Sýnir færslur með efnisorðinu The King's Singers. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu The King's Singers. Sýna allar færslur

19 september, 2015

"Þú, þarna við súluna"

Aðdragandann að fyrirsögninni má rekja til ákvörðunar sem var tekin snemmsumars, þegar fréttir bárust af því, að víðfrægur sönghópur hyggðist halda tónleika í Skálholtskirkju þann 17. september. Hér var um að The King's Singers.  Það var ákveðið að kaupa miða á þessa tónleika.
Af málinu segir ekki frekar fyrr en á tónleikadegi þegar haldið var tímanlega til kirkju. EOS-inn var í farteskinu, ef heimilt skyldi reynast að taka myndir af hinum heimsþekktu listamönnum á hinum sögufræga stað.
Fyrir tónleikana spurði ég þann sem var í forsvari fyrir viðburðinum, hvort leyft væri að taka myndir og fékk við því afdráttarlausa neitun.  Við upphaf tónleikanna ítrekaði forsvarsmaðurinn í ávarpi til tónleikagesta, að myndatökur væru ekki leyfðar. Allt í góðu lagi með það. Þar sem ég er, í flestu afar, löghlýðinn maður, geymdi ég EOS-inn í töskunni þar til í hléi. Listamennirnir hurfu af vettvangi og þá fannst mér ekki úr vegi að taka myndir af söngpúltum þeirra félaga, sem ég og gerði. Þá bar að áðurnefndan forsvarsmann, sem hafði það á orði, að það myndi vera í lagi ef ég tæki einhverjar myndir af hópnum þegar þeir væru ekki að syngja, líklega fékk ég þarna ákveðna undanþágu vegna þess að hver maður gat séð að ekki hefði ég í huga að draga upp neinn farsíma til myndatökunnar, heldur sjálfan EOS-inn, sem er hið verklegasta tæki.

Hléinu lauk. Fólk fór að koma sér fyrir og ég stillti mér við súlu um miðja kirkju og stillti EOS-inn þannig að tryggt væri lysingin yrði viðunandi. Ég komst að því að ég myndi þurfa 12800 ISO til að myndirnar yrðu nægilega vel lýstar. Með því móti yrðu þær vissulega grófar, en einhverju varð að fórna.
"Þú þarna við súluna" Ég snéri mér við að um tveim metrum fyrir aftan mig sat mikilúðleg og ábúðarfull kona í sæti sínu. Ég gekk til hennar og viðurkenndi þar með að ég væri sá sem stóð við súluna.
"Já"
"Veistu ekki að það er bannað að taka myndir? Heyrðirðu ekki þegar það var tilkynnt áðan?"
Þarna var komin ein af þessum manneskjum sem telja það vera hlutverk sitt að sjá til þess að lögum og reglum sé framfylgt. Kallast það ekki "vigilante" á erlendum tungum?
"Jú, ég hef hinsvegar leyfi til að taka nokkrar myndir".
Þar með breyttist málflutningurinn snarlega og hún gerðist talsmaður annarra tónleikagesta sem þarna höfðu orðið fyrir grófu óréttlæti.
"Það er annað en var sagt við okkur". 
"Það getur vel verið"
Þar með snéri ég mér við, skildi vandlætingarfullt andlit talsmanns laga, regluverks og réttlætis, eftir, enda síðari hluti tónleikanna að hefjast.

Listamennirnir gengu inn kirkjugólfið og tónleikagestir fögnuðu og fögnuðu eins og full ástæða var til.
Ég smellti af tveim myndum þar sem hópurinn hneigði sig áður að söngurinn hófst á ný.

The King's Singers í Skálholti 17. sept. 2015

The King's Singers í Skálholti 17. sept. 2015
....
Mér hefur orðið hugsað til þess að ef til vill ætti ég að verða mér úti um vesti sem myndi auðvelda mér lífið við aðstæður sem þessar. Dæmi um svona vesti má sjá á myndinni hér til vinstri. Með því móti myndi ég aðgreina mig frá "múgnum með myndsímana" og losna við leiðindi eins og þarna var um að ræða, að mínu mati. Ég er viss um að konan var að tjá það sem margir sem sáu til mín hugsuðu.
...........
Tónleikar The King's Singers voru afskaplega skemmtilegir, en öðrum lætur betur að lýsa hinum tónlistarlega þætti en mér.

Forsvarsmaðurinn, sem ég nefni hér að ofan er Margrét Bóasdóttir og mér skilst, án þess að hafa fyrir því fulla vissu, að hún hafi átt stóran þátt í að þessir tónleikar voru haldnir í Skálholti. Fyrir það á hún bestu þakkir.

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...