30 nóvember, 2017

Austur verður vestur og öfugt

Sjá roðann í austri, hann brýtur sér braut.
Fram, bræður, það dagar nú senn. 
Þeir hæða vorn rétt til að rísa frá þraut, 
vorn rétt til að lifa eins og menn. 
Þeir skammta okkur frelsi, þeir skammta okkur brauð. 
Hvað skóp þeirra drottnandi auð? 

Á herðar oss ok fyrir völdum var lagt, 
það ok hefur lamað vort fjör. 
En vér erum fjöldinn, því sé það nú sagt: 
Vér sverium að rétta vor kjör! 
Og vaknið nú bræður til varnar í nauð. 
— Vor vinna, hún skóp þeirra auð. 

Til grunna skal bráðlega hrynja sú höll, 
sem hrófaði upp gullkálfsins þý. 
Nú hönd þína, bróðir, því heimssagan öll 
skal héðan af byrja sem ný. 
Vér vöknum í eining til varnar í nauð, 
og vinnan skal gefa okkur brauð.
Þorsteinn Gíslaon


Já, það var þá. 
Nú er þetta með öðrum hætti og við öll meira og minna laus við einhverjar pælingar um byltingu gegn arðræningjunum. Það má segja að við séum orðin allmiklu hlýðnari, eða dofnari, eða bara sinnulausari. Ekki kann ég að fullyrða neitt um það.

Það var hinsvegar alls ekki þetta sem ég ætlaði að tjá mig um á þessum ágæta degi, þetta bara kom upp í hugann.

Að undanförnu hef ég þurft að velta dálítið fyrir mér Hvítárbrúnni hjá Iðu, sem sjá má á myndinni hér fyrir ofan. Í því samhengi hafa áttir komið við sögu og þá aðallega austur og vestur.
Þannig er, að brúarstöplarnir voru reistir með tveggja ára millibili, sá fyrri var byggður 1953 á austurbakka Hvítár, en samt er hann sá vestari, svo undarlegt sem það kann að hljóma. 1955 var eystri stöpullinn síðan byggður upp á vestari bakka árinnar.
Auðvitað er ástæða þessa einföld og hana má sjá á myndinni hér fyrir neðan.


Hvítá heldur utan um Laugarás á þrjá vegu, en þess fjórða gætir sjálfur biskupsstóllinn í Skálholti.
Getum við verið betur í sveit sett?

Það held ég ekki.

Glöggir lesendur/skoðendur taka eflaust efti nafninu sem Hvítá ber hjá félaga Google. Það má velta fyrir sér hve langt verður í að Laugarás teljist standa við Ölfusá og brúin fái þar með nafnið "Ölfusárbrú hjá Iðu".



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...