04 júlí, 2024

Jósefína Friðriksdóttir - minning


Við Jósefína kenndum saman í Reykholtsskóla við upphaf 9. áratugarins, þegar ég var að stíga fyrstu skref mín sem kennari og það gekk allavega hjá mér. Hún var rúmum 10 árum eldri en ég og orðinn reynslubolti á þeim starfsvettvangi sem kennslan er. Árin síðan þá eru nú orðin ansi mörg og margt hefur gerst í millitíðinni. 
Það bar ekki skugga á samstarf okkar í Reykholti, utan einu sinni og sá skuggi var stór og hefur einhvernveginn fylgt mér alveg síðan. Ég stóð þá frammi fyrir siðferðilegri klemmu, sem var þannig að báðir kostir voru slæmir. Kosturinn sem ég valdi hafði áhrif á samband okkar starfsfélaganna, þó svo ekkert hefði Jósefína sjálf gert á minn hlut. Ég viðurkenni það fúslega, að lengi síðan hef ég verið hálf miður mín vegna þess sem þarna varð til að varpa skugga á ágætt samstarf.  Ef ég, hinsvegar, stæði aftur frammi fyrir svipaðri klemmu, á ég síður von á að kæmist að annarri niðurstöðu.
Jósefina og fjölskylda hennar fluttu á Selfoss, eftir dvöl sína í Laugarási og öll tengsl við hana rofnuðu. Það var svo ekki fyrr en við Dröfn fluttum á Selfoss fyrir fjórum árum að Jósefína varð aftur á vegi okkar, þá búin að missa bæði son sinn og eiginmann. Hún hafði þá, meðal annars, tekið virkan þátt í fornsagnalesturshópi félags eldri borgara og fyrir dyrum stóð mikil ferð á Vestfirði, eftir að hópurinn hafð þrælað sér í gegnum Gísla sögu (held ég). Þá hafði Jósefína, að fyrra bragði samband til að athuga hvort við vildum ekki slást í hópinn, sem við þáðum, að sjálfsögðu. Það varð reyndar ekkert úr ferðinni vegna dálítillar veiru sem setti ýmislegt úr skorðum.  
Svo urðum við Jósefína samnemendur í fornlestrarhópnum og aldrei fann ég fyrir kala af hennar hálfu í minn garð. Viðmót hennar til mín var alltaf hlýtt og fyrir það er ég þakklátur. 
Ég get ekki látið hjá líða að nefna það, að stjórnmálaskoðanir Jósefínu höfðuðu sannarlega til mín og hún gat verið ansi beitt á stundum, en ávallt réttsýn.
Genginn er ágætur samferðamaður.

Jósefína lést þann 25. júní, og útför hennar er gerð frá Fossvogskirkju í dag.

27 júní, 2024

Laugarás: Æ, ég veit ekki....

Heilsugæslustöðin í Laugarási
virðist ekki að hruni komin.
Nú hefur forstjóri HSU skrifað annan pistil á vefinn island.is, til að upplýsa okkur um að heilsugæslan verði flutt að Flúðum næsta vor. Forstjórinn var búinn að þessu og lítil ástæða til að endurtaka það sem þegar hefur verið sagt. Vissulega bætir hann við skrifin ágripi af sögu heilsugæslu í uppsveitum. Þar ýjar hann að því, að þegar Skúli Árnason, fyrsti læknir héraðsins, lét af störfum og það þurfti að finna nýjan stað fyrir læknissetur, að ekki hafi það gengið hnökralaust fyrir sig. Það gekk hreint ekki hnökralaust fyrir sig.  
Hér er reiknað með því, að menn hafi séð fyrir sér, að í uppsveitum yrðu tvö læknishéruð, annað vestan Hvítár og þá líklegast með læknissetri í Grímsnesi og hitt austan árinnar, mögulega með aðsetri í Hrunamannahreppi. (af laugaras.is)

Það var þarna uppi ágreiningur, sem var leystur með því að kaupa jörðina Laugarás í Biskupstungum. Draumurinn um að fá sitt læknissetur, eða heilsugæslu, hefur lifað allar götur síðan austan Hvítár og það lítur út fyrir að hann fái nú að rætast - hver veit?

Forstjórinn fer í framhaldinu í það að reyna að klóra yfir blekkingarnar sem beitt var sem megin rökum fyrir þessum flutningi. Þarna finnst mér mikil lágkúra vera borin fram. Svo heldur hann áfram:

Í ljósi þessa var því mikilvægt að leggja mat á það hvort núverandi staðsetning heilsugæslunnar væri hentug til framtíðar eða hvort vænlegra væri að færa heilsugæsluna í þéttari byggðarkjarna og á sama tíma efla þjónustuna við íbúa uppsveita Suðurlands.

Í ljósi hvers - að það var svo dýrt að gera við húsið í Þorlákshöfn!?  Þá þurfti að meta hvort vænlegra væri að flytja heilsugæslustöðina í Laugarási í "þéttari" byggðakjarna?  Mér er fyrirmunað að skilja þessa röksemdafærslu og þegar forstjórinn klikkir svo út með því að segja: "og á sama tíma efla þjónustuna við íbúa uppsveita Suðurlands"  tekur steininn úr, að mínu mati, að sjálfsögðu. Hvernig ætlar forstjórinn að efla heilsugæslu í uppsveitum með þessu? Á kannski bara að vera svona lítil, "kósý" stöð á Flúðum fyrir Hreppamenn, en aðrir á svæðinu fái að njóta fádæma góðrar þjónustunnar á Selfossi? 

 Ekki meira um pistil forstjórans.

Fyrir þau ykkar sem þetta kunna að lesa, en vita kannski ekki alveg hvernig landið liggur í uppsveitum Árnessýslu, læt ég hér fylgja kort af uppsveitunum sem sýnir leiðirnar sem liggja frá byggðakjörnum í uppsveitunum, í heilsugæsluna í Laugarási.  Vegalengdir frá Laugarvatni, Flúðum og Árnesi, í Laugarás, eru um 25 km. Til annarra byggðakjarna er hún styttri.


Svo læt ég fylgja sama kort, en nú með þeim leiðum sem íbúar í uppsveitum þyrftu að fara frá byggðakjörnum í fyrirhugaða heilsugæslu á Flúðum.


Hér er mynd sem sýnir íbúafjölda í byggðakjörnum í uppsveitunum:



Hér er kort sem sýnir sveitarfélagamörk í uppsveitum.


Grímsnes- og Grafningshreppur á sneið innan Bláskógabyggðar, sem hefur því miður annan lit.

 

Hér er súlurit sem tilgreinir íbúafjölda í sveitarfélögunum 4 þann 1. jan., 2024, en þessar upplýsingar er að finna á vef Hagstofunnar.


Loks er hér súlurit sem tilgreinir íbúafjölda í Hrunamannahreppi, annarsvegar og hinna þriggja sveitarfélaganna hinsvegar.



Mér finnst upplýsingarnar hér fyrir ofan sýna fram á það, að það er enginn faglegur grunnur fyrir því að flytja heilsgæslu frá Laugarási á Flúðir, en það dregur sjálfsagt hver sína ályktun af þeim.

Ég viðurkenni, að ég nenni ekki að fara í meiri spurningaleik við forstjórann, enda mun hann ekki svara mér þannig, að ég sannfærist um að faglega hafi verið staðið að þessu máli. Í mínum huga er það ljóst að það var makkað um þetta bakvið tjöldin og síðan tínd til einhver rök, sem engu vatni virðast halda.

Ég ætla ekki að fara að eyða frekari tíma í þetta mál, en mun auðvitað fylgjast grannt með, hvort fyrirsvarsmenn í uppsveitum, sem lýsa sig andvíga þessum flutningi, ætla að láta þetta ganga yfir, án þess að leita færra leiða til að láta fara fram mat á þeirri málsmeðferð sem hér er um að ræða.

Góða helgi.

(Ég er fæddur og uppalinn í Laugarási og bjó þar síðan í um 40 ár. Nú bý ég á Selfossi. Undanfarin 12 ár hef ég unnið að vefnum um Laugarás: https://www.laugaras.is/ )

Það nýjasta sem ég hef skrifað um þennan fyrirhugaða flutning Heilsugæslunnar er: 

Laugarás: Fagmennska, eða annað  

14. júní, 2024

7. janúar, 2024





14 júní, 2024

Laugarás: Fagmennska, eða annað.


Þann 13. júní birtist á island.is island.is  tilkynning frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands þar sem greint er frá því á vorið 2025 verði heilsugæslan fyrir uppsveitir Árnessýslu, flutt frá Laugarási að Flúðum. 
Hér er  mynd sem sýnir  hvar Laugarás er og hvar Flúðir er að finna. 


Hér fyrir neðan birti ég einstaka hluta þessarar tilkynningar, og við þá geri ég mínar athugasemdir og varpa fram spurningum. 

Tilkynningin hefst á þessu:
Í ljósi stöðugrar uppbyggingar og fjölgunar íbúa í uppsveitum Suðurlands hefur Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) ákveðið að flytja starfsemi heilsugæslunnar í nýtt og nútímalegt húsnæði á svæðinu.

Hvaða nútímalega húsnæði er þarna um að ræða? Er það hannað og byggt með þarfir heilsugæslu í huga?  Er það nýtt, í ljósi þessarar athugasemdar sem birtist á Facebook:   "En kofinn á Flúðum er eldgamalt hús sem á að breyta í heilsugæslu og hentar engan veginn til starfans. Texti um að þetta þjóni sérstaklega nútíma kröfum er þvílík endemis lygi að ég hef varla séð annað eins haft eftir opinberum aðila." (Ólafur Ragnarsson).  

Um ástand húsnæðis heilsugæslunnar í Laugarási er eftirfarandi einnig á finna í athugasemdum á Facebook: "Hins vegar er það fásinna að kenna 25 ára gömlu, sérhönnuðu húsnæði um. Eina sem hægt er að benda á er kannski uppsöfnuð viðhaldsþörf ef eitthvað er." (Jónas Yngvi Ásgrímsson)

Ég skal alveg viðurkenna, að fjölgun íbúa í Laugarási hefur látið á sér standa og að þar skortir ýmsa þjónustu aðra en heilsugæsluna, en það er sérstakt mál, sem ég mun fjalla um, eina ferðina enn, í lokin

Í janúar síðastliðnum auglýsti FSRE eftir húsnæði til að hýsa heilsugæslu HSU í uppsveitum Suðurlands. 
Hvað kallaði á þessa auglýsingu? Hver átti frumkvæðið að því að þörf var talin á henni?  Svör við þessum spurningum skipta ansi miklu máli fyrir umræðuna. Er frumkvæðið komið frá ráðuneytinu, stjórn HSU, eða Hrunamannahreppi? Sem sagt: Hvernig þessi umræða fór af stað? 
Þrjú tilboð bárust og eftir ítarlegt mat á tilboðunum var ákveðið að ganga til samninga við Hrunamannahrepp um að leigja húsnæði undir heilsugæslu HSU á Flúðum. 

Hver var munurinn á þessum tilboðum? Hvað fólu þau í sér?  Hvernig fór þetta "ítarlega" mat fram,  hvaða aðilar stóðu að því og hverjar voru forsendurnar sem gengið var út frá?  Hvaða þættir voru það sem réðu úrslitum? 

Nýja húsnæðið býður upp á fjölmarga ávinninga fyrir samfélagið. Það er ekki aðeins fjárhagslega hagkvæmara en núverandi húsnæði, heldur verður það einnig sérhannað til að mæta nútímakröfum heilbrigðisþjónustu. 
Í hverju felast þessir "fjárhagslegu ávinningar"?  Hvaða kröfum um "nútíma heilbrigðisþjónustu" fullnægir 28 ára gamalt hús heilsugæslunnar í Laugarási ekki?

Heilsugæslustöðin í Laugarási, sem var vígð árið 1997 (mynd úr safni Jóns Eiríkssonar) fengin á  laugaras.is  - en þar er að finna mikið af myndum frá vígslunni.

Með betri aðstöðu og þjónustu tryggir HSU að heilbrigðisþjónusta svæðisins sé ávallt í samræmi við þarfir íbúa.
Hvernig er sú niðurstaða fengin, að með flutningi heilsugæslunnar verði tryggara en áður, að þjónustan sé í "samræmi við þarfir íbúanna"?  Þarfir hvaða íbúa er þar um að ræða - einhverra ákveðinna umfram aðra?
Staðsetningin á Flúðum leggur jafnframt grunn að frekari þjónustutækifærum, þar á meðal möguleika á opnun nýs apóteks.
 "Frekari þjónustutækifærum?"  Sá aðili sem rak apótekið í Laugarási gafst upp á rekstrinum Hvað liggur fyrir um að lyfjakeðja sé tilbúin að setja upp apótek á Flúðum?

Flutningurinn mun einnig stuðla að bættu samstarfi við björgunarsveitir og aðra viðbragðsaðila sem eru með aðsetur á Flúðum, sem er mikilvægt fyrir öryggi og velferð íbúa.

Þarna er um fremur fátækleg rök að ræða, auðvitað. Nánast rökleysa og bendir bara til þess, að verið sé að grípa í hálmstrá.  Samkvæmt vef Landsbjargar eru þrjár björgunarsveitir í uppsveitum, aðrar en Björgunarfélagið Eyvindar, en þær eru Björgunarsveit Biskupstungna, sem er í Reykholti, Björgunarsveitin Ingunn á Laugarvatni og Hjálparsveitin Tintron á Borg í Grímsnesi. 
Þetta framfaraskref er liður í stefnu HSU um að tryggja að íbúar í uppsveitum Suðurlands hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu sem mætir þörfum nútímans. 
Það vantar útskýringu á því hvert framfaraskrefið er, fyrir uppsveitir Árnessýslu. Þá á ég við uppsveitirnar sem heild, ekki bara afmarkaðan hluta þeirra. 
Það vantar útskýringu á því hvernig þessi flutningur tryggir betri aðgang íbúa í uppsveitum Árnessýslu.
Það vantar útskýringu á því hverjar "þarfir nútímans" eru, sem verða betur uppfylltar með flutningnum.
Með því að flytja heilsugæsluna á Flúðir er HSU ekki eingöngu að bæta aðstöðu heilbrigðisþjónustunnar, heldur er einnig verið að skapa öflugri grunn fyrir framtíðarþróun heilbrigðisþjónustu HSU í uppsveitum Suðurlands.
Hvernig  mun flutningurinn bæta "aðstöðu heilbrigðisþjónustunnar"?
"Skapa öflugri grunn fyrir framtíðarþróun heilbrigðisþjónustu HSU í uppsveitum Suðurlands."  
Fyrir mér segir þessi röksemd bara nákvæmlega ekki neitt. Er búið að móta einhverja framtíðarþróun að þessu leyti? Hver er hana að finna, ef svo er? Í hverju felst þessi framtíðarþróun? 
Flutningur heilsugæslunnar er fyrirhugaður vorið 2025 og mun nánari tímasetning verða tilkynnt þegar nær dregur.
Díana Óskarsdóttir, forstjóri

Þá er ég búinn að fara í gegnum tilkynningu um þennan flutning, en hann skilur eftir helling af spurningum.  Auðvitað fagna íbúar Hrunamannahrepps því að vera komnir með heilsugæsluna "heim", eins og hefur lengi verið draumurinn. Megi þeir njóta hennar vel og allrar þeirrar þjónustu, sem hún mun njóta góðs af og styrkja.  

Er ef til vill betur heima setið en af stað farið? 
Hver verða jákvæð áhrif þessa á íbúa uppsveitanna, aðra  en íbúa Hrunamannahrepps? 
Ef reyndin verður nú sú, að flutningurinn verði til þess að íbúar uppsveitanna, annarra en íbúa Hrunamannahrepps, muni í vaxandi mæli, eða alveg, telja henta sér betur að sækja læknisþjónustu á Selfoss, er þá heilsugæslan á Selfossi undir það búin?  Ég bý þar og veit að þar er löng bið eftir læknisþjónustu. 
Hvað felst í nútímavæðingunni, sem ætlað er að taka á þeirri framtíðarþróun?
Apótekið, sem er notað sem ein stóru röksemdanna í málinu, hvarf úr Laugarási vegna þess að það var ekki rekstrargrundvöllur. Hvað segir um það í framtíðaráætlunum HSU á nýjum stað?

Með ákvörðum um flutning heilsgæslunnar frá Laugarási að Flúðum er búið að stuðla enn frekar að klofningi í uppsveitum, í stað þess að  þær sameinist. Er það virkilega einhverjum til góðs? 

Ég er búinn að varpa fram, hér að ofan,  mörgum spurningum um þennan fyrirhugaða flutning. Mig grunar, að ef stjórnsýslan sem um hann hefur fjallað, getur ekki sýnt fram á, svo óyggjandi sé, að allt þetta ferli hafi verið faglegt, þannig að það þoli dagsljósið, muni óánægja grassera áfram. Það er talað um spillingu, sem tengist tveim ríkisstjórnarflokkanna, það er talað um pólitísk sambönd, fjölskyldutengsl og jafnvel skiptimynt í samningum um framgang mála innan ríkisstjórnarinnar.  
Það kæmi mér ekki á óvart, að þau orð hafi fallið einhverntíma í þessu ferli að það væri alveg hægt að standa af sér nokkurra daga hvassviðri á samfélagsmiðlum og halda svo bara áfram ótrauð. 
"Þegjum bara, þetta gengur yfir" - sem það gerir því miður ansi oft hér á landi.

---------------------------------------

Hér ofar, sagði ég: "Ég skal alveg viðurkenna, að fjölgun íbúa í Laugarási hefur látið á sér standa og að þar skortir ýmsa þjónustu aðra en heilsugæsluna, en það er sérstakt mál, sem ég mun fjalla um, eina ferðina enn, í lokin. "

Ég er reyndar búinn að fjalla ítrekað um ástæður þess, að Laugarás hefur átt skárri tíma og veit, svei mér ekki, hvort ég ætti að að fara endurtaka mig of míkið um það. Ef einhver hefur ekki lesið skoðanir mínar á því máli (flestir, líklegast) bendi ég til dæmis á  þennan pistil og  þennan .
Biskupstungnahreppur, Bláskógabyggð og Stjórnarnefnd heilsugæslunnar í Laugarási (Oddvitanefndin), hafa, með sinnuleysi, áhugaleysi og beinlínis andstöðu við uppbyggingu í Laugarási, skapað þá stöðu sem nú er uppi.

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Þar er svo.
-----------------------------------------

Bakgrunnsefni:
Á vefnum laugaras.is er ítarleg umfjöllun um Laugaráslæknishérað og heilsugæsluna í Laugarási. Hér eru hlekkir á brot af því:




Uppfært 16. júní:
Ég hef nú sent erindi á heilbrigðisráðherra, þingmenn kjördæmisins og formann og varaformann velferðarnefndar Alþingis, með hlekk á þennan pistil.

21 maí, 2024

Hver ákvað að útrýma manninum?


Mig langar á fá svar við því, hvar, nákvæmlega, ákvörðunin um að setja málkerfi íslenskunnar í uppnám, í ríkisútvarpinu. Um þetta hljóta að vera til skrifleg gögn, því svona ákvörðun er ekki tekin hjá opinberri stofnun, nema fyrir því liggi formlegt samþykki þar til bærra stofnana, þar á meðal Alþingis. 
Ekki trúi ég því að einstakir fréttamenn hafi bara tekið þetta upp hjá sjálfum sér. Erfitt á ég með að sjá fyrir mér að hópur fréttamanna og dagskrárgerðarmanna, hafi bara tekið sig saman um að búa til einhverskonar kynhlutlaust mál á fjölmiðli sem er fjármagnaður að stórum hluta með afnotagjöldum. 

Ríkisútvarpinu ber að standa vörð um íslenska tungu. Splundrun á málkerfi tungumálsins er því augljóslega í mikilli andstöðu við þá skyldu stofnunarinnar.

Hver(jir) tók(u) ákvörðun um kynhlutleysið?  Þetta er einföld spurning, sem mér finnst að aldrei hafi verið svarað.  
Hvernig var staðið að þessari ákvörðun? Það hlýtur að hafa fylgt skriflegur rökstuðningur. Hver var hann?
Hvernig var henni framfylgt?  Var fréttamönnum og dagskrárgerðarfólki kennt að aðlaga kynhlutleysið íslenskri málfræði, til dæmis? 

Var þessi ákvörðun ef til vill bara tekin í hita leiksins, þegar metoo tímabilið stóð sem hæst, án þess að hugsa út í afleiðingarnar?

Það þori ég að fullyrða, að mál sem komast ekki á hálfkvisti við það sem hér er um að ræða, hafa þurft að veltast á milli álitsgjafa og inni í stjórnkerfinu, mánuðum eða árum saman. Þarna var gundvallaratriðum íslensks máls breytt, nánast með einu pennastriki, að því er virðist.
Var þessi ákvörðun tekin vegna ótta við einhver öfl, eða þrýstings af einhverju tagi?


20 maí, 2024

Valgerður Jónsdóttir (1805-1874)

Mér var sagt það fyrir nokkrum árum, að einni konu hefði tekist það að verða bæði amma afa míns, Magnúsar Jónssonar (1887-1965) og langamma ömmu minnar, Sigríðar Ingibjargar Björnsdóttur (1893-1968).  Síðan þá hefur mér all oft orðið hugsað til þessarar formóður minnar og það leiddi til þess að ég fór að afla mér upplýsinga um hvernig þessu var háttað.  Nú er ég búinn að fá af þessu allgóða mynd; nógu góða til að láta staðar numið.  Hér fyrir neðan eru niðurstöður mínar.


Valgerður Jónsdóttir (1805-1874)

Valgerður fæddist árið 1805 á Kirkjubóli í Skorrastaðarsókn í Norðfirði. Foreldrar hennar voru Jón Vilhjálmsson (1783-1835) og Valgerður Sveinsdóttir (1761 - ).

Á Kirkjubóli var Valgerður síðan sín uppvaxtarár, eða til ársins 1826 þegar hún var orðin 21s árs, en þá varð hún ófrísk eftir Magnús Guðmundsson, sem þá var vinnumaður á Kirkjubóli. Hún virðist þá hafa farið í vist að Bakka í sömu sveit. Þar eignaðist hún soninn Jón Magnússon (f. 24. júní, 1827). Hún staldraði stutt við á Bakka. Ekki hef ég fundið upplýsingar um þennan son hennar, en hann var aldrei skráður með henni og hann er ekki að finna í Íslendingabók.

Árið 1828 var hún skráð að Reykjum í Fjarðarsókn í Mjóafirði. Mér hefur ekki tekist að finna út hve lengi hún var þar, en 1832 er hún komin að Skógum í Fjarðarsókn og þar eignaðist hún soninn Jón Pétursson (20.maí).  Faðir hans var Pétur  Þorleifsson (f 1811) en hann hafði verið niðursetningur í æsku. Þetta annað barn Valgerðar fylgdi henni síðan þar til hún settist að  í Reykjum í Mjóafirði. Þá var hann skráður niðursetningur á Brekku í sama firði. Þar var hann enn í sömu stöðu 1845, en 1850 var hann orðinn vinnumaður í Vestdal í Dvergasteinssókn.  

 Þann 28. desember 1835 er skráð í kirkjubók Fjarðarsóknar í Mjóafirði, fæðing stúlku, sem hlaut nafnið Guðríður Halldórsdóttir. Móðirin var Valgerður. Hún lýsti föður barnsins Halldór Pálsson (1782-1855) í Innra Firði. „Þetta var hennar 3. frillulífsbrot“ segir skráningu prests. Stúlkuna er ekki að finna í Íslendingabók, en hún virðist hafa dáið 31. janúar 1837, (ungbarn frá Reykjum „af langvinnum sjúkdómi“).

 Árið sem dóttir hennar fæddist, 1835, fór Valgerður (28 ára) úr Firði (Fjarðarseli) í Skálanes, við mynni Seyðisfjarðar, með son sinn Jón Pétursson (3). Þar var hún í rúmt ár og árið 1837 var hún komin í Dvergastein við norðanverðan Seyðisfjörð og þar var þá vinnumaður að nafni Jónas Magnússon (24)  og svo að Selstöðum, þar skammt frá og eignaðist þar soninn Jónas Valgerðarson Hansson, þann 20 desember, 1837.  Valgerður lýsti Jónas Magnússon, föður barnsins, en hann mun hafa svarið barnið af sér.  (Í Íslendingabók segir svo: Í prestþjónustubók segir að lýstur faðir hafi verið Jónas Magnússon vinnumaður á Hofi í Mjóafirði, en hann þverneitaði og virðist jafnvel hafa svarið barnið af sér ef rétt er ráðið í máð letur.)   Tveim árum eftir fæðingu Jónasar yngri, árið 1839, er fjallað um það að Valgerður hafi lýst Jónas Magnússon föður barnsins, en að hann hafni því og þar við sat. (http://domabaekur.manntal.is/Fletta/25/444/130223).

Á þessu ári, 1839, eignuðust Valgerður og Magnús Magnússon (1808-1866) sitt fyrsta barn saman: Guðrúnu (25. sept. 1839).    

Valgerður giftist, þann 11. október, 1840 Magnúsi Magnússyni (1808-1866) og eignaðist með honum 7 börn og þar á meðal eitt, sem talsvert kemur við þessa sögu. Magnús fæddist á Bárðarstöðum í Klyppstaðasókn í Loðmundarfirði. Faðir hans varð bráðkvaddur nokkrum mánuðum fyrir fæðingu hans og hann fór með móður sinni í Árnastaði í sömu sveit. Hvernig leið hans lá síðan á fund Valgerðar, liggur hreint ekki ljóst fyrir, en systir hans, Ljósbjörg, sem var einhleyp alla ævi, birtist mér aftur og aftur þegar ég leitað Valgerðar í kirkjubókum. Því má gera ráð fyrir að kynni þeirra Magnúsar og Valgerðar hafi orðið í gegnum hana.

Valgerður og Magnús eignuðust 7 börn sem náðu fullorðinsárum:

Guðrún Magnúsdóttir 25. sept. 1839 - 5. júní 1927

Sigurður Magnússon 1840 - 31. jan. 1865
Sigríður Magnúsdóttir 4. feb. 1842 - 25. maí 1888
Svanhildur Magnúsdóttir 31. ágúst 1844 - 27. apríl 1915
Kristín Magnúsdóttir 28. sept. 1846 - 23. maí 1904
Ljósbjörg Magnúsdóttir 8. jan. 1848 - 5. jan. 1941
Hákon Magnússon 25. maí 1853 - 4. sept. 1874

Næstyngsta barn þeirra Valgerðar og Magnúsar, Ljósbjörg, er langamma mín. Síðasta barnið sem Valgerður eignaðist fyrir hjónaband, Jónas, er langalangafi minn.  
____________________________

Við leit mína að upplýsingum um formóður mína, sýnist mér að hún hafi verið búin að eignar 4 börn áður en Jónas, langalangafi minn fæddist, en mér hefur bara tekist að finna þau þrjú sem ég hef nefnt.

Hér til hliðar mun standa:
Var vísað á hrepp sinn hefur átt 4 börn í lausaleik hennar synir

 




14 apríl, 2024

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

 

Framhald af þessu
Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan. Þarna voru þau í ókunnum bæ, seint um kvöld og ætluðu að leggja til atlögu við hugsanlega glæpamenn. Var þarna um að ræða fólk sem hafði verið þjálfað sérstaklega til að fara í töskur hjá fólki, á einhverri þjálfunarstöð stórglæpamanna, sem síðan hirtu stóran hlut afrakstursins? Voru þjófarnir bara lítil peð, sem þurftu að vinna fyrir sér, en nutu verndar vopnaðra mafíósa? Var þetta kerfi skipulagt með svipuðum hætti að það sem sólgleraugna- og töskusölufólkið vinnur eftir á sólaströndum? Voru hin tápmiklu tólf þarna að láta draga sig inn á stórhættulegar slóðir neðanjarðarstarfsemi, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum?

Það var margt sem fór í gegnum hugann þarna, og misjafnt eftir aldri. Sjálfsagt nutu þau elstu í hópnum þess að hafa þróað með sér talsverða yfirvegun þegar kom að svona málum. Um þau yngstu hríslaðist alveg ný tegund að spennu, sem nánast mátti jafna á við ofbeldisfyllstu tölvuleiki.  Þau nutu þess að vera þarna í hópi sér eldri sérfræðinga á ýmsum sviðum, þar með sérþjálfuðu rakningarfólki, sem gat auðveldlega fylgst með hve langt var í símann á hverjum tíma. 

Við ofangreindar aðstæður hófst leitin að síma og skilríkjum fD við nokkuð skuggalegar aðstæður. Fremstur í flokki fór rakningarmaðurinn, Egill, með síma á lofti, sem sýndi nákvæma staðsetningu merkisins frá símanum, sem enn var á sama stað og áður en hópurinn tókst á við flóttaherbergin. Í kjölfar hans komu síðan jafnaldrar hans og tveim skrefum á eftir þeim, þau yngstu í hópnum. Lestina ráku síðan þau elstu, ekki vegna þess að ótti þeirra við aðstæðurnar væri mestur, heldur einfaldlega til að tryggja að enginn í hópnum yrði viðskila við hin.  Svona lagði hópurinn af stað út í óvissuna um skuggaleg strætin.

Hin tápmiklu 12 unnu þarna út frá tveim mögulegum "sviðsmyndum": Annarsvegar, að þjófarnir hefðu einfaldlega hent símanum og skilríkunum frá sér, þegar í ljós kom að þeir hefðu engin not fyrir þau. Hinsvegar að þeir væru komnir til baka í greni sitt með ránsfeng kvöldins, dimmt subbulegt greni í bakhúsi, þar sem sátu nú með vopnuðum verndurunum og deildu með sér afrakstrinum. Sannarlega var það von hópsins, að hið fyrra væri raunin. Hið síðara myndi óhjákvæmilega kalla á að hringt yrði eftir aðstoð lögreglu. Nokkrir símar voru í viðbragðsstöðu ef til þess kæmi.

Það þarf líklega ekki að fjölyrða frekar um þær aðstæður sem þarna voru og því verður það ekki gert. Tápmikill hópurinn hélt af stað í áttina að merkinu sem síminn gaf. Það leið ekki á löngu áður en rakningarmaðurinn rétti upp vinstri handlegginn (hinn hélt á símanum) svona eins og maður sér í bíómyndum: "Stans/Halt! Þetta er inni í þessari götu!" og benti inn í drungalega göngugötu til vinstri. Rétt í því missti hann merkið frá síma fD og því var ekki um að ræða annað en halda inn götuna og leita.

Fljótlega kom hópurinn auga á ruslatunnu sem stóð í vinstri götukantinum og það varð úr að byrja leitina þar. Ruslatunnur í skuggalegum götum geta verið varasamar og því var farið að öllu með gát, tunnan opnuð og þar, ofan á plastpokum fullum af rusli, lágu kortin þrjú sem stolið hafði verið. Þetta olli því að nokkur fagnaðarbylgja fór um hópinn, sem þarna vann fyrsta sigurinn í þeirri umfangsmiklu leit sem stóð yfir.

Tunnan, eftir að Kvisthyltingar höfðu
leitað af sér allan grun í henni. (Mynd Ásta Hulda)



Kortin lágu efst í ruslatunnunni. 
Kortin sem um var að ræða voru, debetkort, ökuskírteini og 
félagskort í Félagi eldri borgara á Selfossi.


Fundur kortanna var vissulega fagnaðarefni, en enn bólaði ekkert á merki frá síma fD og því dreifði hópurinn sér um alla götuna og leitaði í lággróðrinum og raunar á öllum þeim stöðum þar sem mögulegt var að síminn gæti verið. Á þessu gekk talsverða stund.  Þá gerðist það skyndilega, að merki frá símanum birtist aftur og þar með þrengdist hringurinn enn frekar. Rakningarmaðurinn  gat sent merki í hann, þannig að hann gæfi frá sér hljóð. Leitin varð enn æsilegri við þetta og loks heyrist hrópið:  "Hann er þarna undir!". Það var Álaborgarkonan, Ásta, sem þarna hafði beitt fullkominni heyrn til að staðsetja símann nákvæmlega, beygði sig snarlega niður og hvarf inn í runna, hægra megin við stíginn og kom svo þaðan út, sigri hrósandi með símann í hendinni.

Þarna hafði verið unnið mikið afrek. Hin tápmiklu 12 höfðu þarna leyst af hendi, með glæsibrag, ekki bara þrautina sem fólst í að bjarga sér út lokuðum herbergjum, heldur einnig að finna síma og kort í ókunnum bæ einhversstaðar langt suður í Atlantshafi.

Örin bendir á staðinn þar sem síminn fannst.(Mynd Ásta Hulda)

Hin stoltu tápmiklu 12 að afloknu vel unnu verki. (mynd Ásta Hulda og PMS)

Mikil og erfið leitin kallaði eðlilega á hungur ungviðisins í hópnum, og í alsælu sinn ákvað fD að bjóða hópnum á tiltekinn, sérvalinn skyndibitastað í nágrenninu (splæsa, sem sagt).  Myndirnar sem hér fylgja segja það sem segja þarf um það.   En fyrst þessi mynd:


Farið yfir ferlið.Takið eftir að þarna er bakpokinn geymdur þannig,
að hann er óaðgengilegur þjófum og ræningjum

Svo var farið á matsölustaðinn



Hér lýkur þessari frásögn af afreki hinna tápmiklu 12.  



13 apríl, 2024

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (fyrri hluti)

Það voru 12 tápmiklir Kvisthyltingar, sem héldu fótgangandi, síðla kvölds á vit ævintýris á sólareyjunni Tenerife. Gönguferðin hófst við dvalarstaðinn, Parque Cristobal og ferðinni var heitið um 2,5 km. leið að svokölluðum flóttaherbergjum, þar sem ætlunin var að láta reyna á hæfileika hópsins til að bjarga sér úr lokuðum herbergjum.  Enginn efaðist svo sem um, að hæfileikarnir væru fyrir hendi og því var hópurinn talsvert vonglaður þar sem hann þrammaði á þennan áfangastað, aðeins mishratt, enda fólkið á ýmsum aldri. Þau yngstu og jafnframt áköfustu, leiddu hópinn, en þau sem voru orðin  talsvert eldri og þroskaðri, ráku lestina, sannarlega ekki vegna slakara líkamlegs ástands, heldur fyrst og fremst til að tryggja að hópurinn kæmist allur þangað sem ferðinni var heitið.  
Þar sem leiðin lá eftir göngugötu, breiðri og nokkuð vel upplýstri, háttaði svo til að annað þeirra sem lestina ráku, fD, varð tímabundið síðust, og segir ekki af því fyrr en hún birtist við hlið þeirra sem næst aftastir voru, í talsverðu uppnámi: "Þær tóku símann og kortin!". Hún laug sannarlega engu um það. Síminn hennar og þau kort sem geymd voru í hulstrinu utan um hann, voru horfin. Hún hafði komið þeim fyrir í litla bakpokanum sínum áður en gangan hófst og taldi verðmæti vel geymd við þær aðstæður, en pokanum hafði hún komið fyrir á bakinu, lokuðum með rennilás, rétt eins og gert er með bakpoka.
Við upprifjun á því hvernig þetta fífldjarfa rán hafði gengið fyrir sig, kvaðst hún hafa gengið þarna á sínum hraða, þegar hún fann að einhver rakst á hana og þegar hún snéri sér við til að kanna hvað þar væri um að ræða, sá hún tvær vel klæddar konur ganga rösklega í öfuga átt. Þessu næst hafði hún ákveðið að athuga bakpokann, sem reyndist opinn og sími og kort horfin.

Það var við þessar aðstæður sem hin tápmiklu 12 tóku til sinna ráða. Fyrsta skrefið fólst í því að hringt var í neyðarþjónustu bankans, til að láta loka kortinu, sem gekk nokkuð hnökralaust. Því næst réðst símasérfræðingur hópsins í það, að leita uppi símann, með aðferðum sem sá sem þetta ritar kann ekki að greina frá að svo stöddu, og viti menn síminn fannst og merkið um hann virtist benda til að hann væri ekki á hreyfingu. Símanum var umsvifalaust lokað, svo ekki yrði nú hægt að brjótast inn í hann. Eigandinn hafði mestar áhyggjur af því að tapa öllum myndunum sem síminn geymdi, en síðar kom í ljós, að hann er þannig stilltur, að allar myndir á honum vistast sjálfkrafa upp í skýið, svo ekki myndu þær vara glataðar.

Þegar hér var komið styttist í úthlutaðan tíma í flóttaherberginu, en hann hafði verið pantaður kl 21.30. Þar sem Kvisthyltingar eru ekki aðeins tápmiklir, heldur einnig yfirvegaðir í allri nálgun sinni að vandamálum, ákváðu þeir að standast þá tímasetningu. Urðu ásáttir um, að ef síminn fyndist ekki eftir að ævintýrinu í herberginu lyki, þá væri það bara svo, þar sem þetta var nú bara sími.

Nú, það var ekkert með það, hin tápmiklu tólf deildu sér að sitthvort flóttaherbergið. Sex tókust á við Sherlock Holmes herbergið en hin sex skelltu sér í Magic School herbergið. Það var misjafnt, hve mikið hugur fólksins var við að leysa þessar gátur og það veit ég að fD var að mestu með hugann við þá ömurlegu tilfinningu, að hafa verið rænd og lái henni hver sem vill. Ekki gerði sá sem þetta ritar, heldur mikið gagn, þar sem hópurinn leysti þrautir hvers herbergisins á fætur öðru og tókst á rúmum klukkutíma, að komast aftur út í frelsið, til þess að láta taka af sér myndir þær sem hér fylgja.



Svo tók alvaran við. Hin tápmiklu tólf yfirgáfu ævintýraheiminn, þar sem þau höfðu hitað upp hæfileikann til að leita vísbendinga og draga ályktanir af þeim. Þau voru þarna tilbúin til að hefja leitina að þjófunum og ná úr krumlum þeirra símanum og kortunum þrem, ökuskírteini, greiðslukorti og félagskorti í Félagi eldri borgara á Selfossi. Greiðslukortinu hafð verið lokað, en hin tvö hvort öðru mikilvægari og því forgangsatriði að ná þeim til baka úr skúmaskoti, einhversstaðar þarna utan ævintýraheimsins.  

Þar sem hópurinn stóð fyrir utan húsnæðið sem geymdi flóttaherbergin, var skotið á örstuttum fundi, þar sem leitin sem lagðar voru línurnar fyrir leitina að glæpamönnunum og síðan héldu hin tápmiklu tólf á vit þessa nýja ævintýris um skuggalegar götur bæjarins með aðstoð rakningartækni.

Svo kemur framhaldið fljótlega ....  FRAMHALD




Jósefína Friðriksdóttir - minning

Við Jósefína kenndum saman í Reykholtsskóla við upphaf 9. áratugarins, þegar ég var að stíga fyrstu skref mín sem kennari og það gekk allave...