Sýnir færslur með efnisorðinu Kúba. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Kúba. Sýna allar færslur

08 maí, 2019

Spjaldaður (997)

Það hefur æxlast þannig, að ég lendi oftar en ekki bak við myndavélar. Frá þessu átti sér stað umtalsverð breyting þar sem tríóið: ég, fD og fR lögðum leið okkar til Kúbu og Kanada í fyrri hluta marsmánaðar. Auðvitað tók ég aragrúa af myndum, en þarna varð sú breyting á að fR hafði tekið með sér forláta spjaldtölvu og myndaði af miklum móð, þar á meðal mig, alls óvanan slíkri meðferð.
Það sem meira er þá tók hún sig til fyrir skömmu og sendi mér afraksturinn, að því er mig varðaði.

Auðvitað eru myndirnar ágætar, í sjálfu sér, eins og vænta mátti, en mér fannst samt eitthvað ekki vera eins og ég hafði séð það fyrir mér. Þetta eitthvað er ég sjálfur. 
Það er ljóst, að ég verða að fara að venja mig við þá hugsun um eða sýn á sjálfan mig, að ég er ekki sá sem ég er, þar sem ég birtist á ljósmyndum, sem ég hef ekki sjálfur tekið og unnið úr.

Hvað um það, þegar svona tækifæri kemur upp í hendurnar á manni þá er ekki um annað að ræða en gera eitthvað úr því. Því birti ég hér fyrir neðan umræddar myndir, sem ég hef aðeins sett mín fingraför á. Í þeim birtist sú manneskja sem ég er, víst.

Fyrsta mynd: Indælt morgunverðarborð í Casilda.


Önnur mynd: Sama borð þar sem tríóið er saman komið.


Þriðja mynd: Sama borð, annar tími. Ég hef reyndar ekki reykt árum saman, sem samt....


Fjórða mynd: Havana í 1948 árgerð, þar sem mér var ætla að spjalla við bílstjórann af þekkingu um bifreiðina.


Fimmta mynd: Kirkja í Vinales. Maður fer inn í kirkjur þar sem þær eru. Já, það eru kirkjur á Kúbu.


Sjötta mynd: Endurmenntun í reykingum. Maður sleppir því ekki að prófa ekta Kúbuvindla.


Sjöunda mynd: Mávarnir við Niagarafossana voru harla vanir túristagerinu.


Áttunda mynd: Á Front Street í Toronto, fyrir framan Glenn Gould Studíóið situr sjálfur Glenn Gould á bekk. Glenn Gould (1932 - 1982) var kanadískur píanóleikari og einn þekktasti og virtasti píanóleikari 20. aldar. Hann var dáður fyrir túlkun sína á verkum J.S. Bach.


Þá höfum við það gott fólk. 
Nú þekki ég sjálfan mig betur og líklegast þið einnig. 











04 apríl, 2019

Kúba: lokahnykkur

Fjölnota poki með einu af átrúnaðargoðum táningsáranna
Jæja, gott fólk. Nú er ég búinn að skrifa rúm 14.000 orð um þessa Kúbuferð, 81.000 slög hef ég átt á lyklaborðið og blaðsíður í A4 með 12 pt letri eru orðnar 33 - fyrir utan myndir..

Þetta er komið nóg og jafnvel talsvert umfram það. En hversvegna í ósköpunum hef ég nú verið að eyða stórum hluta lífs míns frá því við komum heim, í að rifja upp þessa ferð?
Það er í sjálfu sér áhugaverð spurning.
Ég reikna með að skásta svarið sé þau áhrif sem þessi ferð hafði á mig. Mér fannst einhvern veginn ómögulegt að skilja hana bara eftir í höfðinu, ekki síst vegna þess að ég fæ stundum að heyra það að minnisstöðvarnar séu eitthvað byrjaðar að gefa sig.


Þá er að fara að klára þetta.
Morguninn eftir þríhjólsævintýrið yfirgáfum við Havana og héldum sem leið á austur á bóginn til mikils hótelasvæðis og baðstranda í Varadero.
Við Niagarafossa
Það beið síðan ríflega tveggja daga dvöl í lúxus, á Hotel Iberostar áður en flugið var tekið til Toronto, en þar nýttum við þrjú tækifærið til að skoða okkur aðeins um í tvo daga, m.a. Niagara fossa og CN turninn. Að því búnu flugum við bara heim svona eins og gerast vill í ferðalok.

Svona í lokin þetta:
Ég tel mig mæla fyrir munn okkar fD beggja þegar ég lýsi ánægju með og þakklæti fyrir samfylgd fR (Ragnheiðar Jónasdóttur). Ég held, svei mér þá, að indælli ferðafélagi sé vandfundinn.

Í CN-turninum í Toronto
Þá er full ástæða til að gera mikið úr þætti félaganna Guðna og Carlosar, forsvarsmanna Kúbuferða, fyrir að bjóða upp á svona ferð, og fylgja síðan sjálfir með alla leið. Guðni "dílaði" við landa sína, en Carlos var öllum hnútum kunnugur á sínu föðurlandi. Glimrandi gott teymi þar á ferð. Auk þeirra komu tveir öndvegismenn að ferðinni allan tímann, leiðsögumaður og bílstjóri.
Ég vona að Guðni og Carlos endist sem lengst í að fara með hópa í svo persónulegar ferðir sem þessa.

Auðvitað er ég einnig ánægður með ágætt samferðafólk, annað, venjulega og vandaða Íslendinga af ýmsum toga.

Nú er ég búinn að tryggja það, að ég geti, þegar fram líða stundir og minnið fera að gefa sig enn frekar, leitað í þessa samantekt og yljað mér við minningarnar á dimmum og köldum vetrarkvöldum, kannski með VR við höndina ... hver veit?. 


03 apríl, 2019

Kúba: Þríhjól, ríkispizza og kókótaxi

Það var komið myrkur þegar Kúbuferðahópurinn sneri til baka til Havana eftir langan og viðburðaríkan dag.  Ef skynsemin hefði ráðið, hefði þetta kvöld átt að líða í rólegheitum, með VR á náttborðinu og upprifjun á deginum í höfðinu og það var líka vilji ótilgreinds hluta  þremenninganna sem hér um ræðir.  Bara slappa af og slaka á. Annar, einnig ótilgreindur hluti hópsins var ekki búinn að gleyma ríkispizzustaðnum Prado y Neptuno, sem áður hefur komið við sögu og þeim fyrirætlunum sem þá voru uppi um að fara ekki frá Havana fyrr en slíkri pizzu hefði verið sporðrennt. Á endanum, hafði þessi hluti hópsins betur og því var ákveðið að leggja í þá 20 mínútna gönguferð sem áður hafði verð mæld.

Ég ætla nú að hætta að tala um þennan hóp í þriðju persónu og bara segja frá því sem gerðist á tiltölulega persónulegan hátt, í þeirri von að ég teljist ekki ganga of langt. Þessi umræddi hópur var, auk mín, skipaður þeim fD og fR, en þær hafa áður komið við sögu í þessum pistlum. Við erum öll komin mismunandi langt inn á sjötugsaldurinn, en ég minnist þess enn frá æskuárum mínum hvað mér fannst slíkt fólk vera orðið gamalt - hrumt og átti erfitt með gang, talaði hægt og hreyfði sig hægt, undirlagt af gigtarsjúkdómum og átti ekki langt eftir, augljóslega. Ekki þarf ég að taka það fram, að viðhorf mín til þessa hafa breyst umtalsvert síðan, enda fyrri skoðunin hreinir aldursfordómar, sem ekki eiga að líðast.

Hófst nú gangan, en þar sem við höfðum áður farið þessa leið og hún hafði verið algerlega vandræðalaus létum við vera að taka með okkur götukort, þrátt fyrir að við vissum ekki fyrir víst hvað torgið (Parque Central) héti né nafnið á veitingahúsinu (Prado y Neptuno), en þetta má hvorttveggja sjá á kortinu sem hér fylgir, merkt með Y. Leiðin þarna á milli er merkt með rauðri línu og endar í híbýlum okkar, sem ég merkti með X. Ég er reyndar ekkert viss um að við höfum búið á þessum stað, gæti verið einni götu nær eða fjær, sem segir margt um þá miður ábyrgu ákvörðun að leggja þarna af stað upp götuna Virtudes, í myrkri, kortlaus, en auðvitað alls ekki vitlaus - því dytti mér aldrei í hug að halda fram. 

Þarna komum við út úr íbúðinni og ég taldi bara sjálfsagt, að leið okkar hæfist með því halda þá til hægri (blá brotin lína á kortinu). Þarna hefðu þær fD og fR átt að gefa skýrt til kynna efasemdir sínar um að þetta væri rétt ákvörðun, t.d. með því að segja sem svo: "Ertu viss um að við séum á réttri leið?" (Þrjú hjól undir bílnum, en áfram skröltum við þó, o.s.frv.). Nei, þær gerðu engar athugasemdir og  gangan hófst, öruggum skrefum fólks sem vissi hvað það var að gera.  Nú yrði stutt í ríkispizzuna, sko.  
Það var hinsvegar ekki langt liðið á þssa göngu þegar ég sá birtast út úr myrkrinu, hús, sem lokaði götunni og sem sannarlega átti ekki að vera þarna. Það var eitthvað sem sagði mér þá að ekki væri allt eins og ætlað var.  Ég hægði aðeins á mér í þeirri von að efasemdir mínar yrðu staðfestar, sem gerðist nú ekki strax, eiginlega ekki fyrr en ég orðaði þær. Við trúðum því ekki að svona gæti þetta verið. Það átti að vera öðruvísi.  Þetta hafði nú ekki verið flókin leið þarna á milli. 

Við afréðum að ganga götuna á enda og sjá hvað þar biði okkar, en auðvitað var það bara endinn á götunni. Þá fórum við að snúast lítillega hvert um annað, í algerri óvissu um hvað bragðs skyldi taka. 

Eins og alltaf á þessum götum var þarna annað fólk og það var ákveðið að reyna að spyrja til vegar. Maður á miðjum aldri varð fyrsta fórnarlambið. Bæði var það, að hann talaði nánast enga ensku og við enga spænsku og við mundum ekki hvað torgið sem við vorum að fara á, heitir. Var það Plaza Central, Central Plaza, það var allavega eitthvað Central.  Maðurinn vildi samt allt fyrir okkur gera og bauðst til að ganga með okkur áleiðis, en það leystist einhvern veginn upp.  

Þá bar að konu eina, einnig á miðjum aldri, ef  til vill. Það var sama með tungumálasamskipti okkar, en hún leiddi okkur inn á rétta braut varðandi nafnið á torginu, sem er Parque Central. Þar sem við vorum að "tala" við hana bar að mann, líklega milli tvítugs og þrítugs á einu af þessum þríhjólum sem er mjög algeng þarna á götunum og þá í hlutverki leiguhjóla, eða TAXA. Við ræddum málin stutta stund og þau reyndu að leiðbeina okkur, en það náðist ekki mikill skilningur úr því samtali. Það var þá sem ökumaður leiguhjólsins sagði okkur að setjast í hjólið og hann myndi fara með okkur. Þetta var hjól svipaðrar gerðar og sjá má hér efst, tvö frekar mjó sæti og gripurinn allur fremur veikbyggður. 
"Are you sure? There are three of us?"
"Yes, yes, come, come, sit in". 

Ekki neita ég því að það komu að minnsta kosti vöflur á mig. Hvernig átti maður að bregðast þarna við? Þetta var eiginlega dálítil klípa. Annarsvegar maður sem, sem örugglega veitti ekkert að pening,  og var allur af vilja gerður til að hjálpa okkur að komast í pizzuna og hinsvegar hugmyndin um að við þrjú sem þarna vorum, settumst á þetta veikbyggða farartæki. Ég get alveg fjallað um það hvað við erum nú nett í vextinum og allt það, en læt það vera af augljósum ástæðum. 

Það var um það bil þarna sem fR og fD misstu svalann (kúlið) eins og sagt er stundum. ( Ég tel mig hafa haldið mínum, en er reyndar ekki viss) Ég veit svo sem ekki fyrir víst hvað olli því að það gerðist, mögulega einhverskonar taugaveiklunarviðbrögð þarna úti á þessari illa lýstu götu, rammvillt og þurfa að taka ákvörðun um að setjast upp í þríhjól hjá einhverjum náunga sem mögulega gæti haft eitthvað misjafnt í hyggju. 
Það er einnig mögulegt að þetta hafi tengst tilhugsuninni um það hvernig við þrjú áttum að geta komist fyrir á þessu þríhjóli. Ég bara veit þetta ekki og þær hafa ekki fjölyrt um það. 
Svalinn lét á sjá allavega og við tók óstöðvandi hlátur, sem hélt áfram eftir að niðurstaða varð um að í þríhjólið reyndum við að troða okkur og fá flutning á torgið Parque Central, þar sem ríkispizzuveitingahúsið var. 
Hann hélt áfram meðan fR settist í annað sætið og ég í hitt. Eftir þetta ríkti almenn kátína af einhverju tagi meðan fD brölti einnig inn, settist á annað læri mitt og hné, en tókst einnig að ná taki á veikbyggðum þakbita,  þegar ökumaðurinn kom sér síðastur fyrir og hóf að taka farartækið til kostanna, þegar tók að marra og braka í farkostinum,  þegar keðjan fór af, ökumaðurinn sagði "sorry" stökk af og skellti henni á aftur í dimmu stræti í gömlu Havana, þegar ökumaðurinn beygði sig til hliðar til að líta eftir afturdekkinu sem hélt okkur fD uppi.
Það dró hinsvegar úr henni eftir því sem lengra leið og við fundum næstum áþreifanlega hve miklum átökum blessaður ökumaðurinn þurfti að beita, en talsverður hluti leiðarinnar var á fótinn. 
Hún vék loks fyrir viðringu fyrir þessari hetju sem loksins stöðvaði og benti: "Parque Central". Og viti menn, þarna blasti torgið við. Ökumaðurinn steig að hjólinu og við á eftir. Hann horfði á okkur aðframkominn af mæði og í ljósunm frá torginu blikaði á svitadropana á efri vör hans.  
Hversdagshetja.  

Hann fékk aukagreiðslu og handaband í þakklætisskyni fyrir allt það sem hann hafði þarna á sig lagt fyrir okkur túristaræflana.

Jú, upphófust hláturrokur, stundum upp úr eins manns hljóði, þegar tilhugsunin kallaði fram myndir af einstökum þáttum þessa, sem átti að verða 20 mínútna göngutúr eftir götu sem ber heitð Virtudes.

Þarna var leiðin orðin greið á Prado y Neptuno, ríkisrekinn veitingastað sem sérhæfði sig í pizzum. Við þennan stað og pizzurnar þar hafði hugur hluta hópsins dvalið samfellt í þrjá daga. Nú var komið að því.  
Við vorum reyndar næstum ein á þessum, svolítið sovéska stað. Sérstakur dyravörður tók á móti okkur, okkur vísað til sætis, boðið að drekka o.s.frv., pizzur valdar eftir smekk. Eftir mjög hæfilegan tíma komu þær - snilldar pizzur og vel þess virði að bíða eftir þeim í nokkra daga og leggja á sig Havanaævintýri til að fá að njóta þeirra.  Undur góðar, bara.

Við tókum góðan tíma í að klára þennan þátt kvöldsins, en þá hófst umræðan um heimferð. Ættum við að ganga í tuttugu mínútur eða taka Coco taxa.  Nú var það ég, sem beðið hafði eftir ferð með slíku farartæki dögum saman, sem náði meirihluta og út héldum við á leigubílastæðið sem þarna var rétt hjá. Það voru Coko taxar í röðum. Völdum bara þann sem næstur var. Bílstjórinn ýtti honum á góðan stað og allt klárt til að stíga um borð. Viti menn, rifjaðist ekki upp hluti hláturkastsins frá því fyrr um kvöldið og nú vegna þess, að mér var ætlað að brölta í miðsætið (en í Coco taxa eru nefnilega þrjú sæti). Þetta gerði ég með glans (þau einhverjir í hópnum hefðu jafnvel vonað eitthvað annað) og fylgdarkonurnar settustu sitthvorumegin við mig og allt róaðist og ferðin gat hafist. 
Við vissum reyndar ekki heimilisfangið, en höfðum, sem betur fer tekið með okkur nafnspjald, sem dugði til þess að heim komumst við úr sallafínni ferð.

Þreyta dagsins tók nú aftur yfir eftir að adrenalínflæðið hafði fyrr um kvöldið fjarlægt það eins og dögg fyrir sólu.  Nóttin tók okkur mjúklega í konunglegum húsakynnunum.

Það verður víst einn pistill enn ..........

02 apríl, 2019

Kúba: Viñales, vindlar, vegglist, uxar og .......

Í þurrkhúsinu
Það var heldur betur vaknað snemma þennan morguninn. Reyndar ekki snemma á þann mælikvarða sem ég nota á það hugtak, en þetta taldist víst snemmt. Það var kominn föstudagurinn 8. mars og framundan mikill dagur, rútubílsferð í vesturátt (VSV) frá Havana, í Viñales dalinn. Þau ykkar sem vilja vita eitthvað meira um jarðfræði og sögu þessa dals geta kíkt hingað.
Megin erindi okkar í þennan dal, sem er í um 180 km. fjarlægð frá Havana, var að kynnast aðeins hvernig farið er að því að búa til blessaða Kúbuvindlana, en það var nú líka fleira sem við tókum okkur fyrir hendur.   Ég set hér enn inn kortið af Kúbu svo betra sé að glöggva sig á þessu ferðalagi.


Langstærstan hluta leiðarinnar var ekið eftir hraðbrautinni A4, en það er dálítið sérstakt með hraðbrautir á Kúbu, að þær eiga það til að vagga manni dálítið og svo eru þessir troðnu slóðar sem liggja meðfram þeim (alla vega að hluta). Þrír samsíða slóðar, en þeir eru víst þarna vegna hestvagnanna.

Glæsilegur uxi á útsýnisstað
Viñales dalurinn er fagurt fyrirbæri, svo mjög að þar sem ekið er niður í hann er útsýnisstaður með hóteli og veitingasölu, lifandi tónlist og ýmsu fleiru. Þarna var svo bóndi með uxann sinn, sennilegast til að ná sér í smá aukatekjur frá ferðamönnum.

Eftir að hafa litið yfir dalinn og vætt kverkarnar lá leiðin að feikmiklu listaverki, einskonar veggmynd sem er 120 m á lengd og 80 m á hæð.

Klettavegglist um þróun lífs
Það tók 18 manns á fimmta ár að mála hana á klettavegg sem þarna er. Það var Leovigildo González Morillo sem hannaði myndina sem byggir á hugmynd Celia Sánchez, Alicia Alonso og Antonio Núñez Jiménez. Myndin á að sýna þróun lífs á jörðinni til þess tíma sem maðurinn steig fram á sjónarsviðið.  Þetta verk er víst harla umdeilt, vegna feikilegs kostnaðar við að mála það og viðhalda því. Þar að auki þykir það ekki beinlínis jákvætt frá umhverfissjónarmiði. Ég veit um eina manneskju, sem þarna var með okkur fD í grúppu (fR), sem ekki var par hrifin af þessari kúnst.

Hlaðið hádegisverðarborð
Þegar hér var komið var hádegisverður framundan hjá fjölskyldu sem hefur byggt upp veitingastað í dalnum, en í hann kemur heilmikill fjöldi ferðafólks. Þarna var ekki um að ræða neinn smávegis hádegisverð, en því miður, sem fyrr í þessari ferð kom eitthvert lystarleysi í veg fyrir að ég gengi langt í að innbyrða minn skammt af öllu því sem þarna var borið á borð á ótal diskum.
Sem fyrr reyndist maturinn sem borinn var fram langt umfram það sem hópurinn fékk torgað. Slíkt kallast víst að viðurgjörningur hafi verið góður.
Fyrir utan staðinn og allt um kring voru litlir garðar, þar sem grænmetið var ræktað, hænsni vöppuðu í hlaðvarpanum og þaðan komu vísast eggin sem notuð voru og mögulega einnig kjúklingarnir. Ég minnist þess ekki að hafa séð svín, sauðfé eða nautgripi, en það er ekkert að marka það.
Ég skildi ekki hvernig fólkið fór að því að framreiða allan þennan mat í örlitlu eldhúsinu sem þarna var.

Veitingastaðuriinn og fólkið.

Viñales bærinn 

Baráttan við brjóstmyndina
Í þessum dal búa um 28.000 manns og stunda að mestu einhverskonar landbúnað; rækta ávexti, grænmeti og kaffi, en ekki síst tóbak í víðfræga vindla. Svo eru víst einhverjar fiskveiðar stundaðar þarna. 
Við komum, belgsödd, í bæinn sem þarna er, með sínu torgi og kirkju, Iglesia del Sagrqado Corazon de Jesus, en þar innandyra leiddi prestur nokkrar konur í bæn til heilagrar Maríu. Fyrir utan bröskuðu verkamenn við að koma fyrir brjóstmynd af José Martí (1853-1895), en torgið fyrir framan kirkjuna ber einmitt nafn hans. Þessi aðgerð verkamannanna virtist geta farið hvernig sem var og ég tilbúinn að festa á minniskort allt sem kynni að gerast, en það fór allt vel og Martí komst heilu og höldnu á stallinn sinn.
Við dvöldum í bænum nokkra stund áður en kom að því sem allir höfðu beðið eftir.

Að rækta tóbak og búa til vindla

CHE GUEVARA II - kennarinn okkar í vindlafræðum

Vindilreyking
Stuttur spölur í rútunni og við vorum komin búgarð þar sem tóbaksplantan er ræktuð, blöðin/laufin síðan þurrkuð og unnin svo úr verði einhverjir magnaðir vindlar. Eftir því sem ég komst næst voru þarna framleiddir vindlar sem kallast Montecristo no. 4, en það eru einmitt vindlarnir sem Che Guevara hafði mest dálæti á. Þessi vindlategund mun seljast best kúbanskra vindla og eru almennt taldir afburðagóðir vindlar fyrir þá sem eru að byrja að reykja kúbanska vindla. 
Hvað um það. 
Á móti okkur tók piltur, sonurinn á bænum, Adrian að nafni (minnir mig). Hann hafði að sögn kennt sjálfum sér ensku og hafði nú þann starfa meðfram búskapnum að taka á móti ferðafólki og kynna tóbaksvinnsluna og vindlagerðina.
Þarna fyrir innan er kennslustofan
Þetta er afar líflegur og hress náungi og leiddi okkur langt inn í þann galdraheim sem vindlagerðin er:  í gegnum þurrkhúsið (sjá mynd efst) þar sem stöðugt þarf að "rótera" rekkunum sem blöðin eru hengd á, inn í n.k. kennslustofu, þar sem stór fáni með mynd af Che Guevara hangir á vegg, sagði frá eðli mismunandi blaða/laufblaða tóbaksplöntunnar, þurrkun og síðan að 90% uppskerunnar tæki ríkið og ynni úr í verksmiðjum sínum, en 10% yrðu eftir hjá ræktendum. Úr þeim hluta eru unnir handgerðir vindlar með sérstökum aðferðum og ýmisskonar kryddi, en hvað það er eða í hvaða mæli, er víst atvinnuleyndarmál. Ekki finnst mér nú líklegt að uppljóstrum slíkra leyndarmála hefði skapað mikla hættu á misnotkun í Aðaldal eða Tungunum. 
Gamli bóndinn að plægja
Þarna vafði Adrian vindil fyrir framan okkur og lýsti aðgerðinni og ástæðum hvers handtaks jafnóðum. Það lá við að maður yrði áhugamaður um vindlaframleiðslu í þessari skemmtilegu kennslustund. Það sem ég, m.a. lærði þarna var, að þegar maður ætlar að reykja vindil sem er lokaður í annan endann, á maður að skera nákvæmlega 3 mm af lokaða endanum og dýfa í hunang, áður en kveikt er í. 
Svo fengu þeir sem vildu, að prófa að reykja heimagerðan vindil. Ég lét slag standa, enda hafði ég þegar prófað vindil sem fylgt hafði gjafapakka Kúbuferða við upphaf ferðar og hafði fundist það sama um hann og aðra vindla: fann lítinn mun. Þetta var nú bara vindlareykur. Ég er einhvern veginn ekki þeirrar gerðar að gera mikinn greinarmun, eða finna mikinn mun á vindlum.
Það þarf að flytja ýmislegt eins og gengur og gerist.
Ekki heldur rauðvínum, ef því er að skipta. Í mínum huga reykja menn vindla vegna níkótínsins sem fær að streyma um æðarnar og rauðvínið drekka menn til að finna af því áfengisáhrif. Ekki meira um það. 
Þarna sagði Adrian okkur, að vindlareyk ætti maður ekki að draga ofan í lungun, heldur leyfa reyknum að leika við munnholið og njóta bragðsins. Það er nefnilega það. Þar leiðréttist misskilningur ævi minnar.

Áður en tóbaksplantan breytist í vindil, þarf að rækta hana. Á þessum bæ var ræktað tóbak á 2,5 ha lands.
Þessi mynd kallast: Ró og friður í fögrum dal
Aðferðirnar við það er mjög náttúruvænar. Uxareru notaðir eru við plægingar og flutninga og til að takast á við skaðvalda í ræktuninni er notað heimagert nikótín, en það fæst þannig, að æðarnar, sem eru fjarlægðar úr tóbaksblöðunum áður en vindlarnir eru vafðir, er settar í vatn, en í æðum tóbakslaufanna er langmesta nikótínið. Þetta nikótínvatn er síðan notað til að halda skaðvöldum í skefjum.

Enn ein upplifunin á Kúbu, en svo var lagt í hann heim á leið, til Havana, en það er ríflega tveggja tíma akstur. Á leiðinni var áð við vegasjoppu, nokkurskonar til að fólk gæti viðhaldið gegnumstreymi vökva um líkamann. Það þurfti að losa og taka inn.  
Þorsti kallar á bjór. Það reyndist einfalt mál, því um var að ræða eina tegund til að velja úr. Hún var bara hreint ágæt. Hverju hefði maður svo sem verið bættari með því að geta valið milli 10 eða 20 tegunda? Bjór er bjór.  
Þarna þurfti einnig að losa. Meira að segja ég viðurkenni að aðstæður að snyrtingunni voru með sérstakara móti.  Þarna voru einir þrír básar, hver með sínu klósetti innan dyra. Veggir básanna náðu þó ekki hærra upp en svo, að sæti maður á klósettinu var hægt að spjalla við náungann í næsta klefa. Aftur - hvað með það? Það sem fer fram í klefum af þessu tagi er eitthvað sem allir gera víst daginn út og inn og því ekkert sérstaklega spennandi á einn veg eða annan, varla neitt leyndarmál, í það minnsta.
Loks var ekinn síðasti leggurinn heim, eftir langan dag. Þrátt fyrir það safnaði fólk liði í rútunni til að fara á einhvern stað sem ég held að heiti því frumlega nafni Mojito og er einhversstaðar ekki fjarri aðsetri okkar í Havana. 
Við þrjú tókum ekki þátt í þeim leik. Við höfðum annað í huga, sem átti heldur betur eftir að krydda tilveruna, svo ekki sé meira sagt. Frá því segir næst, í síðasta eða næstsíðasta þætti þessarar maraþonfrásagnar af Kúbuferð.


31 mars, 2019

Kúba: salsa, torg, bylting, bíltúr, listir, fullt af aksjón

Öldugangur við Malecón
Það var rólegheitamorgunn hjá okkur sem ákváðum að læra ekki salsa. Ég veit að hjá fR blundaði talsverð löngun í að skella sér í dansinn og maður varð nokkuð var við þá innri baráttu sem hún átti í varðandi þetta. Ég var búinn að dansa fyrir lífstíð á þorrablótum og Mánaböllum fortíðar og átti því ekki í einhverju stríði við sjálfan mig gagnvart salsa dansi.  Svei mér ef ég veit nákvæmlega um afstöðu fD, en í dansinn vildi hún ekki. 

Þetta var ágætur morgunn, með gönguferð niður að Malecón, götunni sem liggur þarna með sjónum og þar sem haföldur rísa fyrir utan til þess eins að kyssa sjóvarnargarðinn við götuna hraustlega og senda hvítan úða yfir umferðina sem þarna á leið um.
Íþróttatími
Við leituðum uppi og fundum nýlenduvöruverslun skammt frá híbýlum okkar, fyrst með þvi að spyrja eftir slíkri og í framhaldinu með því að fylgjast með fólki með hvíta plastpoka. Við ákváðum að ganga alltaf á móti slíku fólki og á endanum fundum við út hvaðan það kom. Það tíðkast nefnilega ekki á Kúbu að umhverfið sé útatað í rísastórum skiltum sem æpa "Hér, er ég!" þangað til maður verður ónæmur. Það var varla hægt að sjá að þarna væri verslun, en inn fórum við, Fyrir innan voru ekki heldur nein skilti. Röð af fólki stóð við kjötborðið og beið afgreiðslu. Við þurftum nú ekkert slíkt, en fundum það sem okkur vanhagaði um, greiddum fyrir að héldum áleiðis út. Við dyrnar stóð maður, sem óskaði eftir að sjá kvittun fyrir greiðslu. Síðan skoðaði hann í pokann og bar saman við það sem stóð á kvittuninni áður en hann hleypti okkur út í sólskinið á þessum salsamorgni. Heim á leið héldum við með góssið, en þá var einmitt íþróttatími í grunnskólanum. Gatan var lokuð í báða enda og  allskyns leikir og íþróttir iðkaðar þarna á malbikinu.

Eftir hádegið hófst síðan aldeilis fjölbreytt síðdegi sem náði langt fram á kvöld.  

Í húsi Fusters
Þar sem fólkið tíndist inn í rútuna fór ekki á milli mála hvað það hafði verið að gera. Þá og langt fram eftir degi mátti heyra óminn af umræðum um löng eða stutt skref og jafnvel einstaka sinnum brast einhver í salsadans algerlega fyrirvaralaust, en hvað um það.

Fusterlandia

Fyrst lá leið okkar í Fusterlandia sem er heldur betur merkilegur staður að koma á.  Þetta er heimili  José Rodríguez Fuster (1946). Hús hans allt, allur garðurinn í kringum það og næsta nágrenni er eitt keramiklistaverk. Því verður ekki lýst með orðum, en ég læt bara myndir í staðinn, sem dæmi um umhverfið sem þarna blasti við.

Mynd Fusters í hverfinu þar sem hann býr. Þarna  má þekkja þá félaga Fidel og Che. (símamynd)

Sovéska/rússneska sendiráðið

Rússneska sendiráðið (mynd af vef)
Það vitum við öll að samskipti Kúbu við Sovétríkin voru náin á sínum tíma. Við vitum líka að samskipti Kúbu við Bandaríkin voru ekkert sérlega hlý, eins og nærri má geta. 
Sovétmenn reistu veglegt sendiráð hjá þessari vinaþjóð í garði hinna frjálsu og hugrökku; ekki bara eitthvert hús heldur má með góðum vilja (sem ég, sakleysinginn, áttaði mig ekki á fyrr en fararstjórinn benti á það) líta á sem risavaxið "fokkjú" yfir hafið, en sendiráðið sendur einmitt þannig, að á milli þess og nágrannans í norðri er ekkert nema hafið. Hvað sem má segja um það, þá er þetta harla ósendiráðsleg sendiráðsbygging - líkist einna helst flugturni.

Plaza de la Revolución / Byltingartorgið


Byltingartorgið (mynd af vef)

72.000 fermetrar, hvorki meira né minna.
Tríóið á Byrltingartorginu, með Che Guevara í baksýn.
Ég minnist fréttamynda af Fidel Castro flytja óendanlega langar ræður á þessu torgi yfir þjóð sinni, og ekki síður heiminum öllum, því auðvitað var það stór hluti af leiknum. 
Á yngri árum var mér fremur hlýtt til byltingarleiðtoga af þessu tagi: þeirra sem leiddu fólkið til byltingar gegn kapítalisma, arðráni og kúgun. Þessi neisti er enn í mér, en má vísast muna sinn fífil fegri. Kommúnisminn var og er falleg kenning um alræði öreiganna, en það er eins með hann og aðrar mannkynsfrelsandi kenningar, að mannskepnan býr ekki yfir þeim þroska að leyfa þeim að ganga upp.
Á byltingartoirginu. Þar sem rauði bletturinn
er, stóð Castró þegar hann messaði yfir
þjóð sinni og heimsbyggðinni.
Þær eru dæmdar til að leiða af sér eitthvað allt annað en til stóð í upphafi.
Ekki neita ég því, að það var meiri upplifun fyrir mig að koma á þetta torg en ég lét uppi. Kannski vegna þess að einhver hluti af manni er og verður alltaf nátengdur þeim árum þegar maður var að mótast sem manneskja; árunum milli tektar og tvítugs.  Það sem á eftir kemur ævinnar er bara úrvinnsla úr því í ljósi aðstæðna hverju sinni. Þetta var djúpt (ef þú hefur ekki áttað þig á því ).

Hotel Naciónal

Þessi glæsibygging var opnuð 1930 þegar Kúba var einn helsti áfangastaður amerískra ferðamanna. Batista rændi völdum 1933 en ekki ætla ég að rekja þá sögu, nóg er nú skrifað hér samt. Í tengslum við valdaránið var umsátur um hótelið og á því dundi skothríð og sprenguárásir. Síðar, á bannárunum í Bandaríkjunum settist mafían þarna að og þar var haldin fræg ráðstefna mafíósanna: "The Havana Conference" sem gerð eru skil í mynd Coppola "The Godfather Part II". 
Þetta er sem sagt sögufrægt hótel og ekki laust við að sagan snerti mann í húsakynnum þess.

Í anddyri Hótels Naciónal (Þjóðarhótelsins)

Bíltúrinn

Tríóið í bíl sínum, ásamt bílstjóranum.

Það var einhvernveginn alltaf ljóst, að í þessari ferð myndum við fara í bíltúr með áratuga gömlum amerískum köggum. Hvað var meira viðeigandi, en að bruna úr hlaði á Hótel Naciónal á einum slíkum?
Prinsessurnar leggja í hann frá Hotel Naciónal.
Það varð sem sagt raunin. Það sama virtust langflestir í hópnum einnig hafa hugsað því bílarnir streymdu að hótelinu og upp í þá stigu langflestir Kúbuferða-langarnir. Við tók klukkutíma ferð um staði í borginni sem við höfðum ekki áður kíkt á.   
Í hlut okkar þriggja kom bíll sem var árgerð 1948 og sem hafði síðan (frá byltingu væntanlega) verið í geymslu, en gerður upp fyrir 10 árum og fékk eftir það, það hlutverk að aka svona túristum. 
Það var ekki ég sem ákvað að setjast í framsætið; aðrar ákvarðanir urðu til þess. Mér var ætlað að eiga við bilstjórann, sem reyndist ekki afspyrnu sleipur í öðru tungumáli en sínu, sem var bara ágætt, enda ég svo sem enginn sérstakur áhugamaður um gamla bíla. Ég spurði hann þó aðeins og hann svaraði aðeins, milli þess sem hann þeytti yfir umhverfið miklum lúðrahljóm, sem olli því að við skríktum með einhverjum hætti í hvert sinn. Þetta var fyndið fyrst.
Þetta var hin skemmtilegasta ferð bara, en talsverð olíustybba var þó þarna í framsætinu, sem ég hygg að aftursætisfarþegarnir hafi ekki orðið varir við; þeir nutu þess bara að leika prinsessur. Bílferðinni lauk síðan við útidyrnar hjá okkur. 

Fabrica de Arte Cubano

FAC (mynd af vef)
Ef einhver hefur ímyndað sér að eftir allt sem þessi dagur hafði fært hópnum, væri nóg komið og tími til að huga að draumnum um pizzuna, þá ímyndar hann sér vitleysu. Það var nefnilega heilmikið atriði eftir: út að borða í nútímalistarmiðstöðina Fabrica de Arte Cubano - FAC), þar sem gamalli verksmiðju hafði verið breytt í feikimikla listamiðstöð. Það var upplifun að koma á þennan stað. Fyrir utan var röð fólks en með okkur var farið sem VIP gesti þar sem við vorum leidd inn í sali undir vökulum augum tröllvaxinna öryggisvarða. Leiðin lá eftir rangölum þar til við komum að lokum í veitingasal sem var okkur einum ætlaður og greinilega byggður úr gámum af einhverju tagi, þaklausum.
Verk á FAC (mynd af vef)
Eftir ágæta máltíð gengum við um salina til að skoða verkin sem þarna voru sýnd og þau voru sannarlega með ýmsum hætti. Meðal annars var þarna að finna verkið sem ég set hér mynd af, til vinstri.
Rétt er að taka fram, að ég tók ekki með mér myndavél í þessa heimsókn, en náði mér í þessar á vefnum.

Ef ég á að segja eitthvað um gestina, sem ég ætla augljóslega að gera, þá voru þeir ekki af því tagi sem við höfðum aðallega umgengist í þessari ferð. Á sínum tíma hefðum við kallað þá "uppa" hérna á landinu bláa.  

Við þrjú, ólíkt einhverjum öðrum úr hópnum, komumst síðan út án vandkvæða. Einhverjir lentu í brasi sem ég eiginlega ákveð að skauta framhjá, þó um hina ágætustu eftiráskemmtun hafi ugglaust verið að ræða hjá þeim.
Fyrir utan listamiðstöðina var svo komið með mig, eftir að hafa gengið hæð eftir hæð til listaverkaskoðunar, að ég þurfti nauðsynlega að tylla mér aðeins og sá ekki annað færi yil þess en skellinöðru sem lagt hafði verið fyrir utan. Í þann mund sem botn minn snerti sæti skellinöðrunnar, var engu líkara en einhverskonar hryðjuverkaárás hefði átt sér stað, Feikilegt sírenuvæl, sem ég áttaði mig fljótlega á, að kom frá skellinöðrunni, brast á. Fólk í nágrenninu snéri sér við, eða leit upp og starði á mig, sem hafði bara ætlað að hvíla lúin bein, en ekki stela skellinöðru. Ekki fer ég nú  að útlista svipbrigðin sem við blöstu þarna í daufu skini götuljósanna, hvorki þeirra né mínum.

Enginn smá dagur og ekki stefndi í síðri dag daginn eftir, en þá skyldi lagt snemma af stað. 



30 mars, 2019

Kúba: Qigong, Hemingway, örlög ráðin

Qi Gong fyrir neðan svalirnar okkar
Klukkan 7:30 á  hverjum morgni koma íbúar við götuna þar sem við bjuggum, saman til að stunda Qi Gong (Chi Gong)*. Það varð ekki úr að við (tríóið) færum niður til að taka þátt í þessari morgunleikfimi, heldur létum nægja að koma okkur fyrir á konunglegum svölunum okkar og fylgjast með. Ýmsir úr hópnum tóku þó þátt og sást á þeim merkjanlegur munur eftir.

Við götuna var einnig skóli og íþróttasalur barnanna var gatan, en henni var bara lokað fyrir umferð meðan íþróttirnar voru stundaðar. Það hefur líhlegast verið vegna þessarar notkunar á götunni sem hún var afar snyrtileg, en það sama verður vart sagt um aðrar götur í þessu hverfi.

Fyrsta daginn í Havana, miðvikudag, 6. mars, fór hópurinn með leiðsögn um gamla bæinn. Þangað var gengið sem leið lá, eins og gengur. Ég var með kort og reyndi af fremsta megni að fylgjast með hvar við vorum hverju sinni, sem gekk reyndar misvel, enda ekki mikið um kennileiti og götumerkingar ekki alltaf þar sem maður átti von á þeim. Ég var svona samviskusamur vegna þess að fyrir lá, að á ákveðnum tímapunkti stóð til að sleppa okkur lausum í gamla bænum og við myndum þurfa að koma okkur sjálf til baka.
Ritvél Hemingway's á Hotel Ambos Mundos
(mynd af vef þar sem égvar þarna að hugsa
um annað en myndatökur).

Það var gaman að koma á Hotel Ambos Mundos þar sem Ernest Hemingway dvaldi í herbergi 511 við skriftir á 4. áratugnum. Þarna lauk hann bókinni "Death in the Afternoon" 1932, og byrjaði á "New Green Hills of Africa" sem kom út 1935 og "To Have and Have Not" sem kom út 1937.  Ég hefði gjarnan viljað að hann hefði skrifað þarna einhverja bók sem ég hef lesið eftir hann, en því var ekki að heilsa.
Inn á hótelið fórum við (hópurinn allur) og stefnan tekin upp á þak þess með lyftu, að sjálfsögðu, enda 6 hæða bygging og feikilega hátt til lofts á hverri hæð. Lyftan var ekki af nýjustu gerð, en lyftuvörður sá um hleðslu hennar, að loka rimladyrunum og setja af stað.
Það fór nú svo, að fyrsti hluti hópsins sem ætlaði upp reyndist of þungur (lyftuvörðurinn hafði bara talið fjöldann sem inn fór, en ekki tekið kílóin með í útreikningnum) og lyftan gaf upp öndina áður en hún fór af stað. Lyftuvörðurinn rak alla út, harla ókátur, lokaði lyftunni og gaf skýrt til kynna að við skyldum bara ganga upp, ellegar fara hvergi. Sex hæðir í kjölfar margra óþolandi hressra ferðafélaga, sem brostu meira að segja nokkrir þar sem þeir skokkuðu upp stigann eins og það væri fagnaðarefni að fá til þess tækifæri.
Stiginn á Hotel Ambos Mundos
Ég þurfti nú að hugsa mig um áður en ég héldi upp þessar sex hæðir. Auðvitað fór ég upp og komst bara vel frá því, rak augun í ritvél Hemingway's hangandi á vegg á leiðinni.
Uppi var ágætt útsýni yfir borgina og ég ákvað að láta reyna á hvort andinn kæmi yfir mig - tók fram penna og minnisbók og byrjaði að skrifa. Hann kom ekki. Þarf sennilega meira til. Þetta varð útkoman, skrifuð undir áhrifum frá Ernest Hemingway, Nóbelsverðlaunahafanum, orðrétt:
"Á toppinn á hóteli þar sem Hemingway dvaldist. Biluð lyfta. Strembið".

Eftir hádegið tók við frelsi til athafna á eigin forsendum og við þrjú héldum út í óvissuna, stefndum þó á markað sem okkur hafði verið bent á. Fljótlega fór það svo, að fram komu mismunandi skoðanir á því hver væri leiðin að þessum markaði, en, eins og nærri má geta var það ég...........nei annars, betra að nefna það ekki.  Markaðinn fundum við. Töldum að þarna hefði verið átt við stóran útimarkað eins og maður er vanur úr svona ferðum, en svo var nú hreint ekki. Þessi var innandyra og minnti helst á Landbúnaðarsýninguna  í Laugardalshöll 1968 .
Gengið eftir ströndinni eftir markaðinn.
Inni fyrir blasti við flæmi með sölubásum með öllu frá glæsilegum olíumálverkum 1.5x3 að stærð og niður í minjagripi um byltingarleiðtogann Che Guevara. Við ætluðum nú bara að taka þessu rólega þarna, en þolinmæðin dugði ekki til lengdar, enda snerist þetta heldur mikið um hann Che, þó ágætur sé og hafi verið.
Við tók ganga eftir ströndinni og spenna fór vaxandi, enda engin vissa fyrir hendi um það hvort okkur tækist að finna rétta leið að götunni sem heitir Obispa. Eftir nokkrar krókaleiðir, og leiðbeiningar frá innfæddum fundum við torgið með styttunni af föður föðurlandsins honum  Carlos Manuel de Céspedes. Það var nokkur léttir og spennan sem hafði verið að byggjast upp hvarf eins og dögg fyrir sólu.

Parque Central


Ekki segir frekar af ferðum okkar fyrr en við komum á  Parque Central, en af því torgi liggur gatan Virtudes alla leið að næturstað okkar.   Myndskeiðið  sýnir þetta torg, en ég fann það á Youtube.

Vegglist á Virtudes
Eftir að hafa ekki komist að niðurstöðu um að taka Coco Taxa settumst við niður litla stund til að komast að niðurstöðu, sem varð sú, að ganga niður Virtudes. Þá lá það fyrir. Áður en gangan hófst ákváðum við að fara inn á veitingastað í svona "one for the road". Sú ákvörðun átti heldur betur eftir að reynast afdrifarík tveim dögum síðar. Þarna var um að ræða ríkisrekna veitingastaðinn Prado y Neptuno (Engi og Neptúnus, og þar með svona "Surf 'n Turf" líklegast). Þarna voru seldar flatbökur, sem áttu eftir að lita Havanadvölina. Við fengum okkur ekki pizzu heldur bara bjór og VR áður en haldið var í gönguna eftir Virtudes og heim.  Ég ætla ekki að halda því fram að þessi gata hafi verið sérstaklega hrein og snyrtileg, enda var hún það hreint ekki. Þarna var greinilega ekki útivistarsvæði skólabarna eða vettvangur til að stunda Qi Gong, en það var gaman að ganga þessa götu, í fullvissu þess að við værum á réttri leið.
Þar með tel ég þennan dag afgreiddan.

Þvottur á snúru á Virtudes.

*Qi gong er hið minnsta 4000 ára gamlar kínverskar orkuæfingar sem sameina hreyfingu, öndun og einbeitingu (vitund). Þær voru upphaflega þróaðar af kínverskum læknum og Qi gong áhugamönnum. Þá og enn er þeim ætlað að lækna og koma í veg fyrir sjúkdóma.
Æfingarnar hafa um aldir verið í stöðugri þróun og menn hafa iðkað þær víða um heim. Hafa þær hjálpað ótal, ótal mörgum. Vestrænar vísindarannsóknir staðfesta meðal annars að iðkun Qi gong lækkar blóðþrýsting og hægir á öldrun líkamans. 
(upplýsingar á Facebooksíðu

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...