Sýnir færslur með efnisorðinu bókasafn. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu bókasafn. Sýna allar færslur

06 nóvember, 2019

Skálholt: Hvað með bókasafnið?

Það er heilmikið bókasafn í turni Skálholtsdómkirkju. Það hefur verið sagt, að það sé verðmætara en svo að það verði metið til fjár, en ef það yrði reynt myndi upphæðin velta á tugum milljóna króna. Það má sjá umfjöllun um þetta safn í mogganum frá árinu 2014, en þar er rætt  við Kristján Val Ingólfsson, vígslubiskup.
Í sem stystu máli má segja, að þetta safn er, að stofni til bókasafn Þorsteins Þorsteinssonar, sýslumanns Dalamanna. Athafnamaður í Reykjavík, Kári Borgfjörð Helgason keypti safnið árið 1962. Hann jók við það og lét gera ýmsar endurbætur á illa förnum safngripum. Kári seldi Þjóðkirkjunni bókasafnið árið 1965 og nú er Skálholtsstaður  eigandi safnsins og hefur verið í næstum 55 ár.  Því var komið fyrir uppi í kirkjuturninum í Skálholti, á tveim hæðum og þar er það enn.
Það þarf nú að fara að ákveða hvað á að verða um þetta bókasafn, sem keypt var til Skálholts fyrir þrjár og hálfa milljón króna árið 1965. Reyndar er framtíð þess rædd allmikið hér og þar, meðal annars innan Skálholtsfélagsins og fram hafa komið hugmyndir um hver æskileg örlög þess geti verið. Það finnst mér dálítið merkilegt, að þetta safn skuli hafa verið lokað uppi í kirkjuturni í ríflega hálfa öld. Hvernig má það vera, eiginlega?  Ætli í svarinu muni ekki felast fernt, í fyrsta lagi fjárskortur, í öðru lagi stjórnunarvandi á Skálholtsstað í þriðja lagi stöðugt veikari staða þjóðkirkjunnar í samfélaginu og í fjórða lagi almennur, dvínandi áhugi á bókum á tölvuöld. Sannarlega veit ég svo sem ekkert um þetta, en það má velta þessu fyrir sér.
Það vantaði ekki, á þeim tím þegar endurreisn Skálholts stóð sem hæst undir forystu Sigurbjörns Einarssonar, biskups, að hugmyndirnar voru háleitar fyrir hönd staðarins. Þegar bókasafnið hafði verið keypt sagði Sigurbjörn meðal annars:
Það þarf bókhlöðu fyrir þetta safn. Út í þetta er lagt í þeirri bjartsýni, að íslenzka þjóðin skilji, hvað hér er í húfi, fyrir hana sjálfa og fyrir Skálholt. Að hún skilji það í fyrsta lagi, að það verði að forða þeim vanza, að annað eins bókasafn og þetta hverfi úr landi. Í öðru lagi, að það beri að halda þessu safni saman, svo að sú vinna, sem í það hefur verið lögð, eyðileggist ekki. Og í þriðja lagi, að þjóðin skilji þá nauðsyn, að Skálholtsstaður eignist slíkt bókasafn.
Það var þá, en það bólar ekkert á bókhlöðunni.
Nú eru aðrir tímar og önnur viðhorf uppi, en safnið er þarna. Það liggur fyrir að það þurfi að flytja það úr turninum í önnur húsakynni í Skálholti. Þar þarf síðan að flokka það og grisja, vel og rækilega, þannig að þau rit sem teljast til gersema fái viðeigandi umönnum, en öðrum verði komið fyrir á staðnum í framtíðarhúsnæði, þau gefin eða þeim hreinlega fargað, eins og raunin virðist vera í æ meiri mæli í nútímanum.



Þegar safnið var keypt


Það er fróðlegt að lesa umfjöllun um aðdragandann að kaupum á safninu í byrjun árs 1965. Þar sýndist sitt hverjum, eins og gengur og gerist, en ég set hér fyrir neðan þrjú sýnishorn af því sem þarna var skrafað og skrifað.

Þjóðviljinn 3. febrúar, 1965

Bókasafn handa Skálholti

Fyrir nokkrum árum keypti kaupmaður einn hér í borg, Kári Helgason, bókasafn það sem Þorsteinn Þorsteinsson sýslumaður lét eftir sig. Hafa blöðin skýrt svo frá að kaupverðið hafi verið um tvær miljónir króna. Síðan hefur kaupmaðurinn aukið safnið, látið binda hluta af því, skrásetja það og hirða um það á annan hátt; og fyrir nokkru bauð hann það falt á nýjan leik, því svo segja lögmál efnahagslífsins að því aðeins sé fjárfesting skynsamleg að hún skili hæfilegum arði á sínum tíma og bækur eru auðvitað eins og hver önnur vörutegund. Hafa blöðin nefnt sex miljónir króna sem einskonar leiðbeiningarupphæð um það hvað safnið eigi nú að kosta.
Svo er að sjá sem hérlendir menn hafi ekki staðið í biðröð til þess að hremma safnið með sex miljónir króna í vasanum, þrátt fyrir alkunna velmegun í þjóðlífinu, því fyrir nokkrum dögum skýrðu blöðin frá því að nú væru allar horfur á því að safnið hyrfi af landi brott; erlendar menningarstofnanir í fjölmörgum þjóðlöndum — að vísu ónafnereindar — biðu þess með óþreyju að klófesta fenginn, hvað sem hann kostaði. Og fréttum þessum fylgdu áhrifamiklar greinar þess efnis að það væri þjóðarvoði, niðurlæging og smán að glata safninu úr landi; nú þyrftu landsmenn að sameinast um að kaupa menninguna af Kára Helgasyni.
Og eins og þegar sjónleikur er settur á svið af snjöllum leikstjóra birtist á örlagastundinni sá sem fer með aðalhlutverkið: biskupinn yfir Íslandi kom fram á sviðið og skoraði á þjóðina að skjóta saman fé og kaupa safnið handa Skálholti. Bað biskupinn menn að gera þetta af ræktarsemi við Skálholt og til guðsþakkar, auk pess „sem það væri þjóðarhneisa" að láta safnið fara úr landi.

En hvers vegna eru gerðar kröfur til allra annarra en Kára Helgasonar kaupmanns í þessu sambandi? Er þjóðarhneisa heimil ef menn hagnast á henni, og þurfa menn þá hvorki að hugsa um ræktarsemi né guðsþakkir? Hér á landi gilda lög sem banna að nokkur fiskstirtla sé seld af landi brott nema með leyfi hins opinbera; hvað er þá sjálfsagðara en að banna sölu menningarverðmæta úr landi í gróðaskyni nema með leyfi, ef slík lagaákvæði eru ekki þegar til? Og hvers vegna biður biskupinn alla aðra en Kára Helgason að gefa Skálholti safnið? Ráðlagði Kristur ekki ríka manninum að gefa eignir sínar til þess að öðlast fjármuni á himnum, og væri andvirði safnsins ekki mjög ákjósanleg gjaldeyriseign á þeim vettvangi? - Austri

Morgunblaðið 17. febrúar, 1965

Hvað get ég gert fyrir Skálholt?

MÁLEFNI Skálholtsstaðar hafa verið ofarlega á baugi með þjóðinni að undanförnu. Í Skálholti er nú risin vegleg kirkja, og aðrar framkvæmdir munu á eftir fylgja. Hinn forni höfuðstaður er að rísa úr rúst. Íslenzka þjóðin stendur í þakkarskuld við Skálholt. Hún er að miklu leyti ógreidd. Það er gott og blessað, að ríki og kirkja hafi frumkvæði og forgöngu um endurreisn Skálholts, en það væri hörmulegt til þess að hugsa, ef málstaður Skálholts ætti lítið sem ekkert rúm í huga hins almenna borgara. Það verður að játa það, að frændur okkar á Norðurlöndum hafa sýnt Skálholti meiri áhuga en við, sem eigum það í hjartastað landsins. Svo búið má ekki lengur standa. Metnaður okkar krefst athafna ekki síður en orða. Við eigum skuld og skyldur við fortíð og sögu.
Merkilegasta bókasafn Íslands á 17. öldinni var í Skálholti, bókasafn Brynjólfs Sveinssonar biskups og bókasafn biskupsstólsins. Bókasafn Brynjólfs biskups dreifðist í ýmsar áttir, sumt af því lenti í sjónum á leið til Danmerkur, handritasafn stólsins var að miklu leyti selt Árna Magnússyni fyrir litinn pening. Skálholt var svipt öllu, sem það átti — svo að segja — um aldamótin 1800, aldagamall arfur var að engu gerður.
Ekki tjáir að sakast um orðinn hlut, en hitt er sjálfsagt að bæta fyrir gamlar syndir, eftir því sem hægt er. Skálholt var til skamms tíma svartur blettur á samvizku þjóðarinnar, tákn niðurlægingar og vanrækslu. Í dag laðar Skálholt gesti að nýju, en betur má ef duga skal. Mörg verkefni bíða, sem betur fer.
Nú er rætt um að kaupa dýrmætt bókasafn til Skálholts. Það vantar fé til kaupanna. Er okkur svo fjárvant, að þetta sé ekki hægt? Á Skálholt ekki nógu marga vini, sem hafa vilja og getu til að leggja fram það fé, sem vantar? Ég trúi ekki öðru. Hvað segið þið Árnesingar, Rangæingar, Skaftfellingar, Vestmannaeyingar, þið sem búið sunnan Hellisheiðar og hvar sem er á landinu? Eigum við ekki að lyfta þessu taki? Það er ekkert Grettistak fyrir svo marga. Skálholti væri það í senn vegsemd og gagn að varðveita bókasafn Þorsteins Þorsteinssonar sýslumanns og Kára Borgfjörð.
Menntastofnun rís í Skálholti, fyrr en varir, innlendir og útlendir menntamenn eiga eftir að gista staðinn ár hvert um lengri eða skemmri tíma. Gott bókasafn gefur fyrirheit um, að Skálholt geti að nýju orðið afl og hæli bóklegrar iðju. Bókasafn Þorsteins sýslumanns má ekki hverfa af landi brott. Eigum við ekki að sjá því borgið?

Skógum, 9. febrúar 1965 Þórður Tómasson.











Morgunblaðið 10. febrúar, 1965

Biskup festir kaup á bókasafni Kára fyrir 3½ milljón

Skálholtsfélagið leggur fram 600,000 þúsund

„ÞAÐ HEFUR verið gengið frá kaupum á hinu verðmæta bókasafni Kára Helgasonar til handa Skálholtsstað. Kaupverðið, sem samið hefur verið um, er 3½ milljón krónur. Að beztu manna yfirsýn og bókfróðra, þykir það ekki mikið verð. Kári hefur bætt geysilega miklu við safnið, frá því hann keypti það, látið binda fjölmargar bækur inn í gott band og látið skrá safnið að miklu leyti. Ég lýsi gleði minni yfir því, að Skálholtsstað hefur nú verið tryggt þetta verðmæta bókasafn, sem ég vona að verði staðnum til eflingar á komandi tímum".

Þannig mælti herra Sigurbjörn Einarsson, biskup, á blaðamannafundi í gær, þar sem hann skýrði þeim frá þessum tíðindum. Á fundinum var einnig mætt stjórn Skálholtsfélagsins, ásamt Kirkjuráðsmanninum Þórarni Þórarinssyni skólastjóra. Stjórn Skálholtsfélagsins hefur ákveðið að veita kr. 600.000,00 til þess að festa kaup á safninu úr félagssjóði. 
Biskup ávarpaði blaðamenn nokkrum orðum og mælti m.a. á þessa leið: „Ég hef áður lýst þeirri ósk minni og von, að hægt væri að ná þessu dýrmæta bókasafni til Skálholtsstaðar til að prýða og efla þann stað. Til þess að ná því marki voru engin önnur úrræði til, en að leita til þjóðarinnar um framlög. Ég hef lengi alið með mér þenna draum, sem nú er að rætast. Þetta bókasafn mun verða undirstaða að því mennta- og menningarstarfi, sem maður vonar að eflist með tímanum á Skálholtsstað.
Ég fylgdist með því, þegar safnið var nú boðið til sölu, og fékk loforð fyrir því, að sjá þau tilboð, sem í safnið bærust. Þegar þau voru opnuð, var helzt útlit fyrir að safnið yrði selt úr landi. Og þá varð eitthvað að gerast. Gerði ég þá þessa ósk mína heyrum kunna. Hef ég síðan átt samningaviðræður við eiganda safnsins, Kára B. Helgason og umboðsmann hans, Böðvar Kvaran. Og nú hefur sem sagt saman gengið, og kauptilboði mínu, 3½ milljón krónum verið tekið.
Eins og kunnugt er, hefur Kirkjuráð með höndum þau mál, sem snerta samninga. Rétt er að benda almenningi á þá staðreynd að gefnu tilefni, að Skálholt er að lögum sjálfseignarstofnun, sjálfstæður fjárhagsaðili. Og þótt hið árlega ríkissjóðsframlag, 1 millj. kr., sé auðvitað góðra gjalda vert, þá hrekkur það hvergi nærri til nauðsynlegra framkvæmda í Skálholti. Má í því sambandi t.d. benda á framkvæmdir til að ná í nægilegt neyzluvatn, svo að ekki sé minnzt á að bora eftir heitu vatni.
Kaupverð safnsins verðum við því að fá hið bráðasta og rúmlega það, því að eftir er að koma safninu fyrir og útvega því góða vörzlu. Það þarf bókhlöðu fyrir þetta safn. Út í þetta er lagt í þeirri bjartsýni, að íslenzka þjóðin skilji, hvað hér er í húfi, fyrir hana sjálfa og fyrir Skálholt. Að hún skilji það í fyrsta lagi, að það verði að forða þeim vanza, að annað eins bókasafn og þetta hverfi úr landi. Í öðru lagi, að það beri að halda þessu safni saman, svo að sú vinna, sem í það hefur verið lögð, eyðileggist ekki. Og í þriðja lagi, að þjóðin skilji þá nauðsyn, að Skálholtsstaður eignist slíkt bókasafn. Við höfum fram til þessa enga ástæðu til annars en bjartsýni. Viðbrögð almennings hafa þegar verið jákvæð, og nægir að benda á samskot stúdenta í íslenzkum fræðum og ýmislegt fleira, sem fram hefur komið. Þetta hefur verið á algeru byrjunarstigi, en nú tekur annar þáttur við. Stjórn Skálholtsfélagsins, sem mætt er á þessum fundi hefur ákveðið að hefja fjársöfnun með því að leggja fram úr sjóði félagsins, sex hundruð þúsund krónur. Þetta er söfnunarfé, sem stjórnin hafði beðið átekta með að ráðstafa. Þessi upphæð gerir Skálholti kleift að festa bókasafn Kára í sinni eign. Stjórn Skálholtsfélagsins hefur ákveðið að beita sér fyrir fjársöfnun meðal almennings í því skyni að greiða safnið allt. Sú söfnun verður héðan í frá nefnd SKÁLHOLTSSÖFNUN. Sú, söfnun á að innheimta það fé, sem almenningur í landinu ætlar sér örugglega að leggja Skálholtsstað til sérstaklega með tilliti til þessa máls.
Væntum við þess, að þetta framlag félagsins verði öðrum góðum og hollum félögum hvatning.
Ég vil sérstaklega taka fram, að eigandi safnsins, Kári B. Helgason, hefur verið mjög þægilegur og sanngjarn í öllum viðræðum. Hann hefði að vísu getað gert sér meira úr því peningalega, á öðrum vettvangi, en það var einlæg ósk hans að safnið hyrfi ekki úr landi.
Það er áformað að byggja skólastofnun í Skálholti, og þá stofnun hefði vantað bókasafn og lestrarsal, og leiðir þá að sjálfu sér, að safnið fái þar verðug húsakynni.
Það er ósk mín og von, sagði biskup að lokum, að almenningur skilji þörfina á þessu safni til handa Skálholti, og þá er víst, að ekki mun langur tími líða, þar til safnazt hefur upp í andvirði þess".

-------------------------------------------------------
Myndirnar sem hér eru birtar tók ég í og úr turni Skálholtsdómkirkju þann 5. nóvember.  Þá er ein mynd sem birtist í mbl. þegar blaðamannafundur var haldinn til að greina frá kaupum á bókasafninu

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...