04 febrúar, 2016

Ég á bara ekki heima þar!

 Ætli ég sé ekki þessi maður sem er alltaf að láta smáatriðin fara í taugarnar á sér, með þeim afleiðingum að aukaatriðin verða að aðalatriðum.  Það koma þeir tímar, að ég verð að blása, oftast inn á einhverjum samfélagssíðum eins og þessari.  Með því er ég yfrleitt búinn að koma viðkomandi málefni frá og fer að hugsa um eitthvað annað.

Nú þarf ég að koma þessu frá.

Ég bý í Laugarási, og lagði meira að segja í það að stofna sérstaka síðu helgaða þessu heimaþorpi mínu á snjáldru/Fb/Facebook. Þangað fer ég stundum til að skoða eða til að bæta einhverju inn sem mér finnst í lagi að setja þangað.  Ég lít á mig sem tandurhreinan Laugarásbúa, ómengaðan af nágrannasvæðum, þó ég eigi kannski sögu hér og þar. 
Þarna inni á þessari sérstöku síðu Þorpsins í skóginum birtist mynd mín og nafn, en jafnframt er þess sérstaklega getið að ég sé frá Hruna. Hér með hafna ég því að ég sé frá Hruna. Ég hef reynt ýmislegt til þess að bera þessi heimkynni af mér, án árangurs.

Nú hef ég ekkert nema gott um Hruna að segja, merkur sögustaður þar sem dansaður var frægur dans með óvæntum endalokum. Það hefur margt góðra karla og kvenna átt heima gegnum aldirnar og þar ráða nú húsum indælis prestur  og prestsfrú (hér þurfti ég á ákveða hvort óhætt væri að kalla konu prests prestsfrú. Ég skýli mér á bakvið það að ég ólst upp við þá venju, og ætla ekkert að fara að breyta út af henni. Velti því hinsvegar fyrir mér hvernig ég hefði farið að ef konan hefði verið presturinn. Hefði ég sagt prestur og prestsherra? Læt það liggja millli hluta). Í sveitinni í kring, Hrunamannahreppi, býr margt ágætisfólk í þéttbýli og dreifbýli. Allt þetta breytir því ekki að ég er afar andvígur því að  vera sagður eiga heima í Hruna. 

Viti einhver gott ráð til að breyta þessari óvelkomnu heimilisfesti, bið ég þann hinn sama að benda mér á ráð sem dugir.


Sr Óskar Hafsteinn Óskarsson í Hruna


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...