Sýnir færslur með efnisorðinu hlýnun. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu hlýnun. Sýna allar færslur

25 apríl, 2019

Jæja, þá er víst komið sumar (995)

Það er allavega komið vor, þó ekki sé nú hægt að segja að gróðurinn sé kominn á einhverja hvínandi siglingu.
Merkin eru samt þarna, ótvíræð og ekki auðvelt að ímynda sér hvernig hægt er að lesa í þau á annan hátt en þann, að framundan sé enn eina ferðina gróandi, hlýindi og hálsbindi.

Kannski er þetta síðasta vorið, síðasta vorið í Kvistholti.
Maður veit ekki.
Maður veit svo fátt.
Maður þykist auðvitað vita heil ósköp, en veit svo varla neitt nema eitthvað smávegis um það sem liðið er; geymir það í höfðinu og byggir á því til að reyna að meta líkindi þess að eitthvað tiltekið gerist síðan í framtíðinni.

Það sem maður hefur fast í hendi er það sem er hér og nú, allt sem gerist á morgun er ekki til, nema ef til vill í voninni um að það verði með einhverjum ásættanlegum hætti.
Jú, sumt er fyrirsjáanlegra en annað. Þannig munu auðnutittlingarnir sennilega koma á pallinn til að leita að sólblómafræinu sínu, þrestirnir líklega að kroppa í eplið, hrossagaukurinn mögulega hneggja og gera sig til fyrir verkefnið sem hann veit einhvernveginn að bíður hans.


Sumarið var tími sem maður hlakkaði til og er enn í vissum skilningi.
Það sem hefur breyst er, að tilhlökkunin er kvíðablandin. Hvernig verður veðurfarið hér á norðuhveli? Má búast við því sama og síðastliðið sumar? Skýjahula og votviðri á Suðurlandi, blíða fyrir norðan og austan, ógnvænlegar hitabylgjur og þurrkar á meginlandi Evrópu?  Er þetta kannski það sem bíður okkar næstu árin?
Hve mörg ár?
Hvað gerist þá?
Það er komin upp óvissa sem snýst í rauninni um framtíð lífs á jörðinni, hvorki meira né minna. Maður veltir því fyrir sér, svo nöturlegt sem það nú er, hvort maður lifir það að deyja út ásamt öðru lífi á jörðinni, eða hvort maður getur vonast til að hverfa á braut meðan allt leikur enn í stórum dráttum í lyndi.


Þetta er ekki fagrar pælingar. Þetta eru pælingar svartsýnismannsins og svartsýni er víst ekki það sem við þurfum þessi árin. Það er skylda okkar að takast á við það verkefni, að gera allt sem í okkar valdi stendur til að jörðin verði lífvænleg til langrar framtíðar.
Þá skyldu getum við hinsvegar ekki uppfyllt nema til komi sú forysta,  fyrir því lífsformi sem valdið hefur því að staðan er eins og hún er (manninum) sem dugir til að snúa við. Sú forysta er ekki fyrir hendi enn og það sem verra er, æ fleiri virðast stökkva á vagn þeirra sem hafa hátt um að allt tal um hlýnun jarðar, sé bara bull og vitleysa. Fólk stekkur á þennan vagn í fávisku sinni og þörfinni fyrir sterka leiðtoga.
Við þurfum sterka leiðtoga, sem eru raunverulega tilbúnir í að leiða mannkynið í því verkefni sem blasir við. Einhvern sem tekst að sannfæra okkur um að aðgerða sé þörf, leiðtoga sem hefur nægilega skýra sín á leiðina til baka í framtíðinni. Vandinn er hinsvegar sá, að slíkt fólk á ekkert sérstaklega upp á pallborðið hjá kjósendum þessa heims. Við erum nefnilega í eðli okkar dálítið heimsk og gjörn á að stökkva á skyndilausnir, sem hljóma vel í dag, en eiga sér enga framtíð.


Þetta er nú einhver dimmasti pistill sem ég hef hingað til leyft mér að skella hér inn og í sannleika sagt velti ég fyrir mér hvort ég hef yfirleitt rétt til að láta svona nokkuð frá mér. 
Ég held ég geri það samt.
Það eina sem einhver ykkar munu líklega hugsa er: "Hvílíkt svartnættisraus!"  Fleira mun ekki gerast, vona ég (það er alltaf þessi von).

Í rauninni er það svo, að ég veit ekkert, þó ég telji mig kannski vita ýmislegt. Ég veit ekkert, í þem skilningi, að það sem ég þykist vita um framtíðina byggist á þvi sem ég heyri í umhverfi mínu, sé í kringum mig og ímynda mér síðan í framhaldinu. Svo get ég ekkert annað en vonað það besta, rétt eins og við öll.
Ég ætla að vona það besta, og stefni á að gera mitt til að reyna að bæta fyrir það sem mín kynslóð og kynslóðirnar þar á undan hafa gert til að tefla framtíð lífs á jörðinni í tvísýnu.
Annað get ég ekki gert.
Það eina sem ég græði á þessari fyrirætlun minni, hvernig svo sem til tekst með hana, er að ég get líklega lagt höfuðið að koddann á kvöldin, sáttur við minn þátt.

Ekki meira um þetta, heldur bara það sem var upphaflegur tilgangur minn með þessu pistli á sumardaginn fyrsta:
Gleðilegt sumar. 


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...