Sýnir færslur með efnisorðinu neytendamál. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu neytendamál. Sýna allar færslur

10 ágúst, 2016

"Þessvegna flýgur þú betur með Icelandair", er manni sagt

Ég velti því fyrir mér, eins og sjálfsagt margir sem ekki fá þá þjónustu sem þeir greiða fyrir, hvort réttast væri bara að þegja og halda áfram með lífið, eða láta vita af óánægju minni með þjónustuna.
Ég ákvað að létta á mér, með réttu eða röngu, eftir flug með Icelandair frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur þann 21. júlí. s.l.  Þann 25. júlí sendi ég félaginu bréfið sem birtist hér fyrir neðan. Síðan er liðinn hálfur mánuður og ég hef engin viðbrögð fengið, enda átti ég svo sem ekki von á þeim.  Að mínu mati hefur félagið haft ágætan tíma til að senda mér línu og þar sem hún hefur ekki borist, set ég sendinguna frá mér hér inn.

Póstur til Icelandair, 25. júlí 2016


Komiði sæl Icelandairfólk

Ég sendi þennan póst á þrjú netföng, sem mér fannst líklegust. Ef ekkert þeirra er rétt, óska eg eftir því að þessum pósti verði komið á þann eða þá aðila sem sjá um mál af þessu tagi.
Inngangur

Tilefni þess að ég ákvað að senda ykkur línu er ferð okkar hjónanna frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur dagana 21.-22. ágúst s.l. Flugnúmer FI217. Ég reikna nú með að þið fáið slatta af sendingum að þessu tagi og þar með að þið munið sennilega henda þessu í ruslið og halda síðan áfram eins og ekkert hefði í skorist. Samt sendi ég þetta nú, ef ekki til annars, þá til að losa mig við það sem mér finnst ég þurfa að segja um þetta flug.

Sonur okkar býr með fjölskyldu sinni í Álaborg og þangað fórum við í heimsókn. Við vildum ekki bóka flug fram og til baka, þar sem óvíst var um hvenær af heimferðinni myndi verða. Við keyptum miða fyrir okkur bæði alla leið frá Keflavík til Álaborgar, með tveim flugfélögum, með 3ja daga fyrirvara á samtals kr. 67.941 (+ 4000 fyrir eina tösku) og vorum alveg sátt við að greiða þá upphæð, en ekki meira um það.

Miðakaupin
Svo kom að því að bóka flugið heim. Það var ekkert mál frá Álaborg til Kaupmannahafnar, á verði sem var bara mjög eðlilegt.

Þann 17. júli lá fyrir að við stefndum á að fara heim 21. eða 22. júlí og þá var vaðið í að panta.

Við leit að hentugu flugi frá CPH til REK fundum við eitt sem hentaði ágætlega að því er tímasetningu varðaði: Icelandair kl. 22:30 á kvöldi, sem þýddi að við gætum verið komin heim til okkar í Laugarás kl, ca 02:00 í síðasta lagi. Það réði einnig talsverðu við ákvörðun okkar, að af einhverjum ástæðum hefur það síast inn í huga okkar gegnum tíðina, að þó Icelandair sé ekki ódýrasti möguleikinn í flugi, þá sé um að ræða flugfélag sem veitir góða, örugga þjónustu.
Við bókuðum flug með Icelandair frá CPH til REK í gegnum tripsta.dk og greiddum fyrir það kr. 126.433 eða um 63.000 á mann á Economy-class. Sannarlega fannst okkur þetta yfirgengilega há upphæð fyrir flug til Keflavíkur, en létum okkur þó hafa það, kannski ekki síst vegna þess að það hafði verið okkar ákvörðun að kaupa ekki miða báðar leiðir í upphafi.
Síðan rökstuddum við þetta fyrir sjálfum okkur með þeim hætti að Icelandair væri traust og gott, íslenskt flugfélag með nýjan flugflota – sem sagt ekkert lággjaldaflugfélag sem enga þjónustu veitti um borð nema gegn aukagjaldi. Þarna myndum við fá þægileg sæti, gætum horft á kvikmynd, þyrftum ekki að greiða aukalega fyrir farangur og þar fram eftir götunum.

Í flugstöðinni
Ég orðlengi aðdragandann ekki frekar. Við vorum mætt á Kastrup kl. 20:30, fimmtudagskvöldið 21. júli. Á skiltum gátum við séð að flugið okkar væri á áætlun. Fórum í gegnum það sem fara þarf í gegnum og þar sem við komum í gegnum öryggisskoðunina blasti við okkur að ný áætlun fyrir flugið okkar sem átti að vera kl. 22:30 var 23:50, eða seinkun frá upphaflegri áætlun, um klukkutíma og tuttugu mínútur. Ætli það hafi ekki verið sérstaklega í ljósi þess verðs sem við höfðum greitt (kr. 63.000 á mann), en við þessar upplýsingar gerði all nokkur pirringur vart við sig. Við gátum þó huggað okkur við það að framundan var ferð í þægilegum sætum með skjá fyrir framan okkur þar sem við gætum smellt á einhverja þeirra ótal kvikmynda sem í boði væru í tæknilega fullkomnu afþreyingarkerfi vélarinnar.

Um kl. 10 var verslunum í flugstöðinni lokað, einni af annarri og einnig veitingastöðum.

Einhverntíma um það leyti komu nýjar upplýsingar á skjái sem greindu frá því, að nýr brottfarartíma væri áætlaður kl. 00:10, eða 1 klst og 40 mín seinna en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir. Þetta varð ekki til að auka jákvæðni okkar hjónakornanna í gerð flugfélagsins.

Svo fór, að upp úr 23:30 gengum við að tilgreindu hliði og þá kom í ljós, að síðasta áætlun um brottför myndi standast, sem hún síðan gerði, nokkurnveginn.

Í flugvélinni
Í flugvélinni, TF-FIW, Boeing 757 27B, sem er 26 ára gömul og ber nafnið Búrfell, tóku við ný vonbrigði og pirringsefni sem ég leyfi mér að lista hér fyrir neðan:


1. Í sætisbökum var ekkert afþreyingarkerfi. Þar fór vonin um að geta dundað sér við eitthvað slíkt í þessu næturflugi. Vissulega má geta þess, að eftir að græjan var komin á loft og slökkt hafði verið á sætisbeltaljósum keyrðu flugþjónar um með vagn og hófu að dreifa iPad spjaldtölvum á einhverja farþega, virtist eins og þar væru börnin í fyrirrúmi, en okkur var ekki boðið að fá græju að láni.

2. Sætin voru grjóthörð og bara verulega óþægileg, þannig að maður gat enganveginn verið og ég náði ekki einusinni að festa blund, sem oftast gerist.

3. Við vorum með sæti í röð 9, næstfremstu sætaröðinni fyrir aftan innganginn í vélina. Maður í sætaröðinni fyrir framan mig teygði sig upp í spjald fyrir ofan sig, sjálfsagt bara af forvitni. Þetta spjald reyndist vera skröltandi laust. Ég vissi ekki á þeim tímapunkti að um væri að ræða 26 ára gamla flugvél og neita því ekki, að þarna fann ég fyrir umtalsverðum ónotum.

4. Flugstjórinn baðst velvirðingar á töfinni sem átti að hafa verið tilkomin vegna þess að þessi vél kom seint inn til Keflavíkur einhversstaðar frá. Auðvitað vissi flugfélagið um þá seinkun með nægum fyrirvara til að geta sent skilaboð tímanlega til farþega (að minnsta kosti þeirra sem höfðu greitt kr. 63.000 fyrir farið), svo þeir gætu þá bara dvalið lengur í Kaupmannahöfn. Engin slík skilaboð bárust og vorum við þó bæði með síma á okkur.

5. (afleiðing upphaflegs pirrings) Ég gætti þess auðvitað að láta ekki í ljós óánægju mín við starfsfólkið í vélinni, enda engan veginn við það að sakast. Hinsvegar var, við upphaf þessarar flugferðar, búið að opna aðgang að skúmaskotum í höfðinu á mér, sem varð til þess, að ég fann flestu eitthvað til foráttu. Þar má til dæmis nefna, að flugþjónninn sem tók brosandi við farþegunum þar sem þeir gengu um borð, var hreint ekki brosandi, nema bara með vel þjálfuðum andlitsvöðvum. Þar sem hún sagði „Góða kvöldið“ við hvern og einn, rak hún út úr sér tunguna á báðum „ð“-unum í góÐa og kvöldiÐ. Ég er eiginlega alveg hissa á sjálfum mér að hafa látið þetta fara í taugarnar á mér, en svona var það samt og lái mér hver sem vill. Annar flugþjónn, sem ekkibrosti stöðugt, var beðinn um kodda. Leitaði ekkibrosandi í hverri hillunni á fætur annarri, án árangurs. 
Viljið þið vera svo væn að gera ekki þá kröfu til starfsfólks og ganga stöðugt um með þetta hálfvitalega bros á vörum. Bros þarf að ná til augnanna, annars er það ekkert bros.

6. (afleiðing upphaflegs pirrings) Farþegum var tilkynnt, að ljósin í vélinni yrðu slökkt, en jafnframt bent á að fyrir ofan sætin væru lesljós. Allt í lagi með það. Ég ýtti á viðkomandi hnapp fyrir ofan mitt sæti. Ég þurfti reyndar að teygja mig beint upp í lofti tið að kveikja. Ljósið kviknaði ekki í fyrstu og reyndar ekki hjá neinum. Aðspurð greindi ekkibrosandi flugþjónninn frá það að þau myndu sennilega kvikna þegar hreyflarnir færu í gang. Viti menn, það gerðist. Ljósið sem átti að lýsa mér var beint fyrir ofan höfuðið á mér og lýsti beint ofan á höfuðið á mér, nánar tiltekið þann hluta þess þar sem hár eru mjög strjál og varla til staðar. Ljósið lýsti sem sagt ekki á bókina sem ég ætlaði að fara að lesa og þar sem ég hafði ekki áhuga á að farþegar fyrir aftan mig fengju að njóta upplýsts höfuðs míns, slökkti ég ljósið aftur og lét mér í staðinn nægja daufa skímu frá ljósi frúarinnar.

Þessi 26 ára gamla vél fór í loft og flutti okkur til Keflavíkurflugvallar með þeim þægindum eða óþægindum sem í boði voru. Þægindin fólust aðallega í kaffibollanum sem ég fékk án þess að greiða fyrir. Gat líka fengið gosdrykk eða vatn ókeypis (jeij).

7. (afleiðing upphaflegs pirrings) Þar sem vélin var lent í Keflavík var það fyrsta sem flugþjónn sagði í hátalarakerfið: Góðir farþegar, VELKOMIN HEIM! , og hrópaði nánast síðasta hlutann (feitletraða). Er þarna um að ræða einhverja stefnu sem var tekin eftir að Lars Lagerbäck tjáði sig um hve yndislegt væri að heyra „velkomin heim“ í hvert sinn sem lent væri í Keflavík? Ég er sammála því, að það er yndislegt, svo lengi sem það er ekki hrópað. Ég beið eiginlega eftir að farþegarnir tækju sig til, lyftu upp handleggjunum og hrópuðu „HÚH“. Þeir gerðu það ekki.

8. (afleiðing upphaflegs pirrings) Flugvélinni var lagt talsvert langt frá flugstöðinni í Keflavík og farþegar síðan ferjaðir með rútum í flugstöðina, sem er svo sem allt í lagi. Það sem var ekki allt í lagi var, að rúturnar settu farþegana út eins langt frá komusal flugstöðvarinnar og mögulegt er. Ég geri mér grein fyrir að þarna er varla við félagið að sakast, en engu að síður, ofan á annað smátt og stórt varð ekki til að fegra myndina að þessu ferðalagi.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því, að það eru miklar annir í flugi á þessum árstíma og skiljanlegt að það geti orðið tafir á flugi. Ég geri mér líka grein fyrir því, að þið þurfið að nýta allar vélar sem þið eigið til að flytja alla þá farþega sem bóka með ykkur flug um allan heim, ekki síst til Íslands. 
 Það sem ég er ósáttur við, fyrst og fremst er, að hafa greitt kr. 63.000 fyrir flugferð sem var eins og ég hef lýst hér að ofan. Að mínu mati er það algerlega út úr korti, en byggir sjálfsagt á því að einhverjir þurfi að greiða hluta miðaverðsins fyrir þá farþega sem fengu miða á lága verðinu, sem hægt er að auglýsa daginn út og inn.

Ég sló inn af rælni einhverja daga í september og þar kom í ljós eftifarandi verðlagning á flugsætum:

Miðinn er 47.000 kr. ódýrari en það sem ég þurfti að greiða. Það er að mínu mati algerlega ótækt. Mér er sama hvað ykkur finnst um það. Í mínum huga væri það eins og ég þyrfti að borga þrefalt verð í búð fyrir mjólk sem er að verða búin.

Eitt jákvætt vil ég nefna. Við lentum á CPH kl. 09:30 að morgni 21. júli og áttum síðan flug kl. 22:30, eins og áður er nefnt. Við vorum búin að hafa áhyggjur af hvernig við gætum geymt farangur á flugvellinum. Svo komumst við að því, að það var hægt að tékka hann strax inn og þar með var það mál leyst.
___________________________________________________________

Þessi sending hefur tvennan tilgang:

1. Að fá útrás fyrir pirringinn vegna þessarar flugferðar og síðan geta haldið áfram fullur jákvæðni og bjartsýni.

2. Leggja fram kvörtun, sem líklegast lendir bara í ruslakörfunni, en hefur samt verið lögð fram.

Ég veit ekkert hvað ég geri við þessi skrif ef þið svarið mér ekki með einhverjum hætti: útskýrið fyrir mér hversvegna ég þurfti að greiða kr. 63.000 (126.000 alls) fyrir þessa flugferð. Ef ég hefði greitt um kr. 20.000 á mann hefði ég þagað yfir þeim vonbrigðum sem þessi ferð var okkur. Ég vænti svars/viðbragða sem allra fyrst.

Með góðri kveðju

01 febrúar, 2015

Frostgúrka


Eftir reynsluna af gúrkukaupum í stórmarkaði eða lágvöruverðsverslun sem ég greindi frá hér og hér, hef ég það fyrir sið, áður en ég skelli gúrku í körfuna, að þukla hana, með sviðpuðum hætti að sauðfjárbændur þukla hrúta.  Séu báðir endar stinnir, litaraftir fremur dökkgrænt en gulleitt og áferðin frekar hrjúf en slétt, hef ég talið að mér væri óhætt.
Svo er hinsvegar ekki.
Gúrkan á myndinni var keypt í lágvöruverðsverslun í höfuðstað Suðurlands fyrir 2 dögum og uppfyllti ofangreindar kröfur mínar.
Hún kom til neyslu í dag eftir að hafa verið geymd við löglegar aðstæður frá kaupum. Innvortis lítur hún svona út og helst má ætla að þarna sé um að ræða frostskemmdir.

Það var mikið framfaraspor þegar íslenskir garðyrkjubændur fóru að nýta orku landsins til að framleiða grænmeti allt árið. Það er hlýtt í gróðurhúsunum hvernig sem viðrar utan dyra, en þar getur orðið ansi kalt eins og hver maður getur sagt sér.
Hvernig er það tryggt að grænmetið frjósi ekki á leiðinn til Reykjavíkur og þaðan aftur í lágvöruverðsverslanir í höfuðstað Suðurlands?

Því miður stefnir í að ég verði enn meira hikandi við grænmetiskaup hér eftir. Því fleiri sem búa við svona reynslu, því minna verður selt af þeirri dásemdar vöru sem íslenskt grænmeti er.

Eitt að lokum:
Hvenær hyggjast garðyrkjubændur hætta að pakka gúrkum í loftþétt plast?

27 júní, 2012

Að brjálast yfir papriku - allavega hvíld frá hinu

Það sem hér fylgir, er í tilefni af þessari færslu á FB, sem hefur nú verið fjarlægð þar sem þar á að hafa verið á ferðinni "ósanngjörn umræða, byggð á vanþekkingu þar sem mikið getur verið í húfi"  Ég birti þennan texta með þeim fyrirvara :
Papriku uppskera er að nálgast hámarki en ekki eru allir sem kunna að meta það !!! Fékk skilaboð frá SFG (sölufélagi garðyrkjubænda) um að senda næst papriku í lausu ! ekki innpakkað eða merkta. ég hringdi og athugaði afhverju, og fékk þau svör að Bananar ehf... og aðrir kaupmenn hafa flutt svo mikið inn af erlendri papriku (einhver þúsund tonn) að íslenska paprikan kemst ekki að og liggur undir skemmdum á lager hjá SFG. Ég gæti brjálast... hverjum dettur í hug að flytja inn erlent grænmeti á þessum tíma... háuppskerutíma íslenskra garðyrkjubænda ?! Hún er að vísu aðeins dýrari ... en hún er líka þúsund sinnum BETRI og hananú
Fyrst ætla ég að segja eitt, sem neytandi: Ég hef oft staðið frammi fyrir vali milli íslenskrar og erlendrar papriku og valið þá erlendu, einfaldlega vegna þess, að þeirri íslensku hefur verið pakkað, tveim saman, litaðri og grænni, í bakka. Ef mig vantar rauða papriku, jafnvel tvær, verð ég að kaupa græna með. Ég borða ekki græna papriku! Ég átta mig ekki á ástæðunni fyrir svona pökkun – er það kannski vegna þess að græna paprikan selst síður og það þarf að koma henni út? Það kann ekki góðri lukku að stýra. Í mínum huga er græn paprika óþroskuð. Ég veit það hinsvegar, að það þarf að létta á plöntunum með því að tína græna papriku líka. Allt um það: afskaplega oft hef ég keypt erlenda papriku til að losna við að kaupa græna.

Til að halda því til haga, þá ræktaði ég papriku í ein 15 ár, frá lokum níunda áratugarins fram undir aldamót og tel mig því þekkja nokkuð til þess sem við er að eiga. Það sem nefnt er í FB textanum (sem er búið að eyða) er meðal helstu ástæðna þess að ég hætti í þessum bransa. Ýmislegt hefur sjálfsagt breyst síðan ég hætti..
Það var rætt á þeim tíma að pakka heima til að auka geymsluþolið, ekki síst vegna þess, að á þessum árstíma var alltaf framleitt meira en keypt var, og þar fyrir utan var mikil umræða um okurverð á þessari grænmetistegund. Þegar framleiðslan var of mikil þá hafði heildsalinn þann háttinn á, að senda elstu paprikuna í búðirnar, og þá grautlina og hreint ekki líklega til að efla neyslu. Því var það að ný paprika var sjaldséð í búðum þrátt fyrir að markaðurinn væri yfirfullur.

Það gerðist einhverntíma á þeim tíma sem ég var í þessu, að innflutningur var leyfður á papriku og þá kom einmitt upp það sem nú er raunin að mér virðist: innflytjendur, sem  voru (eru) einnig heildsalar fyrir íslenskt grænmeti, fluttu inn ódýrari papriku. Þar var flutt inn tiltekið magn sem þurfti síðan að selja, því innflutningsaðilinn sat uppi með skaðann af því sem ekki seldist og þurfti að henda.  Þessu var öðruvísi háttað með íslenska grænmetið:  bændur sendu inn sína framleiðslu til heildsalans og fengu síðan greitt fyrir það sem seldist, hitt fór í afföll og bóndinn sat upp með það tjón. Það þarf nú ekki mikinn speking til að ímynda sér, hver forgangurinn hjá heildsalanum var.  Fyrsta markmið innflytjandans er að hagnast á starfsemi sinni, þar er enginn ungmennafélagshugsjón á ferðinni - Íslandi allt, og allt það.

Neytandanum, mér, er alveg sama  um það hvert ástand er á markaði, ég lít á grænmetið eins og hverja aðra framleiðsluvöru, t.d. súkkulaði. Ég er ekkert að velta fyrir mér því hvernig háttað er framleiðslu og markaðssetningu. Ég vil bara fá góða vöru á lágu verði. Ef ég er sérvitringur með snert af þjóðrembu, þá kaupi ég íslenskt grænmeti þó það sé dýrara, jafnvel þó það sé ekki betra.  Sóknarfæri íslenskrar garðyrkju, skyldi maður ætla, felst kannski frekar í að tryggja gæði alla leið, frekar en fara að reyna að keppa í verði við rækilega styrktan landbúnað Evrópusambandsríkja (jú, hann er styrktur vel og kyrfilega).

Það verð ég að segja, að það að blanda aðildarumsókn Íslands inn í þessa umræðu um paprikuna, finnst mér að þurfi kannski að endurskoða.
Árið 1993 gerðist Ísland aðili að EES samningnum, en hann:
..veitir EFTA-ríkjunum Íslandi, Liechtenstein og Noregi aðgang að innri markaði Evrópusambandsins án þess að þau þurfi að gerast fullir meðlimir í sambandinu. Fjórfrelsið svokallaða gildir á öllu svæðinu en það felur í sér frjáls vöru- og þjónustuviðskipti, frjálsa fjármagnsflutninga og sameiginlegan vinnumarkað. Að auki kveður EES-samningurinn á um samvinnu EES-ríkjanna á sviði félagsmála, jafnréttismála, neytendamála, umhverfismála, menntamála, vísinda- og tæknimála o.fl.
Með þessum samningi þurfti þjóðin að fórna ýmsu, en óneitanlega hefur hún einnig haft af honum mikinn hag. Með þessum samningi erum við komin ansi langt með að  geta orðið fullgildir aðilar að Evrópusambandinu. Getur einhver fullyrt það og fært fyrir því gild rök, að hagur paprikubænda yrði verri með inngöngu landsins í ESB? Ekki ætla ég að þykjast (öfugt við ýmsa aðra) vita allt um það hvað aðlild hefði í för með sér, en ég er ekki tilbúinn að gleypa gengdarlausan áróðurinn gegn aðild, bara si svona.
Nú er alið á þjóðrembunni sem aldrei fyrr, á sama og við eigum að vera búin að læra þá lexíu, að við erum sjálfum okkur verst í flestum málum.

Kaupum íslenskt vegna þess að það er betra, 
ekki bara vegna þess að það er íslenskt.


04 febrúar, 2012

Ég, baráttumaðurinn fyrir betri gúrkum

Í síðasta pistli fjallaði ég um óneysluhæfa gúrku og skellti myndum af gripnum með.


Ég sendi hlekkinn á þrjá aðila: Samband garðyrkjubænda, Sölufélag garðyrkjumanna og Krónuna.
Viðbrögð hef ég fengið frá tveim þeim síðarnefndu. Þau eiga það sameiginlegt, að halda því fram, að þarna sé líklega á ferðinni undantekning og mér bent á að fara með gúrkuna í búðina og fá aðra, góða í staðinn.
Svari sínu lýkur Kristinn Skúlason hjá Krónunni svona:
En í lokin þá átta ég mig ekki á því hver tilgangurinn var hjá þér að blogga þetta mál.
Mér finnst hann vera að gefa í skyn, að þegar svona einstakt tilvik á sér stað þá komi maður með vöruna í búðina og fái nýja.  Ég svaraði Kristni með þessum hætti:

Við einu vil ég bregðast, en það er að þú áttir þig ekki á tilganginum með þessum bloggskrifum.
Það má kannski segja að það komi ekki nægilega fram, en þetta er hreint ekki í fyrsta og örugglega ekki síðasta skipti sem ég og aðrir kaupum köttinn í sekknum varðandi grænmeti, sérstaklega í lágvöruverðsverslunum. Þessi umrædda gúrka var eiginlega kornið sem fyllti mælinn í þessum efnum hjá mér og ég tel mig ekki hafa haft á lofti stóryrði í garð ykkar eða annarra, enda ekki markimið mitt ata ykkur auri, heldur leggja lítið korn á vogarskálina í því skyni að ég geti farið að kaupa hið "ferska og brakandi" grænmeti sem auglýst er talsvert.

Maður fær það á tilfinninguna, með réttu eða röngu, að hugsunin með því að setja svo gamalt grænmeti fram í búðir sé sú að þetta sé nógu gott í kjaftinn á fólkinu fyrir það verð sem það greiða. Ég vona samt sannarlega að svo sé ekki.

Ég er þeirrar skoðunar, að það sé kominn tími til að upplýsingar um aldur grænmetis komi fram í verslunum, hvernig sem menn fara að því - þetta er hægt með aðrar landbúnaðarafurðir - því ekki gúrkur tómata og papriku.

Ég fer í kaupstað einu sinni í viku - því er að ekki fyrr en viku seinna sem ég get komið með gúrkuræksnið til að fá nýja - þú getur rétt ímyndað þér hvernig hún er þá útlítandi.
Þar fyrir utan hef ég annað að hugsa en að muna eftir að taka með mér einhverju gúrku sem kostaði tvöhundruð kall - mér fyndist það smásálarlegt.
Í gær bröskraði mér hinsvegar og í sambandi við það bloggaði ég - sendi jafnframt slóðina á ykkur, Sölufélag Garðyrkjumanna, og Samband garðyrkjubænda. Þetta er sá hópur í samfélaginu sem á að sjá til þess að við sem neytum þessarar vöru eigum kost á því besta hverju sinni.
Kristín Linda Sveinsdóttir, sem er markaðsstjóri hjá SFG, brást við með því að þakka ábendinguna, svona gæti vissulega komið fyrir og ég ætti að hafa samband við verslunina og fá nýja gúrku. Ég svaraði pósti Kristínar svona:
Það er nú svo, að þetta snýst ekki bara um eina gúrku - hún kostar einn til þrjá hundraðkalla - þó vissulega sé pirrandi að sitja uppi með svona vöru tveim dögum eftir að hún er keypt.
Ég sendi hlekkinn einnig á Samband garðyrkjubænda og Krónuna - enda tilgangurinn ekki að rífa niður, heldur reyna að styðja við vinnu að betra íslensku grænmeti í verslunum. 
Ég mun hika við að kaupa mér gúrku næst - það er tap fyrir garðyrkjuna, ekki síst ef það eru margir aðrir með sömu reynslu.

Þú nefnir einmitt það sem er stóri gallinn í þessu öllu, en hann er sá, að maður veit ekki hvenær gúrkan var skorin af plöntunni og pakkað hjá garðyrkjubónda. Ef ekki er hægt að treysta byrgjum og verslunum til að vera vakandi fyrir aldri grænmetis í hillum, þá finnst mér að til þurfi að koma upphafsdagsetningin - hvenær var gúrkan skorin?

Ég er búinn að fá svar frá Krónunni og hann skilur ekki tilgang minn með blogginu - en ég er búinn að svara honum til um það.

Ég fer í kaupstað vikulega og það er borin von að ég sé þannig þenkjandi að ég fari að burðast með gúrkukmaukið niður á Selfoss til að fá nýja gúrku - sem ég veit ekki hvort er eitthvað skárri.
Ég ræktaði papriku í ein 15 ár og fannst alltaf jafn nöturlegt að sjá aldrei þessa fersku papriku sem ég sendi frá mér í búðunum, heldur linkulegt drasl
 Kristín svarað þessum lestri mínum svona:
Ég skil vel vonbrigði þín og þau eru ekki síður okkar hér hjá Sölufélaginu. En eins og ég nefndi við þig þá getur þetta gerst því miður. Þó að það eigi ekki að gerast.

Við reynum eftir okkar fremsta megni að vera í góðu samstarfi við verslanir um þessi mál. Og ég veit til þess að verslanir þær hafa sinn metnað líka að gera þetta vel.

Vona að í næstu búðarferðum þínum þá verði vörurnar í lagi.

Ef þetta upphlaup mitt eykur líkur á að ég og aðrir getum treyst því að grænmetið sem við kaupum sé "brakandi ferskt" og að við fáum ekki aðeins að vita hvaðan það kom heldur einnig hvenær það kom þaðan.

02 febrúar, 2012

Mér þykir það leitt, en þetta er ekki boðleg vara

Venjulega kaupum við fD gúrkur í Bjarnabúð, í Reykholti því við vitum að þær eru nýjar. Þangað áttum við ekki ferð og létum okkur því hafa það s.l. mánudag, sem var 30. janúar, að kaupa eina gúrku í Krónunni á Selfossi, en maður hefur alloft heyrt því fleygt að þar sé grænmetið talsvert skárra en í Bónus, án þess þó að ég ætli að taka afstöðu í því máli.
Ég þykist vita talsvert um gúrkur, enda uppalinn á garðyrkjubýli og stundaði sjálfur ræktun í ein 20-30 ár. Ég fór í gegnum gúrkukassana og valdi loks eina fagurgræna og stinna, gerði ráð fyrir að hún myndi verða í góðu standi í svona viku, ef á þyrfti að halda.

Í dag er þessi fagurgræna og stinna gúrka eins og sjá má á þessum myndum og ég myndi ekki vilja neinum svo illt að setja ofan í sig þessa gulleitu slepju sem vall út úr plastinu.

Ég veit af reynslu, að þetta er ekki ræktendunum um að kenna, heldur einhverju sem gerist frá því gúrkan fer frá þeim og þar til hún er sneidd ofan á brauðið eða í salatið. Ég hef reyndar verið þeirrar skoðunar alllengi, að þessi plasthulsa sem gúrkur eru oft klæddar í, dragi úr geymsluþolinu þó sannarlega haldist þær lengur stinnar. Ég gæti vel trúað að þessi gúrka hafi verið skorin af plöntunni í kringum áramót (jafnvel fyrr).

Svona nokkuð er ekki boðlegt! Það er ekki einu sinni þannig, að maður geti sannað að gúrkan hafi verið keypt á tilteknum stað á tilteknum tíma.  Í skjóli þess, að þessi vara er ekki merkt með síðasta söludegi, er hún látin liggja í geymslum eða verslunum lon og don, svo lengi sem ekki er hægt að sjá utan á henni það sem fyrir innan er.

Mér er hlýtt til garðyrkjunnar og veit að þar starfa menn af metnaði. Þessi endi keðjunnar hlýtur að hafa slæm áhrif á orðspor þessarar greinar.





06 september, 2011

Ætti ég að fá mér umboð fyrir hlauphellur?

Það hefur komið í ljós, að gúmmíhellurnar sem nú er nánast búið að þekja alla barnaleikvelli með, eru ekki jafn öruggar og af hefur verið látið. Ég get nefnt dæmi um að barn hafi dottið ofan úr rennibraut eins og sjá má má meðfylgjandi mynd, og fengið talsvert stóran rauðan blett á ennið.
Dæmi um hættulega rennibraut

Fyrir nú utan það, auðvitað, að svona rennibraut er stórhættuleg, það er hægt að finna þarna hengingarhættu, fallhættu, brothættu og hrunhættu án þess að leita lengi, þá er orðið nauðsynlegt að hyggja betur að undirlagi leikvalla.
Ég hef nú hafið leit að framleiðanda hlauphellna, sem þurfa að vera í það minnsta 15 cm þykkar. Ég tel að ég muni geta hagnast vel á innflutningi slíkra hellna í ljósi vaxandi meðvitundar foreldra um allar þær hættur sem liggja í leyni fyrir börnum þeirra, hvar sem þau stíga niður fæti eða eiga leið um.  Ennfremur tel ég að það geti orðið góður grundvöllur fyrir framleiðslu á 40cm háum rennibrautum með lyftu, enda eru tröppur upp í rennibrautir ávísun á fótbrot, handleggsbrot eða útbrot.

Það er okkar, foreldranna og fullorðna fólksins að tryggja að börnin okkar, börn samfélagsins, geti með engu móti átt það á hætti að skaðast þannig að gráti geti valdið. Það er ekki gott að meiða sig.
5 cm þykkar hlauphellur,
sem augljóslega duga ekki

(Ef einhver skyldi taka þetta ógurlega alvarlega þá þykir mér það leitt, en bendi á að þetta er sett fram í hálfkæringi og með fullri virðingu fyrir þeim sem hafa átt börn sem hafa slasast. Það breytir samt ekki þeirri skoðun minni, að börn eigi að / verði að læra að takast á við hættur í umhverfi sínu. Það verða alltaf hættur. Það verður að læra að þær eru fyrir hendi.)

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...