Sýnir færslur með efnisorðinu Laufskálar. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Laufskálar. Sýna allar færslur

01 apríl, 2019

Ánægjuleg tíðindi

Laufskálar
Ég neita því ekki, að það kom mér talsvert á óvart að komast að því að uppsveitahrepparnir fjórir, sem unnið hafa að því að komast að niðurstöðu um byggingu hjúkrunar- eða dvalarheimilis fyrir aldraða í uppsveitunum, hafa nú sammælst um að byggja upp kjarna þjónustuíbúða í Laugarási.

Í dag kl. 17:00 mun forystufólk í þessum sveitarfélögum koma saman á væntanlegum bygginarstað, í dalverpinu þar sem hús barnaheimilis Rauða krossins stóðu frá 1945-1984,  til að skrifa undir samkomulag þessa efnis. Þangað munu allir íbúar í uppsveitum vera velkomnir, ekki síst þeir sem eru að komast á efri ári.

Það þekkja margir til fyrri hugmynda um þjónustuíbúðir í Laugarási í lok síðustu aldar, en það verkefni gekk undir nafninu Laufskálar. Vinna við það var langt komin og sala á íbúðum jafnvel hafin, þegar skyndilega var hætt við.  Það er hluti þess samkomulags sem nú hefur verið gert, að byggja á þeim hugmyndum sem þá voru uppi, m.a. því skipulagi sem þá var unnið og sem sjá má á meðfylgjandi mynd.

Til upprifjunar þá er hér um að ræða 47 raðhús  sem öll tengjast þjónustukjarna þannig að innangengt er úr öllum íbúðunum í hann um glergang sem jafnframt er hugsaður sem sólstofa fyrir hverja íbúð. Væntanlegir íbúar munu kaupa sér íbúðarrétt í húsunum sem verða í eigu sjálfseignarstofnunar. Sú stofnun mun í öllu annast viðhald og umsjón með fasteignunum.

Raðhúsin eru skipulögð sem einstaklingsíbúðir með svefnherbergi, tveggja herbergja og þriggja herbergja íbúðir. Við afhendingu verða íbúðirnar fullfrágengnar og tilbúnar til notkunar. Allar íbúðirnar hafa verönd og þeim fylgir garðskiki og matjurtagarður ef óskað er.

Markmiðið með íbúðunum er að tryggja íbúunum sem mest öryggi og sem besta fyrirgreiðslu. Íbúar geta allan sólarhringinn haft beint samband við húsvörð eða vakt ef eitthvað bjátar á. Íbúðarrétturinn er tryggður til æviloka og framlagið endurgreiðist samkvæmt sérstökum ákvæðum þegar íbúð er yfirgefin. Við hönnun er sérstakt tillit tekið til aldraðra en þannig er unnt að búa þar við skerta hreyfigetu.

Íbúunum mun standa til boða þjónusta gegn greiðslu sem miðast við kostnaðarverð. Má þar nefna heitan hádegismat í sameiginlegum matsal í þjónustukjarnanum, alla þjónustu í heilsugæslustöðinni í Laugarási og heimahjúkrun læknishéraðsins, aðstoð við að koma fatnaði í þvottahús eða hreinsun og ýmislegt annað. Þá hafa íbúarnir aðgang að sjúkraþjálfun, hársnyrtingu, heitum pottum og verslun.

Bláskógabyggð fellir niður fasteignagjöld af sambyggðinni og Laufskálar munu njóta sérstakra vildarkjara á hitaveitu. Áætlaður hitunarkostnaður á íbúð verður einungis um eitt þúsund krónur á mánuði.

Vonast er til að sem flestir íbúar komi í Laugarás, á þessum sólríka degi, þess fyrsta í apríl, til að fagna þessari ánægjulegu niðurstöðu. 

-------------------------------------------------------------

Viðbót, sem skráð er þann 2. apríl, 2019
Pistillinn hér fyrir ofan var skráður á þessum alþjóðlega degi þar sem heimilt er að  gabba fólk. Þannig er hann nú til kominn. 
Mér þykir auðvitað leitt að í frásögninni er ekki að finna mörg sannleikskorn, miklu frekar eitthvað sem ég vildi gjarnan að væri satt, en er í raun fjarri sanni. 
Fátt fréttist af fyrirætlunum uppsveitahreppanna í uppbyggingu af einhverju tagi fyrir þá sem aldraðir eru og verður ekki af því ráðið annað en það, að ekki sé um neitt að ræða í þá veru. 
Það er miður.

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...