Sýnir færslur með efnisorðinu síðasti dagurinn. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu síðasti dagurinn. Sýna allar færslur

31 ágúst, 2017

31 rauð rós, súkkulaðikaka og vínarbrauð

Á þessum degi, 31. ágúst, anno 2017, lýk ég starfi mínu fyrir þá góðu stofnun, Menntaskólann að Laugarvatni.  Ugglaust mun ég síðar fjalla um ýmislegt sem þar gerðist, á þeim árum sem ég gekk þar um ganga, fyrst sem nemandi í 4 ár og síðan sem starfsmaður í 31.

Eins og nærri má geta hef ég orðið nokkuð góða sýn á þessa stofnun í gegnum súrt og sætt, en það er ekki bara hún sem slík sem skiptir mestu, heldur fólkið sem ég hef kynnst og unnið með. Það hefur verið af ýmsu tagi, allt frá því að vera nánast stórundarlegt og upp í það sem kalla má eðal. Sem betur fer tilheyrir langstærstur hluti hópsins síðarnefnda flokknum frekar.

Ég fór nú bara úteftir í morgun, svona rétt eins og aðra morgna á þessu hausti, nákvæmlega þegar ég var tilbúinn. Gerði síðan nákvæmlega það sem mér datt í hug, en það fólst aðallega í því að undirstinga fólk (í eldri kantinum flest) vegna myndasöfnunar minnar fyrir vef NEMEL (Nemendasamband Menntaskólans að Laugarvatn). Þessi söfnun er langt komin, en það eru ennþá gloppur sem ég er óðum að fylla í.  Ég ætla mér ekki að hætta þessari söfnun fyrr en á þennan vef eru komnar myndir frá öllum árum sem skólinn hefur starfað, en fyrir þá sem ekki vita, þá var hann stofnaður 1953.

Jæja, svo skellti ég mér í kaffi á kennarastofuna, svona rétt eins og maður gerir. Mér fannst eitthvað óvenju fjölmennt þar, Helga Kristín, frænka*  (sem áfram mun halda þarna á lofti merki ættarinnar, vel og rækilega) tók til við að bera súkkulaðikökur á borð, ásamt þeyttum rjóma.  Magnús, Selfyssingur, reyndist hafa kippt með sér vínarbrauðslengju neðan að.

Það næsta sem gerðist var að frænka tilkynnti að þetta væri til komið vegna þessa síðasta dags míns í starfi, sem ég brást við með því að halda þakkarræðu, sem var ekki löng, en  ræða samt.
Þegar henni var lokið og neyslan á veitingunum rétt hafin, birtist Áslaug, staðgengill skólameistara, með fangið fullt af rauðum rósum, eina fyrir hvert ár. Þetta gerði hún fyrir hönd starfsmannafélagsins, STAMEL.
Auðvitað kallaði þetta á aðra þakkarræðu, sem var einnig mjög stutt.
Þegar veitingunum höfðu verið gerð skil, kvaddist fólk og þakkaði fyrir samstarfið og þessu lauk síðan með því Pálmi dró fána lýðveldisins í hálfa stöng (sjá neðst), sem er svo sem vel skiljanlegt.
Allt þetta stand snerti mig eðlilega. Það hefði sjálfsagt snert mig enn meira ef ég hefði nú verið að yfirgefa húsnæðið endanlega, en svo er auðvitað ekki. Ætli ég verði ekki þarna í einhverju formi, meira og minna komandi vetur.

Mér fannst flestir hafa talsverðar áhyggjur af því sem við tekur hjá mér. "Hvað ætlarðu eiginlega að gera í fyrramálið?"
Ég hef nú bara áhyggjur af því hvernig best verður að skipuleggja það sem bíður mín, enda á besta aldri og tilbúinn að kýla á þær áskoranir sem framundan eru.
Ég neita því hinsvegar ekki, að einn strengur í mér mun sennilega sakna þess að hverfa út úr þeim líflega vinnustað sem ML hefur verið.

Starfsfólk ML, fyrr og nú:  Kærar þakkir fyrir samstarfið og umhyggjusemina.
----------------
Vegna þessa með fánann: Fáninn var í framhaldinu dreginn að hún, þar sem Laugvetningar fagna í dag undirritun samnings um íþróttamannvirkin á Laugarvatni. Pálmi gerði samt hlé á drættinum um stund og að því leyti er það sem sagt er hér að ofan rétt með farið.  Upphafstónar jarðarfararsálmsins "Kallið er komið, komin er nú stundin...." heyrðust hljóma undir athöfninni á kennarastofunni.

*dóttir Mannsa frænda, en við Mannsi (Sæbjörn Eggertsson) erum systkinasynir

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...