Sýnir færslur með efnisorðinu Helga Ágústsdóttir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Helga Ágústsdóttir. Sýna allar færslur

04 október, 2022

Helga Ágústsdóttir, hirðkveðill - minning

Það vantaði prófíl mynd á facebook
og ég reddaði því
Þegar samferðafólkið um þessa lífsgöngu fer að tína tölunni smátt og smátt og oft óvænt, finnur maður fyrir veruleika endanleikans. Við verðum að sætta okkur við að hann sé fyrir hendi og kannski er það líka eins gott. Ekki veit ég um margt fólk sem væri tilbúið að lifa að eilífu, svo sem. 

Sumt samferðafólksins er manni samferða ungann úr ævinni, en annað kemur við, kannski í nokkur ár, og hverfur síðan einhvernveginn, jafnvel óvart. Maður veit samt að þetta fólk er þarna einhversstaðar, þó stundum komi það fyrir að maður veit ekki hvort það er lífs eða liðið. 

Helga kom eins og vindsveipur, eða jafnvel ferskur blær, inn í Skálholtskórinn og settist að í altinum. Við vissum lítið um þessa konu annað en að hún hafði ráðið sig til kennslustarfa í Reykholti. Með tíð og tíma varð með okkur ágætur vinskapur og ekki skemmdi það fyrir, að skopskyn hennar og sýn á uppeldis- og kennslumál var ekki ólík mínum.  


Ekki get ég sagt, að Helga hafi algerlega smollið inn í samfélag okkar sveitafólksins. Það var yfir henni einhver heimsmennska, jafnvel ákveðin, óútskýranleg tign, stundum með keim af ofurlitlu "dassi" af yfirlæti, en bara á yfirborðinu. Hún var sannur húmanisti og þar held ég að kjarninn hafi verið.
Ætli sé ekki best að ég sleppi því að greina hana eitthvað frekar, hún var flóknari en svo.

Helga barðist lengi við ótrúlega erfiðan sjálfsofnæmissjúkdóm, lúpus, sem ég geri ráð fyrir að hafi, á endanum, borið hana ofurliði. Hún naut sín best þegar skuggsýnt var, eða innandyra. Í kórferðum, í  sólarlandasólskini þurfti hún að hylja líkamann frá hvirfli til ilja vegna þessa sjúkdóms, sólarljósið var einn hennar versti óvinur. Hún tók þessari þungu byrði af aðdáunarverðu æðruleysi. 

Í kórferðum á erlendri grund, eins og þeim sem Skálholtskórinn fór nokkrum sinnum, þegar Hilmar Örn var sjórnandi kórsins og Hófí, þáverandi kona hans, fararstjóri, naut Helga sín vel, nema kannski þegar sólin skein í heiði. sem var nú reyndar oftar en ekki. 

Ég hef átt það til að skrifa blogg hér um árabil um aðskiljanlegustu efni. Þar birtist Helga oft með athugasemdir í bundnu máli og gaf sjálfri sér þar höfundarnafnið "Hirðkveðill". Mér fannst þetta alltaf einkar skemmtilegt, enda á ferðinni talandi kveðskaparsnillingur. Mér finnst betur hæfa að gefa bara hirðkveðlinum Helgu (sem ég kallaði yfirleitt fH) orðið, en að ég haldi áfram að lemja hér inn orð frá sjálfum mér. Ég veit ekkert hvort hún myndi kunna mér þakkir fyrir það, en ætli hún fari nokkuð að mótmæla? (húmor í anda fH)




Einu sinni sem oftar, var ég að fjalla um uppeldismál í bloggskrifum og þá kom þetta:

Ég á rétt á öllu nýju
öllu dóti sem ég vil
gleði með og glotti hlýju
er giska næs að vera til.
Ég fæ bíl og bráðum jeppa
best að lát' ei pakkið sleppa
við að halda mér til vegs
- þau vinna bara - sex til sex.

Með Skálholtskórnum á Ítalíu -
Þarna í Rómaborg með margréti Oddsdóttur
að borðfélaga

Hirðkveðill skyggnist um í hugarheimi ofalins ungmennis

Ljúfur piltur, lítil táta
liggja nú og auðsæld gráta,
allt er horfið engin jól
ekkert fæst nú bankaskjól,
fyrir vindum vondum, köldum
- veltast þau í skuldaöldum.
***

Einhvern veginn urðum við
öll að læra á þennan sið:
"gefðu ekki um getu fram"
ger þeim borga - já og skamm
ef þau heimta meir' og meir'
minnstu þess að fleir' og fleir'
hörðum nýtist heimi í
heldren fjármagns bríarí!

Með Skálholtskórnum í heimsókn hjá páfa.

Heiðarleiki og hlýja tær
helst hér mætti vera nær
vinafesti og verndarhönd
velgjörningar, tryggðabönd
ástúðleikans orðin hlý
eignist hérna sess á ný
gleði frjó án græsku og fals
gróa fái á braut hvers manns!

Hirðkveðill predikar um mannleg gildi :-)


Hér hafði dauðdagi Osama bin Laden verið til umræðu í bloggi: 

Svo þarf ég að vita hvar þær reglur er að finna að íslamstrúarfólki skuli varpað í sæ? Það hlýtur nú að vera býsna erfitt, víða hvað þeir búa.

EN:
Aflífaður, elskan var'ann,
ósköp veit ég lítt um það
felldur, deyddur, féll í þarann
fleygt var loks í sjávarbað.

Deyddur kannski og du'ltið meira
drepinn, banað, sálgað, eytt?
Veginn líka - upp að eyra?
Enginn segja vill mér neitt.

Hirðkveðill finnur enga lausn á hvaða orð eiga við um dauða O.B.L.

Hér reyndi ég að sjá fyrir mér að Laugarásjörðin yrði mögulega seld Kínverjum: 


Hótel sé við himin bera
hugsa: "hvar skal það nú vera?"
Létt var rætt um Laugarás,
líst að þar sé haft á bás.
*****************************

Kvistholtshlaðið kínverskt nú,
hvar er sá er reisti bú
sér og börnum sínum þar?
Sjá!-hann fékk nýtt líf, - en hvar?

Gætir húss með geðþekkt fas,
gerir hreint og slær þar gras,
fetar um og fægir húna
finnst þó lífið tómlegt núna.

"Hvar er allt sem áður var?
Ei mér gagnast peningar,
fyrst mitt Kvistholt kært en lúið
komið er und mold - og búið" :(


Hirðkveðill hugleiðir mögulega líðan fólks eftir landsölu.

Heimsókn músar í Kvistholt var eitt  sinn umræðuefni:


Ekki gáð'ann elskan þessi
að þeim, litlu músunum.
Allt eins þó að ein sig hvessi
er allt vill dautt hjá húsunum.
Engan frið og enga sátt
er að fá úr þeirri átt.

Hirðkveðill Kvistholts kveður um Kvistholtsmorðin- væntanlegu.

Einn pistillinn fjallaði um haustið

Annað prósaljóð að hausti.

Og haustið flaug á móti mér
eins og velhaldinn fugl eftir sumar
sem er þegar horfið á braut.

Hann var svolítið kuldalegur
og ætlar að fara.

Veit ekki hver hún er, í kórbúðum
á Nesjavöllum
Haustið kemur, hreta fer
heyrið trén nú skjálfa
Úlpu vef ég upp að mér
er með húfubjálfa.


Gjört af ljúfu hjarta og hógværu
hirðkveðill Kvistholts ;)

--------------------------------------------

Ætli ég láti þetta ekki duga sem dæmi um viðbrögð fH (Helgu) við  skrifum mínum, en fyrir hennar framlag þar, sem vel getur verið að ég taki saman í ljóðabók þegar tímar líða, er ég afar þakklátur og finnst upphefð að. 

Við Kvisthyltingar erum þakklát fyrir að Helga  skuli hafa, með ýmsum hætti, snert líf okkar undanfarna tvo áratugi eða svo. 

Helga lést á fæðingardegi föður míns, þann 29. september, síðastliðinn.

Myndirnar sem ég læt fylgja, voru teknar við ýmis tækifæri þar sem Skálholtskórinn undi sér við leik og störf.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...