![]() |
Qi Gong fyrir neðan svalirnar okkar |
Við götuna var einnig skóli og íþróttasalur barnanna var gatan, en henni var bara lokað fyrir umferð meðan íþróttirnar voru stundaðar. Það hefur líhlegast verið vegna þessarar notkunar á götunni sem hún var afar snyrtileg, en það sama verður vart sagt um aðrar götur í þessu hverfi.
Fyrsta daginn í Havana, miðvikudag, 6. mars, fór hópurinn með leiðsögn um gamla bæinn. Þangað var gengið sem leið lá, eins og gengur. Ég var með kort og reyndi af fremsta megni að fylgjast með hvar við vorum hverju sinni, sem gekk reyndar misvel, enda ekki mikið um kennileiti og götumerkingar ekki alltaf þar sem maður átti von á þeim. Ég var svona samviskusamur vegna þess að fyrir lá, að á ákveðnum tímapunkti stóð til að sleppa okkur lausum í gamla bænum og við myndum þurfa að koma okkur sjálf til baka.
![]() |
Ritvél Hemingway's á Hotel Ambos Mundos (mynd af vef þar sem égvar þarna að hugsa um annað en myndatökur). |
Það var gaman að koma á Hotel Ambos Mundos þar sem Ernest Hemingway dvaldi í herbergi 511 við skriftir á 4. áratugnum. Þarna lauk hann bókinni "Death in the Afternoon" 1932, og byrjaði á "New Green Hills of Africa" sem kom út 1935 og "To Have and Have Not" sem kom út 1937. Ég hefði gjarnan viljað að hann hefði skrifað þarna einhverja bók sem ég hef lesið eftir hann, en því var ekki að heilsa.
Inn á hótelið fórum við (hópurinn allur) og stefnan tekin upp á þak þess með lyftu, að sjálfsögðu, enda 6 hæða bygging og feikilega hátt til lofts á hverri hæð. Lyftan var ekki af nýjustu gerð, en lyftuvörður sá um hleðslu hennar, að loka rimladyrunum og setja af stað.
Það fór nú svo, að fyrsti hluti hópsins sem ætlaði upp reyndist of þungur (lyftuvörðurinn hafði bara talið fjöldann sem inn fór, en ekki tekið kílóin með í útreikningnum) og lyftan gaf upp öndina áður en hún fór af stað. Lyftuvörðurinn rak alla út, harla ókátur, lokaði lyftunni og gaf skýrt til kynna að við skyldum bara ganga upp, ellegar fara hvergi. Sex hæðir í kjölfar margra óþolandi hressra ferðafélaga, sem brostu meira að segja nokkrir þar sem þeir skokkuðu upp stigann eins og það væri fagnaðarefni að fá til þess tækifæri.
![]() |
Stiginn á Hotel Ambos Mundos |
Uppi var ágætt útsýni yfir borgina og ég ákvað að láta reyna á hvort andinn kæmi yfir mig - tók fram penna og minnisbók og byrjaði að skrifa. Hann kom ekki. Þarf sennilega meira til. Þetta varð útkoman, skrifuð undir áhrifum frá Ernest Hemingway, Nóbelsverðlaunahafanum, orðrétt:
"Á toppinn á hóteli þar sem Hemingway dvaldist. Biluð lyfta. Strembið".
Eftir hádegið tók við frelsi til athafna á eigin forsendum og við þrjú héldum út í óvissuna, stefndum þó á markað sem okkur hafði verið bent á. Fljótlega fór það svo, að fram komu mismunandi skoðanir á því hver væri leiðin að þessum markaði, en, eins og nærri má geta var það ég...........nei annars, betra að nefna það ekki. Markaðinn fundum við. Töldum að þarna hefði verið átt við stóran útimarkað eins og maður er vanur úr svona ferðum, en svo var nú hreint ekki. Þessi var innandyra og minnti helst á Landbúnaðarsýninguna í Laugardalshöll 1968 .
![]() |
Gengið eftir ströndinni eftir markaðinn. |
Við tók ganga eftir ströndinni og spenna fór vaxandi, enda engin vissa fyrir hendi um það hvort okkur tækist að finna rétta leið að götunni sem heitir Obispa. Eftir nokkrar krókaleiðir, og leiðbeiningar frá innfæddum fundum við torgið með styttunni af föður föðurlandsins honum Carlos Manuel de Céspedes. Það var nokkur léttir og spennan sem hafði verið að byggjast upp hvarf eins og dögg fyrir sólu.
Parque Central
Ekki segir frekar af ferðum okkar fyrr en við komum á Parque Central, en af því torgi liggur gatan Virtudes alla leið að næturstað okkar. Myndskeiðið sýnir þetta torg, en ég fann það á Youtube.
![]() |
Vegglist á Virtudes |
Þar með tel ég þennan dag afgreiddan.
![]() |
Þvottur á snúru á Virtudes. |
*Qi gong er hið minnsta 4000 ára gamlar kínverskar orkuæfingar sem sameina hreyfingu, öndun og einbeitingu (vitund). Þær voru upphaflega þróaðar af kínverskum læknum og Qi gong áhugamönnum. Þá og enn er þeim ætlað að lækna og koma í veg fyrir sjúkdóma.
Æfingarnar hafa um aldir verið í stöðugri þróun og menn hafa iðkað þær víða um heim. Hafa þær hjálpað ótal, ótal mörgum. Vestrænar vísindarannsóknir staðfesta meðal annars að iðkun Qi gong lækkar blóðþrýsting og hægir á öldrun líkamans.
(upplýsingar á Facebooksíðu)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli