Sýnir færslur með efnisorðinu skoðun. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu skoðun. Sýna allar færslur

05 apríl, 2017

Engisprettufaraldur

Ég man orðið tímana tvenna. Vissulega er minnið þó gloppótt og einskorðast við undarlegustu tilvik oft afskaplega ómerkileg, meðan merkir atburðir eru horfnir það djúpt í minnisstöðvarnar í heila mínum að þeir verða ekki svo auðveldlega kallaðir fram.
Sumt man ég þó vel.

Einu sinni voru bara ræktaðir tómatar eða gúrkur (agúrkur, segja sumir) í gróðurhúsum á Íslandi. Svo hófst blómaræktun, en um hana veit ég fátt.  Utandyra spruttu kartöflur, gulrófur og hvítkál, líklega einnig blómkál. Ætli þetta hafi ekki verið úrvalið.
Það var með grænmetið eins og annað; gagnvart því ríkti ákveðin íhaldssemi og markaðssetning tók tíma. Ætli menn hafi ekki byrjað að rækta papriku, t.d. að einhverju ráðiu, á sjöunda áratugnum. Það liðu síðan allmörg ár þar til hún  náði fótfestu að ráði. Hefur líklega ekki síst haft með að gera vaxandi snertingu landans við útlönd.
Þegar ljóst var, að paprikan var farin að festa sig í sessi, hófst innflutingur, auðvitað. Innflutningsfyrirtæki sáu hag sinn í að keppa við íslenska framleiðslu, sem enn var bundin við vor, sumar og haust. Garðyrkjubændur voru síðan tekjulausir yfir vetrarmánuðina.
Svona hefur þetta verið með fleiri afurðir íslenskra garðyrkjubænda. Ég nefni hér kínakálið, sem var heilmikil nýjung þegar það kom fyrst fram í ræktun hér. Það var komið svo að engin máltíð var framreidd nema kínakál væri í salatinu. Þá hófst auðvitað gengdarlaus innflutningur á því.
Garðyrkjubændur skópu markaðinn, svo hófst innflutningurinn og í krafti viðskiptafrelsis.

Mér varð hugsað til þessa þegar í ítarlegri frétt var sagt frá nýjasta gæludýrinu í leikskóla í höfuðborginni, en það var engispretta sem hafði fundist í salati sem börnunum var ætlað.  Ég þarf auðvitað ekki að segja það, en umrætt salat var ekki  ræktað á þessu landi, heldur flutt inn frá einhverju landi þar sem engisprettur eiga heimkynni.

Mér varð á að hugsa hvort þarna væri ekki ástæða fyrir foreldra að láta til sín taka. Það var útlent skordýr í salatinu sem borið var fyrir börnin þeirra. Einhverntíma hefði heyrst hljóð úr horni, en það hefur ríkt þögn í kjölfar þessarar fréttar.  Hvað ef það hefði nú verið kakkalakki í salatinu?  Hvað eru börnin búin að sporðrenna miklu af engisprettum eða öðrum kvikindum með innflutta salatinu?

Látum það vera, því það er annað sem mér finnst meira áhyggjuefni en engisprettur í salati, því á sama tíma og leikskólar gefa börnunum innflutt salat, fá garðyrkjubændur sem rækta salat og hafa gert það að mikilvægum þætti í matarmenningunni, rutt brautina sem áður, fá nú æ oftar þau skilaboð frá stórmörkuðum eða dreifingaraðilum, að æ minni eftirspurn sé eftir salatinu þeirra. Það er ekki svo að salatneysla landans sé að dragast saman, þvert á móti, innflutningurinn eykst. Engispretturnar fara nú um grænmetismarkaðinn og háma í sig allt sem á vegi verður.
Þetta er auðvitað í nafni viðskiptafrelsis. Frelsisins til athafna. Frelsisins til að flytja inn hvað sem mönnum dettur í hug, um langan veg, frá löndum þar sem gróðurinn býr við önnur og hagfelldari ræktunarskilyrði en hér.

Ég tel, að opinberum aðilum, eins og ríki eða sveitarfélögum, eigi að bera skylda til að leggja áherslu á að innkaup á íslenskum vörum á grundvelli gæða þeirra, á grundvelli ábyrgðar þeirra gagnvart umhverfinu, á þeim grundvelli að þeir byggja tekjur sínar að stórum á innlendri starfsemi.

Mér finnst að foreldrar ættu að rísa upp, ekki aðeins vegna barnanna sem borða útlend skordýr, ekki aðeins vegna slælegra vinnubragða innflytjandans, sem virðist ekki sérlega umhugað um gæði og öryggi vörunnar sem hann selur, heldur ekki síst vegna þess að þetta land er, í flestum tilvikum, það land sem börnin þeirra vaxa upp í og munu hafa lífsviðurværi í til framtíðar.

Það er nú svo.

29 mars, 2017

Traust

Þessi dagur er staðfesting á því að vantraust mitt og fjölmargra annarra á stofnunum samfélagsins hefur verið og er réttlætanlegt. Einhvers konar staðfesting á því, að alla daga, allan ársins hring dunda einhverjir apakettir sér við það að svindla og svíkja, ekki aðeins hver annan, sem mér er nokk sama um, heldur þessa blessuðu vanmáttugu og bláeygu þjóð; þjóð sem trúir alltaf á ný.

Nafnorðið traust og sagnorðið að treysta eru mikil tískuorð um þessar mundir. Allt á að vera gagnsætt og uppi á borðinu til að skapa traust á hinu og þessu. Þetta er líklegast bara orðagjálfur til þess eins ætlað að freista þess að fá okkur til að treysta svo hægt verði að svína á okkur enn á ný. Ég tel reyndar að verið sé að því alla daga. Orð eru ódýr.

Það er óendanlega eitthvað dapurlegt að búa við það að geta ekki treyst. Það er eiginlega bara niðurdrepandi til lengdar.  Það er eins og ekki fyrirfinnist sú hugsun að við samtímamennirnir eigum að fá að ganga í gegnum lífið í fullvissu þess að við séum að stefna að einhverju svipuðu til að líf okkar allra geti orðið gott líf. En, nei, það eru alltaf einhverjur, sem búa ekki yfir nauðsynlegri siðferðiskennd til að svo megi verða. Það virðist meira að segja vera til hellingur af slíku fólki, fólki sem lifir fyrir það að raka að sér auði og völdum í krafti fjármagns, sérþekkingar eða ættartengsla.

Ég hef ekki sérstaklega mikla trú á því að ég muni lifa það að búa í þjóðfélagi þar sem traust ríkir. Með vaxandi fáfræði fólks (mér þykir leitt að þurfa að segja það) skapast einmitt kjörlendi fyrir þá sem búa yfir hæfileikanum til að sannfæra almúgann um mannkosti sína.

Þessu þurfti ég bara að koma frá mér á þessum degi, þegar 70 ár eru frá því stærsta eldgos 20. aldar hófst.







25 nóvember, 2016

Svei svörtum fössara

Getur lágkúran orðið öllu meiri?
Hvað í ósköpunum kemur okkur það við þótt Bandaríkjamenn fagni einhverjum atburði í sögu sinni?
Hvað í ósköpunum kemur okkur það við að verslunarmenn í Bandaríkjunum hafi tekið upp þann sið að marka upphaf jólaverslunar með einhverjum tilboðum og valið til þess daginn eftir þakkargjörðardaginn sinn?
Er ekki komið alveg nóg af þessari gagnrýnislausu eftiröpun á öllu því sem amerískt er?
Mér finnst Íslendingar gera óskaplega lítið úr sér með þessum hálfvitagangi.

Ekki bætir svo úr skák þegar verslanir geta ekki lengur þýtt heitið á þessum föstudegi bara yfir á íslensku og kallað hann "svartan föstudag". Nei, annaðhvort verður hann að kallast "Black Friday", eða það sem jafnvel enn skelfilegra: "S V A R T U R   F Ö S S A R I" Almáttugur.

Ef einhverjir skyldu nnú ekki átta sig á samhenginu þá er þetta m.a. sagt á Vísindavefnum um Þakkargjörðardag Bandaríkjamanna:
Fyrsta þakkargjörðardaginn héldu enskir púrítanar, svonefndir pílagrímar, haustið 1621. Þeir höfðu í september árið áður hrökklast með skipinu Mayflower frá borginni Plymouth á Englandi að strönd Massachusettsflóa. Þar stofnuðu þeir nýlenduna Plymouth. Eftir harðan vetur en góða sumaruppskeru ákváðu pílagrímarnir að þakka Guði fyrir alla hans velgjörninga með þriggja daga hátíð. Þeir buðu innfæddum einnig að taka þátt í veislunni, en til matar voru einkum kalkúnar og villibráð.
Svo leiddi eitt af öðru:
Árið 1863 mælti Abraham Lincoln (1809-1865) forseti svo fyrir að allir Bandaríkjamenn skyldu halda hátíðlegan þakkargjörðardag fyrir gæði síðasta árs. Hann skyldi haldinn síðasta fimmtudag í nóvember, en sá dagur var í nánd við daginn sem George Washington gaf út yfirlýsingu sína. Ritstjóri kvennablaðsins Lady’s Magazine, Sarah J. Hale (1788-1879), hafði þá lengi barist fyrir þessu máli. Árið 1939 breytti Franklin D. Roosevelt (1882-1945) forseti dagsetningunni í fjórða fimmtudag nóvembermánaðar og bandaríska þingið staðfesti tillögu hans árið 1941.
Er einhver sérstakur skortur á dögum til að gera sér dagamun á þessu landi elds og ísa?

Það getur verið að svona séum við bara: að hingað hafi flykkst forðum fólk af sömu tegund og nú er nýbúið að kjósa stórundarlegan forseta yfir sig vestanhafs. Það eru ýmis merki þess að við höfum gert slíkt hið sama hér og meira að segja orðið á undan "frændum" okkar fyrir westan.
Ég vil hinsvegar skrifa þetta að stórum hluta að endalausa ásókn okkar í bandarískar sápuóperur og mátt fjármagnsins, sem dregur okkur til að kaupa það sem við höfum ekki raunverulega þörf fyrir.

Hættum þessari vitleysu.
---------------------
Það er enginn ritstjóri sem metur þessi skrif áður er þau fara í loftið, nema ég, sem kýs að láta mér vel líka.

Þetta var blástur dagsins og ég get þar með farið að hugsa um eitthvað uppbyggilegra.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...