Sýnir færslur með efnisorðinu Laugaráshérað. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Laugaráshérað. Sýna allar færslur

09 nóvember, 2020

Svona um það bil 15 ár

Laugarás á fremur sérstaka sögu og henni er hreint ekki lokið. 
Einhvern veginn æxlaðist það svo, að ég fór að safna saman ýmsu því sem verður að teljast hluti af þessari sögu og óhjákvæmilega kom að því, að ég þyrfti að takast á við sögu Laugaráshéraðs, sem ég hygg að hvergi hafi verið skráð nokkuð heildstætt.  

Frá upphafi voru það oddvitar sveitarfélaganna sem að Laugaráshéraði stóðu eða standa, sem fjölluðu um mál sem snertu læknisseetrið og Laugarásjörðina. Þeir komu alla jafna saman árlega til aðalfundar og tóku til umfjöllunar ýmis mál. Fundirnir urðu smám saman ítarlegri og tóku á flóknari málum. 

Ég er, um þessar mundir, að rekja mig í gegnum fundargerðir þessarar oddvitanefndar, sem gekk undir ýmsum nöfnum, reyndar og er þakklátur fyrir að okkur skyldi auðnast að koma flestum fundargerðabókum nefndarinnar og ýmsum gögnum hennar, til varðveislu á Héraðsskjalasafni Árnesinga, en þar á svona efni auðvitað heima.

Það vantar sem sagt ekki mörg ár inn í þessa sögu, ekki nema 15, reyndar.
Þessi 15 ár, eru hinsvegar afskaplega mikilvæg og má segja að þau myndi grundvöllinn að því sem síðan gerðist í málefnum Laugaráss. Þetta eru árin frá því um 1920 til um það bil 1935.

Héraðsskjalasafn Árnesinga, oddvitar í uppsveitunum og ég, erum nú að freista þessa að þefa uppi einhverskonar fundargerðir oddvitanna í þessi 15 ár og núverandi oddvitar tóku að sér að birta í miðlum sveitarfélaga sinna, nokkurskonar ákall um að afkomendur sveitarsjórnarmanna í þessum hreppum á umræddum tíma kæmu til liðs við okkur við að reyna að hafa upp á þessum bókum, eða bók.


Ég geri það sama hér, í mínum, ekki alltof áberandi miðli líka. Það er kannski von á að einhverjir eða einhverjar deili þessu áfram.

Hérna efst er upphaf elstu fundargerðinnar sem enn hefur fundist. Hún, og aðrar sem fylgdu, er skráð í bók sem er ekki nema 7x11 cm að stærð (kápan hér til hægri), sem bendir til að fyrri bækur hafi ekki verið mikið stærri.

Það er auðvitað möguleiki, að fundir oddvitanna frá 1920-1935 hafi verið skráðir í fundargerðarbækur einhvers hreppanna, en ýmsar þeirra hafa, að því er virðist, ekki skilað sér á héraðsskjalasafnið. Það er full ástæða til að leita þær uppi einnig og svo bara öll möguleg gögn sem leynast kannski í dánarbúum, eða hjá fjölskyldum, en ættu að komast til varðveislu á heráðsskjalasafni.

Ég ætla svo að láta fylgja hér fyrir neðan, textann sem ég klambraði saman og sem ætti að dreifast up uppsveitirnar um þessar mundir. 

Meðan ég held áfram að vinna mig í gegnum það efni sem þegar er fyrir hendi, lifi ég í voninni um að það takist að finna efni til að fylla í þessa 15 ára eyðu.

Undirskriftir oddvitanna sem sátu þennan fund, árið 1935.


Oddvitarnir á fundinum 1935, frá vinstri: Sr Guðmundur Einarsson Mosfelli, Páll Stefánsson 
Ásólfsstöðum, Eiríkur Jónsson Vorsabæ, Teitur Eyjólfsson Eyvindartungu, Árni Ögmundsson Galtafelli, Guðjon Rögnvaldsson Tjörn.

Þegar þarna var komið sögu læknishéraðsins, var sr. Guðmundur Einarsson prófastur á Mosfelli formaður nefndarinnar.

-------------------------------------

Þá er það textinn, sem nú er dreift í uppsveitunum:


Finnum þessar bækur 

Ég segi nú stundum, að án sögunnar, værum við ekki að spígspora um þessa jörð. Það fólk sem ól okkur af sér á líka sína sögu og þar fram eftir götunum, langt inn í fortíðina. Okkur ber skylda til að halda frásögnum af verkum og lífi þess til haga, eftir föngum.

Undanfarin ár hef ég verið að taka saman ýmsar upplýsingar um Laugarás og er búinn að koma upp vef sem kallast laugaras.is, sem geymir það sem ég hef tekið saman um þennan þéttbýliskjarna, sem á sér stutta, en sérstaka sögu.

Hluti af þessari samantekt á að vera nokkurskonar saga Laugaráslæknishéraðs, sem áður kallaðist Grímsneslæknishérað, en þar sem uppsveitamenn virðast hafa komið sér hjá því að vera mikið á síðum dagblaða, þarf að treysta á þau gögn sem hafa orðið til innan svæðisins, til dæmis fundargerðabækur.

Erindi mitt við þig er þetta:

Mig vantar enn bækur sem ná yfir tímabilið frá 1920 – 1935; það vantar fimmtán mikilvæg ár inn í þessa sögu. Gögn frá þessum tíma hefur mér ekki tekist að finna, utan fundargerðabóka hreppsnefndar Biskupstungnahrepps og Sýslunefndar Árnessýslu. Þar fyrir utan er um að ræða glefsur úr öðrum bókum sem tengjast uppsveitunum, sem héraðsskjalasafnið geymir.

Þú ert kannski afkomandi einhverra þeirra forystumanna sem komu við sögu á þessum tíma og hugsanlega geymir fjölskylda þín einhver gögn sem þeir létu eftir sig, þar sem ein til tvær litlar fundargerðabækur gætu leynst. Ert þú til í að leita þessi gögn uppi, eða láta okkur vita hvar líklegt er að þau sé að finna? Elsta bókin sem við höfum er ekki nema 11x17 cm að stærð (sjá meðfylgjandi mynd), svo hér er líklega ekki um að ræða stórar eða miklar bækur. Mögulega bara eina bók.

Það getur verið, að fundargerðir oddvitanna á þessum tíma, hafi verið skráðar í fundargerðabók einhverrar hreppsnefndarinnar, en því miður eru þær einnig ófundnar, utan fundargerðabóka Biskupstungnahrepps frá þessum tíma. Í þeim er ekki mikið fjallað um læknishéraðið.

Til fróðleiks læt ég hér fylgja nöfn forystumanna úr hreppunum sem komu að læknishéraðinu á árunum 1920-1935. Þeir eru sannarlega fleiri, en þessar upplýsingar eru úr fundargerðabókum sýslunefndar Árnessýslu, Biskupstungnahrepps og oddvitanefndar. Kannski kveikir það í þér

Biskupstungnahreppur
Sr. Eiríkur Þ. Stefánsson, Torfastöðum
Jörundur Brynjólfsson, Múla og Skálholti
Einar Jörundur Helgason, Holtakotum
Jóhann Kr. Ólafsson, Kjóastöðum
Guðjón Rögnvaldsson, Tjörn
Skúli Gunnlaugsson, Bræðratungu.

Hrunamannahreppur
Ágúst Helgason, Birtingaholti
Helgi Ágústsson, Syðra Seli

Gnúpverjahreppur
Sr. Ólafur Briem, Stóra Núpi
Páll Stefánsson, Ásólfssöðum 
Árni Ögmundsson, Galtafelli

Grímsneshreppur
Gunnlaugur Þorsteinsson, Kiðjabergi
Magnús Jónsson Klausturhólum
Sr. Guðmundur Einarsson, Mosfelli

Laugardalshreppur
Böðvar Magnússon. Laugarvatni
Teitur Eyjólfsson, Eyvindartungu

Skeiðahreppur
Guðmundur Lýðsson, Fjalli
Brynjólfur Bjarnason, Framnesi
Eiríkur Jónsson, Vorsabæ

Ef þér skyldi takast að grafa upp þessa gömlu bók (eða bækur), eða ef þú gætir veitt einhverjar upplýsingar um hvar hana gæti verið að finna, bið ég þig að hafa samband við eitthvert þeirra sem hér eru tilgreind:

Páll M. Skúlason netf. pallsku@gmail.com s. 8989152
Þorsteinn Tryggvi Másson netf. thorsteinn@heradsskjalasafn.is s. 4821259
eða oddvitann í þínu sveitarfélagi.


Með fyrirfram þökk.

Páll M Skúlason





05 september, 2020

Laugarás: Hvað ef þetta hefði gengið eftir?


Þann 6. apríl, árið 1972 var haldinn svokallaður almennur sveitarfundur í Aratungu. Þar var meðal annars fjallað um skólamál í uppsveitunum. Á þessum tíma var Þórarinn Þorfinnsson á Spóastöðum, oddviti hreppsnefndar. Arnór Karlsson, ritari fundargerða hreppsnefndar, ritaði fundargerð þessa fundar. 
 Á þessum tíma var ég nú bara unglingsræfill sem vann við brúarsmíðar á sumrin og gekk í ML á vetrum. 
 Ætli þetta sé ekki nægilegur formáli að þeim lið í fundargerðinni þar sem fjallað var og ályktað um skólamálin. Ekki á ég von á að þetta falli öllum í geð, en hafa ber í huga, að það er tæp hálf öld síðan þetta var. 
Ég mun freista þess að skrifa lítilsháttar viðbrögð við þessu, í lokin. Feitletranir eru mínar.

 

2. Skólamál

Sveinn Skúlason, formaður skólanefndar Reykholtsskólahverfis, reifaði þessi mál.

Sagði hann frá fundi, sem haldinn var í Árnesi í Gnúpverjahreppi, fyrr á þessum vetri með skólanefndamönnum og oddvitum í uppsveitum Árnessýslu. Þar var fjallað um framtíðarskipan fræðslumála í þessum sveitum. Einnig sagði hann frá umræðum um fræðslumál, sem fram fóru á aðalfundi Sambands sveitarfélaga í Suðurlandskjördæmi 25. marz, s.l, og tillögum til umræðna um skólaskipan á Suðurlandi, sem fulltrúar Menntamálaráðuneytisins lögðu þar fram.

Þórarinn Þorfinnsson ræddi þessi mál og lagði fram frumdrög að tilllögum til samþykkta.

Þorsteinn Sigurðsson tók til máls og drap á nokkkur atriði í sögu skólamála í Biskupstungum. Hann taldi, að mörg rök mæltu með að byggður væri skóli fyrir efstu bekki skyldunámsins í Laugarási og lýsti eindregið stuðningi sínum við þá hugmynd.

Taldi hann heppilegt að stofna búnaðarskóla á Laugarvatni. Grímur Ögmundsson lýsti stuðningi við þá hugmynd.

Sveinn Skúlason tók til máls og gaf nokkrar, nánari skýringar og óskaði eftir smávægilegum orðalagsbreytingum á tillögum Þórarins.

Tillögurnar voru síðan bornar upp og samþykktar samhljóða.

Þær voru á þessa leið:

Á almennum sveitarfundi í Biskupstungum, höldnum í Aratungu 6. apríl, 1972, þar sem rætt var um skólamál í uppsveitum Árnessýslu, með hliðsjón af nýjum tillögum Menntamálaráðuneytisins um skipan fræðslu- og skólamála á Suðurlandi, var samþykkt eftirfarandi:

1. Fundinum er ljóst, að til þess að leysa fræðslumálin á viðunandi hátt á þessu svæði, verða mörg sveitarfélög að vinna saman með rekstur skóla fyrir efstu bekki skyldunámsins og telur eðlilegt að sveitir þær, sem mynda Laugaráslæknishérað, vinni saman að lausn þessa máls.

2. Fundurinn telur Laugarvatn ekki heppilegan stað fyrir slíkan skóla. Bendir í því sambandi á að Laugarvatn er alveg úti á jaðri þess svæðis sem skólann á að sækja og því lítið hægt að koma við daglegum heimanakstri, vegna fjarlægðar, en mikill heimanakstur er talinn mjög æskilegur.

Einnig er vafasamt, að heppilegt sé, að setja svo marga, ósamstæða skóla hvað aldur nemenda snertir, á einn stað, eins og er á Laugarvatni.

3. Fundurinn vill benda á Laugarás, sem heppilegan stað fyrir slíkan, sameiginlegan skóla uppsveitanna. Til stuðnings við Laugarás má nefna:

a. Laugarás er miðsvæðis, og skóli vel settur þar með tillliti til daglegs heimanaksturs.

b. Í Laugarási, sem er sameign Laugaráshéraðs, er vaxandi þéttbýli og öll nauðsynleg þægindi fyrir slíka stofnun.

c. Barnaheimili Rauða krossins í Laugarási þarf endurbyggingar við og virðist eðlilegt að samvinna væri höfð við Rauða krossinn um bygginguna, þannig að skólinn væri notaður fyrir barnaheimili að sumrinu. Nýtist þá húsið betur og rekstur þess yrði hagkvæmari.

d. Ekki er ólíklegt að einhver samvinna gæti orðið um kennslukrafta milli skólans í Laugarási og skólans sem verið er að reisa í Skálholti, þar sem svo stutt er á milli. Einnig er ekki lengra til Reykholts en það, að sami sami kennari gæti kennt á báðum stöðunum, ef það þætti henta.

 

Ég viðurkenni það, hér og nú, að ég hafði ekki búist við að sjá samþykkt af þessu tagi á almennum sveitarfundi í Aratungu. Þá neita ég því ekki, að ég hlakka dálítið til að kynna mér fundargerðabækur oddvitanefndar Laugaráslæknishéraðs þarna um vorið 1972. Því miður virðast gjörðabækur annarra sveitarfélaga í uppsveitum, frá þessum tíma ekki vera aðgengilegar á vefnum enn, en það væri fróðlegt að kynna sér hvaða samþykktir áttu sér stað þar, um þetta efni. 

Ég veit veit hvernig fór með þessa samþykkt, en mér er ekki ljóst enn, hvað leiddi til þess að svo fór sem fór. 

Það eru spennandi tímar framundan hjá þessum nörd.

08 maí, 2017

Enn á að selja

Ég virðist æ oftar vera búinn að fjalla um málefni sem ég kýs að taka hér fyrir. Þessu sinni hér og hér.

Mér virðist ljóst, að vilji uppsveitahreppanna til að losa sig við jörðina Laugarás, sem sýslunefnd Árnessýslu keypti upp úr 1920, undir læknissetur, fari vaxandi. Ekki ætla ég að hafa sérstaka skoðun á því, utan þá sem ég hef oft áður tjáð, sem felst í því að Laugarás teljist í hugum ýmissa í uppsveitum, hálfgerður vandræðagemlingur, sem truflar eðlilega uppbyggingu á svæðinu, komi að einhverkju leyti í veg fyrir að hrepparnir fái að blómstra, hver á sinni forsendu.  Það hefur hver sína skoðun á þessu, eins og við má búast.

Í gær rakst fD, sem fylgist grannt með sveitarstjórnarmálum í Bláskógabyggð, á lið í fundargerð sveitarstjórnar, sem hljóðar svo:

198. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar, 5. maí, 2017
6. Bókun Skeiða- og Gnúpverjahrepps um Laugarásjörðina. Lögð fram bókun frá fundi sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps, dags. 7. desember 2016. Í bókununni kemur fram að sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps telur eðlilegast að setja hlut Laugarásjarðarinnar sem er í eigu sveitarfélaganna í Uppsveitum Árnessýslu í sölu. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að fela oddvita og sveitarstjóra að skoða forsendur málsins og afla gagna. Jafnframt að eiga viðræður við forsvarsmenn hinna eignaraðilanna.

Þar sem mig langaði að vita meira um uppruna þessa, fann ég umrædda samþykkt sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

36. fundur sveitarstjórnar Skeiða-og Gnúpverjahrepps 7. desember 2016
Samningar og umsagnir:
28. Samningur um umsjón jarðarinnar Laugarás. Þarfnast staðfestingar samningur staðfestur. Gunnar Örn Marteinsson lagði fram svohljóðandi bókun : Eðlilegast er að setja hlut Laugarásjarðarinnar sem er í eigu sveitarfélaganna í sölu. Á þeim tíma sem sveitarfélöginn sem stóðu að uppbygging heilsugæslu í Laugarási keyptu þau land og heitavatnsréttindi í Laugarási, þau kaup voru nauðsynleg á þeim tíma, í dag eru hinsvegar aðrir tímar og eingin þörf fyrir sveitarfélöginn að hald í þessa eign. Samþykkt samhljóða.  

(málfar og stafsetning er eins og það er í fundargerðinni)

Ekki nenni ég að leita eftir bókunum um málið í fundargerðum annarra hreppa.
Bókunin sem samþykkt var á fundi sveitarstjórnar Skeiða-og Gnúpverjahrepps er ósköp blátt áfram: allir voru sammála um að eðlilegast væri að selja Laugarásjörðina vegna þess að nú væru breyttir tímar.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar tók þessa samþykkt fyrir fimm mánuðum síðar, svo ekki virðist nú vera mikill asi.  Sveitarstjórnin samþykkti, samhljóða, að fela oddvita og sveitarstjóra að skoða forsendur málsins og afla gagna. Jafnframt að eiga viðræður við forsvarsmenn hinna eignaraðilanna.


Óhjákvæmilega vakna ýmsar spurningar þegar bókanir af þessu tagi eru lesnar. 
Til að halda því til haga, fyrir þá sem ekki vita, þá eru allar lóðir í Laugarási, ef frá er talin svokölluð "sláturhúslóð", þar sem nú stendur yfir bygging á miklu hóteli, leigulóðir.  Þannig greiða allir lóðarhafar leigu til Bláskógabyggðar, enda telst Laugarás vera hluti af því sveitarfélagi (áður hluti af Biskupstungum). 

Hér eru nokkrar spurningar sem svara þarf með óyggjandi hætti, að mínu mati:

1. Eiga uppsveitahrepparnir Laugarásjörðina?  

Í læknablaðinu í apríl 1922 segir svo m.a. um fjárveitingar í fjárlögum fyrir árið 1923:
"alt að 11000 handa Árnessýslu til þess að kaupa Laugarás fyrir læknissetur".  
Þarna var sem sagt um að ræða framlag ríkisins til Árnessýslu
Brynjúlfur Melsteð skrifaði eftirfarandi í tengslum við byggingu Iðubrúar í janúar, 1952:
"Það var viturleg ráðstöfun er Sýslunefnd Árnessýslu keypti á sínum tíma Laugarás fyrir læknissetur".

Samkvæmt þessu var það sýslunefnd Árnessýslu sem keypti jörðina, en ekki uppsveitahrepparnir. Sannarlega ætla ég ekki að efast um eignarhald hreppanna, en það þarf þá að liggja fyrir.

Ef hrepparnir eiga jörðina, hvenær eignuðust þeir hana?
Hver er eignarhluti hvers og eins? 
Hvað greiddi hver og einn fyrir hana? 
Hverjar eru tekjur hvers hrepps af jörðinni?
Hver er kostnaður hvers hrepps af þessari eign?

2. Hvernig sala á þetta að vera?

Í samþykktri bókun Skeið/Gnúp segir: Eðlilegast er að setja hlut Laugarásjarðarinnar sem er í eigu sveitarfélaganna í sölu.   Þetta felur ekkert annað í sér en að þetta þyki sveitarstjórninni "eðlilegast" og þá mögulega að það sé "óeðlilegt " að hreppurinn eigi einhvern hlut í jörð í öðru sveitarfélagi. Ekki ætla ég að agnúast út í það.  Mig grunar hinsvegar að þarna á bak við hljóti að vera eitthvað fleira, sem ekki er sagt. Vissulega er það rétt sem fram kemur, að margt hefur breyst frá því jörðin komst í eigu sýslunefndar Árnessýslu og vel kann að vera að kominn sé til á að endurskoða eignarhald á jörðinni.  
Samþykki allir hrepparnir að kominn sé tími til að selja Laugarásjörðina (sem þeir eiga væntanlega), hverjir eru þá mögulegir kaupendur?

3. Þurfa Laugarásbúar að hafa áhyggjur?

"Til sölu er jörðin Laugarás í Bláskógabyggð"
Mun þetta birtast okkur svona, rétt eins og auglýsing um sumarbústað til sölu?  
Því er ekki að neita, að maður veltir fyrir sér ýmsum "sviðsmyndum"  við tilhugsunina um, að Laugarás verði selt, rétt eins og hver önnur bújörð í Bláskógabyggð, þó mig gruni að hugsunin sé frekar, að Bláskógabyggð kaupi. En vill Bláskógabyggð það? Um það hef ég ákveðnar efasemdir, svona í ljósi sögunnar.  Ég held hinsvegar, að Bláskógabyggð hafi ekki val.

Hvað gerist nú ef Bláskógabyggð vill ekki kaupa?  Myndi Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Hrunamannahreppur eða Grimsnes- og Grafningshreppur sjá einhvern hag í að eignast þessa kostajörð?

Vilji allir hrepparnir selja, en enginn kaupa, hvað gerist þá?  Auðvitað yrði jörðin auglýst, eins og hver önnur jörð, væntanlega á evrópska efnahagssvæðinu.
Mögulegir kaupendur, hverjir gætu þeir nú verið?
1. Orkufyrirtæki - Orkuveita Reykjavíkur hefur haslað sér völl víða.
2. Skálholt - á sennilega ekki pening.
3. Eigendur nýja hótelsins?
4. Erlendur milljarðamæringur.
5. Hlutafélag í eigu óþekktra aðla, sem mögulega, hugsanlega vilja flytja heim fé sunnan úr höfum.
6. Íbúar í Laugarási. 

Ef hrepparnir vilja selja til þess að fá pening í hreppakassana, er auðvitað eðlilegast að auglýsa bara og sjá hver býður best. Þar með væru þeir líka að henda íbúunum út á kaldan klaka í mikilli óvissu um hvað við tæki.  Öllum lóðasamningum yrði þá sagt upp og íbúunum boðið að semja aftur, um margfalda leiguupphæð.

Mér finnst sjötti liðurinn áhugaverður. Bláskógabyggð myndi kaupa jörðina með gæðum og gögnum, á málamyndaverði, að öðru leyti en þann hluta hennar sem nú þegar er leigður undir íbúðabyggð. Íbúunum yrði gefinn kostur á að kaupa sínar lóðir fyrir málamyndaupphæð í hlutfalli við landstærð, t.d.hundrað krónur á hektara.  Ég veit að mörgum mun finnast þetta fáranleg hugmynd, en ég tel hana ekki vitlausari en margt annað, að minnsta kost þangað til ég fæ upplýsingar um hvað hver hreppur greiddi fyrir jörðina á sínum tíma, ef eitthvað.
Reyndur sveitarstjórnarmaður sagði eitt sinn við mig að hreppar væru ekki gróðafyrirtæki.

Ætli ég láti þetta ekki duga í bili.  Held áfram að hafa áhyggjur.


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...