22 september, 2018

Bragi á Vatnsleysu

"Tvær úr Tungunum" 2013
Hann sat í blíðunni á stól fyrir framan útidyrnar á Vatnsleysu þegar ég renndi úr hlaði. Var svo sem þessi sami gamli Bragi og hann hafði alltaf verið, en til viðbótar mátti greina yfirbragð þess sem tekið hafði ákvörðun sem hann var sáttur við. "Þetta er orðið gott", sagði hann. "Kva..ég er búinn að lifa í rúmlega áttatíu ár!"  Hann leit yfir Vatnsleysuhlaðið, arfleifðina, og naut veðurblíðunnar. Æðruleysi, gæti maður líklega sagt.

Halla og hann höfðu þá setið með mér drjúga stund við upprifjun á 62 ára gamalli sögu, sögu sem hafði breytt lífi þeirra til frambúðar. Sögunni um það þegar Halla hafði fyrst séð hann á Vatnsleysuballi sumarið 1955 og síðan beðið hann um eld á Vatnsleysuballi sumarið eftir. Eldurinn sem þá var kveiktur logaði síðan í ríflega 60 ár er nú orðinn að minningum um gleði og sorgir og allt þar á milli.

Á æfingu fyrir lokatónleika undir stjórn Hilmars, í september 2008


Ég fór eiginlega ekkert að kynnast Braga að ráði fyrr en ég ákvað að ganga í Skálholtskórinn fyrir einhverjum tugum ára. Þá var mér komið fyrir við hlið þeirra bræðra frá Vatnsleysu, Sigga á Heiði og Braga.
Svo var farið að æfa.
Það var þetta lag eða þessi sálmur eða þetta verk sem farið var í undir styrkri stjórn Glúms Gylfasonar. Það brást varla að það gall í öðrum hvorum bróðurnum: "Við kunnum þetta!" eða  "Það þarf ekkert að æfa þetta!". Þarna tjáðu sig þrautreyndir tenórarnir sem höfðu þarna sungið í þessum kór í vel á þriðja áratug. Ég kunni náttúrurlega ekkert, en það var óendalega þægilegt að hafa svona reynda og örugga tenóra sér við hlið og smátt og smátt síaðist þetta inn.

"Röddin hefur dökknað og þú ættir sennilega betur heima í bassanum". Efnislega þurfti Bragi að heyra þetta um sjálfan sig á afdrifaríkum fundi fyrir óskaplega mörgum árum.
Svona segir maður bara ekki við tenór!
Þar með hætti hann í kórnum og kórinn sprakk reyndar í frumeindir, ef svo má að orði komast, en það liðu ekkert óskaplega mörg ár áður en hann mætti aftur galvaskur, inn í endurreistan kór, á tenórbekkinn, talaði reyndar um það á nánast hverri æfingu, að nú ætti hann að fara að hætta, en það dróst eitthvað á langinn, enda eindreginn vilji kórfélaganna að hann yrði hluti af þessum hópi sem lengst, ekki bara vegna þess hve öflugur söngvari hann var, heldur ekki síður vegna þess hve góður félagi.  Í lítillæti sínu tók hann oftar en ekki til sín aðfinnslur kórstjórans, sem ávallt beindust í raun að öðrum röddum frekar.

Á leið inn í Bláa hellinn /Grotta Azurra á Caprí, 2007
Bragi var sem sagt í Skálholtskórnum allt þar til fyrir nokkrum árum. Það voru veikindi sem tóku þá ákvörðun fyrir hann. Ávallt kom hann þó á tónleika til að styðja sitt fólk, hrósaði og gerði að gamni sínu.  Ekki veit ég um neinn sem var duglegri að sækja tónlistarviðburði. Hann söng ekki í Skálholtskórnum bara vegna félagsskaparins. Hann sótti í tónlistina, ekki síður til að njóta en taka þátt.

Ég tel það hafa verið forréttindi að hafa fengið að alast upp við hlið Braga í Skálholtskórnum. Hann var tenór fram að síðasta andardrætti.

Bragi lést þann 12. september og útför hans er gerð í dag, frá Skálholti.

Tenórar Skálholtskórsins (ásamt öðrum röddum) takast á við verk eftir Gunnar Þórðarson og  Arvo Pärt í Gethsemane Kirche 2009


Gethsemane Kirche í Berlín 2009

20 september, 2018

Að efna í aldarminningu (6)

Þar var komið sögu í síðasta hluta þessarar aldarminningar um föður minn, Skúla Magnússon, að þau Guðný Pálsdóttir frá Baugsstöðum, verðandi eiginkona hans, höfðu fest kaup að garðyrkjubýli í Laugarási, sem kallaðist Lemmingsland. Þarna höfðu dönsk hjón Börge og Ketty Lemming byggt upp litla garðyrkjustöð, og bjuggu þar frá 1941-1945 (svona um það bil).  Það er sérlega gaman að segja frá því að mér hefur nú tekist að komast í samband við afkomendur þeirra Börge og Ketty, sem þekkja til sögu þeirra á Íslandi og bíð nú spenntur eftir svörum þeirra við spurningum mínum um þessi ágætu hjón. 

Þann 30. maí, 1946 gengu þau Skúli og Guðný í hjónaband eins og lög gera ráð fyrir, enda vart við hæfi að hefja búskap ógift.

Hveratún 1968, séð til norðurs. Lengst t.h. gróðurhúsin þrjú 
og gamla íbúðarhúsið, sem Skúli og Guðný keyptu. 
Fremst fyrir miðju er íbúðarhúsið sem tilheyrði Grósku.
Það sem þau keyptu þarna voru þrjú gróðurhús, ca. 100 m² hvert og 60m²  íbúðarhús með engu eldhúsi. Fólk myndi víst ekki lifa lengi á svona garðyrkjustöð nú.  Það má telja fullvíst, að fyrst eftir að þau komu í Laugarás, hafi þau fengið inni í íbúðarhúsinu í Grósku (Grózku)(síðar Sólveigarstaðir). Á þessum tíma var Skaftfellingur að nafni Guðmundur, sem hafði átt Grósku (sem þá hét óþekktu nafni) í tvö ár, búinn að selja Náttúrulækningafélagi Íslands býlið. Þá voru þarna 4 gróðurhús, alls 600m² og íbúðarhús.
Eina ástæða þess að fyrir liggja upplýsingar um að nýju Laugarásbúarnir hafi búið í Grósku er sú, að þar fæddist elsta barn þeirra, Elín Ásta í júní 1947. Það má með góðri samvisku gera ráð fyrir því, að ekki hafi frú Guðný gert sér að góðu að búa í eldhúslausu húsi og þannig hafi það komið til að þau bjuggu til að byrja með í Grósku.
Magnús Jónsson

Svo var eldhúsið klárt  og flutt inn. Framundan 45 ára búskapur Skúla og Guðnýjar með öllu sem slíku fylgir, þar með 5 börnum á 12 árum. Það hefur nú varla þótt neitt merkilegt á tímum barnasprengjunnar sem varð í hinum vestræna heimi á þessum árum.
Elín Ásta, sem áður hefur verið nefnd, fæddist 1947, tveim árum síðar, 1949,  bættist við önnur dóttir Sigrún Ingibjörg, þá liðu þrjú ár (enda þurfti að vanda sig) þar til fyrsti sonurinn kom í heiminn, í lok árs 1953, en það var Páll Magnús. Fjórða barnið og annar sonurinn, Benedikt mætti á svæðið rúmum tveim árum síðar, 1956. Þegar þarna var komið var nú vísast farið að minnka plássið í litla 60 m² húsinu, ekki síst vegna þess að frá 1950 hafði faðir Skúla, Magnús Jónsson, sem áður hefur verið fjallað um, búið hjá þeim í Hveratúni. Þar fyrir utan voru oftar en ekki vinnukonur, aðallega á sumrin. Í raun skortir mig hugmyndaflug til að segja til um hvernig þeim var komið fyrir.

Gamli bærinn í Hveratúni. Teikning eftir minni.
Hér til hliðar er gróf teikning af húsinu sem Guðný og Skúli bjuggu í með börnum og afa frá 1947-1961.  Á teikningunni eru ýmsir fyrirvarar, m.a. um hlutföll, en herbergjaaskipanin er nokkuð skýr. Gera má ráð fyrir að systkini mín kunni að hafa sínar skoðanir á þessu og reynist þær réttari en þarna má sjá, verður auðvitað tekið tillit til þess.
Á teikningunni eru húshlutarnir merktir með tölum:
1. Anddyri og gangur.
2. Búr og löngu síðar framköllunarkompa.
3. Stofa, en sennilega síðar svefnherbergi.
4. Geymsla og þvottahús. Þarna lá stigi upp á loft.
5. Snyrting
6. Eldhús. Þegar Skúli og Guðný komu var íbúðarhúsið sambyggt gróðurhúsi og þarna var gengið á milli húsanna.
7. Herbergi Magnúsar og borðstofa
8. Fjölskylduherbergi síðar stofa.
9. Hænsnakofi. Ekki er alveg ljóst hvenær hann var byggður en það var eftir að Skúli og Guðný komu á svæðið.

Það var orðið þröngt á fjölskyldunni þegar þriðji sonurinn, fimmta barnið, Magnús, kom í heiminn í september, 1959. Það var því ekki annað í stöðunni en að fara að byggja. 

Fjölskyldan í Hveratúni 1960.
Myndina tók Matthías Frímannsson en hann starfaði þá sem "eftirlitskennari"  í barnaheimili RKÍ, Krossinum.


Árið 1961 tók við enn einn áfanginn á leið Skúla í gegnum lífið, en um hann verður fjallað í síðasta hluta, sem birtast mun áður en langt um líður, ef að líkum lætur.
12 september, 2018

Fyrir litlu greyin

Það haustar, eina ferðina enn. Orðið napurt á stundum þó veðrið undanfarna daga hafa verið harla gott á þann mælikvarða sem settur er á liðið sumar. 
Mér finnst ágætt að gera stundum annað en afla gagna, vinna myndir, skrifa texta eða vinna í vef, en þetta hefur nú verið meginstarf mitt undanfarnma mánuði og á því er ekkert lát sjáanlegt á næstu mánuðum.
Þegar ég geri eitthvað annað, þá reyni ég að láta það ekki vera af því tagi sem veldur mér leiðindum. Vissulega kemst ég ekki alltaf hjá því að sinna slíku, en þannig verður það bara að vera.

Eftir að vorið tók við af síðasta vetri og vetrargestirnir hurfu smátt og smátt af pallinum með ungunum sínum, hóf ég að velta fyrir mér hvernig framhaldið gæti orðið. Þegar ég fer að velta einhverju fyrir mér, þá má slá því nokkuð föstu að það fyrsta sem mér dettur í hug verður ekki niðurstaðan. Það má líka slá því nokkuð föstu, að þegar fD segir að ég skuli bara gera svona, og svona og svo svona, þá verður ekkert úr því. 
Ég kýs að láta hugmyndir mínar gerjast nokkuð lengi, og ég þarf að vera búinn að hugsa allt til enda áður en ég læt til skarar skríða.  Þessi háttur minn á ekki upp á pallborðið hjá fD, sem telur einna helst að skortur minn á framkvæmdasemi stafi af einberri leti, sem auðvitað er raunin.  Sá tími sem notaður er til að hugsa áður en maður framkvæmir, verður seint ofmetinn. 

Það kom sá tími fyrir nokkru að ég var búinn að hugsa alla leið, hvernig ég hygðist búa að fuglum himinsins á pallinum í Kvistholti á komandi vetri. Grunnurinn sem hann verður byggður á, á sér þá sögu að hafa verið trégrindin utan um gasgrillið sem við ákváðum að keyra í ruslagám í Reykholti. Í okkar huga er gasgrill ekki í tísku lengur, en lítið kolagrill uppfyllir allar okkar þarfir í grillmálum í staðinn. 

Grindin utan af gasgrillinu var sem sagt grunnurinn, sem síðan var hugsað í kringum og inn í  og nú er fyrsti þáttur í fóðurpallssmíðinni klár. Ungir helgargestir þær Júlía og Emilía Egilsdætur sáu um listskreytingu, sem án efa mun falla ræflunum litlu vel í geð. Götin á bakhliðinni ákvað ég að setja í þrennu augnamiði: 1. Til að fuglarnir setjist þar og skoði kræsingarnar áður en þeim eru gerð skil, 2. til að fuglarnir rammi sjálfa sig inn fyrir mig og EOS-inn, og 3. til að búa til nokkurskonar vindbrjót, þó auðvitað sé ekki þörf á slíku í Laugarási.

Það stendur enn yfir hugsanaferli sem lýtur að því hvernig þak verður sett á pallinn. Ég þykist viss um að því ferli lýkur farsællega, enda vel til vandað hugsunarinnar.

10 september, 2018

Að efna í aldarminningu (5)

Þar sem síðasta hluta lauk var komið að heilmikilum þáttaskilum í lífi Skúla. Benedikt Blöndal, fóstri hans hafði undirbúið að senda hann í Garðyrkjuskólann í Hveragerði, en jafnframt lá fyrir að til þess að fá inngöngu þar þyrfti Skúli að starfa í eitt á ár garðyrkjustöð. Benedikt hafði hugmyndir um að byggja upp garðyrkju á Hallormsstað og þarna var á heimilinu ungur maður á krossgötum sem myndi geta aðstoðað við að koma þeim áætlunum í framkvæmd.

Eins og segir í lok síðasta hluta, varð Benedikt hinsvegar úti í janúar 1939. Þetta breytti þó ekki fyrirætlunum um að Skúli færi suður til starfa á garðyrkjustöð Stefáns Árnasonar og Áslaugar Ólafsdóttur á Syðri-Reykjum. Það má reikna með því að frú Sigrún Blöndal hafi ekki tekið annað í mál en að af þessu yrði þrátt fyrir áfallið og forsendubreytinguna sem varð við brotthvarf Benedikts.


Áður en lengra er haldið, er rétt að greina frá því, að ekki hefur mér tekist enn, á fá það staðfest hvar Skúli ól manninn veturinn 1938-9. Það liggur fyrir að hann lauk gagnfræðaprófi frá MA vorið 1938, en fór ekki suður fyrr en síðla árs 1939. Þetta skiptir svo sem ekki máli nema vegna þess að Guðný Pálsdóttir, sem áður er nefnd og á eftir að koma meira við sögu, var nemandi í Hallormsstaðaskóla frá hausti 1937 til vors 1939. Hafi kynni þeirra Skúla og hennar ekki verið meiri en augngotur á þeim tveim árum sem þarna er um að ræða, er fremur ólíklegt að Skúli hafi dvalið á Hallormsstað veturinn 1938-9. Hann er þó skráður þar til heimilis í sóknarmannatali þennan vetur.  Hitt er rétt að hafa í huga, að það er vel þekkt úr framhaldsskólum, að fólk sem er jafnvel í sama bekk í fjögur ár nær ekki saman fyrr en eftir að skólagöngunni lýkur. Ég hyggst freista þess að komast að þessu og fjalla um það, þegar líður að aldarminningu eftir tvö ár.

Suður á bóginn
En, áfram með Skúla.
Þegar rúmir þrír mánuðir voru liðnir frá því síðari heimsstyrjöldin hófst með innrás Hitlers í Pólland, kom Skúli suður. Það var hinn 6. desember, 1939.  Hann var 21 árs gamall þegar hann kom að Torfastöðum í Biskupstungum til þeirra frú Sigurlaugar Erlendsdóttur og sr. Eiríks Þ. Stefánssonar.  Þetta liggur fyrir, þar sem hann ákvað að skrá dagbók um þá nýju lífsreynslu sem þarna beið hans.
Einhver kann að spyrja hversvegna Skúli fékk fyrst inni á Torfastöðum í tæpa tvo mánuði áður en hann kom að Syðri-Reykjum. Líklegast hefur Stefán ekki haft þörf á vinnufólki fyrr en um mánaðamótin janúar febrúar og svo hitt að ekki er ólíklegt að frú Sigrún hafi viljað sjá til þess að hann færi í nokkurskonar aðlögun hér sunnanlands áður en hann hæfi störf. Torfastaðir voru auðvitað hentugur staður, því þar bjó vinkona frú Sigrúnar, frú Sigurlaug. Þær höfðu verið samtíða í  Kvennaskólanum kringum aldamótirn og haldið tengslum síðan.


Dvölin á Torfastöðum reyndist Skúla bara ljúf. Hann greinir frá því í dagbókinni að það hafi ekki verið fyrr en mánuði eftir að hann kom þangað að hann þurfti að vinna eitthvað að ráði. Þá var baðað fé frá Torfastöðum, Miklaholti og Torfastaðakoti.  Á  sama tíma og Skúli dvaldi á Torfastöðum var Jón Sveinsson frá Miklaholti þar vinnumaður og þeir bardúsuðu ýmislegt saman, m.a. fóru þeir á skauta í Hrosshagavík. "Tungnamenn virðast engan áhuga hafa á skautaíþróttinni og er leitt til þess að vita", skráði hann í dagbókina af þessu tilefni.
Skúli á Syðri Reykjum
Annars tók Skúli bar þátt í því sem fyrir bar á Torfastöðum þann tíma sem hann var þar og væri of langt mál að fara að tína það allt til. Hann gekk í stúkuna Bláfell og hann mun hafa átt að læra á orgel  hjá frú Sigurlaugu, en aldrei heyrðist hann fjalla um það nám sitt og aldrei sýndi hann  takta sem bentu til að hann hafi lært á hljóðfæri. Þarna hefur líkast til verið um að ræða tilraun fóstru hans til að smita hann af menningu.

Að Syðri-Reykjum
Þann 27. janúar er þessi færsla í dagbókinni:
"Ég kvaddi hér á Torfastöðum og lagði af stað til Syðri Reykja fyrir fullt og allt. Upp frá þessu mun ég eiga við (meina) Syðri-Reyki þegar ég  segi "heima" hér í þessari dagbók minni.
Við Olav prikluðum úr nokkrum kössum, sáðum í þrjá kassa tómötum og blönduðum mold og áburði".
Um hálfum mánuði síðar var Olav Sanden allur. Hann varð úti milli Syðri-Reykja og Efstadals í miklu óveðri. Skúli fjallaði ítarlega um þetta hörmulega mál í dagbókinni og samantekt á þeirri frásögn er að finna hér.  Má nærri geta að þetta hafði áhrif á hann ekki síður en annað heimilisfólk á Syðri-Reykjum. Þarna var rétt um ár síðan Skúli hafði misst fóstra sinn með sama hætti.

Skúli og Stefán Árnason (mynd frá S-Reykjum)
Eftir þessa harkalegu byrjun í starfsþjálfuninni á Syðri-Reykjum tók við hreint ágætur tími í lífi Skúla. Hann segir svo frá honum í viðtali sem Geirþrúður Sighvatsdóttir átti við hann í Litla Bergþór 2003:
Dvölin á Syðri-Reykjum var góður skóli. Þar var þá önnur stærsta garðyrkjustöð á landinu á eftir Garðyrkjuskólanum og var stunduð fjölbreytt ræktun. Þar vann fjöldi manns, meðal annarra mjög færir ræktunarmenn, danskir, hollenskir, norskir og sænskir, auk margra Tungnamanna, sem unnu ýmis störf og við uppbyggingu mannvirkja, því alltaf var verið að byggja og stækka. Unnu þarna milli 15 og 20 manns þegar mest var. Allt var mjög skipulagt og þegar ég byrjaði að vinna, man ég að við vorum sérstaklega áminntir um stundvísi. En svo gekk allt mjög ljúfmannlega fyrir sig enda Stefán og Áslaug alveg einstakir húsbændur. Stefán sá til þess að ég og annar strákur, sem höfðum mikinn áhuga á blómarækt, fengum sérstaka kennslu hjá hollenska garðyrkjufræðingnum. Og eftir árs dvöl þarna þóttist ég bara vera orðinn nokkuð menntaður maður og fór ekki á garðyrkjuskólann.
Skúli og Ólafur Stefánsson (mynd frá S-Reykjum)
Tíminn á S-Reykjum var einhver allra besti tími sem ég hef upplifað, bæði skemmtilegur og lærdómsríkur vegna þess fjölmennis, sem þar var og þarna kynntist ég fjölda Tungnamanna, sem varð til þess að ég fór að sækja mannfagnaði og fundi og falla inn í umhverfið. Ég átti gott með að kynnast þeim, því þá var ekki síminn, tölvur eða sjónvarp, og maður var manns gaman. Þá var líka allt handrukkað og forsvarsmenn yfirvalda, eins og Þorsteinn á Vatnsleysu, Einar í Holtakotum og Skúli í Tungu komu a. m. k. einu sinni á ári að rukka verkafólkið um tryggingar, skatta og þess háttar
Með samstarfsfólki á S-Reykjum. Skúli þriðji f.v.
(Mynd frá S-Reykjum)
Benedikt Blöndal hafði haft  fyrirætlanir um að Skúli skyldi vera á Syðri-Reykjum í eitt ár, en færi eftir það í Garðyrkjuskólann í Hveragerði. Að því búnu skyldi hann koma aftur austur á Hérað til að byggja upp garðyrkjustöð á Hallormsstað. Líklegast hefur Skúli haft þetta í hyggju þegar hann kom suður, en að Benedikt gengnum virðist þrýstingurinn á að svona skyldi þetta verða hafa minnkað.  Þarna var frú Sigrún komin um sextugt og mögulegt að Skúli hafi ekki endilega séð fyrir sér framtíðina fyrir austan.  Frú Sigrún lést síðan í nóvember 1944.
Önnur ástæða fyrir því að ekkert varð úr, má síðan segja að hafi verið augngotur yfir borð á Hallormsstað nokkrum árum áður.  Það liggur fyrir að Skúli og Guðný voru farin að hittast á árunum 1941-2 og það þróaðist svona eins og gengur og kemur allvel fram í bréfum sem þau skildu eftir sig og sem ekki verður farið í að fjalla um hér.  Það var síðan fyrir tilstuðlan Skúla að Guðný fékk vinnu á Syðri-Reykjum haustið 1945. Í aðdraganda þess segir Skúli í bréfi frá september 1945:
Stefán talaði við mig á mánudaginn og tjáði mér þau vandræði sín að Sigríður hefði alveg neitað sér, og spurði mig hvort líkur væru til að ég gæti eitthvað bætt hag hans og aukið kvennaliðið. Sagði ég honum þá að ef til vill myndir þú  geta verið hjá honum í vetur, ef hann gæti þá sagt ákveðið um það fljótlega, hvort hann vildi þig eða ekki. Af eðlilegum viðskiptaástæðum gaf ég honum bendingu um að þér væri þetta ekki neitt sérstakt áhugamál. Hann spurði hvenær þú mundir geta komið, en það vissi ég ekki. 
Með samstarfskonum (Mynd frá S-Reykjum)
Í framhaldinu var svo frá málum gengið, að Guðný kæmi að Syðri Reykjkum og skyldi vera þar Áslaugu til aðstoðar.
Þennan vetur fór að vatna undir Skúla og Guðnýju á Syðri Reykjum og þráin eftir því að verða örlagavaldar í eigin lífi fór vaxandi. Dæmi um þessar pælingar þeirra er eftirskrift í bréfi Guðnýjar frá janúarlokum 1946, en þá var hún stödd í Reykjavík:

ps. Ég ætla að lofa þér að heyra hérna auglýsingu úr Mogganum í morgun:  Garðyrkjustöð í nágrenni Reykjavíkur óskar eftir garðyrkjumanni eða manni sem gæti tekið að sér rekstur stöðvarinnar. Meðeign gæti komið til mála. Tilboð merkt "Framtíð" leggist inn á afgreiðslu blaðsins fyrir n.k. laugardagskvöld.
Ég hugsaði til þín, annað var það nú ekki.
Þann 2. apríl kemur fram í bréfi Skúla:
Mikið sé ég eftir því nú, að hafa ekki fest mér Laugarásfyrirtækið um daginn þegar ég talaði við umboðsmanninn. Það var nú svona, ég vildi athuga minn gang, en ekki flana allt blindandi. Ég hringdi til Steindórs (umboðsmannsins) þegar ég kom að Torfastöðum frá þér, í þeim tilgangi að biðja hann um að fresta sölunni um stundarsakir. Þá stóð þannig á, að aðrir voru búnir að fresta henni á meðan þeir athuguðu málið, og bað hann mig því að gera sér aðvart síðari hluta vikunnar. Þetta gerði ég með þvi að senda Elís Péturss. á hann um síðustu helgi. Þá var nú kallinn [......] og ekki auðtalað við hann, en samt fékk Elli það frá honum, að ekki væri full útkljáð með söluna ennþá.
.... 
Ég hef talað við Stefán bónda um þetta ráðabrugg mitt. Hann sagði að það væri leitt að missa mig einkum um þennan tíma, en siðferðilega gæti hann ekkert við því sagt fyrst svona stæði á. 
Um þetta segir Skúli í áðurnefndu viðtali í Litla Bergþór:
Árið 1945 frétti ég af lausri lóð hér í Laugarási sem var til sölu. Lemmingsland var það kallað, en danskur maður, sem Lemming hét hafði verið þar með garðyrkju. Þessa lóð keypti ég og það voru skrítin kaup. Ég þurfti ekki að borga krónu, heldur fékk bunka af víxlum, sem voru svo að falla allan ársins hring. Það var Steindór Gunnlaugsson, bróðir Skúla í Tungu, sem hafði milligöngu um kaupin og hann skrifaði uppá hjá mér. Svo var framlengt og borgað inná, þar til tókst að borga upp. Þetta var strembið, þótt 45.000,- þætti ekki stór upphæð í dag. En þetta var árið 1945 og þá var þetta þó nokkur upphæð

Þannig fór það, að Skúli og Guðný keyptu Lemmingsland, sem svo hlaut nafnið Hveratún, að tillögu sr. Eiríks á Torfastöðum.

Framhaldið bíður þangað til næst.


08 september, 2018

Fé og fjárrekar

Í gær var dagurinn þegar fjallalömb Tungnamanna lögðu að baki síðasta spottann á leið sinni ofan af afréttinum niður í Tungnaréttir, þar sem eigendurnir vitja þess í dag.  Yfir þessu öllu er einhver töfraljómi sem maður smitast örlítið af, en hefur bara hreint ekkert með að gera. Þarna rann féð niður eins og fljót sem ekki verður stöðvað, hópurinn í heild sinni næstum ógnvænlegur, á sama tíma og hver einstaklingur er sakleysið uppmálað.

 Mér kom það lítillega á óvart að það skyldu ekki sjást neitt fólk með  mótmælaskilti við Tungufljótsbrúna í gær. Það hefði allt eins mátt búast við því í ljósi þess hve áberandi framganga kjötneysluandstæðinga er orðin. Ef til vill leggja þeir ekki enn í að keyra langt úr fyrir höfuðborgarsvæðið til að berjast fyrir málstað sínum.  Þarna hefði maður getað búist vvið að sjá hópa fólks með skilti. Ég gæti tínt til fjölmargt sem á svona skiltum gæti staðið, t.d.:
Strjúktu - meðan enn er tími.
Endirinn nálgast.
Ekki fara undir hnífinn.
Láttu ekki blekkja þig.
Komdu til mín, ég skal passa þig.
Ekki treysta lambrekunum.
Aldrei aftur lambakjöt.

Nú er ég kominn aðeins úr leið og reyni að finna aftur sporin sem ég fetaði mig eftir þegar ég lagði af stað. Með öðrum orðum: Það er best að hætta þessari vitleysu áður en hún fer út yfir einhver mörk.

Í gær var dagurinn þegar við fD ákváðum að njóta eftir föngum þess árvissa viðburðar þegar féð kemur af fjalli í aðdraganda eins mesta hátíðisdags ársins hjá því fólki sem byggir afkomu sína að mestu eða allavega að einhverju leyti á sauðfjárrækt, börnum þeirra og barnabörnum og fjölskyldum öllum.
Ég skil vel þá gleði sem þarna er um að ræða. Þetta er dagurinn þegar í ljós kemur hvernig uppskeran er, svona rétt eins og þegar garðyrkjubóndinn gengur um kálgarðinn sinn til að skoða hvort hvernig blómkálshausarnir koma undan sumri.
Svo er alltaf spurt: "Hvernig kemur svo fé af fjalli?" Þá er svarað: "Það virðist nú vera nokkru vænna en í fyrra". Hryggir eru þuklaðir, undir áhyggjufullu jarmi mæðra og afkvæma sem hafa misst sjónar hvert á öðru í atganginum öllum.
Já, þetta er hápunktur ársins sjá sauðfjárbændum og full ástæða til að óska þeim til hamingju með daginn.

Okkur fD var orðið kalt. Höfðum meðtekið upplýsingar um stað og tíma, sem reyndust úr úr öllu korti. Föttuðum auðvitað ekki að fylgjast með beinum útsendingum fjallmanna og þeirra sem "fóru á móti safninu".  Hefðum við gert það, hefði ekki beðið okkar þriggja klukkutíma bið eftir að fyrsta fjallalambið skokkaði örþreytt yfir Tungufljótsbrúna.  Ekki hef ég tölu á þeim fjölda skipta sem það hvarflaði að mér að láta gott heita og fara bara heim. Það var helst að leyndur áhugi og spenna fD hafi komið í veg fyrir að þessar pælingar mínar kæmust í framkvæmd.  Einhversstaðar á Einiholtsmelum ákvað ég stað sem hentugur gæti verið til myndatöku. Þar ákvað ég einnig að ég skyldi bíða þess sem framundan var, án þess að hvika. fD tók hinsvegar heilsubótargöngu dagsins og var komin langleiðina niður í réttir þegar ég hafði smellt af eins og þurfti.


Við Tungufljótsbrú tók síðan við enn frekari bið, alveg óendanleg bið. Það kom að því að sást til fjallmanna og fjár í fjarska. Þessi sérstaki hópur nálgaðist síðan hægt og ofurrólega, alltof rólega. Það var farið að kólna, en úr þvi sem komið var, varð niðurstaða um að fylgja málinu til enda, svona að mestu leyti.

Loks fór að birtast fjallbarið fólk á reiðskjótum sínum. Það reið með keisaralegri tign yfir Tungufljótsbrúna sem hefur tengt eystri Tunguna við þá vestari í næstum níu áratugi.
Þetta er skemmtileg brú.
Svo fór að sjást æ betur í safnið sem þokaðist stöðugt nær og loks svo nálægt að það byrjaði að feta sig yfir brúna. Sumt skokkandi, annað haltrandi, margt jarmandi, í öllum litum íslensks sauðfjár.
Ég smellti af í hita þessa auknabliks, bara til þess að geta haft úr fleiri myndum að velja þegar heim væri komið.
Þarna rann féð yfir brúna og sú upplifun varð fljótlega eins og flugeldasýning á gamlárskvöld: eftir skamma stund var maður búinn að sjá þetta allt áður. Það sem á eftir kæmi yrði aldrei nema meira af því sama. Þar með héldum við fD heim og elduðum dýrindis blómkálssúpu, sem sannarlega kom hita í kroppinn eftir útivist dagsins.

Við erum ekki í réttum í dag.
Viljum leyfa þeim sem til þess hafa unnið, að njóta þessa hátíðisdags með sínu fólki.
Við ætlum bara að samfagna með okkar hætti.

05 september, 2018

Að efna í aldarminningu (4)

Í síðustu þrem færslum var fjallað um fyrstu sex árin í lífi Skúla Magnússonar og þætti líklega mörgum vel í lagt. Umfjöllunin hefur að mestu verið um foreldra hans, þau Ingibjörgu og Magnús, þar sem þau voru eðlilega gerendur í þeirri atburðarás allri.
Skúli gerði fátt nema vera til og ekki til neinar frásagnir af honum sem einstaklingi á þessum tíma. Það verður þó að gera ráð fyrir, svona miðað við allt og allt, að ekki hafi hann fæðst inn í þennan heim með silfurskeið í munni. Hann var, eins og sagt er stundum, af alþýðufólki kominn, fólki sem barðist til að eiga í og á sig og börnin sín. Ekki hefur mér heyrst annað en það hafi tekist hjá foreldrunum þó víst hafi það oft verið tæpt.


Þegar skilið var við Freyshólafjölskylduna síðast var Skúli mikið til kominn í fóstur í Mjóanes til þeirra Sigrúnar Pálsdóttur Blöndal og Benedikts Blöndal. Fjölskyldan að öðru leyti var flutt í Víkingsstaði, þar sem hún skóp sér líf svona eins og fólk gerir. Ekki verður frekar fjallað um lífið á Víkingsstöðum hér og nú, enda heimildir af skornum skammti. Hvað síðar verður, verður tíminn að leiða í ljós.

Sigrún Blöndal við skriftir
Það er fjallað um ævi Sigrúnar Blöndal hér og það látið duga. Hún og Benedikt, eiginmaður hennar voru frumkvöðlar í uppeldismálum á Íslandi og eftir að þau höfðu kennt um hríð við Alþýðuskólann á Eiðum ákváðu þau að söðla um og setjast að í Mjóanesi, en Sigrún  hafði þá erft þá jörð.  Þetta var árið 1919. Þar fæddist þeim sonurinn Sigurður árið 1924 og eftir því sem Skúli hefur frá sagt, var hann fenginn í Mjóanes til að vera leikfélagi Sigurðar. Ekkert skal fullyrt um það hér, en Skúli var einum sex árum eldri en Sigurður og ekki alveg ljóst hvernig þeir hafi átt að ná saman sem leikfélagar svona fyrstu árin, en látum það vera.
Sigrún og Benedikt Blöndal
með þeim Sigurði, standandi og Skúla sitjandi.
Við að verða fósturbarn í Mjóanesi breyttist margt í lífi Skúla. Sannarlega hefur það tekið á ungan dreng að yfirgefa fjölskyldu sína og það mátti heyra á Skúla á efri árum að það hafi ávallt blundað með honum eftirsjá, að hafa ekki fengið að alast upp með systkinum sínum á Víkingsstöðum.  Við þessa breytingu hvarf hann úr þeim heimi þar sem lífið snérist um að afla sér og sínum viðurværis með hefðbundnum búskap, yfir í heim uppeldis og menntunar. Þó aldrei hafi hann beinlínis orðað það, frekar en svo margt annað úr uppvexti sínum, var alltaf ljóst að þakklæti hans til fósturforeldranna var ómælt.

Sigurður Blöndal og Skúli Magnússon
Sigurður, Skúli og Doddi/Daddi? 1931.
Mynd frá Sigrúnu Blöndal yngri.
Áfram með smjörið.
Allt þróaðist þetta þannig, að ákveðið var að stofna húsmæðraskóla á Hallormsstað. Hann var byggður á árunum 1929-30 og yfirsmiður var Guðjón Jónsson (Guðjón snikkari), föðurbróðir Skúla.
Skólinn tók til starfa haustið 1930 og Sigrún var ráðin til að stýra honum og fjölskyldan flutti í Hallormsstað og Skúli orðinn 12 ára gamall, en Sigurður átta ára.
Næstu árin hafa vísast farið í skólagöngu og allskyns stúss á stóru heimili. Ekki fjölyrti Skúli um hvernig líf hans þróaðist á þessum árum, utan það að hann upplýsti um hve óskaplega honum hefði leiðst að reyta rjúpur á haustin. Þar með var komin skýringin á því að aldrei voru rjúpur í matinn í Hveratúni.  Hann fjallaði einnig um samskipti sín við sumt af því fólki sem starfaði einnig við og í kringum skólann. Bróðir hans, Haraldur, var vinnumaður á Hallormsstað árið 1937 og má reikna með að hann hafi komið þar að hluta til vegna þess að veturinn 1937-8 var Skúli sendur til náms í Menntaskólanum á Akureyri, en þaðan lauk hann gagnfræðaprófi.
Úr skólaspjaldi MA 1938
Austfirski sveitamaðurinn í þessari merku skólastofnun þurfti auðvitað að gera sig gildandi. Eins og sjá má á meðfylgjandi skólaspjaldi er þarna kominn ungur maður með dálítið töffaralegt yfirbragð. Skúli minntist alloft á dvöl sína í MA  síðustu ár ævinnar, Sigurð Guðmundsson skólameistara og beinið sem hann tók nemendur á. Ítrekaðar fyrirspurnir um hvort hann hefði verið tekinn á beinið einhverntíma, leiddu ekki til neinnar niðurstöðu, nema angurværs glotts, sem túlka mátti á hvaða veg sem var.  Grunur leikur þó á að beinið hafi komið við sögu á þessari skólagöngu.

Skólaspjald Hallormsstaðaskóla 1937-8
Veturinn 1937-38 var 17 ára stúlka úr Flóanum nemandi á Hallormsstað. Þetta var Guðný Pálsdóttir frá Baugsstöðum. Í bréfi til Skúla síðar, segir hún:
Þar sá ég þig fyrst. Ég man ennþá eftir þér þar sem þú sast á móti mér við borðið hjá Guðrúnu Jens. Manst þú eftir því?
Ekki er óvarlegt að áætla að augnagoturnar yfir borðið hjá Guðrúnu Jens hafi orðið kveikjan að því sem síðar varð. Hver veit? Mikil er þá ábyrgð hennar Guðrúnar Jens.

Eftir menntaskóladvölina var kominn tíma til að velta fyrir sér hvað við skyldi taka. Um þetta segir Skúli í viðtali í Litla Bergþór:
Þá var ákveðið að gera úr mér garðyrkjumann. Fóstri minn hafði mikinn áhuga á að nýta orku með heimarafveitu og vildi setja upp garðyrkjustöð, sem hituð yrði upp með rafmagni. Úr því varð aldrei, en það var sótt um skólavist fyrir mig í Garðyrkjuskólanum í Hveragerði. Ég komst þó ekki inn strax, því ákvæði var um að nemendur yrðu að hafa starfað í a.m.k. eitt ár í ylræktarstöð, áður en þeir fengu inngöngu í skólann.
Skúli þurfti að fara í eins árs starfsþjálfun. Þar með hófst flétta sem reynt verður að gera grein fyrir í næsta hluta þessarar pistlaraðar.

Áður en af því varð að Skúli héldi suður, varð fjölskyldan á Hallormsstað fyrir miklu áfalli. Benedikt, fóstri Skúla varð úti í janúar 1939. Frá þessu var svona sagt í Tímanum þann 14. janúar:

Benedikt Blöndal á Hallormsstað varð úti á Þórdalsheiði milli Reyðarfjarðar og Skriðdals, síðastliðinn mánudag. Hann var á heimleið frá Reyðarfirði. Fylgdi maður frá Reyðarfirði honum upp á miðja heiðina, en snéri þar við, því að Benedikt taldi sér ekki þörf á fylgd lengra. Éljaveður var þennan dag og gekk að með dimmviðri, er á kvöldið leið og dróg úr frosti. Menn vissu ógerla um ferðir Benedikts og var hans því eigi leitað strax. Hríð var hinn næsta dag. 
Á miðvikudag var tekið að undrast um Benedikt og leit hafin að honum, en eigi bar hún árangur. Á fimmtudagsmorgun var enn leitað og fannst lík Benedikts þá um morguninn, eigi langt frá bæjum í Skriðdal. Hafði hann grafið sig i fönn og stungið skíðum sínum og stöfum á endann niður í skafl. Var nálægt klukkutíma gangur að Hallbjarnarstöðum frá þeim stað sem Benedikt hafði orðið til á, en 1½—2 klukkutima gangur þangað, sem fylgdarmaðurinn sneri til baka. Lík Benedikts var flutt að Mýrum í Skriðdal, og þaðan heim til Hallormsstaðar í gær. 
Lífið varð nú samt að halda áfram, eftir því sem kostur var.

30 ágúst, 2018

Að efna í aldarminningu (3)

Hér kemur framhald af þessu (1) og þessu (2)

Hér er um að ræða tilraun mína til að útbúa svo rétta lýsingu á æviferli föður míns sem mér er unnt, án þess að fara grafa mig á djúpt kaf í skjalasöfn. 

Þegar síðasta hluta lauk var fjölskyldan sem um ræðir, að flytja frá Rangárlóni í Jökuldalsheiði, að ættaróðalinu Freyshólum í Vallahreppi á Fljótsdalshéraði, en þaðan höfðu þau einmitt flutt vorið 1918. Nú voru börnin orðin fimm í stað tveggja. Alfreð (7), Haraldur (6) (sem hafði reyndar verið tvö síðustu árin á Freyshólum hjá ömmu sinni), Skúli (3), Björg (2) og Sigfríður, ekki orðin eins árs.

Áður en lengra er haldið er rétt að setja hér inn mynd eða kort þar sem sjá má þessa helstu bæi í Vallahreppi sem koma við sögu í framhaldinu, svona fyrir þau ykkar sem ekki eruð staðkunnug á Héraði. Þetta er gert til að freista þess að sjá til þess að ykkur takist að fylgja fléttunni sem birtist í framhaldinu.

Helstu bæirsem við sögu koma í frásögninni.

Hvervegna aftur í Freyshóla?
Um ástæður þessa flutnings vorið 1922 er hægt að setja fram ýmsar tilgátur þó mis auðvelt sé að rökstyðja þær. Hér er ein, sem telja verður bara þó nokkuð vel ígrundaða.

Árið 1922 varð Guðmundur Jónsson 62 ára, en hann var bóndi á Freyshólum og mágur Magnúsar,(kvæntur Sigurbjörgu systur hans).  Sigurbjörg kona hans var allmiklu yngri eða  43ja ára. Son áttu þau, Jón Björgvin sem var 18 ára og því ekki tilbúinn að taka við búi af foreldrum sínum strax. Þá var á bænum móðir Magnúsar og Sigurbjargar, Ljósbjörg sem var þarna komin vel á áttræðisaldur.

Það varð úr, í ljósi aldurs bóndans, og ómegðarinnar hjá Magnúsi og Ingibjörgu, að þau hjónin Guðmundur og Sigurbjörg færu í vinnumennsku að Strönd og Rangárlónshjónin tækju að sér búskapinn í Freyshólum, þar til sonurinn á bænum, Jón Björgvin, væri búinn að ná sér í konu og svona og kominn með nægilegan aldur og þroska  til að til að taka að sér búið. Þannig má segja að um hafi verið að ræða nokkurskonar bráðabirgðaráðstöfun. Hvað síðan tæki við hjá Magnúsi, Ingibjörgu og börnunum var látið bíða síðari tíma.

Á Freyshólum
Á Freyshólum þetta ár, 1922, voru skráð til heimilis, auk fjölskyldunnar, Ljósbjörg (74), móðir Magnúsar og Jón Björgvin (18) sonur Sigurbjargar og Guðmundar, sá sem síðar átti vísast að taka við búinu.
Árið leið og þau komu sér þarna fyrir og búskapurinn væntanlega ekki jafn strembinn og í heiðinni, þó ekki verði það fullyrt.
Árið eftir voru bæði Jón og Ljósbjörg farin af heimilinu. Hann fór í vinnumennsku að Strönd og síðar Ketilsstöðum. Ljósbjörg gerðist húskona á Gunnlaugsstöðum í tvö ár og síðan á Ketilsstöðum í önnur tvö.
Um miðjan október fæddist Magnúsi og Ingibjörgu sjöunda barnið, dóttirin Fanney, en hún lést í desember sama ár.

Ekkert bar til tíðinda á Freyshólum árið 1924, svo vitað sé. Í Mjóanesi fæddist hinsvegar þeim hjónum Sigrúnu og Benedikt Blöndal sonurinn Sigurður, en sá atburður hefur mikil áhrif á framvindu þessarar aldarminningar. Lesendur verða bara að bíða rólegir.

Svo var það í júlí, 1925, að Ingibjörgu og Magnúsi fæddust tvíburar, sem segja má að hafi verið fyrirburar. Þetta voru tvær agnarsmáar stúlkur og voru skírðar Guðfinna og Pálína í höfuðið á uppeldisforeldrum Ingibjargar, Guðfinnu Guðmundsdóttur og Páli Geirmundssyni sem bjuggu á Borgarfirði eystri. Guðfinna lést nokkrum dögum eftir fæðingu.
Pálína var svo smávaxin að faðir hennar gat smeygt giftingarhringnum upp á fótlegginn á henni.

Heyskapurinn spurði ekki um aðstæður fólks og Ingibjörg þurfti að ganga þar til verka eins og annað verkfært fólk. Þá passaði Haraldur systur sína, en hún var geymd í kartöfluméli,  vafin flóneli og ull. Yst voru flöskur með heitu vatni  sem þurfti að passa upp á að kólnuðu ekki. Verklaunin voru vasahnífur þegar farið var í kaupstað um haustið.

Þegar hér var komið höfðu hjónin eignast 9 börn og misst þrjú í eða skömmu eftir fæðingu. Hvort þau voru í raun 10, skal ekki fullyrt hér.
Ekki eignuðust Ingibjörg og Magnús fleiri börn.

Nú líður að því, að lokið verði að rekja sögu Magnúsar og Ingibjargar og fimm barna þeirra, en haldið áfram með þriðja elsta soninn, Skúla. Hvað verður um skráningu á sögu Víkingsstaðaættingja minna síðar, veit ég bara ekki, en hún er harla áhugaverð.

Líkast til var það vorið 1927 að fjölskyldan flutti frá Freyshólum í Víkingsstaði, en sú jörð hafði þá losnað til ábúðar.
Jón Björgvin Guðmundsson (23) systursonur Magnúsar, sem áður er nefndur, flutti þá í Freyshóla ásamt konu sinni Hildi Stefánsdóttur (30), eins ár syni, Stefáni, foreldrum sínum og ömmu, Ljósbjörgu (79)

Sigurður Blöndal situr, Skúli Magnússon hægra megin,
Tryggvi Blöndal (?) sendur bak við Sigurð.
Mynd frá Sigrúnu Blöndal, líklega tekin í lok þriðja
áratugar síðustu aldar.
Í Mjóanes
Í viðtali í Litla Bergþór frá 2003 sagði Skúli: "Á 5. ári fór ég í Mjóanes, til Sigrúnar Pálsdóttur Blöndal og Benedikts Blöndal. Var upphaflega fenginn að láni, sem leikfélagi Sigurðar, sonar þeirra, en ílentist þar og varð fóstursonur þeirra".
Sigurður Blöndal fæddist í nóvember 1924, þegar Skúli var sex ára og því stenst þetta ekki alveg og breytir svo sem engu. Það má ljóst vera, að samgangur milli heimilanna í Mjóanesi og Freyshólum hefur verið mikill, enda bara þrír kílómetrar milli bæjanna og má reikna með að Skúli hafi verið tíður gestur hjá þeim Benedikt og Sigrúnu.
Ef við gefum okkur, að þegar Sigurður var á öðru eða þriðja ári hafi það smám saman þróast svo að Skúli dvaldi æ oftar í Mjóanesi þar til skrefið var tekið til fulls. Sú tilgáta er sett hér fram að það skref hafi verið tekið þegar Freyshólafjölskyldan flutti í Víkingsstaði. Í sóknarmannatali Vallanesóknar 1926 er Skúli skráður til heimilis á Freyshólum, en árið eftir sem fórsturbarn í Mjóanesi. Þar var þá einnig Tryggvi Gunnar Blöndal, hálfbróðir Benedikts, samfeðra, 13 ára gamall.

Svo heldur þessi frásögn áfram næst.


26 ágúst, 2018

Að efna í aldarminningu (2)

Þetta er framhald af: Að efna í aldarminningu (1)

Það er hægt að sjá fjölskylduna fyrir sér, leggja í hann þegar fór að hlýna, líklegast með einhvern bústofn, einn eða tvo hesta til að flytja búslóðina. Konan þunguð og tveir ungir synir.
Fjöllin í fjarska voru enn undir fönn eftir kaldan veturinn. Veðurfarið stefndi samt í eina átt, framundan hlýtt og sólríkt sumar í heiðinni.
Hafi ungu hjónin lagt í hann í grennd við fardaga vorið 1918 var veðrið eins og hér segir, svona um það bil:
2. maí: Öndvegistíð er á Austfjörðum og á Fljótsdalshéraði. — Farið að vinna á túnum. Árgæzka er nú um land alt. Borgfirðingar eystra hafa sleppt fé sínu, og er það sjaldgæft í þeirri snjóasveit, að það sé gert svo snemma.
8. maí: Tún hér í bæ og í grenndinni eru nú orðin græn og tré í görðum sumstaðar tekin að laufgast. Er það óvenju snemma, enda hefir ekki verið eins gott vor i manna minni sem nú.
30. maí:  Á Norður- og Vesturlandi er kvartað um hita og þurrka.
En svo skipti mjög til verri tíðar. Í júní var óhagstæð tíð lengst af. Fremur kalt. Einna verst varð um miðjan mánuð.  
Heimild blogg Trausta Jónssonar, veðurfræðings: Árið 1918 - hvernig var með veðrið eftir að frostunum lauk?


"Á ferðalagi uppi á Möðrudalsöræfum við eyðibýlið Rangalón."
Mynd: Guðmundur R. Jóhannsson, fengin af vef
Héraðsskjalasafns Austurlands.  Tekin upp úr 1960.
Upplýsingar benda til að kofinn sé leifar af
greiðasölu sem tveir ungir menn komu þarna fyrir. Reksturinn
gekk ekki vel og var honum hætt eftir 2 sumur.
Það er ekki gott að segja hvað bærðist í brjósti þeirra Magnúsar og Ingibjargar á leiðinni uppeftir. Voru þau undir það búin að búa þarna um lengri tíma? Hlökkuðu þau til, eða kviðu þau kannski þeirri óvissu sem beið þeirra? Eitt vissu þau fyrir víst: þetta yrði ekki auðvelt líf, jafnvel á þann mælikvarða sem beitt var á lífsgæði fólks á þeim tíma sem hér um ræðir. Þeirra beið þrotlaust strit og áhyggjur af að búa nægilega vel í haginn fyrir veturinn.

Þau komust, eins og nærri má geta, á leiðarenda. Dagleið á hestum er sögð vera 30-50 km og þá er líklega miðað við ríðandi fólk. Það má því reikna með að ferð hafi tekið í það minnsta tvo daga og þá haf þau sennilega gist á Jökuldal, en síðan lagt á heiðina daginn eftir.

Rangárlón sumarið 2012 Mynd: pms
Rangárlón stóð við þjóðbraut  við norðurenda Sænautavatns. Milli bæjarhúsanna og vatnsins lá leið fólks sem ferðaðist milli Austurlands og Norðurlands. Heiðin er í um 500 metra hæð yfir sjávarmál og um 60 km löng.
Þetta býli var byggt 70-80 árum fyrr, svo það má gera ráð fyrir að húsin hafi ekki verið í toppstandi, þó eigendur á hverjum tíma hafi unnið að ýmsum endurbótum og viðbótum, en eins og fram hefur komið áður stöldruðu flestir stutt við.
Í 1. bindi bókaflokksins Sveitir og jarðir í Múlaþingi, sem var gefið út 1974, segir um Rangárlón: 
Rangárlón
Rangárlón er nú í daglegu tali kallað Rangalón, en eldri heimildir vitna með hinu nafninu og er því þess vegna haldið hér.
Býlið byggðist 1844 og voru frumbyggjar Pétur, sonur Sögu-Guðmundar á Bessastöðum og Þorgerður Bjarnadóttir frá Staffelli, systir fyrstu húsfreyjunnar í Sænautaseli. Þau bjuggu á Rangárlóni til dauða Péturs 1851 og Þorgerður áfram til 1873.
Býlið stóð á norðurbakka Sænautavatns, í þjóðleið milli Möðrudals og Skjöldólfsstaða; eldri vegurinn lá milli vatnsins og rústanna; og átti land allt að eystri Möðrudalsfjallgarði.
Í F '18 (fasteignamat 1918) segir m.a. um Rangárlón:
"Túnið er talið 1 hektari (1) , harðlent, lítið ræktað og árlega háð sandfoki, en allt slétt. Hefur gefið af sér 10-12 hestburði (2). Engjar eru grasgefnar og greiðfærar, en mjög langsóttar og engjavegur slæmur. Gefa af sér nálega 200 hestburði, heyið hollt og gott til fóðurs. - Sumarhagar ágætir fyrir allan búpening og sérlega gott undir búsmala(3) . Vetrarbeit ágæt fyrir sauðfé meðan til nær, en landið snjóþungt og skjóllítið, svo útbeit notast yfirleitt illa. Silungsveiði töluverð til búdrýginda."
Ókostir eru m.a. taldir: " Engin mótekja né annað til eldsneyti, fremur hættusamt fyrir sauðfénað vor og haust og fannahætt."Vetrarfóður er talið að þurfi, fyrir kýr 32 hestburði, ær og lömb 1 1/2 og fyrir hross 10 hestburði (4).

Því má bæta við, að engjar voru aðallega í flóum (5) í Háfsvatnsdæld (Lónakílsdal) og er þaðan langur heybandsvegur (6) sem sjá má á korti.
Á Rangárlóni var 1918 þrískipt, alþiljuð þrepbaðstofa (7) með reisifjöl (8)

11x15 álnir (9), skemma búr, eldhús og fjós og 2 fjárhús fyrir 105 kindur.

Fór í eyði 1924.
Rangárlón sumar 2012 Mynd: pms

Orðskýringar: 
1. 1 hektari = 10.000 m²
2. hestburður telst um 100 kg.
3. búsmali eru mjólkandi ær og kýr
4. hey til vetrarfóðurs á Rangárlóni var því mögulega 210 hestburðir sem myndi duga um 6 kúm eða 140 fjár eða 21 hrossi eða einhverri blöndu af þessu. Ef Magnús og Ingibjörg voru til dæmis með 2 kýr og eitt hross, gátu þau fóðrað 90 ær og lömb yfir veturinn.
5. flói er slétt mýrlendi.
6. heybandsvegur er leiðin frá engjum til hlöðu eða heystæðis.
7. þrepbaðstofa - ég mun útskýra hverskonar baðstofu er hér um að ræða þegar ég hef öðlast nægilegan skilning á þessu fyrirbæri.  Baðstofur af þessari gerð voru oftar á smærri býlum og voru einnig kallaðar pallbaðstofur eða bekkbaðstofur.
8. reisifjöl  "Hitt var þó algengast, að langbönd væru negld utan á sperrurnar eftir endilöngu húsinu, þar utan yfir, á langböndin, fjalir upp og niður. Kallað var, að baðstofur, sem á þenna hátt voru viðraðar, væru með reisifjöl eða byggðar undir reisifjöl" – heimild: Einu sinni var I-III. Höfundur: Sæmundur Dúason Útgáfuár: 1966-1971
9. alin, í fleitölu álnir voru 62,7 cm.  Baðstofan á  Rangárlóni hefur því verið um það bil 7 x 9,5 m, eða 67 m².

Spennandi tímar
Þar með hófst fjögurra ára dvöl þeirra Magnúsar og Ingibjargar á Rangárlóni. Hér er ekki ætlunin að fara að reyna að lýsa lífi þeirra þarna, bara gert ráð fyrir að skipst hafi á skin og skúrir og lífið misauðvelt, meira erfitt en auðvelt.
Sumarið 1918 leið og það tók að hausta. Framundan var fæðing þriðja barnsins (fjórða, réttara sagt þar sem hið fyrsta hafði fæðst andvana). Það gat farið allavega, en foreldrarnir fundu til nokkurs öryggis af því að vita af því á í Veturhúsum bjó ljósmóðir á þessum tíma, Anna Magnúsdóttir (1893-1967) frá Hjarðarhaga ásamt manni sínum og tveggja ára syni. Þau höfðu misst dóttur sem fæddist 1917. Í Veturhúsum bjuggu þau til 1921. Þó talað sé um að Anna hafi verið ljósmóðir er ekki víst að hún hafi hlotið verulega menntun sem slík. Ekki liggur fyrir við þessi skrif, hvað þurfti til, á þessum tíma, til að kallast ljósmóðir. Einhvern veginn er það frekar ótrúverðugt að menntuð ljósmóðir setjist að uppi í Jökuldalsheiði.
Það var kalt í veðri í lok september og vetrarkuldar: Kuldinn hélt áfram og þann 26. festi snjó í Reykjavík og ökklasnjór sagður í Mosfellssveit. Skeiðaréttum var frestað vegna tafa við smölun. Fé sagt hafa fennt. (Morgunblaðið), segir í bloggi Trausta Jónssonar.

Í Ísafold 28. september, segir um veðrið: Kuldatíð mikil sí og æ. Snjór niður að sjó um míðja viku. Óefnilegar horfur. 
Í blaðinu Fréttir segir um veðrið þann 30. september: Veðrið er mildara í dag. Hiti víðast hvar á landinu í morgun 2—4 stig og hægviðri, en ekki heiðskírt nema á Ísafirði. 
Ekki kom út blað þann 29. september, enda bar þann dag upp á sunnudag.

Þriðji sonurinn, Skúli
Við verðum að gera ráð fyrir að einhver aðdragandi hafi verið að fæðingunni og að Magnús hafi skotist þessa 8-10 km. leið yfir að Veturhúsum og hafi síðan komið til baka með ljósmóðurina. Heima beið Ingibjörg, farin að fá verki, ásamt sonunum tveim Alfreð (4) og Haraldi (2).  Það eru víst engir til frásagnar um fæðingu sveinsins á Rangárlóni 29. september, 1918 og hér verður ekki reynt að fara út í miklar spekúlasjónir, heldur vísað til margra frásagna um fæðingar á afskekktum stöðum gegnum aldirnar. Um þyngd piltsins eða lengd verður heldur ekki fjölyrt, enda engar skrár til um slíkt. Það sem vitað er, er það, að hann fæddist á þessum tiltekna degi, þetta tiltekna ár og vetur fór í hönd. Ætli við gerum ekki ráð fyrir að einhverntíma þegar vel  viðraði hafi pilturinn, að kristinna manna sið verið skírður. Þar hlaut hann nafnið Skúli, Skúli Magnússon, sem átti eftir að koma sér í hóp elstu manna áður en hann hyrfi aftur til moldar.

Fyrsta dóttirin, Björg
Hvað um það, veturinn leið, vorið kom og sumarið og barn í vændum. Í lok nóvember þetta ár kom næsta barn, Björg, í heiminn, líklega einnig með aðstoð ljósmóðurinnar á Veturhúsum
Næstelsti sonurinn Haraldur var heilsuveill í æsku og dvaldi hjá ömmu sinni, Ljósbjörgu, á Freyshólum, seinni tvö árin sem fjölskyldan bjó í heiðinni. Í það minnsta var hann skráður hjá henni sem "tökubarn" árin 1920 og 1921.

Önnur dóttirin, Sigfríður
Eftir fæðingu Bjargar varð tveggja ára hlé á barneignum á Rangárlóni, nema einhver önnur hafi verið raunin, en eins og flestum má ljóst vera, var hreint ekki víst að þau börn sem fæddust, lifðu af. Allavega fæddist stúlka á Rangárlóni upp úr miðjum september, haustið 1921. Hún hlaut nafnið Sigfríður, en að öllum líkindum var hún ekki skírð fyrr en fjölskyldan flutti aftur niður í byggð, sennilegast vorið 1922. Sigfríðar er allaveg ekki getið í  "mínisterbók" Hofteigsprestakalls, sem Rangárlón tilheyrði.

Sænautasel við sunnanvert Sænautavatn, sumarið 2012: Mynd: pms
Til byggða á ný
Já, sem sagt, flest bendir til, í það minnsta þangað til annað kemur í ljós, að fjölskyldan hafi tekið sig upp og flutt í Freyshóla vorið 1922.  Ekki virðast þau haf séð framtíð sína í Jökuldalsheiði með fimm börn  Alfreð (7), Harald (5) Skúla (3), Björgu (2) og Sigfríði nýfædda.
Ekki hafa fundist upplýsingar um það, hversvegna þau komu aftur í Freyshóla. Hvað hafði breyst þar?  Þess verður freistað að leita svara við því næst.

Samhengi?
Nútímamaðurinn leggur oft mat á liðinn tíma gegnum gleraugu nútímans og á erfitt með að setja sig í spor forfeðranna eða skilja bara yfirleitt hvernig fólk fór að þvi að lifa af við þær aðstæður sem það bjó við.
Bragi Sigurjónsson samdi kvæðið „Við Rangárlón í Jökuldalsheiði", sem varpar nokkru ljósi á líf fóksins sem freistaði þess að eiga sér líf á heiðarbýli eins og Rangárlóni. Ætli megi ekki segja að hann hafi skynjað nokkuð vel ævi þessa fólks og örlög.

Við Rangárlón í Jökuldalsheiði

Septemberdagur. Sumarlok á Fróni. 
Sólbleikur himinn. Lyngrauð heiði Dals. 
Tíbráin dansar, tekur spor í vals, 
tangó og samba yfir Rangárlóni. 

Rústir á bakka. Rofinn vörzlugarður. 
Ríslar þar lind við hruninn fjárhúsvegg, 
Skín þar í rofi á skininn sauðarlegg, 
skýlaus er jarteikn, hver varð bóndans arður. 

Ókunni bróðir, einyrki á heiði, 
ósigur þinn er skráður hér í svörð; 
þú hlauzt að tapa búi, bæ og jörð, 
báti af vatni, kostasilungsveiði. 

Samt fórstu héðan sæmdur hetjumerki, 
sjálfsvirðing þinni hélzt til efsta dags. 
Hjarta þitt trútt og heitt til sólarlags, 
heilsteyptur ættlands son í gæzluverki. 

Nú þykir mest um stundaheill og hagi,

heimslánið best, en fátt um gæzlustörf,
gamalla dyggða gerist engum þörf,
genginna reynsla þung í eftirdragi.

Gullsólgna þjóð við gömul afreksminni, 
gætirðu búið sátt við örlög slík 
að vera fátæk, þegar þú ert rík, 
þú sem varst áður rík í fátækt þinni? 

Septemberaftann. Sumarlok á Fróni.

Sólin er hnigin. Rökkur hylur fjöll.
Döggfallið sporrækt þekur hlíðarhöll.
Himbrimar kveina úti á Rangárlóni.

Bragi Sigurjónsson (Undir Svörtuloftum, 1954)

25 ágúst, 2018

„Sjáið þér rauðálfinn sveinar?“Fyrirsögnin er úr 45. kafla Njálu og mér datt hún í hug í framhaldi af því að ég lét verða af því að ver viðstaddur skírnarathöfn á Laugarvatni í gær.
Ég verð nú að segja að sú breyting sem hefur orðið á þessari athöfn á síðustu árum er til fyrirmyndar. Í stað þess að nýnemar þyrftu að ganga í gegnum ýmsar þrautir fyrstu daga sína í skólanum, þar sem hápunkturinn var svokölluð DAUÐAGANGA frá skólanum niður að vatni, með viðkomu hjá höfði Jónasar frá Hriflu, og það tilbeðið í anda austurlenskra trúarbrgaða: "Alliði Jónas!", er nýnemum nú fylgt af eldri nemum í litklæðum eins og Sigmundur Lambason í Njálu undir dynjandi tónlist.
Það var bros á hverju andliti í gær, greinilega alveg sérstaklega gaman.
Mér fannst hlýlegt að koma þarna aftur, enda á ég nokkra tengingu við skólann.

Svona uppákomu verða ekki gerð skil í texta einum saman, og hann myndi seint ná því sama og ljósmyndir.

Minningar frá fyrstu árum mínum sem kennari við skólann, að ég tali nú ekki um þegar ég þurfti að vera viðstaddur atganginn starfs míns vegna, hverfa mér sennilega aldrei úr minni, þó ég reyni að láta þær hverfa smám saman í eitthvert þeirra hólfa í höfðinu sem geyma það sem gleyma má. Með þessu er ég hreint ekki að gera lítið úr þeirri upplifun nemenda eða þeim aðferðum sem þá tíðkuðust. Þær voru með svipuðum hætti í flestum framhaldsskólum.  Mér fannst þær bara lítillækkandi fyrir samfélag nemenda.

Jæja, það er víst best að fara að slá botninn í þetta áður en ég segi of mikið, en lýsi bara ánægju yfir því hve skólinn og nemendur hans stækka með því að taka með þessum hætti á móti nýju fólki.21 ágúst, 2018

Að efna í aldarminningu (1)

Skúli Magnússon
Þann 29. september, 1918 fæddist í Jökuldalsheiðinni piltur sem hlaut nafnið Skúli og var sonur hjónanna Sigríðar Ingibjargar Björnsdóttur og Magnúsar Jónssonar. 
Sannarlega hefur þessi fæðing, sem átti sér stað í aðdraganda Kötlugoss og loka fyrri heimsstyrjaldar, það í för með sér að á komandi hausti verða liðin hundrað ár frá henni. 
Það er ætlun mín að freista þess að varpa ljósi, eins og kostur er, á æviskeið Skúla föður míns, en hann lést þann 5. ágúst, 2014.
Flest það sem hér birtist á sér stoð í ýmsum gögnum, annað meira í ætt við ályktanir eða jafnvel (ekki mikið þó) ágiskanir.  Pabbi var nú ekkert mikið að fjalla um fortíð sína í einhverjum smáatriðum. Við vissum þetta helsta. Síðan er bara að tengja saman punktana og búa til einhverskonar línu sem telja má trúverðuga.

Aðdragandi fæðingar
Magnús og Ingibjörg
Það var farið að vora, en orðið fullreynt að það væri ekkert jarðnæði að fá á Héraði. Fjölskyldan fór stækkandi og býlið þar sem Magnús fæddist og ólst upp, Freyshólar, stóð ekki undir því að Magnús (30) og Ingibjörg (25) settust þar að til frambúðar. Það voru því breytingar framundan.

-----------

Magnús og Ingibjörg gengu í hjónaband í mars 1913 og það ár eignuðust þau fyrsta barnið sitt, andvana. Það ár var Magnús húsmaður í Vallaneshjáleigu og Ingibjörg bústýra.
Árið eftir, 1914, var Magnús húsmaður á Gunnlaugsstöðum og þar fæddist þeim sonurinn Alfreð (1914-1994).

Þessu næst fluttu þau í Freyshóla og stofnuðu býli úr hluta af jörðinni. (Freyshólar 2. býli)  Þar leit annar sonurinn, Haraldur (1915-1991), dagsins ljós.

Á Freyshólum voru fyrir móðir Magnúsar, Ljósbjörg Magnúsdóttir (1848-1941), sem hafði þá verið ekkja eftir Jón Guðmundsson (1829-1900), föðir Magnúsar í allmörg ár, ásamt systur Magnúsar, Sigurbjörgu (1878-1944), sem var tekin við búinu ásamt manni sínum, Guðmundi Jónssyni (1858-1950) þrem börnum þeirra.
Freyshólar geta ekki talist stór bújörð og ljóst að hún bæri ekki tvær stækkandi fjölskyldur.
Freyshólar

Veturinn 1917-18 var einstaklega erfiður, Frostaveturinn mikli. 

Það var ekki um að ræða annað fyrir Magnús og Ingibjörgu, en leita þá á önnur mið. Þau höfðu frétt af því að eitt heiðarbýlanna í Jökuldalsheiði væri laust til ábúðar. Það var Rangárlón (Rangalón), sem stóð við nyrðri enda Sænautavatns og hafði verið byggt úr landi Möðrudals.
Þau létu slag standa og undirbúningur flutninganna hófst.

Um Rangárlón / Rangalón
Lítið eitt um heiðarbýlin, almennt:
Á vef  Ferðafélags Austurlands eru talin til 26 býli í Jökuldalsheiði, svokölluð heiðarbýli. Á vef Héraðsskjalasafns Austurlands er sagt að 16 býli hafi risið í Heiðinni á 19. öld.

Freyshólar
Skáldsögur Halldórs Laxness, Sjálfstætt fólk og  Jóns Trausta, Halla og heiðarbýlið, sækja yrkisefnið í lífið á þessum heiðarbýlum. Þangað fluttust fólk sem ekki tókst að útvega sér jarðnæði í sveitunum og lifði þar á því sem landið gaf, sem oftar en ekki var af skornum skammti. Fátækt fólk, sem harla oft lagði síðan leið sína til Vesturheims í von um betra líf.
Við Heiðar og Fjallamenn
Á fyrri hluta nítjándu aldar hófst landnám í Jökuldalsheiði. Heiðin liggur upp afnorðanverðum Jökuldal og afmarkast að norðan verðu af Þríhyrningsfjallgarði og Möðrudalsfjallgarði eystri. Að austan rennur hún saman við heiðalöndin inn af Vopnafirði.
Byggðin sem reis í Jökulsdalsheiði á nítjándu öld var að hluta reist á rústum fornbýla og selja. Fyrsta býlið sem reist var í heiðinni á þessu seinna byggingarskeiði voru Háreksstaðir en þar var byggt upp árið 1841. Á næstu tveimur áratugum risu alls 16 býli í Jökuldalsheiði það síðasta Lindasel árið 1862. Heiðarbýlin voru misjöfn að gæðum og byggingatíminn var mjög mislangur. Þannig var aðeins búið í eitt ár á Hólmavatni, en á Sænautaseli stóð byggðin í nærfellt eina öld.
Byggðin í heiðinni byggði mikið á hlunnindum eins og veiði í vötnum, grasatekju og fuglaveiði. Þá voru þar víða góð engjalönd.
Það er víða fallegt í Jökuldalsheiði og á heitum sumardögum er heiðin sannkölluð paradís, en gjörólík þeirri mynd eru vorharðindi sem engu eirðu. Þá var þrautaráðið að reka búsamalann niður á Jökuldal þar sem treysta varð á þegnskap bænda. Rithöfundurinn Jón Trausti notaði heiðabyggðir í Norður-Þingeyjarsýslu sem sögusvið í sögum sínum af Höllu og Heiðarbýlinu. Þar er Aðalsteinn læknir rödd nútímans, hann mætti á hreppsnefndarfund þar sem hann las nefndarmönnum pistilinn, þar segir m.a; „Ég hef minst þar á ýmsa sjúkdóma, en ekki sjúkdóm sjúkdómanna í þessum eymdarkotum, sem sé hungrið,...“ Aðalsteinn heldur áfram „Annað aðalmeinið í kotabúskapnum ... er myrkrið“.                                     - Af vef Héraðsskjalasafns Austurlands
Lífið í Heiðinni gat verið gott, en líka einstaklega erfitt, öfgar í báðar áttir.
Ábúendur
1843-1873 Þessi bær í Jökuldalsheiði byggðist 1843, en það voru hjónin Pétur Guðmundsson (f.1798) og Þorgerður Bjarnadóttir (f. 1818) sem þar voru frumbyggjar.  Pétur lést 1851, en Þorgerður bjó áfram á Rangárlóni, giftist aftur 1855 og skildi eftir 12 ára búskap. Guðmundur Kolbeinsson hét þessi maður hennar. Síðan bjó hún áfram til 1873, en 1876 hvarf hún til Vesturheims.

1873-1875 Næstu ábúendur stöldruðu við í tvö ár 1873-1875, en það voru Sigurður Pétursson (f. 1844) og Þorbjörg Eiríksdóttir frá Ármótaseli. Þau fóru síðan til Vesturheims.
1875-1880 Næstu ábúendur entust í 5 ár, þau Kristján Friðfinnsson (f. 1830) frá Álandi í Þistilfirði og Kristín Árnadóttir (f. 1832) frá Vindbelg í Mývatnssveit. Þau fóru eftir dvölina til Vesturheims ásamt börnum sínum..
1880-1887 Fátt er vitað um næsta ábúanda en hann hét Sigurður Björnsson og stóð við í sjö ár.
1887-1889 Bergþór Jónssonog Vilhelmína Eyjólfsdóttir kíktu við í tvö ár en fluttu síðan til Vesturheims.
1889-1893 Árni Jónsson og Helga Hallgrímsdóttir. Hvert þau fóru eftir fjögurra ára viðdvöl er ekki ljóst
1893-1904: Eyjólfur Marteínsson (1862-1941) og Þuríður Hallgrímsdóttir (1867-1925)  Dvöldu óvenju lengi í heiðinni. Komu þangað með tvær ungar dætur. Þriðja dóttirin bættist við, en sama ár og yngsta barnið fæddist 1904 hurfu þau á braut.
1906-1907: Jón Stefánsson (1880-1971) og Þórunn G. Vilhjálmsdóttir Oddsen (1873-1944) Þau stöldruðu við í eitt ár, hurfu síðan á bráut og hófu að eignast börn, en þau urðu fimm auk einnar fósturdóttur.
1907-1909 Jón Guðmundsson og Guðrún Guðmundsdóttir. Þessir ábúendur héldu það út í tvö ár og ekki er meira vitað um þau.
1910-1917: Haraldur Sigurðsson (1868-1941) Þingeyskur og Aðalbjörg Hallgrímsdóttir (1867-1959) frá Fellsseli S.-Þing. Börn: Sigurður (1893-1966) bóndi að Stuðlafossi og Jóna Þórdís (1902-). Komin á fimmtugsaldur með tvö börn. Virðast síðan hafa flutt til Akureyrar.
1918-1922: Magnús Jónsson (1888-1965) frá Freyshólum og Sigríður Ingibjörg Björnsdóttir frá Seyðisfirði.  Hér er um að ræða fólkið sem nefnt er til sögunnar í upphafi frásagnarinnar.  
1922-1924: Sigurður Haraldsson (1893-1968) og Hróðný Stefánsdóttir (1892-1966).  Börn: Stefán (1917- 1947), , Brynja (1919-1996), Valborg (1922-2008) og Hrefna (1923-1996) Haraldur (1925-).
Hér birtist sonur þeirra Haraldar og Aðalbjargar sem bjuggu á Rangárlóni frá 1910-1917 ásamt fjölskyldu sinni. 1922 fluttu þau að Möðrudal þar sem yngsta barnið fæddist sama ár þaðan fóru þau að Stuðlafossi á Jökuldal og loks til Akureyrar.
Með brottför þeirra Sigurðar og Hróðnýjar frá Rangárlóni lagðist bærinn í eyði og varð smátt og smátt að ójöfunm í landslaginu. 
Þær upplýsingar sem hér eru birtar um ábúendur, byggja að samantekt um Rangárlón sem finna má á vef Ferðafélags Fljótsdalshéraðs. Ég umorðaði örlítið á einstaka stað og bætti aðeins við upplýsingarnar.

Lagt í hann
Teningnum var kastað og best að drífa í flutningnum upp í Jökuldalsheiði. Vænlegast að leggja í hann að vori til að tími gæfist til að undirbúa veturinn.  Búslóðin var líkast til ekki umfangsmikil, engar IKEA mublur, eða annar nútímalegur húsbúnaður. Vegalengdin frá Freyshólum upp í Rangárlón er nú um 85 km. og hefur verið talsvert lengri þegar Magnús og Ingibjörg lögðu í þetta ferðalag þetta vor með synina tvo, Alfreð og Harald, að ógleymdum þeim þriðja, afsprengi frostkaldra nótta Frotsvetrarins mikla, sem ætlaði að fæðast um haustið, í þann mund er það hefði tekið öll völd og vetur í Heiðinni framundan.

Meira um það næst.

ps. þessi skrif eru á mína ábyrgð og reynist eitthvað rangt með farið, mun ég lagfæra það, að sjálfsögðu.

Bragi á Vatnsleysu

"Tvær úr Tungunum" 2013 Hann sat í blíðunni á stól fyrir framan útidyrnar á Vatnsleysu þegar ég renndi úr hlaði. Var svo sem...