Sýnir færslur með efnisorðinu Hvítárbrú. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Hvítárbrú. Sýna allar færslur

31 október, 2022

Ljósahátíð í Laugarási

Í dag klukkan 17 verða ljósin á Hvítárbrú hjá Iðu tendruð enn á ný. Ég fór að velta fyrir mér ártölum í því sambandi og þá kom Facebook að góðum notum. 

"Upphafið að þessu verkefni var árið 1998 á verkstæðinu á Iðu. Það hafa ætíð svo margir fleiri einstaklingar báðum megin árinnar komið að þessu verkefni.."  

sagði  Elinborg Sigurðardóttir á Iðu í viðbrögðum við umræðum sem sköpuðust eftir að Jakob Narfi Hjaltason setti þetta þarna inn, þann 12 desember 2016, en þau voru svona:

Þarna hafði smám saman fjarað undan þessu verkefni og ég treysti mér ekki til að lýsa því hvernig það gerðist, en það skiptir kannski ekki máli úr því sem komið er. Allavega veit annað fólk meira um það en ég.

Þessi færsla Jakobs hreyfði við fólki og það þarf ekki að orðlengja um það, að það var drifið í að kaupa perur og koma ljósunum á brúna, en það var gert þann 17. desember. Til þess að standa straum af kostnaði við peruskiptin var leitað til félaga, fyrirtækja og stofnana, auk þess sem opnaður var reikningur þar sem fólk gat lagt til fé til styrktar þessu málefni.

Síðan hefur tekist að halda verkefninu við, þó óhjákvæmilegur kostnaður falli til, vegna þess að það þarf að skipta út ónýtum perum og koma ljósakeðjunni upp og síðan taka hana niður. 

Ég held að það sé á engan hallað, þegar ég nefni Jakob Narfa Hjaltason til sögunnar, sem þann sem hefur borið hitann og þungann af þessu afar skemmtilega verkefni. Fleiri hafa sannarlega komið við sögu, í mismiklum mæli, en ég treysti mér ekki til að fara að tína allt það fólk til. 

Nú er greinilega búið að auka í, með því Hagsmunafélag Laugaráss og Menningarmálanefnd sveitarfélagsins ásamt fólkinu í Slakka, koma nú að málinu, til að gera meira úr tendrun brúarljósanna. Það er blásið til Ljósahátíðar í Lauugarási.
 Þetta finnst mér fagnaðarefni. 


30 ágúst, 2019

María, María fæddist við Hvítárbrú


Í tímaritinu Útiveru, árið 2004 var grein um Sigurð Þórarinsson, jarðfræðing sem Sigurður Bogi Sævarsson skrifaði. Þar vitnaði hann til greinar eftir Sigurð Steinþórsson um Sigurð Þórarinsson sem birtist í Andvara 1985. Hér er það sem segir um þetta í Andvara:

Uppruni Þórsmerkurljóðs við Hvítárbú
„Þórsmerkurljóð" Sigurðar varð til í Grímsvötnum skömmu fyrir 1960, og segir Halldór Ólafsson, vinur og aðstoðarmaður Sigurðar í mörg ár, þannig frá tildrögum þess: 

Halldór hafði ekið manni að Hvítá hjá Iðu, þar sem verið var að smíða brúna, og sátu menn þar að gleðskap. Með brúarmönnum voru þrír þýzkir stúdentar, sem komið höfðu gangandi norðan Kjöl, og sungu þeir þýzkan söng sem Halldór minnir að héti „Des Zigeuners freuliche Leben" og hafði að viðkvæði „faria, faria". Brúargerðarmenn höfðu ort sönginn upp á íslenzku, og var þetta upphafið:

Krýsuvíkin er vondur staður, faría, faría,
þangað fer enginn óvitlaus maður, faría, faría,
 og nam Halldór lag og kvæði. 
Viku síðar lágu þeir Sigurður veðurtepptir í Grímsvötnum og tvímenntu í koju. Var Sigurður lasinn og lá mest og mókti, en eitt kvöldið vildi Halldór gleðja hann og sagði: „Nú skaltu læra skemmtilegt lag sem ég heyrði um daginn" og söng fyrir hann ljóð brúarvinnumanna. Morguninn eftir vakti Sigurður Halldór og var þá búinn að yrkja „Þórsmerkurljóð". Taldi Halldór að Þórsmörkin hefði verið honum ofarlega í huga því hann var rétt kominn úr ferð þangað með Ferðafélaginu.

Lagið sem þýsku stúdentarnir sungu kallast reyndar „Lustig is das Zigeunerleben“, er barnasöngur eða slagari og textinn er svona á þýsku:
Lustig ist das Zigeunerleben
Lustig ist das Zigeunerleben,
Faria, fariaho.
Brauchen dem Kaiser kein Zins zu geben,
Faria, fariaho.
Lustig ist's im grünen Wald,
Wo des Zigeuners Aufenthalt.
Faria, faria, faria, faria,
Faria, fariaho.
Sollt uns einmal der Hunger plagen,
Faria, fariaho.
Tun wir uns ein Hirschlein jagen,
Faria, fariaho.
Hirschlein, nimm dich wohl in acht,
Wenn des Jägers Büchse kracht.
Faria, faria, faria, faria,
Faria, fariaho.
Sollt uns einmal der Durst sehr quälen,
Faria, fariaho.
Gehn wir hin zu Wasserquellen,
Faria, fariaho.
Trinken das Wasser wie Moselwein,
Meinen, es müßte Champagner sein.
Faria, faria, faria, faria,
Faria, fariaho.
Mädchen, willst du Tabak rauchen
Faria, fariaho.
Brauchst dir keine Pfeif zu kaufen
Faria, fariaho.
Greif in meine Tasch' hinnein
Da wird…



Það var Sigurður Bogi Sævarsson sem benti mér á þessa skemmtilegu tengingu Þórsmerkurljóðs við byggingu Hvítárbrúar.
Kannski við ættum að skella einhverjum viðeigandi texta við þetta lag og taka það upp sem þorpssöng í Laugarási.

Þú ert ljúfur og léttur staður
Laugarás, Laugarás
enginn fer frá þér heilvita maður
Laugarás, Laugarás.
...og svo framvegis.

30 nóvember, 2017

Austur verður vestur og öfugt

Sjá roðann í austri, hann brýtur sér braut.
Fram, bræður, það dagar nú senn. 
Þeir hæða vorn rétt til að rísa frá þraut, 
vorn rétt til að lifa eins og menn. 
Þeir skammta okkur frelsi, þeir skammta okkur brauð. 
Hvað skóp þeirra drottnandi auð? 

Á herðar oss ok fyrir völdum var lagt, 
það ok hefur lamað vort fjör. 
En vér erum fjöldinn, því sé það nú sagt: 
Vér sverium að rétta vor kjör! 
Og vaknið nú bræður til varnar í nauð. 
— Vor vinna, hún skóp þeirra auð. 

Til grunna skal bráðlega hrynja sú höll, 
sem hrófaði upp gullkálfsins þý. 
Nú hönd þína, bróðir, því heimssagan öll 
skal héðan af byrja sem ný. 
Vér vöknum í eining til varnar í nauð, 
og vinnan skal gefa okkur brauð.
Þorsteinn Gíslaon


Já, það var þá. 
Nú er þetta með öðrum hætti og við öll meira og minna laus við einhverjar pælingar um byltingu gegn arðræningjunum. Það má segja að við séum orðin allmiklu hlýðnari, eða dofnari, eða bara sinnulausari. Ekki kann ég að fullyrða neitt um það.

Það var hinsvegar alls ekki þetta sem ég ætlaði að tjá mig um á þessum ágæta degi, þetta bara kom upp í hugann.

Að undanförnu hef ég þurft að velta dálítið fyrir mér Hvítárbrúnni hjá Iðu, sem sjá má á myndinni hér fyrir ofan. Í því samhengi hafa áttir komið við sögu og þá aðallega austur og vestur.
Þannig er, að brúarstöplarnir voru reistir með tveggja ára millibili, sá fyrri var byggður 1953 á austurbakka Hvítár, en samt er hann sá vestari, svo undarlegt sem það kann að hljóma. 1955 var eystri stöpullinn síðan byggður upp á vestari bakka árinnar.
Auðvitað er ástæða þessa einföld og hana má sjá á myndinni hér fyrir neðan.


Hvítá heldur utan um Laugarás á þrjá vegu, en þess fjórða gætir sjálfur biskupsstóllinn í Skálholti.
Getum við verið betur í sveit sett?

Það held ég ekki.

Glöggir lesendur/skoðendur taka eflaust efti nafninu sem Hvítá ber hjá félaga Google. Það má velta fyrir sér hve langt verður í að Laugarás teljist standa við Ölfusá og brúin fái þar með nafnið "Ölfusárbrú hjá Iðu".



17 nóvember, 2017

Afstæður aldur

Þegar ég byrjaði að taka saman efni um Hvítárbrú hjá Iðu eða Iðubrúna, sem hún hefur verið kölluð svona í daglegu tali, átti ég ekkert sérstaklega von á að finna á lífi einhverja sem þar störfuðu síðustu árin áður en brúin var fullbyggð.  Það eru nú, eins og margir vita, sextíu ár síðan hún var opnuð fyrir umferð, sem þýðir að þeir sem þar störfuðu eru nú sextíu árum eldri en þeir voru þá.
Ég hafði einhvernveginn ímyndað mér að það hefðu nú aðallega verið karlar á aldrinum frá 25 og upp úr, sem byggðu þetta mikla mannvirki, sem myndi þýða, að ef einhverjir væru á lífi væru þeir nú, að minnsta kosti 85 ára og mögulega farnir að missa eitthvað úr, svona eins og gengur.

Síðla sumars fékk ég ábendingu um fyrrverandi brúarvinnumann, sem einmitt hafði unnið við brúarsmíðina á þessum tíma.  Hann reyndist vera 74 ára og var því 14 ára þegar hann tók þátt í þessu verki með sínum hætti. Hann var nokkurskonar léttadrengur og ég á eftir að fá að vita meira um það, en þarna er um að ræða afskaplega hressan mann, sem hefur reynst vera meira en til í að aðstoða mig við að rifja upp þann eftirminnilega tíma í lífi hans sem þarna var um að ræða.
Í gegnum hann náði ég síðan sambandi við annan, sem hafði verið fullgildur starfsmaður, og var rúmlega tvítugur á þessum tíma. Það þýðir að hann er skriðinn yfir  áttrætt; kominn á níræðisaldur.
Mér varð hugsað til þess hvernig ég leit fólk á þeim aldri þegar ég var talsvert yngri en nú. Raunar held ég að hver maður geti ímyndað sér hver ímynd fólks var í huga þeirra á yngri árum.

Svo hitti ég þennan mann og svei mér ef ég varð ekki nokkuð undrandi. Það var fjarri því að á honum væru einhver ellimerki. Ég hefði alveg trúað því ef einhver hefði sagt hann vera um sjötugt. Hjá þessum hef ég fengið gagnlegar upplýsingar um myndefni sem ég fékk frá Vegagerð ríkisins og sem mun birtast í seinni umfjöllun minni í Litla Bergþór í byrjun desember. Það sem meira er þá stefnir í að framhald verði á, þar sem þessir karlar hafa frá ýmsu að segja frá brúarbyggingunni sem ég hlakka til að umbreyta í ritaðan texta.

Þetta var fyrri hluti

Hvítárbrú hjá Iðu eða Iðubrú?


Hvítárbrú hjá Iðu, heitir brúin formlega, sem verður búin að þjóna okkur í uppsveitum í sextíu ár, í desember.  Hún hefur yfirleitt, manna á meðal verið kölluð Iðubrúin, sem hefur haft það í för með sér, að þeir sem ekki vita betur, halda að áin heiti Iða. "Hvernig er veiðin í Iðunni?" spyrja menn.

Vandamálið með Hvítárbrúarnafnið er augljóslega það, að það er önnur Hvítá, sú í Borgarfirði. með brú hjá Ferjukoti sem var byggð 1928.  Ekki bætir svo úr skák, að fyrir nokkrum árum var byggð önnur brú á Hvítá, sú sem er hjá Bræðratungu.
Eftir stendur, að brúin okkar hér í neðsta hluta Biskupstungna er ekki yfir ána Iðu, eins nafnið Iðubrú gefur til kynna, heldur yfir Hvítá. Þar með hef ég ákveðið fyrir mig að reyna að venja mig af því að kalla hana Iðubrúna og byrja að kalla hana Hvítárbrú hjá Iðu. Eða brúna á Hvítá hjá Iðu.  Sannarlega ekki eins þjált og Iðubrú, en réttara.




06 febrúar, 2017

Hvernig var vírunum komið fyrir?

Ekki neita ég því, að oft velti ég því fyrir mér, hér áður fyrr, hvernig vírunum sem halda brúargólfinu á Iðubrúnni (Hvítárbrú hjá Iðu). Viti menn, rakst ég ekki á frásögn af því í Mogganum frá því í ágúst 1957, Þar voru á ferð þeir Sverrir Þórðarson, blaðamaður (handahafi blaðamannaskírteinis nr. 3) og Gunnar Rúnar Ólafsson, ljósmyndari.   
Ég birti hér umfjölllun þeirra.






GÓÐU DAGSVERKI LOKIÐ

Við Iðubrú er verið að leggja 12 burðarvíra sem vega 4,5 t. hver. Brúin opnuð í vetur

Það var verið að undirbúa að senda níunda burðarvírinn milli stöpla á hinni nýju hengibrú á Hvítá í Biskupstungum, sem venjulega er kölluð Iðubrú, er við komum þangað austur síðdegis á mánudaginn. Er brúin nú mesta brúarmannvirkið, sem er í smíðum hér á landi, hið veglegasta í hvívetna og mun verða mikil samgöngubót fyrir hinar efri sveitir Árnessýslu. Hófst smíði brúarinnar, sem áætlað er að alls muni kosta 6,5 milljónir króna, árið 1951. Nú eftir um 2 ára hlé við brúarsmíðina, er kominn þangað brúarsmiðaflokkur frá vegamálastjórninni. Er hugmyndin að halda verkinu áfram, þar til brúarsmíðinni er að fullu lokið, og sagði yfirsmiðurinn, Jónas Gíslason, að hann vonaðist til að það gæti orðið í nóvembermánuði n. k.

Þegar hlé var gert á smíði Iðubrúar, var lokið við að steypa báða turna hengibrúarinnar, beggja vegna hinnar straumþungu Hvítár. Eru turnarnir um 20 metra háir. Gera þurfti rammbyggilegar undirstöður, sem í fóru um 500 tonn af sementi og sandi, og í brúna eru nú komin um 70 tonn af steypustyrktarjárni. „Við komum hingað austur fyrir nær hálfum mánuði“, sagði Jónas Gíslason yfirsmiður og hófst þá undirbúningur að því verki, sem nú er verið að vínna þar, að koma fyrir burðarvírum brúarinnar. Verða þeir alls 12, sex hvorum megin. Er hver vír 3 1/8 tomma (8 cm) í þvermál.

Á vestari bakka árinnar er bækistöð brúarsmiðanna, og þar standa tjöld þeirra hlið við hlið og mötuneytisskáli með eldhúsi. Efni er geymt á þessum bakka árinnar, og þar standa t.d. nokkur stór kefli, sem burðarvírinn er undinn upp á. Er á hverju kefli nákvæmlega sú lengd, er með þarf til þess að strengja hann á milli akkeranna, sitt hvorum megin árinnar og er vírinn 173 metrar á lengd. Á hvorum enda er „skór", sem vírinn er fastur í, en skórinn er svo settur á tvær festingar í akkerinu, en síðan er hann festur með tveim heljaröflugum róm.

Vírinn dreginn yfir Hvítá

Við eystri bakka árinnar var allt tilbúið til að hefja vírdráttinn yfir er við komum. Fyrir aftan brúarturninn er togvinda. Frekar grannur stálvír er dreginn yfir ána á vestri bakkann og þar taka nokkrir ungir menn við honum og læsa í burðarvírinn.

Jónas gefur nú merki með handauppréttingu yfir á hinn árbakkann, um það að láta vinduna byrja að vinna. Strákar við vírkeflið hafa það verk með höndum að standa tilbúnir við bremsurnar. — Þetta eru handbremsur, tvö löng járn, sem þeir leggjast á þegar hægja eða stöðva þarf vírkeflið, og er það stálvir sem grípur utan um hjólin á keflinu. — Hraðinn gæti fljótt orðið óviðráðanlegur ef slíkir hemlar væru ekki hafðir á. Uppi yfir okkur — ofan á turninum — standa nokkrir menn tilbúnir við tvær nokkurra tonna krafttalíur til þess að taka á móti vírendanum.

Innan stundar er keflið farið að snúast hægt áfram og vírinn er lagður af stað upp á turninn. Við heyrum skarkalann frá vindunni á hinum bakkanum og drunurnar í loftpressunni, sem dælir lofti í vinduna. Vírendinn er kominn upp undir vinnupallinn mjóa, sem mennirnir uppi á turninum standa á og Jónas gefur stöðvunarmerki yfir ána meðan þeir uppi á stöplinum lyfta vírendanum upp á turninn og fara með hann yfir.

Við höfum orð á því við Jónas yfirsmið, að hann og menn hans séu heppnir með veðrið við þetta erfiða og vandasama verk, því ekki væri neinn öfundsverður af því að þurfa að vinna við þetta í hvassviðri og rigningu.

Kemst upp í vana

Það er satt, sagði Jónas, en það kemst ótrúlega fljótt upp i vana að vinna í nokkurri hæð, en að auki eru þessir menn allir þaulvanir orðnir slíkri háloftavinnu, því margir þeirra eiga að baki alllangan brúðarsmíðaferil En sjálfur þekkir Jónas manna bezt slíka vinnu, því hann hefur verið við smíði fjölda brúa, t. d á Selfossi, Þjórsárbrú og eins austur á Jökulsá á Fjöllum, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Enn gefur Jónas merki og mennirnir uppi á turninum fyrir ofan okkur hafa komið vírnum yfir. — Nú liggur vírinn í hjóli, sem auðveldar dráttinn, en þann þyngist nú óðum. Vírendinn hefur farið alveg niður undir vatnsborðið. Úti yfir miðri ánni, sem er rúmlega 90 m breið, hækkar vírinn sig aftur í stefnu á turninn á vestri bakkanum. Nú fer hann rétt fetið áfram, því þyngslin aukast nú mjög, en vírinn vegur sjálfur 4.5 tonn.

Metdagur

Jónas sagði okkur að vírdrátturinn hefði gengið mjög vel þennan dag. Senn var kvöld og þetta var þriðji vírinn á einum og sama degi, sem þarna var kominn alla leið yfir. Það þykir gott að geta gengið frá tveim vírum á einum degi.

Jónas gaf strákunum á keflinu enn merki um að nema staðar. Hann hafði aldrei augun af vírendanum, sem nú var kominn upp að turnbrúninni á vesturbakkanum. Mennirnir, sem verið höfðu í turninum fyrir ofan okkur, voru nú komnir yfir ána til að taka á móti vírnum. Það tekur kringum eina klukku stund að draga vírinn á milli, en metið sögðu strákarnir okkur væri 57 mínútur. Er þá eftir að ganga frá vírunum í akkerunum, sem er erfitt verk og margar hendur þarf við með aöstoð handsnúinna spila, er lyft geta nokkrum tonnum. Það var gaman að sjá þetta verk unnið. Þarna var hver mað- ur á sínum stað og vissi nákvæm lega hvað hann átti að gera. Var þetta mjög vel skipulagður og samhentur vinnuflokkur, allt unnið fumlaust. Hann sagðist vonast til að vírarnir væru allir komnir upp á miðvikudaginn, þ. e. a. s. í gærkvöldi.
— Hvað liggur þá næst fyrir að gera?
Gekk Jónas nú með okkur þangað sem margir járnbitar lágu.
— Þetta eru þverbitarnir undir brúargólfið, sem hver vegur um 650 kg., 24 talsins. Það liggur næst fyrir að koma þeim fyrir í burðarjárnunum, sem aftur eru fest í vírana.
— Þá þurfið þið að fara út á þá?
— Jú, en það er eiginlega með öllu hættulaust, þvi strákarnir standa í kláfferju. Síðan verður svo langbitunum komið fyrir. Þeir eru ekkert smásmíði, þriggja tonna bitar, og síðan hefst smíði sjálfs brúargólfsins og verður það steinsteypt. Vona ég að hægt verði að opna brúna til umferðar í nóvembermánuði næstkomandi.

Hjá ráðskonunum

Að lokum þáðum við hressandi kaffisopa hjá ráðskonunum tveim, sem ýmist eru með mat eða kaffi handa vinnuflokknum, sex sinnum á sólarhring. Það er orðin nokkurra ára reynsla mín. að óvíða fæ ég eins gott kaffi og meðlæti og hjá ráðskonum vegavinnumanna, og þannig var það hjá þeim við Iðubrú. Strákarnir létu vel yfir fæðinu, en ráðskonurnar voru að matbúa kvöldmatinn, sem verða átti kjöt. Á olíukyntri eldavél, sem í eina tíð var sennilega kolavél, stóðu kjötkatlar og súpupottar.
- Þeir fengu saltfisk í dag, sagði önnur ráðskonan, en báðar sögðust þær kunna vel við sig eystra, og hafði önnur verið vestur í Dölum en hin uppi í Hvalfirði. Hún sagði að sér hefði þótt fallegt hjá Fossá, en þar var bækistöðin.
Við kvöddum Jónas Gíslason og menn hans. Einn strákanna ferjaði okkur yfir ána á vestri bakkann, þar sem bíllinn okkar stóð.

Skálholt — Hlöðufell

Ferjumaður sagði okkur að vinnuflokkurinn hefði ákveðið það skömmu eftir komuna austur, að flokksmenn skyldu nota einhvern sunnudaginn, sem ekki yrði farið til Reykjavíkur, til þess að ganga á Hlöðufell, en enn hefðu menn ekki gefið sér tíma til þess. Sumir hefðu ekki enn heimsótt hinn fræga stað helgi og sögu, Skálholt. Frístundirnar hafa farið í að „þjónusta" sjálfan sig, þvo galla, stoppa og annað þess háttar. Við erum ekki á förum héðan, og það gefast vafalaust tækifæri til þess að stunda fjallgöngur og koma í Skálholt, sagðí ferjumaðurinn um leið og hann ýtti kænunni fram í straumharða ána.

Þegar við gengum framhjá akkerinu voru brúarmenn þar að streitast við að festa níunda burðarvírinn fyrir Iðubrú og þann þriðja á sama degi. — Góðu dagsverki var senn lokið.

Sv. Þ.
Sverrir Þórðarson
Gunnar Rúnar Ólafsson

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...