12 júní, 2022

Blóðugt verkefni

 

Gærdagurinn hefði getað orðið dýr. 

Ég tók að mér ljósmyndatengt verkefni við Laugarvatn, en þar gullsprettu um 300 manns í kringum Laugarvatn, eins og mörg undanfarin ár.  Ég fékk, þessu sinni, það hlutverk, að mynda hlauparana þar sem þeir komu sér yfir fyrsta vaðið og til þess þurfti að flytja mig á björgunarbáti nokkurn spöl. Ekki hófst nú bátsferðin björgulega. 

Ég var auðvitað einbeittur þar sem ég gekk út á bryggjuna til að koma mér um borð, enda hef ég séð ansi mörg myndskeið þar sem fólk er reyna að komast um borð í svona smábáta - komið með annan fótinn á borðstokkinn, þegar báturinn skríður frá bryggjunni  - jæja.


Hvað um það, þar sem ég var ákveðinn í að ganga um borð eins og vanur maður, gleymdi ég að ég hafði komið stóru linsunni fyrir í myndavélartöskunni (sem er alltof lítil fyrir slíka linsu). Svo heyrði ég högghljóð, eins og eitthvað hefði dotti á bryggjuna, sem var raunin. Stóra fína linsan mína hafði fallið úr töskunni og eitt augnablik hélt ég að hún hefði síðan skoppað út af henni og ofan í vatnið, sem var sem betur fer ekki raunin  Hún hafði lent á linsuhettunni (lens hood), sem brotnaði og flaug út í vatnið. Linsan sjálf reyndist ósködduð, en þarna er um að ræða fjárfestingu upp á hundruð þúsunda. Ætli ég verði ekki að læra af þessu, að minnsta kosti vill fD halda því fram. 


Ég komst um borð í björgunarbát Ingunnar án frekari áfalla, í tilskildu björgunarvesti og vel búnir björgunarsveitarmenn sáu til þess að allt væri eins og vera bar. Báturinn brunaði í átt að fyrsta vaðinu, en fyrsti lendingarstaðurinn sem kannaður var, reyndist of aðgrunnur til að hægt væri að koma mér í land þurrum fótum, sem var auðvitað skilyrði frá minni hendi.  Hófst þá leit að hentugri lendingarstað, en þá reyndist þetta föruneyti vera komið heldur nálægt varnarsvæði fuglsins sem beitir einkar harðvítugum aðferðum við að verja svæðið sitt. Kría tók að herja á okkur, en þar sem ég hafði aldrei lent í því að hún gerði annað en hóta því að reka gogginn í höfuðleðrið á mér, kippti ég mér litt upp við árásir hennar. Björgunarsveitarmennirnir voru auðvitað með hjálma á höfðum, en ég var ekki enn búinn að sjá ástæðu til að setja upp hattinn sem ég hafði meðferðis til að skýla höfðinu fyrir sólargeislum. 

 Viti menn, skyndilega lét krían vaða beint á þann stað höfuðs míns þar sem hárvöxtur er sjaldgæfastur. Þetta var hreint ekki vont, en þegar ég síðan þreifaði á höggstaðnum, reyndist blæða talsvert og svo bara hélt áfram að blæða, en ég gat nú ekki farið að láta kalla út björgunarsveit vegna þess, svo ég skellti á mig hattinum og varð ekki fyrir frekari árásum kríunnar eftir það. 


Svo bara tók ég myndir af fólkinu sem lagði á sig að hlaup þennan sprett í kringum Laugarvatn og þegar það var allt komið framhjá, var ekki annað en kalla á björgunarbátinn til að fá flutning til baka, sem allt gett vel og snyrtilega fyrir sig. Ég neita því ekki, að ég hafði athugað hattinn aðeins og sá að hann var alblóðugur að innan, svo ég setti hann bara upp aftur - þetta virtist ekki svo alvarlegt að mér myndi blæða út, en samt fannst mér stundum eins og ég fyndi fyrir lítilsháttar svima (sem var nú bara ímyndun).

Þegar í land var komið fór ég að leita mér aðhlynningar, sem ég fékk að sjálfsögðu og sem ég er afar þakklátur fyrir.  Það er nefnilega þannig að ég tilheyri þeim hópi fólks, sem af tilteknum ástæðum, þarf að neyta lyfja sem stuðla að blóðþynningu og þess vegna tekur það alla jafna talverðan tíma fyrir blóðið að storkna, ef það finnur sér leið út úr líkamanum. Það gerist þó og gerðist þarna, á endanum.

Eins og myndirnar, sem Erla Þorsteinsdóttir tók, sýna, reyndi ég að bera mig vel, meðan Eva Hálfdánardóttir gerði að sárum mínum. 

Að öðru leyti gekk nú dagurinn áfallalaust fyrir sig að mestu og ég þykist góður að hafa komið til baka jafngóður og þegar ég lagði af stað, svona að mestu leyti.

Ég, sem sagt, tók að mér það verkefni að taka myndir af hlaupandi fólkinu og hér eru sýnishorn. Myndirnar í heild má svo sjá í fyllingu tímans á facebooksíðu Gullsprettsins. 

30 maí, 2022

Fyrsta garðyrkjustöðin í Laugarási og heimsókn 82 árum síðar.

Í Hveratúni með Lemmingunum: f.v Jette, Lissie og Allan.
Í lok janúar, árið 1938 kom Gullfoss til Reykjavíkur og meðal farþega var 25 ára gamall, danskur garðyrkjumaður. Heima í Danmörku beið 17 ára unnustan þess að ná 18 ára aldri, svo hún gæti fylgt honum. Það liggur ekkert fyrir um hversvegna þessi ungi maður ákvað að fara til Íslands einn síns liðs, en helst virðist eins og hann hafi komist í kynni við Ólaf Gunnlaugsson, garðyrkjubónda á Laugabóli í Mosfellssveit, þegar Ólafur sótti stóra garðyrkjusýningu sem var haldin í Kaupmannahöfn haustið 1937.  Það sem helst styður þetta er, að í maí 1938 var ungi maðurinn talinn sem starfsmaður á garðyrkjustöð Ólafs að Laugabóli. 
Einhverntíma, árið 1939, þó ekki síðar en í lok júlí, kom unnustan síðan til Íslands, þá á 19da ári. Fljótlega eftir að hún var komin fluttu þau út á land, þar sem pilturinn hafði fengið starf sem garðyrkjumaður á nýstofnaðri garðyrkjustöð í Reykjalundi í Grímsnesi. Þann 30 desember, gengu þau í hjónaband í Mosfellskirkju og 4 mánuðum síðar, eða í apríl 1940 fæddist fyrsta barn þeirra, dóttir. 
Það átti ekki fyrir þeim að liggja að una lengi í vinnumennsku og þau ákváðu að byggja upp eigin garðyrkjustöð, en einmitt um þetta leyti var oddvitanefndin sem stýrði Laugarásjörðinni farin að huga að því að kynna möguleika á að leigja jarðnæði og hita í Laugarási. Það varð úr að þessi nýbökuðu dönsku hjón ákváðu að freista gæfunnar. Líkur benda til að þau hafi komið í Laugarás vorið 1940, en þar voru þau skráð í sóknarmannatali í árslok, ásamt dótturinni, sem var sögð óskírð.
Garðyrkjubóndinn var Børge Johannes Magnus Lemming, fæddur 30. ágúst, 1913 í Árósum og kona hans var Ketty Hilma Lemming fædd 29. október, 1920 í Árósum. Børge var því 26 ára og Ketty 19 ára, þegar þau komu í Laugarás.  


Það er saga að segja frá því hvernig ég fór síðan að því að finna afkomendur þessara fyrstu garðyrkjubænda í Laugarási, en frá því greini ég á vefnum Laugaras.is . Mér finnst erfitt að átta mig á því, hvernig þau fóru að því með nýfætt barn, að lifa af fyrsta veturinn í Laugarási, en þau hljóta að hafa haft  einhverja aðstoð, til dæmis má reikna með því, að þau hafi fengið inni í Reykjalundi eitthvað áfram og ekki finnst mér ólíklegt, að læknishjónin í Laugarási, Ólafur og Sigurlaug, hafi verið þeim innan handar. Um þetta er þó engar upplýsingar að hafa.
Lóðin sem þau fengu í Laugarási, er sú sama sem Hveratún stendur á nú. Þau byggðu sér gróðurhús, sem var um 100 ferm. og bjuggu fyrstu árin í þeim enda þess, sem snéri að hveralæknum. Í sóknarmannatali frá því í árslok 1943 segir, að fjölskyldan búi í gróðurhúsi. 
Í Laugarási eignuðust  Ketty og Børge fjögur börn og árið 1944 munu þau hafa flutt í húsið sem þau byggðu og sem síðan hýsti Hveratúnsfjölskylduna til ársins 1961. Það má ljóst vera að líf þessarar hjóna og barna þeirra í Laugarási var enginn dans á rósum, end fór svo, árið 1945, að þessi tilraun þeirra til að koma undir sig fótunum á Íslandi gekk ekki upp og þau hurfu á braut og sigldu til Danmerkur með börnin fimm, árið 1946. Börnin voru þau Kirsten Agnea Ketty (21. apríl, 1940), Elisabet Ketty Lemming (27. júní, 1941), Søren Peter Børge Lemming (3. mars 1943), Hans Peder Børge Lemming (5. mars, 1944) og Inge Birte Lemming (24. mars, 1945).

Það var árið 2017 sem ég fann ekkju S
ørens, Lissie og son hennar Allan. Lissie sagði mér sð hana hafi lengi langað að koma til Íslands til að skoða söguslóðir tengdaforeldranna og ég hvatti hana auðvitað til þess og bauðst til að vera henni innan handar. Eftir það heyrði ég ekki meira frá þessu fólki fyrr en um miðjan mars, að ég fékk skilaboð frá Allan, þar sem hann greindi frá því að þau kæmu til landsins í lok maí og kvaðst vona að þau gætu átt aðstoð mína vísa, sem var auðvitað sjálfsagt.
Í Hveratúni: Sonarsonur bóndans 1942
og bóndinn árið 2022. Með þeim er 
dóttursonur Hveratúnsbóndans
Kolbeinn Búri.

Svo skipulögðum við þetta allt saman og síðastliðinn laugardag hittumst við og lögðum leið okkar í Laugarás, Skálholt, Mosfell og Reykjalund. Danirnir sem þarna voru auk Lissie og Allans, eiginkona Allans, Nicola og dóttir Lissie, Jette og eiginmaður hennar,
Søren.
Þetta var hinn ánægjulegasti dagur, en með í för voru einnig þau Sigrún systir mín og Ari, sem bæði eru vel heima í danskri tungu, en þau bjuggu í nokkur ár í Árósum. Húsbændur í Hveratúni, þau Magnús og Sigurlaug tóku svo á móti hópnum og afkomendurnir fengu tilfinningu fyrir því hvernig aðstæður voru á staðnum, árið 1940. Sören Lemming var skírður í Skálholti og því var það eðlilegur viðkomustaður og sömuleiðis Mosfellskirkja, þar sem Ketty og Børge gengu í hjónaband 30. desember 1939.

Í Mosfellskirkju, f.v. Allan, Nicola, Jette, Lissie og Sören.
Kirkjan mun vera nánast óbreytt frá því Börge og Ketty giftust árið 1939.13 maí, 2022

Mislitir sokkar

Mér dettur ekki í hug að neita því, að sú hugsun hefur hvarflað að mér nokkrum sinnum í vetur, að ég þurfi að gæta aðeins betur að sjálfsvirðingu minni - ég nálgast óðum sjötugt og fólk á þeim aldri á að hegða sér með einhverjum tilteknum hætti, verða svona "grand old"-eitthvað. Ég hef  litið aðeins í kringum mig, til að leita fyrirmynda í því hvernig fólk á mínum aldri og eldra kemur fram, í tilraun sinni til að gæta nú að virðingu sinni - falla að hópum sem það tilheyrir. Það var eiginlega fyrst á síðari hluta liðins vetrar, sem ég byrjaði þessa aðlögun, enda tækifæri til félagslegrar þátttöku verið færri en alla jafna er. 
Ég þykist hafa komist að því, að við erum meira og minna öll að leita að þessum sama takti meðal jafnaldranna og svei mér ef ég er ekki kominn á þá skoðun, að smám saman sé viðhorf eldri borgara að breytast.  Fyrst í stað hef ég fundið til þess að fólk reynir að gæta sjálfsvirðingarinnar, eftir getu, en þegar skelin rofnar, birtist alveg nýtt fólk á einhvern óútskýranlegan hátt - fólk sem er tilbúið að sleppa fram af sér beislinu, henda af sér þeim klafa sem því hefur fundist að tilheyrði því að hætta brauðstritinu og verða svokallaðir eldri borgarar.  
Mér finnst, svona í minningunni, að fólk á þessum aldri, sem ég er á nú, hafi verið orðið hægfara í hreyfingum og hugsun. Það gætti orða sinna og reyndi að leika hlutverk afa og ömmu, langafa og langömmu eftir bestu getu, fól sér yngra fólki að hafa frumkvæði, eða vera gerendur.  Eldri borgarar nútímans eru í síauknum mæli að verða sjálfsöruggari og farnir að gera meiri kröfur til efri áranna.

Til hvers er þetta líf eiginlega? Varla lýkur því um sjötugt. Sá aldur markar bara nýtt upphaf og lífið fær nýjan takt, með allskyns möguleikum og tækifærum, sem ekki þarf annað en grípa. Það er nefnilega þannig, að þarna missir fólk ekki réttindi sem manneskjur. Það lítur yfir farinn veg, auðvitað og sér þar allt sem það hefur áorkað á ævinni. Lítur svo fram á veginn og skoðar þá kosti sem eru í boði.


Þá er ég kominn að framlagi mínu á þessum vettvangi, þennan daginn.
Allt frá því ég var í menntaskóla og tók þátt í leiksýningum, hefur verið til staðar einhver neisti, sem annasamur starfsferill hélt niðri, en glóðin hefur alltaf verið þarna, ekki alltaf jafn lífleg reyndar, en samt til staðar. 
Síðastliðið haust rakst ég á auglýsingu, þar sem boðið var upp að eitthvað sem kallaðist "leiklestur" og þá birti örlítið yfir glóðinni og ég fór í gegnum allskonar vangaveltur um hvort ég ætti kannski að gefa þessu tækifæri, en á móti komu svo pælingar um að þarna ætti ég ekkert erindi; innan um eitthvert ókunnugt fólk, sem hefði langa reynslu af leiklistarstörfum. 
Ég ákvað á endanum að láta á þetta reyna, gæti bara látið mig hverfa ef það reyndist mér um megn. Ég neita því ekki, að mér leist ekki á blikuna þegar ég mætti þarna í fyrsta skipti þó skömm sé frá að segja, því kynjahalli var umtalsverður. Það kom fljótt í ljós að ekkert okkar reyndist þrautþjálfaður leikari og þar að auki vor þarna stjórnendur, sem kunna ekki að segja nei, þau Magnús J. Magnússon og Sigríður Karlsdóttir. Jákvæðara fólk held ég sé vandfundið. Hvað sem maður gerði og sagði virtist bara vera snilldin ein.  Svo fór, áður en við var litið, að ég var orðinn eini karlinn í þessum kvennafansi, fyrir utan Magnús, auðvitað. Þá hafði myndast einhver skuldbinding í huga mér og þar að auki var ég að byrja  að átta mig á, að þarna skipti kyn fólks engu máli - ef þetta væru almennilegar manneskjur þá var slíkt aukaatriði. Þarna voru almennilegar manneskjur, sem langaði að reyna aðeins á sig og hafa dálítið gaman í leiðinni.

Til að gera langa sögu stutta, hef ég sinnt þessu verkefni í vetur í covidhléum og haft talsvert gaman af bara.  Síðasta verkefnið var að setja á svið leiklestur á leikverkinu "Maður á mislitum sokkum", eftir Arnmund S. Backman. Auðvitað nokkur vitleysa, með skýrum boðskap, þó. 
Við fengum inni í gamla leikhúsinu, þar sem við æfðum af kappi, en ekki var á vísan að róa með að sýna þetta utan hópsins, enda fólk á ferð og flugi, fyrir utan pestirnar auðvitað og aðra krankleika.

Það fannst loksins tími í gær, þann 12. maí, og við vorum ekki með sérstakar væntingar um aðsókn, en raunin varð sú að það var húsfyllir og lá við að vísa þyrfti fólki frá í hópum, en allt fór þetta þó vel og áhorfendur hurfu úr húsinu, sáttir með  okkur og það er nú fyrir mestu.

Þau eru frekar magnað fólk þau Magnús og Sirrý Karls - og auðvitað við hin, hvert á okkar hátt.08 maí, 2022

Hjá heilagri Maríu og heilögum Fransiskusi árið 2007.

Það eru víst ein 15 ár síðan ég tók þátt í einni eftirminnilegustu kórferð sem ég hef farið í, en það var þegar Skálholtskórinn ferðaðist suður alla Ítalíu dagana 28. júlí til 11. ágúst, árið 2007. Fararstjórinn var Hólmfríður Bjarnadóttir og þar með þarf ekki að fjölyrða um hvernig stjórnin á þessu ferðalagi gekk fyrir sig.  
Skúli Sæland gerði þessari ferð nákvæm skil í Litla Bergþór árið eftir og því fjölyrði ég ekki um hana hér. 
Tilefni þessara skrifa er í rauninni tvö: Annarsvegar, að nú er ég kominn í nýjan kór, Kirkjukór Selfosskirkju og það vill svo vel til, að hann stefnir á Ítalíuferð innan skamms og hinsvegar, að við yfirferð á efni í gömlu tölvunni minni rakst ég á fortíðardraug nokkurn; greinargerð um raddirnar í Skálholtskórnum í aðdraganda Ítalíuferðarinnar. Þetta er heilmikil langloka, og ekki líklegt að aðrir en nákvæmlega það fólk sem þarna var með í för, botni nokkuð í þessu. Ég skelli þessu samt hér inn, ekki síst til að geyma það á vísum stað.
Tilgangurinn með þessu verki var að undirbúa eitthvað til að fara með í rútubílnum á leið suður Ítaliu, en eins og nærri má geta, voru nokkrir sæmilega langir leggir og þótti þörf á einhverri afþreyingu. Þetta var mitt framlag.  


1. hluti

Fegurðin sjálf.
Eins og þröstur í kattlausu umhverfi.
Eins og þegar nýbúið er að þagga niður í gjammandi hundkvikindi.
Eins og lofgjörð til þeirra dásemda mestra sem líf vort hér á jörð hefur fram að færa.
Eins og allt hið göfugasta og ljúfasta komi saman í einum skurðpunkti.
Eins og ómur alheimsins.
Lífið sjálft.
Sópraninn...........
.....á góðum degi.


Það kann að skjóta skökku við, í ljósi þess sem á undan er gengið að þessi orð falli úr þessum munni, en hvað á maður að segja?
Á góðum degi er þetta bara svona. Stúlkubarnsraddirnar, svo mjúkar, svo tærar, svo seiðandi, svo magnþrungnar, kalla hreinlega á svo fögur orð frá tenórnum. Og fyrst tenórinn sér ástæðu til að fjalla um sópraninn með þessum hætti ætti engum að blandast hugur um að hér er ekki um að ræða neitt léttvægt.
Það verður af þessum sökum að fyrirgefa sópraninum það, að hann taki hlutverk sitt svo alvarlega að stúlkubarnsröddin smiti yfir í líf hans og framgöngu alla, sem hefur auðvitað í för með sér kórinn að öðru leyti og stjórnandinn verða að sýna umtalsverða þolinmæði og umburðarlyndi. Því meira sem sópraninn fær að flissa og mala eins og táningsstúlka, því fegurri verður röddin. Svona er þetta bara. 

Niðurstaðan er því þessi, stjórnandi góður: Því meira sem þú sussar á sópraninn, því meiri líkur eru á því að röddin hljómi eins og hjá miðaldra konum, eða eldri. Fyrir nú utan það, að því meiri líkur eru á orði í eyra þegar heim er komið. Sópraninn þarf að fá að vera í karakter – með því móti næst það fram sem sóst er eftir.

Eftir að sópraninn hefur nú verið skilinn eftir, uppnuminn af stolti eftir þau fögru orð sem hafa fallið um hann hér, þá skal þessari afþreyingarstund haldið áfram.


2. hluti

Þegar ekið er hér í rútubíl suður eftir því fagra og hlýja landi Ítalíu, er ekki laust við að upp komi í hugann frásögnin af pólskum pílagrímum í rútuferð, sem létu lífið í Frakklandi fyrir skömmu. Þetta sorglega slys átti sér stað þegar bremsur gáfu sig, með þeim afleiðingum að rútan steyptist fram af þverhnípi. Það er ekki ætlunin að hræða neinn með því að minnast á þetta hér. Miklu fremur á þetta að leiða huga hlustenda til þeirra hugrenninga sem eiga sér stað þegar langferð er framundan og í fréttum dag eftir dag er fjallað um rútuslys og flugslys um gervalla plánetuna. Það er fjarri því að slíkt komi til greina í þessari ferð auðvitað, þar sem við ökum nú um sólbakað sléttlendið. Auðvitað berjumst við við ákveðna fordóma gagnvart því sem bíður okkar á eyjunni fögru, Sikiley. Munum við verða vitni að “Mafia style” aftökum. Verðum við tekin í gíslingu miskunnarlausra fanta?
Svo hitt, megum við búast við því að Etna ræski sig duglega einmitt þegar þeir hugrökkustu úr hópnum hafa náð hæsta tindi og standa á gígbarminum?
Ekkert af þessu kemur til greina, en hugsunin spyr ekki um það. Af henni sprettur óttinn.

Þetta er nú að verða full þunglyndislegt, líklega. Það endurspeglar kannski að einhverju leyti það sem tenórinn hefur gengið í gegnum á þeim tíma sem undirbúningur ferðar þessarar hefur staðið.


3. hluti

Það má líklega rekja ástæður þess sem nefnt var í lok síðasta hluta til eins ákveðins tímapunkts, eða ákveðins atviks. Það sem þar gerðist og sú saga, sem enn er óskráð og sem fylgdi þar á eftir, og sem stendur yfir enn í dag, má sennilegst rekja til þessa tímapunkts. Meðal þeirra afleiðinga sem þetta hefur haft fyrir röddina einu sönnu og rödd radda er eftirfarandi:

-Í fyrsta lagi hefur borið á vaxandi sókn tenórs í aðrar lystisemdir en þær sem hann hefur upp á bjóða í sjálfu sér, og sem eru, þegar allt er eðlilegt, algerlega fullnægjandi. Þetta hefur til dæmis falist í óskýrðum veikindum, gönguferðum í fjarlægum landshlutum, útlandaferðum í 40 stiga hita, sumarbústaðaferðum í hvassviðri, ónauðsynlegri vinnu, meintum söng með kórum í öðrum sveitum og öllu því öðru, sem, gjarnan hefur orðið að víkja fyrir þeim forréttindum að efla sig sem tenór með þrotlausum æfingum.

- Í öðru lagi má segja að hinn eini sanni samhljómur tenórsins, sem allir þeir sem hér eru staddir geta vitnað um, hefur beðið hnekki. Þetta hefur meðal annars birst í áberandi fleiri athugasemdum stjórnandans við framgöngu tenórsins. Ekki bara að hann telji hann beita röddinni þannig að aðrar raddir heyrist ekki (sem er nú reyndar ekkert nýtt), heldur virðist skorta á, ef tekið er mark á athugasemdum stjórnandans, að samhljómur sé að öllu leyti fyrir hendi í þeim hárfínu blæbrigðum sem tenórnum er yfirleitt ætlað að túlka, umfram aðrar raddir, og sem aðrar raddir viðurkenna fúslega að sé raunin.

- Í þriðja lagi hefur orðið meira áberandi en áður, eða er kannski rétt að segja að hún hafi orðið útbreiddari, sú tilhneiging tenórs að fjalla um ýmsa þætti í eigin fari sem sumum finnst að betur megi fara. Hér er verið að vísa til síaukins fjölda tilvika þar sem tenórar hafa blygðunarlaust gert lítið úr útlitseinkennum sínum og þá helst hárafari eða vaxtarlagi. Tilvik af þessu tagi draga óhjákvæmilega athygli af sérstöku tagi að tenórnum; athygli sem hann ætti að vilja forðast. Það er röddin sem á alltaf og ævinlega að draga athygli annarra radda að tenórnum, en ekkert annað, allra síst slíkt fánýti sem hér hefur verið nefnt.


- Í fjórða lagi, þó það verði að teljast koma úr hörðustu átt, hafa sjálfskipaðir fulltrúar annarra radda tekið að sér að gagnrýna tenórinn á grundvelli aldeilis fáránlegra smáatriða.
Þannig tók einn altinn sig til og sakaði tenórinn um að fylgjast ekki nægilega vel með stjórnandanum. Þessi umræddi alt sagðist hafa fylgst með tenórnum, sem er nú svosem ekkert nýtt eða skrýtið. Það einkennilega var hinsvegar að tenórinn stóð fyrir aftan umræddan alt þegar þetta meinta atvik átti sér stað. Mikið leggja altar á sig til að njóta þeirra lystisemda sem felast í því að hafa tenór fyrir augunum.
Þá gerðist það einnig að einn sópraninn, sömuleiðis sjálfskipaður, kvað upp úr með það, með undarlega móðurlegum mæðutón, að tenór hafi sýnt danstakta á tónleikum. Auðvitað er þetta ekkert annað vanmáttug tilraun til að breiða yfir öll þau vandamál sem sópraninn á við að stríða. Má þar til dæmis nefna uppþotið sem varð innan sópransins þegar stallari gerði tilraun til að sýna honum í hvernig röð hann skyldi ganga til tónleika. Það lá við að fresta yrði tónleikum vegna þess að stúlkubarnshlutverkið gerði sópraninumm ókleift að komast að niðurstöðum um hver þeirra skyldi ganga fyrst inn og hver síðast. Já, og hananú.

-Í fimmta lagi hefur þess orðið vart í æ ríkari mæli að innan tenórsins komi upp ágreiningur, og þar sem kannski er enn verra: ágreiningur sem berst út fyrir tenórinn sjálfan og er jafnvel tjáður með einhverjum hætti í viðurvist annarra radda. Þetta skal nú útskýrt nokkuð með tveim dæmum:
Hið fyrra þarf nokkurn aðdraganda.
Það hefur ávallt verið svo, að við guðsþjónustur í Skálholtsdómkirkju hefur hver rödd átt sinn stað. Af ástæðum sem ekki verða raktar hér hefur það verið hlutskipti tenórsins, fyrst og fremst þar sem það er mikilvægt fyrir sópraninn, að sitja að baki sópraninum og syngja þaðan ægifagra tóna inn í eyru hans. Það verður því að líta svo á að það sé riddaramennsku tenórsins að kenna að hann hefur ekki annað sæti en nokkuð vel smíðað bekkskrífli. Bekkskrífli þetta er auðvitað baklaust og grjóthart ásetu, ekki síst fyrir þá tenóranna sem eru grennstir og spengilegastir, ásamt því að svokölluð seta er miklu lægri en sæti sóprananna fyrir framan. Því er það svo að þegar kórinn situr þá hverfa afar myndarleg höfuð tenórsins, sérstaklega þau höfuð sem ekki rísa upp úr fjöldanum að öllu jöfnu, bakvið sópraninn, svo kirkjugestir fá ekki notið þeirra.
Vissulega verður það að viðurkennast að þessi staða breytist nokkuð þegar kemur að því að kórinn rís á fætur til að syngja. Þá gnæfir ténórinn í öllu sínu veldi langt upp fyrir aðrar raddir. Hversvegna skyldi það nú vera? Jú, í hvert skipti sem þetta gerist, og það er nú bara nokkuð oft, þá verður tenórinn að príla upp á bekkskríflið og standa síðan þar eins og hani á priki. Þeirrar stundar er beðið með óþreyju, aðallega í öðrum röddum, að einhverjum tenóranna mistakist prílið með hörmulegum afleiðingum.
Það hefur verið ófrávíkjanleg regla, að ofangreint bekkskrífli hafi verið álitinn staður tenóranna, og um það hefur ekki verið ágreiningur, aldeilis sérlega ekki meðal annarra radda. Vissulega hefur tenórinn allur fram til þessa verið samstíga um að dvelja á skríflinu þótt hann væri jafn samstíga um að vera þeirrar skoðunar að dvölin þar hæfði ekki svo magnþrunginni rödd.


Þá er komið að því að gera grein fyrir fyrra dæminu um ágreining sem vart hefur orðið innan hinnar dáfögru raddar.

Í hámessu á Skálholtshátíð klauf einn tenórinn sig frá röddinni blíðu að öðru leyti með því að taka sér sæti í dyngju sópransins. Þar ríkja mýktin ein og þægindin. Ekki gekk umræddur tenór í þessu tilviki þó svo langt að láta leiðast inn í pískur sópransins eða taugaveiklun.
 
Hitt dæmið sem skal nefnt hér, en þau eru vissulega fleiri, snýst um áfengisnotkun í Páfagarði, þeim garði þar sem tenórinn einn náði eyrum hans heilagleika með hinum norræna uppsveitablæ sem einkennir hann svo mjög.
Ekki verður fjallað nánar um, á þessum vettvangi þennan ágreining um áfengismál innan tenórsins og skal því treyst að ekki muni tenórar segja um þann ágreining aukatekið orð það sem eftir lifir ferðar.

“What happens within the tenor stays within the tenor.”

Ekki svo að skilja, að með neinum hætti megi bera tenórinn saman við áðurnefndan hóp misyndismanna sem byggir eyjuna fögru þangað sem ferðinni er nú heitið.

Nú hefur verið gerð grein fyrir ýmsum afleiðingum atviks sem talið er hafa valdið öllu því sem hefur verið nefnt hér að ofan. Atvikið sjálft hefur ekki verið nefnt og bíður næsta kafla.

Verður nú gert hlé á flutningnum til að gefa ferðalaöngum færi á að vakna og fá sér einn bjór eða svo.


4. hluti

Áfram er haldið í loftkældri rútu. Upp og niður snarbrattar fjallshlíðar eftir krókóttum, örmjóum vegaslóðum. Eða er það svo?
Enn fær hugurinn tækifæri til að reika til landsins elds og ísa sem rís upp úr óravíddum Atlantshafsins, fjarri vígaslóð og Skálholtskór.
Í svo stóru samhengi sem hér er um að ræða kostar það nokkuð átak að rifja upp einstök tilvik sem voru smá í sjálfu sér, en sem höfðu engu að síður afdrifaríkar afleiðingar. Við verðum bara að reyna að spóla til baka þangað sem vetur ríkti á landinu bláa fyrir nokkrum mánuðum, enn og aftur.

Þar sem er kærleikur og ást
Þar er Guð
Ástin sameinar okkur í einum Kristi.
Fögnum og gleðjumst í honum.
Óttumst og elskum hin lifandi Guð,
Heiðrum og elskum hann af hreinu hjarta
Þar sem er kærleikur og ást
Þar er Guð


Þetta þekkja auðvitað allir. Það er skylda okkar að vita hvað við erum að syngja um, því annars tekst okkur ekki að tjá þær tilfinningar sem að baki liggja, er það nokkuð?
Þetta sem ég las, sungum við, hvort sem þið trúið því eða ekki. Við syngjum það reyndar ekki lengur og það er kannski eins gott því það var að öllum líkindum einmitt þessi texti, svo einkennilegt sem það nú er, sem olli því að tenórinn er nú fyrst að ná vopnum sínum aftur eftir all miklar þrengingar.

Nú skulu færð nokkur rök að þessari tilgátu.

Það geta væntanlega allir sameinast um það, að tenórinn er guðdómlegur. Það er þessvegna ekki svo fjarri lagi að setja hann inn í textann sem var lesinn hér áðan í stað Guðs og Krists líka.
Ef allt hefði verið með felldu hefði einmitt þessi texti átt að sameina tenórinn sem aldrei fyrr.

Þar sem er kærleikur og ást
Þar er tenór
Ástin sameinar okkur í einum tenór.
Óttumst og elskum hin lifandi tenór,
heiðrum og elskum hann af hreinu hjarta.


Textinn sem átti að sameina sundraði, eða reyndar ekki textinn sem slíkur, heldur var það altísk innrás að tilstuðlan óhemju óhepplegrar raddsetningar og ákvörðunar stjórnandans, sem sundraði.

Til að upplýsa um fjölda tenóra í kórnum, svo það fari ekki á milli mála, þá eru þeir fimm.
Það hagar svo til í tenórnum að þar er að finna bæði dramatíska tenóra og lýríska tenóra.
Fyrir þá sem ekki vita muninn á þessu tvennu þá eru dramatískir tenórar djúpir og yfirvegaðir eins og lygnt fljót. Það þarf mikið til að koma þeim úr jafnvægi og þeir njóta umsvifalaust óskoraðrar virðingar hvar sem rödd þeirra heyrist.
Lýriskir tenórar eru meira eins og grunnur fjallalækur sem hoppar og skoppar niður fjallshlíðina með ófyrirséðum afleiðingum að öðru leyti en því að hann hlýtur á endanum að sameinast fljótinu lygna, djúpa, ef hann á annað borð gufar ekki upp á leiðinni. Að þessu leyti á lýríski tenórinn margt sameiginlegt með sópraninum á góðum degi.
Af þessu má ljóst vera að samband lýríska tenórsins við hinn dramatíska er honum nauðsynlegt. Hann getur samt aldrei náð hinni sönnu dýpt og fegurð, þótt hann stillist nokkuð af nábýlinu.
Jæja, í tónverkinu sem vísað er til hér að ofan þóknaðist raddsetjaranum að kljúfa tenórinn í herðar niður og kallaði það efri tenór og neðri. Það þarf engum að blandast hugur um það, að lýríska tenórnum var ætlað það hlutverk að syngja hinn svokallaða efri tenór, sem er raunar mikið rangnefni. Dramatíski tenórinn skyldi syngja hina raunverulegu tenórlínu.

Þá er komið að hlutverki stjórnandans í þessu máli öllu saman.
Hann tók afdrifaríka ákvörðun. Honum fannst hún kannski ekki stór, en sannleikurinn er sá að hún gerbreyttti öllu flæði samhljómsins í kórnum og setti þar að auki tenórinn á annan endann.
Af tenórunum 5 voru þrír sem gáfu sig út fyrir að vera lýrískir, sem er meiri eftirsókn en efni standa til, eins og skýrt kom fram þegar söngurinn upphófst að lokum. Tveir liðu hinsvegar áfram eins og hyldjúpt stórfljótið og sungu hina sönnu tenórlínu.
Stjórnandinn ákvað, sem sagt...... Já, hvað ákvað stjórnandinn?

Það fáið þið að heyra um í 5. kafla.


5. hluti

Það hagar svo til í þessum kór að hann hefur innbyrðis ein 15-20 stykki af öltum – í það minnsta nánast aragrúa. Það hefur lengi verið svo, að einstaka altar hafa verið að stæra sig af því að þeim myndi veitast létt að syngja tenór. Hvort rétt er hefur nú reyndar aldrei verið sannprófað þar sem það heyrist afar sjaldan frá þessari rödd. Að undanförnu hefur heyrst í henni í þrem tilvikum:
a. þegar hann syngur “MAT OG DRYKK” –“SYNDABÖND” og “Í HANS FRIД í Gloria tibi.
b. Þegar hann hann syngur “SITJI” í Kvöldbænum
c. Þegar stjórnandinn sussar á allan kórinn svo hann geti hlustað á altinn.

Hvað um það – með ákvörðun stjórnandans fékk tiltekinn hluti altsins tækifæri lífsins: að syngja meinta tenórlínu með tenór – lýrískum tenór.

Afleiðingarnar þekkja nú allir.
UBI CARITAS ET AMOR
TENOR IBI EST
Þar sem er kærleikur og ást
Þar er tenór


6. hluti

Það hafa, þegar hér er komið, flestir fengið sinn skammt í þeirri frásögn sem hér hefur farið á undan. Allavega flestir sem hægt er að fjalla um með einhverjum hætti.

Það er svo með bassann, þann eina raddanna sem ekki hefur notið þess að fá umfjöllun ennþá, að hann hreyfist bara varla. Hann kemur og brosir sakleysislega og jafnvel stundum meira að segja strákslega, eða jafnvel vandræðalega, en haggast ekki svo orð sé á gerandi að öðru leyti. Það má kannski orða það svo að aðkoma hans að kórsöngnum felist í því að mæta á staðinn, drynja í gegnum “whatever” og hverfa síðan. Það er erfitt að átta sig á hvað gerist í hugarfylgsnum bassans. Það sem helst er til að taka í þeim efnum er:

a. Það hefur einusinni eða tvisvar komið fyrir að einhver þeirra hefur játað opinskátt mistök sín í söng. Þarna er tvímælalaust um tenóríska takta að ræða og verður að teljast fremur jákvætt.

b. 5-6 nótur úr allri söngskránni sem víkja frá hefðbundinni bassalínu, hafa fallið í skaut eins nýbassans þar sem aðrir telja sig of mikla bassa til að syngja svo nálægt tenórnum. Umræddur nýbassi er alltaf vandræðalegur þegar ný nóta af þessu tagi birtist.

c. Sími hringir ávallt í bassahópnum á kóræfingum enda eru þær á þeim tíma sem kauphöllin er opnuð í Japan.

d. Bassinn verður alltaf glaður þegar hann fær að puðra í Katarínulaginu. Einn þeirra kann ekki að puðra: hann stingur bara vísifingri upp í sig eins og snuði og hreyfir hann þar í hringi.

Já, bassinn


Eftirmáli

Enn silast rútan áfram. Degi er tekið að halla. Í fjarska stíga reykjarsúlur frá brennandi skógum Ítalíu til himins. Í loftkældri rútunni, sem stefnir nú í suðaustur átt, reynir misánægður hópur að átta sig á því sem hér hefur verið lagt á borð.

Sópraninn er þegar farinn að hvískra um hvort það sé hægt að komst í búð á Sikiley.
Altinn stynur af söknuði yfir því að hann fékk ekki tækifærið sem hann hafði svo lengi óskað sér.
Bassinn fær sér í nefið og sýpur á glóðvolgum bjórnum.
Tenórinn......... er sennilega búinn að útskúfa þeim sem hér situr og veltir fyrir sér hvaða danspor hann á að taka í hringleikahúsinu á austurströnd Sikileyjar.

Það er stefnt í átt að sólarlaginu sem felur í sér nýtt upphaf, nýjan dag með rauðvíni og rósum.

Kvistholti 26. júlí, 200704 maí, 2022

Við ætlum að gera allt betra og meira til.

Hluti af mér er uppfullur af gagnrýni á sjálfan mig fyrir að eyða ekki dögunum í fundi og vöfflukaffi út um allan bæ. 
Hluti af mér einsetur sér að láta þetta allt sem vind um eyru þjóta, í fullvissu þess, að öll orðin sem frambjóðendur láta frá sér, hvort sem er í ræðu eða riti byggist í besta falli á einhverskonar óskhyggju eða séu jafnvel bara sett fram til að setja þau fram, vitandi fullvel, að það mun sennilega enginn krefjast þess að það sem orðin segja, raungerist á næstu fjórum árum. Þetta gera frambjóðendur í þeirri von að einhver trúi og það er fullt af fólki sem trúir og líka fullt af fólki sem sem þarf ekki orðin til að trúa - það gerir það sem það hefur alltaf gert og lítur sennilega svo á, að ef það skyldi nú fara að kjósa einhvern annan lista, þá væri það þar með að viðurkenna eigin glámskyggni í síðustu 40 kosningum, eða svo. Það gerir það sko ekki svo glatt.

Mér hefur reynst æ erfiðara að velja einhvern lista í kosningum, ekki síst sveitarstjórnarkosningum. Fram til þessa hef ég greitt atkvæði í sveitarfélagi þar sem ekki eru svokallaðir flokkspólitískir listar í boði. Þó þeir séu ekki flokkspólitískir, svona formlega, situr á þeim einhver blanda úr tveim pólitískum flokkum, sem veldur því, að ef þú aðhyllist hvorugan, geturðu ekkert kosið með góðri samvisku.

Nú er ég að fara að kjósa í fyrsta sinn í sveitarstjórnarkosningum í sveitarfélagi þar sem stjórnmálaflokkar bjóða fram. Það er að mörgu leyti talsvert hreinni og beinni aðferð, því þá á ég þó kost á að velja lista sem tilheyrir þeim flokki sem kemst næst því að falla að lífsskoðun minni. 
En hvaða flokkur skyldi það nú vera? 
Ég bara veit það ekki, hreint út sagt.
Ég veit í rauninni bara eitt, en það er, hvaða flokk ég hef aldrei og mun aldrei ljá atkvæði mitt, jafnvel þó þar sé nú að finna pilt sem ég fékk að kenna fyrir einhverjum árum og sem ég myndi kjósa á hvaða lista sem væri, en bara ekki þessum.

Aldrei hef ég verið ákveðnari í hvaða flokk ég ætla ekki að kjósa, einfaldlega vegna þess, að ég lít svo á að fólk sem býður sig fram undir merkjum einhvers stjórnmálaafls, hlýtur að samþykkja það sem það stendur fyrir á landsvísu og bera ábyrgð á því. Tilraunir til að fría sig ábyrgð á gerðum þessa stjórnmálaafls, hljóta að vera innantómar.

Þá er bara að fara að skoða hina flokkana, sem eru mislíklegir til að fá atkvæðið mitt.  
Gangi  mér vel - eða ekki.

27 apríl, 2022

Hugs, dund og vonir.

Ekki nóg með það...

... að mannskepnan skuli enn ekki vera búin að læra neitt að ráði á styrjöldum aldanna.

... að lærdómurinn af aðdraganda bankahrunsins hafi farið fyrir ofan garð og neðan hjá efnahagslegri yfirstétt í landinu okkar.

,,, að stjórnmálaflokkar hafi komist upp með það, áratugum saman, að lofa öldruðum á hverjum tíma mannsæmandi kjörum og aðbúnaði og lofi enn, eins og enginn sé morgundagurinn.

... að ég skuli ekki fyrir löngu vera hættur að syngja í kirkjukór, Guði til dýrðar - eða sjálfum mér.

... að ég hafi látið dragast inn í þátttöku  nokkurskonar gjörningi.

... að ég sé búinn að reyna að viðhalda líkamlegum þrótti með heilsueflandi aðgerðum.

... að samantekt mín um Laugarás þokist áfram hægar en ég hefði viljað.

... að ég hafi loksins ráðist í löngu tímabæra endurnýjun á tölvukostinum á heimilinu.

Ekki nóg með það, heldur tókst pestarskrattanum að ná mér og halda mér óvirkum dögum saman. 

Ég hafði séð fyrir mér, að þegar hér væri komið, yrði þetta allt rólegra. Fannst ég jafnvel hafa unnið fyrir því, en einhvernveginn virðist alltaf eitthvað tínast til, sem mér er nauðsynlegt að taka afstöðu til eða taka mér fyrir hendur. 
Það er sannarlega jákvætt að hafa eitthvað til að dunda sér við, ekki neita ég því og efast ekki um að það eykur líkurnar á að að höfuðið haldi sér í stórum dráttum í lagi í fjölmörg ár í viðbót. 

Það má alltaf vona ...
... að það sem einhver segir um eitthvað sem bendir til þess að innrásin verði brotin á bak aftur, reynist rétt og satt.
... að fjármálaráðherrann taki pokann sinn og það verði síðan lærdómur fyrir auðvaldspjakkana.
... að stöðugt fjölmennari og frískari eldri borgarar rísi nú upp og krefjist réttar síns. (því miður fylgja of margir þeirra vitlausum flokkum að málum).
... að að því komi að röddin meini mér frekari iðkun sönglistar.
... að gjörningurinn fari fram, stórslysalaust og framhald á slíku verði tekið til skynsamlegrar yfirvegunar.
... að ég fari að sjá útlitslegan ávinning af heilsueflingunni.
... að nýr tölvubúnaður efli mig til að takast á við samantektina um Laugarás þannig að mér takist að ljúka henni fyrir sjötugsafmælið mitt.
... að það komi einhver til að aðstoða mig við að setja tölvubúnaðinn upp, með öllu sem honum fylgir. Það er nefnilega nokkuð síðan ég hætti að nenna að reyna að fylgjast með þeirri tækniþróun sem þar er stöðugt að eiga sér stað.
... að Covid hafi ekki valdið neinum varanlegum skaða á mér - hvorki líkama né sál.

Svo mörg voru nú þau orð, þessu sinni - sennileg ekki bara mörg, hendur einnig nokkuð óskiljanleg.

16 apríl, 2022

Stefnufesta?


Það kom til umræðu í lokuðum hópi þar sem ekki einusinni facebook gat hlerað, hvernig stæði á því að Hveratúnssystkinunum hefði haldist á mökum sínum. Þetta er sannkallað rannsóknarefni, ef einhver skyldi nú treysta sér til að leggja í verkefnið. Það fór ekki hjá því, að sett yrði fram tilgáta um ástæður þessa; aðeins ein tilgáta: Ástæðan er stefnufestan sem þessum systkinum er í blóð borin og hefur fylgt fólki í fjölskyldu þeirra svo lengi sem elstu menn muna og á líklega rætur sínar uppi í Jökuldalsheiði fyrir meira en öld síðan og mögulega enn aftar. Skúli bóndi í Hveratúni hafnaði því ávallt, að hann gæti talist þrjóskur, en viðurkenndi fúslega að hann væri stefnufastur, sem er auðvitað allt annað fyrirbæri.

Tilefni þessa er það, að á þessum degi fyrir 45 árum, gengum við frú Dröfn í heilagt hjónaband í Skálholtsdómkirkju og létum um leið ausa frumburðinn vatni. Þessar athafnir framkvæmdi sr. Guðmundur Óli Ólafsson. Elsta barn fumburðarins var síðan fermt fyrir tveim dögum. Svona heldur þetta líf áfram.

Ég held að það megi varla milli sjá, hvort okkar fD er stefnufastara, en um það má deila. Aðalatriðið er, að niðurstaðan verði ásættanleg, í stórum dráttum.  Ekki svo að skilja að þar sé einhver framsóknarmennska á ferð, heldur einhverskonar aðlögun að aðstæðum hverju sinni. 

Þakklátur er ég fyrir þessa áratugi og hvernig til hefur tekist með börn og barnabörn, afrakstur þessara áratuga, en það er einmitt það sem skiptir máli almennt og á öllum tímum, að vel takist til með uppeldi þeirra sem á eftir koma. Við búum við það sem kallað hefur verið barnalán.

Takk fyrir áratugina fD, það eru ekki nema 5 ár í gullbrúðkaupið. 😉

----------------------------------

Hér gefur að líta ofannefnd Hveratúnssýstkin með mökum sínum, fyrir þrem árum, eða svo: 


English summary - as requested:

You may wonder about the reasons why me and my four sibling have all managed to be married to the same spouses all our married lives. The most viable hypothesis is, that it has to do with genes inherited from our father's side of the Hveratún family. He always admitted, readily, that he was "purposeful" but never "stubborn".

The reason for the blogpost is, that 45 years ago, today, me and my wife, Dröfn, got married at Skálholt cathedral and our firstborn Egill Árni was christened. 

We are both purposeful and it is anyones's guess, which of us is more purposeful. 

I am grateful for our time together and our four children have turned out to be solid individuals for us to be proud of.

That's more or less it.Blóðugt verkefni

  Gærdagurinn hefði getað orðið dýr.  Ég tók að mér ljósmyndatengt verkefni við Laugarvatn, en þar gullsprettu um 300 manns í kringum Laugar...