Íris Blandon í hlutverki sínu |
Ég var einusinni í þessum sporum og fæ enn smá fiðring þegar farið er að æfa næsta verk, ekki nægilegan samt til að vera með.
Á föstudagskvöld lögðum við fD ásamt hópi þeim sem hefur gefið sjálfum sér nafnið "Gullaldargellurnar"* leið okkar í Aratungu til að sjá leikverkið Brúðkaup eftir Guðmundar Ólafssonar, í leikstjórn Gunnars Björns Guðmundssonar, sem leikdeild Ungmennafélags Biskupstungna sýnir þessar vikurnar og það var gaman.
Hér er ekki um að ræða leikdóm, enda þykist ég þess ekki umkominn að leggja mat á frammistöðu leikaranna, leikstjórans eða annarra. Að mínu mati stóðu leikararnir vel fyrir sínu og náðu að kalla fram hláturrokur okkar sýningargesta. Ég þakka fyrir mig.
Þessar leiksýningaferðir Gullaldargellanna eru orðinn fastur liður í tilveru okkar sem alveg má kalla "betri helminga" þeirra. Þeim fylgir, að á undan leiksýningunum er snæddur leikhúskvöldverður í veitingahúsi. Það stóð til einnig nú. Þar var á borið fram einhver besta "ribeye" steik sem ég hef fengið, þegar hún var borin fram, 10 mínútum áður en tjaldið var dregið frá. Ég neita því ekki, að ég sakna þess að hafa ekki getað klárað steikina mína og notið "tira misu" í eftirrétt. Það var haft orð á því í hópnum að við yrðum bara að borða jafnhratt og vaninn var í leikskólanum á gullaldartímanum. Ekki fleiri orð um það.
*Gullaldargellurnar er lítill hópur kvenna sem starfaði saman í leikskólanum Álfaborg fyrir æ fleiri árum og telur að sá tími hafi markað gullöld þess leikskóla og þá aðallega vegna þeirra starfa þar, að sjálfsögðu. Þetta er svipað því og þegar talað er um gullaldarlið Tungnamanna í körfubolta, sem ég tilheyrði að sjálfsögðu. Það góða lið gerði garðinn frægan um og upp úr 1980 og annað eins höfum við ekki átt í Tungunum síðan, þrátt fyrir að það hafi verið byggt heilt íþróttahús til að freista þess að ná svipuðum árangri í körfuknattleik aftur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli