14 apríl, 2024

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

 

Framhald af þessu
Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan. Þarna voru þau í ókunnum bæ, seint um kvöld og ætluðu að leggja til atlögu við hugsanlega glæpamenn. Var þarna um að ræða fólk sem hafði verið þjálfað sérstaklega til að fara í töskur hjá fólki, á einhverri þjálfunarstöð stórglæpamanna, sem síðan hirtu stóran hlut afrakstursins? Voru þjófarnir bara lítil peð, sem þurftu að vinna fyrir sér, en nutu verndar vopnaðra mafíósa? Var þetta kerfi skipulagt með svipuðum hætti að það sem sólgleraugna- og töskusölufólkið vinnur eftir á sólaströndum? Voru hin tápmiklu tólf þarna að láta draga sig inn á stórhættulegar slóðir neðanjarðarstarfsemi, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum?

Það var margt sem fór í gegnum hugann þarna, og misjafnt eftir aldri. Sjálfsagt nutu þau elstu í hópnum þess að hafa þróað með sér talsverða yfirvegun þegar kom að svona málum. Um þau yngstu hríslaðist alveg ný tegund að spennu, sem nánast mátti jafna á við ofbeldisfyllstu tölvuleiki.  Þau nutu þess að vera þarna í hópi sér eldri sérfræðinga á ýmsum sviðum, þar með sérþjálfuðu rakningarfólki, sem gat auðveldlega fylgst með hve langt var í símann á hverjum tíma. 

Við ofangreindar aðstæður hófst leitin að síma og skilríkjum fD við nokkuð skuggalegar aðstæður. Fremstur í flokki fór rakningarmaðurinn, Egill, með síma á lofti, sem sýndi nákvæma staðsetningu merkisins frá símanum, sem enn var á sama stað og áður en hópurinn tókst á við flóttaherbergin. Í kjölfar hans komu síðan jafnaldrar hans og tveim skrefum á eftir þeim, þau yngstu í hópnum. Lestina ráku síðan þau elstu, ekki vegna þess að ótti þeirra við aðstæðurnar væri mestur, heldur einfaldlega til að tryggja að enginn í hópnum yrði viðskila við hin.  Svona lagði hópurinn af stað út í óvissuna um skuggaleg strætin.

Hin tápmiklu 12 unnu þarna út frá tveim mögulegum "sviðsmyndum": Annarsvegar, að þjófarnir hefðu einfaldlega hent símanum og skilríkunum frá sér, þegar í ljós kom að þeir hefðu engin not fyrir þau. Hinsvegar að þeir væru komnir til baka í greni sitt með ránsfeng kvöldins, dimmt subbulegt greni í bakhúsi, þar sem sátu nú með vopnuðum verndurunum og deildu með sér afrakstrinum. Sannarlega var það von hópsins, að hið fyrra væri raunin. Hið síðara myndi óhjákvæmilega kalla á að hringt yrði eftir aðstoð lögreglu. Nokkrir símar voru í viðbragðsstöðu ef til þess kæmi.

Það þarf líklega ekki að fjölyrða frekar um þær aðstæður sem þarna voru og því verður það ekki gert. Tápmikill hópurinn hélt af stað í áttina að merkinu sem síminn gaf. Það leið ekki á löngu áður en rakningarmaðurinn rétti upp vinstri handlegginn (hinn hélt á símanum) svona eins og maður sér í bíómyndum: "Stans/Halt! Þetta er inni í þessari götu!" og benti inn í drungalega göngugötu til vinstri. Rétt í því missti hann merkið frá síma fD og því var ekki um að ræða annað en halda inn götuna og leita.

Fljótlega kom hópurinn auga á ruslatunnu sem stóð í vinstri götukantinum og það varð úr að byrja leitina þar. Ruslatunnur í skuggalegum götum geta verið varasamar og því var farið að öllu með gát, tunnan opnuð og þar, ofan á plastpokum fullum af rusli, lágu kortin þrjú sem stolið hafði verið. Þetta olli því að nokkur fagnaðarbylgja fór um hópinn, sem þarna vann fyrsta sigurinn í þeirri umfangsmiklu leit sem stóð yfir.

Tunnan, eftir að Kvisthyltingar höfðu
leitað af sér allan grun í henni. (Mynd Ásta Hulda)Kortin lágu efst í ruslatunnunni. 
Kortin sem um var að ræða voru, debetkort, ökuskírteini og 
félagskort í Félagi eldri borgara á Selfossi.


Fundur kortanna var vissulega fagnaðarefni, en enn bólaði ekkert á merki frá síma fD og því dreifði hópurinn sér um alla götuna og leitaði í lággróðrinum og raunar á öllum þeim stöðum þar sem mögulegt var að síminn gæti verið. Á þessu gekk talsverða stund.  Þá gerðist það skyndilega, að merki frá símanum birtist aftur og þar með þrengdist hringurinn enn frekar. Rakningarmaðurinn  gat sent merki í hann, þannig að hann gæfi frá sér hljóð. Leitin varð enn æsilegri við þetta og loks heyrist hrópið:  "Hann er þarna undir!". Það var Álaborgarkonan, Ásta, sem þarna hafði beitt fullkominni heyrn til að staðsetja símann nákvæmlega, beygði sig snarlega niður og hvarf inn í runna, hægra megin við stíginn og kom svo þaðan út, sigri hrósandi með símann í hendinni.

Þarna hafði verið unnið mikið afrek. Hin tápmiklu 12 höfðu þarna leyst af hendi, með glæsibrag, ekki bara þrautina sem fólst í að bjarga sér út lokuðum herbergjum, heldur einnig að finna síma og kort í ókunnum bæ einhversstaðar langt suður í Atlantshafi.

Örin bendir á staðinn þar sem síminn fannst.(Mynd Ásta Hulda)

Hin stoltu tápmiklu 12 að afloknu vel unnu verki. (mynd Ásta Hulda og PMS)

Mikil og erfið leitin kallaði eðlilega á hungur ungviðisins í hópnum, og í alsælu sinn ákvað fD að bjóða hópnum á tiltekinn, sérvalinn skyndibitastað í nágrenninu (splæsa, sem sagt).  Myndirnar sem hér fylgja segja það sem segja þarf um það.   En fyrst þessi mynd:


Farið yfir ferlið.Takið eftir að þarna er bakpokinn geymdur þannig,
að hann er óaðgengilegur þjófum og ræningjum

Svo var farið á matsölustaðinnHér lýkur þessari frásögn af afreki hinna tápmiklu 12.  13 apríl, 2024

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (fyrri hluti)

Það voru 12 tápmiklir Kvisthyltingar, sem héldu fótgangandi, síðla kvölds á vit ævintýris á sólareyjunni Tenerife. Gönguferðin hófst við dvalarstaðinn, Parque Cristobal og ferðinni var heitið um 2,5 km. leið að svokölluðum flóttaherbergjum, þar sem ætlunin var að láta reyna á hæfileika hópsins til að bjarga sér úr lokuðum herbergjum.  Enginn efaðist svo sem um, að hæfileikarnir væru fyrir hendi og því var hópurinn talsvert vonglaður þar sem hann þrammaði á þennan áfangastað, aðeins mishratt, enda fólkið á ýmsum aldri. Þau yngstu og jafnframt áköfustu, leiddu hópinn, en þau sem voru orðin  talsvert eldri og þroskaðri, ráku lestina, sannarlega ekki vegna slakara líkamlegs ástands, heldur fyrst og fremst til að tryggja að hópurinn kæmist allur þangað sem ferðinni var heitið.  
Þar sem leiðin lá eftir göngugötu, breiðri og nokkuð vel upplýstri, háttaði svo til að annað þeirra sem lestina ráku, fD, varð tímabundið síðust, og segir ekki af því fyrr en hún birtist við hlið þeirra sem næst aftastir voru, í talsverðu uppnámi: "Þær tóku símann og kortin!". Hún laug sannarlega engu um það. Síminn hennar og þau kort sem geymd voru í hulstrinu utan um hann, voru horfin. Hún hafði komið þeim fyrir í litla bakpokanum sínum áður en gangan hófst og taldi verðmæti vel geymd við þær aðstæður, en pokanum hafði hún komið fyrir á bakinu, lokuðum með rennilás, rétt eins og gert er með bakpoka.
Við upprifjun á því hvernig þetta fífldjarfa rán hafði gengið fyrir sig, kvaðst hún hafa gengið þarna á sínum hraða, þegar hún fann að einhver rakst á hana og þegar hún snéri sér við til að kanna hvað þar væri um að ræða, sá hún tvær vel klæddar konur ganga rösklega í öfuga átt. Þessu næst hafði hún ákveðið að athuga bakpokann, sem reyndist opinn og sími og kort horfin.

Það var við þessar aðstæður sem hin tápmiklu 12 tóku til sinna ráða. Fyrsta skrefið fólst í því að hringt var í neyðarþjónustu bankans, til að láta loka kortinu, sem gekk nokkuð hnökralaust. Því næst réðst símasérfræðingur hópsins í það, að leita uppi símann, með aðferðum sem sá sem þetta ritar kann ekki að greina frá að svo stöddu, og viti menn síminn fannst og merkið um hann virtist benda til að hann væri ekki á hreyfingu. Símanum var umsvifalaust lokað, svo ekki yrði nú hægt að brjótast inn í hann. Eigandinn hafði mestar áhyggjur af því að tapa öllum myndunum sem síminn geymdi, en síðar kom í ljós, að hann er þannig stilltur, að allar myndir á honum vistast sjálfkrafa upp í skýið, svo ekki myndu þær vara glataðar.

Þegar hér var komið styttist í úthlutaðan tíma í flóttaherberginu, en hann hafði verið pantaður kl 21.30. Þar sem Kvisthyltingar eru ekki aðeins tápmiklir, heldur einnig yfirvegaðir í allri nálgun sinni að vandamálum, ákváðu þeir að standast þá tímasetningu. Urðu ásáttir um, að ef síminn fyndist ekki eftir að ævintýrinu í herberginu lyki, þá væri það bara svo, þar sem þetta var nú bara sími.

Nú, það var ekkert með það, hin tápmiklu tólf deildu sér að sitthvort flóttaherbergið. Sex tókust á við Sherlock Holmes herbergið en hin sex skelltu sér í Magic School herbergið. Það var misjafnt, hve mikið hugur fólksins var við að leysa þessar gátur og það veit ég að fD var að mestu með hugann við þá ömurlegu tilfinningu, að hafa verið rænd og lái henni hver sem vill. Ekki gerði sá sem þetta ritar, heldur mikið gagn, þar sem hópurinn leysti þrautir hvers herbergisins á fætur öðru og tókst á rúmum klukkutíma, að komast aftur út í frelsið, til þess að láta taka af sér myndir þær sem hér fylgja.Svo tók alvaran við. Hin tápmiklu tólf yfirgáfu ævintýraheiminn, þar sem þau höfðu hitað upp hæfileikann til að leita vísbendinga og draga ályktanir af þeim. Þau voru þarna tilbúin til að hefja leitina að þjófunum og ná úr krumlum þeirra símanum og kortunum þrem, ökuskírteini, greiðslukorti og félagskorti í Félagi eldri borgara á Selfossi. Greiðslukortinu hafð verið lokað, en hin tvö hvort öðru mikilvægari og því forgangsatriði að ná þeim til baka úr skúmaskoti, einhversstaðar þarna utan ævintýraheimsins.  

Þar sem hópurinn stóð fyrir utan húsnæðið sem geymdi flóttaherbergin, var skotið á örstuttum fundi, þar sem leitin sem lagðar voru línurnar fyrir leitina að glæpamönnunum og síðan héldu hin tápmiklu tólf á vit þessa nýja ævintýris um skuggalegar götur bæjarins með aðstoð rakningartækni.

Svo kemur framhaldið fljótlega ....  FRAMHALD
12 apríl, 2024

Raggi og Valur

Oft stendur maður frammi fyrir því að taka afstöðu til álitamála. Þau geta verið bæði smá og stór. 
Þessi smáu, þar sem ekki skiptir svo sem neinu máli hvor afstaðan er tekin, hvorki fyrir mann sjálfan né aðra. 
Þessi stóru, þar sem afstaðan sem tekin er, fylgir manni áfram, hefur áfram áhrif á sálina og kallar á að maður setji spurningamerki við hvort niðurstaðan hafi verið siðferðilega rétt. Þessi stóru álitamál, eiga sér oft margar hliðar, sem erfitt getur verið að greina á milli, eða taka afgerandi afstöðu til. Þau er jafnvel þannig, að maður er ófær um að taka afstöðu til eða frá og lætur því þar við sitja. Erfiðustu málin af þessum toga, sem rekur á fjörur manns í lífinu, snúast um fólk. 

Þeir voru báðir skólabræður mínir, Raggi og Valur. Raggi ári eldri en ég og lengst af í sama bekk í barnaskóla þar sem fleiri en einum árgangi var kennt saman. Valur var einum þrem árum eldri en ég og því átti ég minna saman við hann að sælda á þessum árum. 
Eftir að barnaskólanum lauk, skildi leiðir. Raggi fór sína leið, Valur sína og ég mína. Ekki minnist ég þess að hafa mótað með mér sérstakar skoðanir á þeim bræðrum þarna í barnaskólanum, þeir voru skólabræður mínir og bara ágætir sem slíkir. Þetta voru bara friðsemdarpiltar eftir því sem ég man, hægir og engir prakkarar eða óþekktargemlingar. 

Árin liðu og ég kom aftur í heimasveitina með fjölskylduna og um tíma bjuggum við í húsi við hliðina á Ragga og fjölskyldu hans. Við höfðum ósköp lítið að nágrönnunum að segja, en Raggi var þá mikið að heiman vegna vinnu hér og þar. Valur bjó þá á Gýgjarhóli með móður sinni meðan hún lifði og síðan einn. Samskiptin við hann fólust fyrst og fremst í því, að við vorum lengi saman í Skálholtskórnum, þar sem hann var var í bassanum og skilaði hlutverki sínu sem slíkur harla vel. Fyrir utan samveruna í kórnum vissi ég lítið um líf  Vals eða aðstæður aðrar. Um líf og aðstæður Ragga vissi ég svo sem ekki mikið heldur. Þetta voru samferðamenn þarna í sveitinni, eins og annað fólk sem fetar ásamt manni í gegnum lífið. 

Það var mikið áfall fyrir samfélagið í sveitinni þegar Valur varð Ragga, bróður sínum, að bana. Augljóslega var ekki um annað að ræða en að hann yrði að gjalda fyrir það með fangavist, en í fangelsi dvaldi hann síðan til dauðadags.  
Ég skil vel reiðina sem fylgdi í kjölfar þessa sorgaratburðar, sorg og reiði barnanna sem misstu föður sinn, sorg tveggja bræðra þeirra og sorg annars samferðafólks, sem þekkti þá bræður báða vel. Það er bara allt sorglegt og dapurlegt við þetta mál.

Þarna stóð ég frammi fyrir því að taka einhverskonar afstöðu, ekki út á við, heldur með sjálfum mér. Það var einfalt að taka afstöðu gegn þeim verknaði sem framinn var. Ég fór að heyra sögur um bakgrunn, sem sem ég hafði ekki vitað um, um hitt og þetta sem ég hafði ekki haft hugmynd um. Ég reyndi að leiða þetta hjá mér og þegar upp var staðið stóð eftir samúð með öllum  þeim sem þarna misstu föður, bróður, vini eða nágranna. Í mínum huga var þarna um að ræða hörmungaratburð, sem átti sér stað við aðstæður sem ég leiði hjá mér að reyna að skilja, en verður oft hugsað til.

Raggi lést þann 31. mars árið 2018 og Valur síðan sex árum síðar, þann 14. mars s.l.   


07 janúar, 2024

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997
(mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson)
Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri, með handboltaveislu og hækkandi sól. Smátt fólk hefur nú valdið því að skugga ber á. Það er í það minnsta mín skoðun, að þar sé smátt fólk á ferð; fólk sem vinnur mál neðanjarðar og nýtir sér pólitísk sambönd, mögulega harla óeðlileg. Smátt, frekt fólk. 


Fyrir nokkrum dögum var sett innlegg á samfélagsmiðla þar sem birt var skjáskot af vefnum visir.is, þar sem greint var frá því, að á vef FSRE (Framkvæmdasýslan - Ríkiseignir) myndi birtast auglýsing um húsnæði fyrir heilsugæslu í uppsveitum. Þetta skjáskot má sjá hér til hliðar.  

Það virðist hafa verið heilmikið neðanjarðarleikrit í gangi varðandi flutning á heilsugæslustöðinni úr Laugarási, að Flúðum í Hrunamannahreppi; frá miðju uppsveitanna út á kant. 

Ég neita því ekki, að ég finn fyrir nokkurri klígju vegna þessa máls, eins og það blasir við mér.  Það er ansans ári dapurlegt hve stór smæð fólks getur verið. Það sem mér finnst þó einna verst er, hve þumbaraleg sveitarstjórnin í Bláskógabyggð virðist vera í því hvernig hún hefur sýnst taka á þessu máli. Getur verið að í raun sé hún bara nokkuð sátt, þótt hún telji sig þurfa að halda öðru fram? 

Nú vona ég bara að það verði niðurstaða um, að heilsugæslan verði áfram í Laugarási, í 25 ára gamalli byggingu, sem var hönnuð til að vera heilsugæslustöð og sem er,  að bestu manna yfirsýn, í fínu lagi enn, þrátt fyrir að það hafi verið notað sem rök í þessu máli, að viðhaldsþörf á húsinu væri orðin gífurleg, án þess að fram hafi komið einhver rök því til stuðnings. 
Er ekki bara rétt að hætta þessari vitleysu? 

Myndir frá vígslu heilsugæslustöðvarinnar, á vefnum laugaras.is, sem komnar eru frá Jóni Eiríkssyni í Vorsabæ, en það var Jónas Yngvi Ásgrímsson, þáverandi framkvæmdastjóri heilsugæslunnar í Laugarási, sem tók þær. 

-------------------------------------------
Sannarlega átta ég mig á að ég á engra hagsmuna að gæta í málinu, nema tilfinningalegra, en það eru einnig hagsmunir.

05 desember, 2023

Ég fór svo aftur í fótbolta ....

Líklega lið annars bekkjar veturinn 1971-1972. 
Aftari röð f.v. Helgi Þorvaldsson, Eiríkur Jónsson, 
Kristján Aðalsteinsson, Páll M, Skúlason, 
Þorkell Ingimarsson.  Fremri röð f.v. Hannes
Ólafsson, Héðinn Pétursson, Smári Björgvinsson
og Magnús Jóhannsson. 
Myndin rataði til mín frá Eiríki Jónssyni.
Einu sinni var ég markmaður í knattspyrnu. Það höfðaði samt aldrei til mín að reyna að líkja eftir ensku knattspyrnuhetjunum, nema markvörðum og auðvitað var Gordon Banks þar ofarlega á blaði. 
Mér þótti mikið til þess koma, þegar andstæðingur líkti mér við þann ágæta mann, eftir að ég hafði varið skot, sem ekki hefði verið mögulegt að verja. Þetta atvik er mér enn í fersku minni. Þetta átti sér stað í leik Ungmennafélags Biskupstungna gegn Ungmennafélaginu Hvöt í Grímsnesi, á íþróttavellinum við Borg í Grímsnesi, líklegast um 1970.  
Ég stundaði knattspyrnu ekki mikið í ML, þar sem ég notaði 4 ár til að reyna að þroskast og læra eitthvað gagnlegt, enda réðu forfallnir knattspyrnumenn þar öllu knattspyrnutengdu. Þar fyrir utan hafði ég meiri áhuga á öðrum boltaíþróttum á þeim tíma. 

Hvað í veröldinni veldur því svo, að ég fer að rifja upp hálfrar aldar minningar um knattspyrnuiðkun mína?  
Þannig er mál með vexti, að ég stunda nú líkamsrækt af kappi, ásamt öðru fólki á svipuðu reki, í glæsilegri Selfosshöllinni og hef komist að því, að líkamlegt atgervi mitt hefur tekið stakkaskiptum. Sú trú mín er ef til vill helsta ástæða þess að það sem gerðist í dag, gerðist. Það er einnig tilefni þessara skrifa. 

Unga fólkið, leiðbeinendur okkar, ákváðu að brjóta aðeins upp síðasta alvöru tímann fyrir jól. Þetta fólst í því, að leyfa okkur að snerta á nokkrum íþróttagreinum, þar sem lóð og teygjur komu ekki við sögu. Þarna var tekist á við eftirfarandi greinar:  spjótkast, bandí, badminton og knattspyrnu.
Ég mun ekki fjalla um framgöngu mína í þrem fyrstnefndu greinunum, en hún var sannarlega framar vonum. 
Ég ætla aðeins að minnast á knattspyrnuna. Þarna var um að ræða það sem leiðbeinandinn kallaði "göngufótbolta". Í sem stystu mál þá þýddi það, að mátti hreint ekkert, í mesta lagi að ganga í rólegheitum fram og til baka, eða bara ganga ekki og bíða eftir að fá boltann í fæturna. Ég veit núna hversvegna þessi útgáfa af knattspyrnu var valin. 

Ég var fljótur að koma mér fyrir í markinu og hugsaði gott til glóðarinnar, að rífja þarna upp gamla takta; freista þess að verða "Gordon Banks" á ný.  Liðsmenn mínir voru ekkert sérstaklega hreyfanlegir og reyndar ekki liðsmenn hins liðsins heldur. Boltinn þvældist einhvernveginn á milli þeirra, algerlega ómarkvisst og engan veginn líklegt að það myndi koma skot á markið. Ég var allur að kólna upp. Loksins kom að því, að boltinn rúllaði í átt að markinu og ljóst að ég myndi þurfa að bregðast við og það gerði ég með eins miklum tilþrifum og geymd voru í reynslubankanum. Þetta var nú bara nokkuð glæsilegt, þó ég segi sjálfur frá - en leiknum var ekki lokið. Hann stóð í 1x5 mínútur og þótti ýmsum nóg um þá tímalengd.  Rétt áður en leiðbeinandinn ákvað að nóg væri komið og tók að ausa hópinn lofi fyrir flotta frammistöðu, kom annað "skot" að markinu, í þetta sinn nokkuð til hliðar við mig.  Það skipti engum togum, ég skutlaði mér fyrir boltann, sem hefði farið langt framhjá markinu, ef ég hefði bara látið hann vera - en ég þurfti að skutla mér. Það var þá sem það rann upp fyrir mér, að ég er ekki lengur 18 ára. Lendingin var nokkuð þung og mér varð ljóst að eitthvað hafði gerst. Ekki hvarflaði að mér að fara að kveinka mér, heldur stóð upp og tók stórmannlega við hrósi félaga og andstæðinga fyrir frammistöðuna - lét sem ekkert væri. Ég veit svo sem ekki hvort það er eitthvað. Það tekur nokkuð á ef ég hreyfi mig og ég sit undir athugasemdum fD ef ég leyfi mér að senda frá mér eina og eina sársaukastunu. 

Lexían er þessi: Við eigum okkar blómatíma aftur og aftur í gegnum allt lífið, galdurinn er bara að finna út rétta blómatímann fyrir hvert tilvik. Minn blómatími í knattspyrnunni er ekki núna, ef hann var þá einhvern tíma einhvers staðar. 

19 nóvember, 2023

Hvað ef .....?

Þann 10. nóvember, árið 1998, sat ég síðasta fund minn sem hreppsnefndarmaður í Biskupstungnahreppi. Efir það hvarf ég úr nefndinni og hef ekki komið með beinum hætti að sveitarstjórnarmálum síðan.
Ástæður mínar fyrir ákvörðuninni, þarna í lok árs 1998 eru eflaust fleiri en ein, t.d var ansi mikið hjá mér að gera í vinnunni á þessum tíma. 
Það má einnig nefna tvær líklegar ástæður, sem ég tel að standi nú upp úr svona þegar ég lít til baka. 
Annarsvegar voru það mér allmikil vonbrigði að ekki skyldi takast að sameina hreppana í uppsveitunum, en það var kosið tvívegis um sameiningu þeirra á umræddu ári. Í seinni kosningunum var sameining 4 hreppa samþykkt með talsverðum meirihluta í þrem hreppanna, en felld í Skeiðahreppi, en þar reyndist fólk frekar sjá fyrir sér sameiningu eða samvinnu við Gnúpverjahrepp. Innan hreppsnefndar Biskupstungnahrepps reyndist harla lítil vilji til að halda þessum leik áfram, eins og sjá má af afdrifum tillögu minnar hér fyrir neðan. 


Hin ástæðan sem ég tel að hafi valdið miklu um brotthvarf mitt úr hreppsnefend, var einfaldlega samsetning nefndarinnar á þessum tíma. Mér fannst ég ekki eiga nægilega mikið sameiginlegt með samnefndarfólki mínu, ekki einusinni fólkinu á mínum lista, sem ákvað að ganga til samstarfs við lista fráfarandi meirihluta.  Ég hef löngum verið þeirrar skoðunar, að saman á framboðslistum til sveitarstjórna, ætti að vera fólk sem er sammála  í grundvallaratriðum um helstu mál. Búseta fulltrúanna, umfram allt, eða ósætti við afmörkuð mál, finnst mér vera frekar veitur grundvöllur til að byggja á 4 ára samstarf, ef ekki kemur einnig til lágmarks pólitískur samhljómur, eða lífsskoðun.  Í mínu tilviki reyndist ég eiga fremur fátt sammerkt  með samstarfsfólki mínu. Vissulega hefði ég getað látið mig hafa það að sitja þarna út kjörtímabilið, en mér fannst hreinlegast að stíga bara til hliðar, hverfa af vettvangi sveitarstjórnarmálanna. Kannski var ég bara ekki nógu mikill baráttumaður.  

Ef hrepparanir 4, Þingvallahreppur, Laugardalshreppur, Biskupstungnahreppur og Hrunamannahreppur hefðu nú haldið áfram og í framhaldinu sameinast vorið 1999, hefði ýmislegt verið með öðrum hætti í uppsveitum nú.  Ekki er ég í vafa um, að fljótlega hefði verið samþykkt sameining þeirra við Gnúpverjahrepp, Skeiðahrepp og Grímsnes- og Grafningshrepp. Íbúar í þessum uppsveitahreppum öllum er nú um 3500, en væru líklegast allmiklu fleiri, ef tekist hefði að ganga þessa sameiningargötu allt til enda. 
Hvert skyldi vera viðhorfið til sameiningarmála í uppsveitunum nú?17 september, 2023

Baðlón í Laugarási! Gengur það?

Fyrir nokkrum dögum birtist auglýsing í tilteknu dagblaði, þar sem óskað er eftir verkefnastjóra til að halda utan um byggingu baðlóns í Laugarási. Þessar upplýsingar virðast hafa komið við ýmsa.
Hér er nokkur dæmi um viðbrögð sem ég hef séð á samfélagsmiðli:

Hvað sem verður með þetta, finnst mér strax núna ánægjuleg breyting á umhverfinu þegar maður keyrir í gegn. Það er orðið miklu snyrtilegra en var. Þetta á þó líklega ekki að sjást mikið frá vegi.... sýnist mér?
Það er skemmtilegt að sjá að fólk er loksins að vakna til vitundar að fjölga baðstöðum á suðurlandi. Það eru ekki næstum því nógu mörg í Árnessýslu. Algerlega óásættanlegt að heita “Laugar -eitthvað” og hafa engar laugar. svar: það hefur lengi eða frá fyrstu Biskupum í Skálholti verið baðstaður á góðum stað hér í hverfinu
Þarf þetta ekki að fara í grenndakynningu? og má bara afhenda fjárfestum landið með ótakmörkuðum aðgangi að hvernum og hverju sem er? Nú þurfa Laugarásbúar að snyrta og laga til hjá sér
Það er reynslan af svona framkvæmdum í Laugarási að það verður ekki af þeim.
Ég reikna með að þetta verði eins
Ég hef lengi horft til Laugarás sem mögulegan stað til að skapa umhverfi þar sem Miðjarðarhafs loftslag ríki allt árið um kring
Kannski verður komið elliheimili þegar við þurfum á því að halda
Mér finnst þetta vera nokkuð afskekkt...
Frábært að það sé eitthvað í gangi hér í hverfi
Hver er eigandi? svar: það á að vera svona málum óviðkomandi ef einhverjir vilja leggja fúlgur fjár í uppbyggingu á svæðinu því ekki gerir sveitarfélagið neitt til að styðja við uppbyggingu
Frábært!

Svo kom auðvitað ýmislegt annað fram, bæði jákvætt og neikvætt, eins og gengur. Kaldhæðnin lét heldur ekki á sér standa.


Eftir því sem ég best veit, þá stendur til að byggja hótel þarna líka á sláturhúslóðinni og það vona ég sannarlega, fyrir hönd þeirra sem eru orðnir langþreyttir á að bíða eftir því að upp rísi í Laugarási öflug fyrirtæki, nægilega burðug til að efla byggðina, á stað sem getur talist einn sá fegursti í uppsveitum og þó víðar væri leitað.  

Það finnst mér orðið fullreynt að hreppsnefndir í uppsveitum stuðli að uppbyggingu, eða jákvæðri þróun byggðar í Laugarási. Þvert á móti og síðasta atlagan að þorpinu var gerð að heilsugæslunni.  Hvernig það fer, veit ég ekki enn.

Ég yrði ekki hissa þó það yrði gerð atlaga að þessu verkefni eins og öðrum, sem reynt hefur verið að stofna til. 

Það sem þarna er á ferðinni er verkefni sem stjórnast ekki af hreppapólitík, heldur miklu frekar þeim möguleikum sem blasa við. Það hvarflar ekki að mér annað en fagna því og sannarlega vona ég að þeim takist að sigrast á þeim úrtöluröddum, sem þeir munu örugglega finna fyrir.

Auk þessa finnst mér eðlilegt að hrepparnir selji Laugarásjörðina. Eignarhald þeirra á henni þjónar, að mínu mati, ekki hagsmunum Laugaráss eða Laugarásbúa.

Ég bý ekki lengur í Laugarási og á þá sennilega ekki að hafa rödd í þessu máli, en taugar mínar til staðarins eru sterkar og því leyfi ég mér að tjá mig um málefni Laugaráss, rétt eins og mig lystir.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...