Sýnir færslur með efnisorðinu Bræðratungusókn. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Bræðratungusókn. Sýna allar færslur

01 febrúar, 2020

Þorpið í þjóðgarðinum

Framundan munu vera ýmsar breytingar í Bláskógabyggð. Það væri of langt mál að fara út í að tína þær allar saman og því mun ég aðeins fjalla um eina, nokkuð mikla grundvallarbreytingu, sem nú mun vera í vinnslu innan sveitarstjórnar.

Eins og flestum mun kunnugt, verður árið 2020 nýtt til þess að leggja ljósleiðara um sveitarfélagið. Þessi lagnig mun þegar vera hafin, þótt hljótt fari, en í fyrsta áfanga er lögð áhersla á að leggja ljósleiðarann upp á hálendið. Eins og okkur mun öllum vera orðið ljóst, þá er hálendið eitt mikilvægasta umfjöllunarefni sveitarstjórnarinnar þar sem það er grunnurinn að byggð í Bláskógabyggð og talið munu verða flaggskip svæðisins til framtíðar.
Í tengslum við þetta verkefni eru fleiri hugmyndir í vinnslu, sem ætlað er að leysa ýmsan vanda sem steðjað hefur að sveitarfélaginu. Þar stendur ein hugmynd upp úr og hún hefur fallið í góðan jarðveg meðal kjörinna fulltrúa okkar og reyndar ýmissa annarra.

Hugmyndin gengur, í sem stystu máli út á það, að flytja Laugarásbúa á Hveravelli, en með þeirri aðgerð yrðu slegnar allmargar flugur í einu höggi og þessar helstar:
1. Betri nýting á ljósleiðaranum sem verið er að leggja þarna uppeftir og jafnframt þá engin krafa um ljósleiðaralagningu í Laugarás.
2. Þar sem Hveravellir tilheyra Húnavatnshreppi, sem er norðlenskur hreppur, myndi þessi aðgerð létta ýmsum vanda af Bláskógabyggð og einfalda starf sveitarstjórnar. Laugarásbúar yrðu þarna  Norðlendingar og gætu þar með beint kröfum sínum um ýmsa þjónustu til sveitarstjórnar Húnavatnshrepps .
3. Bláskógabyggð myndi hafa ótvíræðan hag af mannlausum Laugarási, meðal annars að því leyti að trjágróðurinn myndi nýtast til kolefnisjöfnunar á svæðinu og myndi þar með draga úr allskyns vistviskubiti þeirra íbúa sem eftir væru í sveitarfélaginu.

Þá er samkomulag í augsýn, milli ríkisins og Bláskógabyggðar, um að þessi flutningur Laugarásbúa á Hveravelli verða á kostnað ríkisins, gegn því að Bláskógabyggð samþykki, fyrir sitt leyti, að hálendisþjóðgarðurinn verði að veruleika.  Þannig gætu báðir aðilar gengið sáttir frá borði, enda tryggt að hinir nýju Hveravallabúar myndu frá störf við gæslu hins nýja þjóðgarðs. Þeir yrðu þjóðgarðsverðir, sem meðal annars sæju um að smala þjóðgarðinn á haustin; koma fénu niður að Gíslaskála. Þar væru þá fjallmenn úr Biskupstungum vera búnir að dvelja nokkra daga í góðu yfirlæti, með gullnar veigar og góða ljósleiðaratengingu.

Jæja þá. 
Þetta kann svo sem að vera draumur einhverra, en hvort af verður mun framtíðin leiða í ljós.
Ég var á þorrablóti eldri borgara í Aratungu í gærkvöldi, þar sem Bræðratungusókn endurflutti skemmtidagskrá sína frá þorrablótinu sem haldið var á sama stað, viku fyrr.
Þarna var fléttað saman umræðum um hálendisþjóðgarð og þjónustukröfum frá Laugarási, þannig að úr urðu pælingarnar sem ég tæpti á hér fyrir ofan.
Dagskráin var afar skemmtileg og ég þakka Bræðratungusókn kærlega fyrir framlag þeirra og svo auðvitað félagi eldri borgara fyrir þeirra þátt í þessu öllu.
Ekki get ég sleppt því að þakka fR fyrir skelegga framgöngu við að kalla fram rómantíska danstónlist eftir að borðhaldi og skemmtiatriðum lauk.

Ég verð bara að vona að fólk hafi lesið alla leið niður. Ef ekki, þá er ég líklega í nokkuð vondum málum.
😅

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...