Jæja, en þetta er nú bara karlagrobb, svona dæmigerð aðferð við að toppa það sem síðasti maður sagði.
Ekki taka mark á þessu, frekar en þú vilt, en samt er þetta alveg satt. Kristinn Kristmundsson, skólameistari greip til þess örþrifaráðs, þegar vegir í uppsveitum voru búnir að vera lokaðir lengi vegna snjóþyngsla, líklega í kringum árið 1990, að senda vélsleðakappa frá Laugarvatni, Sigurð Sigurðsson, sem kallaður er Siggi súper, eftir mér. Þá var ég búinn að vera hálfan mánuð frá vinnu.

Frá Haga stóð Siggi sleðann þvert yfir Apavatn og síðan beinustu leið út á Laugarvatn, rétt framhjá Hjónavökinni og þaðan stystu leið upp í skóla. Þetta ferðalag tók ekki langan tíma og mér hefur stundum orðið hugsað til þess síðan, hve mikinn tíma ég hefði nú sparað mér á 31 ári, ef vegur lægi þessa leið milli Laugaráss og Laugarvatns.

Sem fyrr, varð þessa veðurs lítið vart í Laugarási, það heyrðist hvinur í trjátoppum á einhverjum tíma, en það var allt og sumt. Þetta hefur ekki alltaf verið svo. Áður en skjól trjánna fór að hafa þau áhrif sem það hefur nú, brast hér á með stórviðrum eins og annarsstaðar.
Eftir ævintýrin síðasta sólarhringinn er víst önnur lægð á leiðinni og fátt er vitða hvað hún mun hafa í för með sér fyrir landann og ferðamennina. Mér finnst nú bara spennandi ap bíða og sjá, enda hef ég engar fyrirætlanir um að leggja af stað í vinnuna í fyrramálið um sjöleytið.
Ágætis tilhugsun.
Í dag hefur veðrið veitt okkur andrúm til að kíkja út, og draga ofaní okkur ferskt vetrarloftið. Svo skríðum við aftur í hýði okkar og sjáum hvað setur.
![]() |
Matthías Líndal Jónsson, Slakkamaður og fD skeggræða um veður og færð. |