af því sem ég og aðrir reyndu og upplifðu á blómatíma sveitaballanna hér í uppsveitum. Þaðan búa margir miðaldra, virðulegir borgarar, að ótrúlegum reynslusögum, en eins og með svo margt: það sem gerðist á sveitaböllunum, verður áfram í þeim minningasjóði - það væri varla á það hættandi fyrir marga að ljóstra slíku upp við afa- og ömmubörnin í samfélagi nútímans.

Biðleikurinn er til kominn vegna þess að ég get ómögulega munað hvaða lag það var sem Mánar enduðu öll sín sveitaböll á. Kannski einhver sem veit gauki því að mér. Mig minnir að það hafi verið Jethro Tull með flautuleik, en er ekki viss.

Biðleikurinn, já...
Það kom upp í hendurnar á mér fundargerð, í tengslum við afmæliskvöldvökuna sem áður er nefnd. Hún er frá því í marz, 1982. Síðan þá erum við búin að ganga í gegnum samkeppnisbrjálæðið allt saman, með tileyrandi hruni, meðal annar þar sem kapítalisminn virkaði ekki í frænda-, kunningja-, vina- og flokksbræðrasamfélaginu.

Kannski felst einmitt blómatími sveitaballanna í uppsveitunum í því sem gerðist á árlegum fundum eins og þeim sem hér um ræðir.

Sviðið var, að hér voru komi 4 félagsheimili hvert öðru glæsilegra, Aratunga, Borg í Grímsnesi, Árnes í Gnúpverjahreppi og Flúðir í Hrunamannahreppi. Það var blómatími í dægurtónlistarlegu tilliti. Fólk taldist fullorðið og hæft til að fara á dansleiki þegar það var 16 ára.
Allt frá árinu 1966 komu saman tveir fulltrúar frá hverju félagsheimilanna og röðuðu niður helgunum, ekki síst yfir sumarið. Þeir gerðu nú heldur meira en það.
Á fundinum sem ég nefndi var eftirfarandi ákveðið um verðlag:
Miðaverð: kr. 150
Ölflaska: kr. 10
Flatkökur: kr. 15
Brauðsamloka: kr. 20
Fatagæsla: kr. 5 (á flík)

Þarna fundu þessir hagsmunaaðilar þann flöt, að það gæti verið betra fyrir alla aðila að skipta kökunni jafnt á milli sín, frekar en slást um hana.

Ég vil kalla þessa aðferð NÚ MÁ ÉG - NÚ MÁTT ÞÚ aðferðina við að lifa saman. Það væri gaman ef sagnfræðingur tæki sig til og rannsakaði ris of fall sveitaballanna.

Þau voru allavega harla mikilvæg, í mörgu tilliti.

25 október, 2011

Aratunga, fimmtíu árum seinna (3)

Það kom fram í yfirferð Garðars Hannessonar, sem var fyrsti húsvörður í Aratungu, að tvennt hafi orðið til þess að salurinn varð minni en upphaflega var gert ráð fyrir:
- Leikhúsmenn einhverjir hvöttu menn til að dýpka leiksviðin á öllum þessum félagsheimilum sem var verið að byggja um allt land á þessum tíma. Það þyrfti til þess að Þjóðleikhúsið gæti komið með sýningar í húsin. Þetta var gert í  Aratungu. Sviðið var dýpkað um einn metra, en á móti minnkaði salurinn á lengdina um einn metra.
- Vegna skorts á þaksperruefni var síðan gripið til þess ráðs að lækka þakið um 30 sentimetra.

Það var svo í þessu húsi sem Tungnamenn hófu að iðka íþróttir sínar þegar það var leyft - það virðist hafa verið talsverð andstaða við að hleypa svo eyðileggjandi starfsemi sem íþróttum inn í húsið. Leikfimin í barnaskólanum var ekki flutt niður í Aratungu fyrr en um það bil 5 árum eftir að húsið var tekið í notkun - leikfimin var iðkuð áfram af krafti á gangi í barnaskólanum sem er um það bið 3m á breidd og kannski 15-20 m á lengd.  Ég er ekki hissa á hve góðu valdi við, sem þarna iðkuðum leikfimi af krafti undir stjórn Þóris Sigurðssonar frá Haukadal, höfum náð á fínhreifingum.

Það kom að því að ég fékk að fara á fyrstu körfuboltaæfinguna í húsinu - giska á að það hafi verið 1966 eða 7. Sú reynsla hafði svo djúpstæð áhrif á mig, ungan sveininn, að ég svaf ekki alla nóttina á eftir - man enn örvæntinguna yfir þessu svefnleysi klukkan sex um morguninn.

Þarna var síðan lagður grunnurinn að gullaldarliði Tungnamanna í körfubolta, sem ég var auðvitað hluti af. Í þessu liði voru margir öndvegis leikmenn, sem náðu undraverðum tökum á þessum leik í þessu húsnæði sem varð stöðugt smærra eftir því sem leikmennirnir eltust og stækkuðu.
Þegar liðið góða fór síðan í önnur hús til að keppa við nágranna, þá var að jafnaði hærra til lofts (hafði ekki verið timburskortur á landinu). Þar vakti skottækni þeirra í liðinu sem tóku langskotin talsverða athygli - körfurnar urðu samt ekkert færri þess vegna.

Á æfingum var hléið alltaf talsvert tilhlökkunarefni, en það var farið í ölkælinn og tekið úr eins og einni Sinalco, ískaldri.

(enn verður áfram haldið - framundan er að fjalla um sumardansleikina - þar gerðist allt)

24 október, 2011

Aratunga, fimmtíu árum seinna (2)

Árið 1961 var ég talsvert ungur eins og áður hefur komi fram og menn geta ímyndað sér. Þá var nýja félagsheimilinu gefið nafnið ARATUNGA, með öðrum orðum tungan hans Ara. Þannig skildi ég þetta allavega og lái mér hver sem vill.
Hér niðri í Laugarási var aðeins um einn Ara að ræða, sem eitthvað kom fyrir í umræðu manna á meðal.  Það þarf því engum  að þykja það skrýtið, að ég hafi tengt nafnið á nýja félagsheimilinu við þann eina Ara sem ég þekkti þá, Ara í Auðsholti.  Það dettur nú væntanlega engum í hug, að Aratunga hafi hlotið nafn vegna hans í raun, en ég man enn myndina sem mótaðist í höfðinu á mér og sem átti að mynda nokkurskonar lógó hússins.

Aratunga er í Biskupstungum. Biskupstungur draga nafn sitt af tungum tveim, Eystri tungunni og Ytri tungunni. Austan Eystri tungunnar er Hvítá, vestan Ytri tungunnar er Brúará og þarna á milli er síðan Tungufljót.
Ég reikna með að tungu-hlutinn í Aratungu sé til kominn vegna þessara  tungna. Ara hlutinn vísar hinsvegar til Ara fróða Þorgilssonar, sem var í fóstri í Haukadal frá 7-21 árs og er talinn hafa verið aðalhöfundur Íslendingabókar og Landnámu.
Ari Þorgilsson virðist hafa lært klassísk fræði í Haukadal og var vígður til prests og þjónaði á Stað á Ölduhrugg (Staðastað). Ari þessi var nú bara í 14 ár hér í sveit, sem barn og ungur maður, en sú dvöl hans dugði til gera hann ódauðlegan í nafni félagsheimilis sveitarinnar.

(meira síðar)

23 október, 2011

Aratunga, fimmtíu árum seinna (1)


Það eru sem sagt 50 ára á þessu ári frá því félagsheimilið Aratunga var vígt og þar með hófst tími sem hefur haft umtalsverð áhrif á fjölda fólks. 
Ég hugsa að ég hefði nú ekki farið að fjalla um þetta efni nema vegna þess, að ég naut þess heiðurs í gærkvöld að vera veislustjóri á kvöldvöku í tilefni af tímamótunum. Þegar maður er maður með hlutverk þá reynir maður að sjá til þess að standa ekki algerlega á gati og þess vegna fór ég að bruna á vængum hugans langt til fortíðar. Þar reyndist margt vera skýjum hulið ennþá, þótt einstaka gamlir atburðir eða minningar brytust fram úr hugarfylgsnum.

Það liggur við að ég lýsi því yfir, að í Aratungu hafi það gerst sem mótar elstu, skýra minningu mína úr barnæsku, en það var atriði úr leikritinu Lénharði fógeta, sem Ungmennafélag Biskupstungna sýndi á víglsluárinu, þegar ég var 7 ára. Í þessu atriði var um að ræða bardaga þar sem menn voru drepnir (auðvitað ekki í alvöru, þetta var leikrit). Sakleysi mitt, sem var fæddur og uppalinn í tiltölulega kristilega þenkjandi fjölskyldu, þar sem messuferðir voru, í minningunni, vikulegt brauð, beið talsverða hnekki við að upplifa þarna fólk drepið þeð þessum hætti beint fyrir augum mínum - á fremsta bekk. Á þeim tíma var RÁS1 eini ljósvakafjölmiðillinn og Tíminn eina dagblaðið, en hann kom í bunkum með mjólkurbílnum, við og við - og ég las ekkert nema Denna dæmalausa í því blaði. Þá var sko ekkert World of Warcraft eða Call of Duty, nú eða einhver annar svipaður tölvuleikur. Það var ekkert sjónvarp þar sem persónurnar sögðu fokk í öðru hverju orði eða drápu hver aðra með grafískum hætti. Nei, þetta var veröld sakleysis þar sem það næsta sem við komumst einhverju ofbeldi var, þegar við skiptum liði og lékum kúreka  og indíána í runnunum í Ólafs- eða Einarslandi.  Auðvitað voru indjánarnir vondu kallarnir, þannig var það í bandrísku stórmyndunum sem einhverjir í hópnum höfðu séð.

Leikdeild UmfBisk flutti nokkur brot úr Lénharði fógeta í gærkvöld. 
Þar var enginn drepinn. 
Það lá hinsvegar morð í loftinu, þegar Hildur María á Spóastöðum í hlutverki Guðnýjar gerði sig líklega til að drepa Runólf Einarsson, í hlutverki illmennisins Lérnharðs fógeta, með silfurlituðum smjörhníf.
Ætli það atriði myndi ekki bara teljast "krúttlegt"

Það getur verið, en ég er ekki viss, að atvikið þegar Kusa hafði mig undir og hnoðaði, sem eldri minning - það vita sjálfsagt aðrir betur en ég.

Meira kemur í tilefni af Aratunguafmælinu síðar.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...