14 júní, 2021

Ég hafði val (óður til eldri borgara) (1)

Ég veit það vel, að aldur er afstæður og hef reynt það á eigin skinni, að mat mitt á eigin aldri og því sem honum fylgir er ekki alltaf hárnákvæmt. Auk þess verð ég æ oftar var við það, að öðru fólki finnst ég vera eldri en upplifun mín segir til um.  Eini tölulegi mælikvarðinn á aldur minn er sá sem mæla má í lífárum, en á þessu ári verða liðin 68 ár frá því ég gladdi foreldra mína (og nánast veröld alla) með því að koma í heiminn.  
Ég neita því ekki, að stundum verður mér hugsað til baka um nokkra áratugi, til þess fólks sem þá var um sjötugt. Það fólk var bara hreinlega orðið gamalt og slitið. Aldur nú til dags er með einhverjum hætti öðruvísi en hann var. Reyni einhver að mótmæla því, er mér að mæta.
Ekki meira um það.

Aðdragandinn (fyrir þann 12.)
Fyrir nokkrum dögum fékk ég skilaboð á Facebook frá fyrrum samstarfsfélaga til áratuga, Grímu Guðmundsdóttur, sem voru á þessa leið:
Viljið þið fd ekki bara skreppa á Laugarvatn á laugardaginn og taka myndavélina með? 😉
Þar sem ég var tiltölulega léttur í sinni á þá stundina, svaraði ég um hæl:
Jú, jú  😊Tími, stund og staður?
Gullsprettur, start kl. 11 en gott að koma tímanlega til að fanga stemninguna fyrir hlaup 😊
Þarna ákvað ég að ögra lítillega:
Það þarf að finna stað þar sem er mesta atið, er það ekki?
Jú, á bát eða við Hólaá.
Þarna voru mér sem sagt gefnir tveir kostir, annar sem ég hafði áður prófað, en það var árið 2015 (MYNDIR) og þá við Hólaá. Þar sem ég vil, alla jafna, síður endurtaka mig, fór ég strax að renna hýru auga til fyrri valkostsins.  

Gullspretturinn
Fyrir þau ykkar sem ekki vita neitt um Gullsprettinn, þá eru þetta nokkurnveginn þær upplýsingar sem þarf:
Gullspretturinn er hlaup í kringum Laugarvatn sem fram fer þann 12. júní og hefst kl. 11 við gróðurhúsið niður við vatn. Uppselt er í hlaupið og ekki er lengur skráð á biðlista.
Vegalengd og leið: Hlaupið verður í kringum Laugarvatn yfir ár, mýrar, móa með frjálsri aðferð. Vegalengdin er ca. 8,5 km og drykkjarstöð verður við Útey eftir að Hólárós hefur verið vaðinn.Tímataka fer fram með flögum
Hámarksfjöldi þátttakenda er 300 manns í forskráningu. Eftir að hámarksfjölda er náð, þá verður hægt að skrá sig á biðlista.
Þátttökugjald er kr. 4.000. Allur ágóði rennur til góðgerðarmála.
Keppt verður í karla og kvennaflokki.
Þátttakendum boðið upp á hverabrauð Erlu, Egils gull, Kókómjólk, Hleðslu og reyktan silung frá Útey að loknu hlaupi.
Til að forðast umferðaröngþveiti niður við vatn er þátttakendum bent á að leggja bílum sínum á malarvellinum sunnan við íþróttahúsið.
Aðdragandinn (þann 12. nokkuð árla)
Laugardagurinn 12. júní rann upp.
- dagurinn þegar keppendur í Gullsprettinum skyldu ræstir. Um var að ræða 16. skiptið sem fólk var ræst til þessa spretts.
- dagurinn þegar ég yrði öðru sinni, hugsanlega, formlega skipaður ljósmyndari.
- dagurinn þegar í ljós kæmi hvort ég myndi lenda í viðlíka ævintýri og þegar ég, fyrir þrem árum, lenti í talsverðum háska í hafinu fyrir vestan Afríku.

Sérann (C-HR) flutti okkur fD og tvær sonardætur mjúklega á Laugarvatn og þar sem leið lá niður að tilgreindu bílastæði.  
Jú, þar sem það blundar í mér einhver ævintýramaður, þó fáum geti komið það til hugar, sem kannast við mig, renndi ég nokkuð hýru auga til hugmyndarinnar um að þeysa með björgunarbát þvers og kruss um Laugarvatn og taka myndir af keppendum við ýmsar aðstæður.  Samt var ég svo sem alveg reiðubúinn til þess líka, að rölta á bakkanum og taka myndir af rúgbrauðinu og silungnum, fólki með glampa í augum hefja hlaupið, og örþreyttu fólki nota síðustu kraftana til að líta vel út við markið. Ég var opinn fyrir flestu.
Gríma að sannfæra sjálfa sig um að mér
sé treystandi til að fara með bátnum.

"Treystirðu þér til að vera í bátnum?"
spurði Gríma, sem stýrði þarna bara öllu, held ég. 
Ekki neita ég því að við þessa spurningu tók ég sekúndubrot til að velta því fyrir mér, hvort ég treysti mér til þess arna. Ég rifjaði upp  hvernig fólk í kringum sjötugt var fyrir nokkrum áratugum, ég man eftir ævintýri mínu í bananabátum fyrir rúmum þrem árum. Ég gerði mér fulla grein fyrir því, að ég er engin horrengla. Sekúndubrotið leið og þar sem ég er búinn að leggja stund á krefjandi heilsurækt með hópi eldra fólks á Selfossi í tæpt ár og þar að auki stundað Crossfit og fylgt fD  og morgunkörlum í göngum þvers og kruss um götur og skóga, stóð ekki á svarinu: Kva, auðvitað!

Ef ég hefði haldið að umhyggja Grímu fyrir velferð minni næði ekki lengra, þá hefði það verið misskilningur. "Það er örugglega kalt á vatninu. Á ég ekki að finna hlýrri föt handa þér?  
Enn þurfti ég sekúndubrot, sem ég nýtti til að komast að því hvort klæðnaðurinn sem ég hafði valið mér, í ljósi þeirra upplýsinga sem vedur.is hafði fært mér um veðrið sem búast mætti við á þessum sólríka degi, væri fullnægjandi. Ég hafði bara valið mér þann fatnað sem ég nota oftast við göngur á Selfossi og í nágrenni. Fyrst hann var nægilega skjólgóður þar, myndi hann hlífa mér vel á siglingu um Laugarvatn. Þessi dagur var sannarlega bjartur, en hann blés á norðan, vindstreng sem ættaður var frá heimskautasvæðum jarðar. Skjannabjört sólin myndi örugglega duga til að vega upp kaldan gustinn. 
Nei, nei, þetta er ekkert mál. Svo er ég með húfu og hanska!

Björgunarbátnum ýtt á flot.
 Aðdragandinn 
(þann 12. - ræsing nálgast)
Þarna hafði ég, sem sagt, verið ráðinn sem formlegur bátsljósmyndari Gullsprettsins. Græjurnar mínar voru EOS-inn og stóra linsan. 

Svo fóru þeir að bjástra við björgunarbát Björgunarsveitarinnar Ingunnar og ég fór nú að reyna að kynna mér hvað framundan væri og neita því ekki að það fór aðeins um mig, þegar ég leit augum piltana sem báru það með sér að ætla að stjórna bátsferðinni. Ekki aðeins fannst mér þeir heldur ungir til að taka að sér þetta verkefni (annan man ég eiginlega síðast sem grunnskólapjakk á Bala) heldur voru þeir klæddir eins og þyrluflugmenn sem kallaðir hafa verið til björgunarstarfa á Svalbarða.  Ég var reyndar fljótur að hætta að efast um hæfni þeirra til þess ábyrgðarstarfs sem beið þeirra, enda handtökin við að búa bátinn til siglingar um úfið vatnið, fumlaus.  
Mér var afhentur verklegur flotjakki (en ekki hjálmur), líklega til þess ætlaður að koma í veg fyrir að ég drukknaði í Laugarvatni við það að falla útbyrðis. Með þessum flotjakka tel ég að ég hafi verið orðinn harla vígalegur, að minnsta kosti ef eitthvað er að marka orð þeirra sem ég þarna þekkti til og sem settu fram skoðanir sínar og mynduðu herlegheitin í bak og fyrir. Held að ég hafi mögulega verið farinn að minna á Svein Þormóðsson (þekktan ljósmyndar hér áður fyrr). 

Til báts 
Þar sem klukkan nálgaðist 11 fyrir hádegi, fékk ég merki um að ég skyldi fara að ganga til báts, sem ég og gerði. Þetta var það sem kallað er slöngubátur með utanborðsmótor (sem bilaði þegar hæst stóð,við samskonar aðstæður í fyrra, ).  Þar sem ég var kominn að bátnum, velti ég fyrir mér, hvar ég ætti nú helst að sitja, því engin augljós sæti var að sjá um borð. Í stefninu var vænlegur púði, en að öðru leyti bara slöngurnar sitthvorumegin.  

Það er best að þú komir um borð af bryggjunni. 
Það var kannski best, enda hefði ég að öðrum kosti þurft að ösla út í, sem mér hefði ekki hugnast sérstaklega. Með góðum vilja, hefði ég getað túlkað þessi orð til komin vegna aldurs míns, en það gerði ég ekki. Þarna var bara um að ræða umhyggjusemi við ljósmyndara, sem átti auðvitað ekki að þurfa að bleyta sig í fæturna.

Ég steig um borð, svo virðulega sem mér var unnt (einhhver væri kannski að fylgjast með) og tók mér sæti á annarri slöngunni, en aðrir skipverjar (tveir) tóku til við að ýta bátnum af grynningunum, svo hægt væri að setja mótorinn niður. Að því búnu stukku þeir um borð og það var haldið til vatns.


Ætli verði bara ekki úr því að síðari hluti birtist áður en langt um líður, ef ekki verður sett lögbann á frekari birtingu.


09 júní, 2021

Varla vansæmdarlaust

Unnið við að leggja símalínu - einhversstaðar
Fólk var að byrja að lifa hraðar, þarna á fyrstu tveim áratugum síðustu aldar. Í stað venjulegra róðrarbáta við að komast yfir árnar, þurfti að setja upp dragferjur til að komast í kaupstað. Þetta var svo ekki nóg, því það þurfti endilega að fara að byggja brýr yfir árnar, sennilega til að auðvelda lífið. Ekki nóg með það, á tímum heimstyrjaldar var allt að fara á fleygiferð og krafan um að fá símatengingu í hverja sveit varð æ háværari. Hvar gat þetta eiginlega endað? 

Tungnamenn hafa aldrei verið meðal kröfuhörðustu íbúa þessa lands, en þegar svo var komið að það var kominn talsími í neðri sveitir, varð ekki lengur þagað og hreppsnefndin sendi sýslunefndinni bréf til að fá hana til að biðja síma- og landsstjórnina að fara nú að gyrða sig í brók og leggja símastreng í Tungurnar. Hér kemur svo bréf Tungnamanna, þar sem þeir freista þess að beita fyrir sig erlendum ferðamönnum og kónginum sjálfum:

Eins og tekið er fram í lögum nr. 25, 22. okt., 1912, um ritsíma og talsímakerfi Íslands, 4. gr., á að leggja síma frá Hraungerði að Torfstöðum upp í Hreppa o.s.fr.  Síðan eru liðin 6 ár og þessi sími þó eigi kominn lengra en spölinn frá Hraungerði að Kiðjabergi, syðsta bæ í Grímsnesi á þessari leið. Með öðrum orðum má segja, að hann sje sama sem ekkert kominn áleiðis, því að þessi spotti hans er gagnslaus fyrir allar sveitirnar, sem honum er, á endanum ætlað að ná um, meira að segja gagnslaus fyrir meginhluta Grímsneshrepps.

Eins og tímanna táknum er nú varið, má með sanni segja, að sími sé yfirleitt nauðsynlegastur af öllu nauðsynlegu, hvað alt viðskiftalíf snertir. Kaupstaðirnir, þar sem þjettbýlið er þó svo mikið og verslun og aðdrættir hægir, hafa talið sjer síma óhjákvæmilega. Sama er að segja um sveitir og hjeruð, sem standa vel að vígi hvað verslun og aðdrætti snertir, að þeir telja sjer á þessum tímum síman óhjákvæmilegann. Hvað mætti þá segja um sveitir eins og Biskptungnahrepp, sem liggur í ca. 90 km. fjarlægð frá aðalverslunarstað sínum Reykjavík, á þangað að sækja yfir einn hinn mesta fjallveg, Hellisheiði, er stórvötnum lukt á alla vegu og auk þess sjálf víðáttu mikil og veglaus. Hví ætti þá ekki sími að vera slíkri sveit beinlínis lífskilyrði, til að spara ferðalög og ljetta öll viðskifti?

Allavega mjög gamalt símtæki
Á það má einnig líta, að þessi sveit hefir að geyma Geysi og Gullfoss, sem útlendir og innlendir ferðamenn streyma að á sumrum til að skoða. Varla getur talist vansæmdarlaust að veita þeim ekki þau þægindi, að geta haft síma nálægt sjer, mönnum, sem ekki hafa áður þekt eða reynt slíka einangrun, sem er að því að komast úr símasambandi við umheiminn og sem bera síðan frjettir út um heiminn um menningu eða menningarleysi vort. Síðast mætti og minna á það, að konungur vor er væntanlegur hingað á næsta sumri og má þá telja víst, að hann vilji bregða sjer hingað austur til að sjá Geysi, Gullfoss og ef til vill hinn fornfræga stað, Skálholt, og má þá búast við, að honum finnist fátt um um, auk vegleysanna, að vera algert út úr símasambandi svo langa leið, sem um er að ræða.

Heyrst hefir að símastaurar og þráður væri þegar til, en myndi jafnvel ekki verða notað í þenna löngu lögboðna síma, vegna þess, að þessi sími myndi ekki gefa jafnmiklar tekjur og væri hann lagður annarsstaðar. En er þá ekkert að      aðstæður og hag sveitanna, sem ...??? [neðsti hluti blaðsins skemmdur og þvó ólæsilegur - sjá mynd] líklegt, að þessi sími gefi jafnmiklar tekjur og annarsstaðar, þar sem sveitirnar, sem hann lægi um, eru allfjölmennar? Auk þess er nýstofnað Kaupfélag innan þeirra, sem óhjákvæmilega þarf mjög á síma að halda.


Með erindi þessu viljum vjer beina máli voru til hinnar heiðrðu sýslunefndar Árnessýslu, ef hún vildi taka mál þetta að sjer og koma því á framfæri við síma- og landsstjórnina og gera sitt til, að þvi verði hraðað til framkvæmdar, svo að Biskupstungnahreppur og aðrar uppsveitir sýslunnar verði eigi lengur en þörf gerist, látnar vera án þessa óhjákvæmilega viðskifta og menningartækis, sem sími er.


Virðingarfyllst
Biskupstungnahreppi 24. mars, 1919
Eiríkur Þ. Stefánsson, Torfastöðum (bréfritari)
Þorsteinn Þórarinsson, Drumboddsstöðum
Bjarni Guðmundsson, Bóli
Jón Gunnlaugsson, Skálholti
Björn Bjarnarson, Brekku.


Afgreiðsla sýslunefndar á erindi Tungnamanna.


04 júní, 2021

Af sjónarhóli ekkjunnar

Dragferja á ótilgreindum stað.

Runólfur Bjarnason,
bóndi á Iðu og ferjumaður, drukknaði í Hvítá, í september 1903, skömmu eftir að dragferjan þar var tekin í notkun. Hann skildi eftir sig konu sína Guðrúnu Markúsdóttur (1874-1965) og þrjár dætur á barnsaldri, þær Þorgerði (1895-1966), Sigríði (1899-1987) og Guðnýju (1902-1953). Guðrún var þá þunguð og eignaðist fjórða barn þeirra hjóna Runólf (1904-1933) í apríl árið eftir lát bónda síns.

Frá vinstri: Guðrún Markúsdóttir, Þorgerður, Sigríður, Guðný og Runólfur Runólfsbörn, Páll Jónsson.

Guðrún stóð þarna ein uppi  með dæturnar þrjár og ófrísk að fjórða barninu. Það varð úr að Páll Jónsson, sá sem hafði sett upp dragferjuna, kom að Iðu og gerðist þar vinnumaður, eða "fyrirvinna", eins og segir í sóknarmannatali. Páll Jónsson (1853-1939) (sjá einnig hér) var kallaður "trúr þjónn" í grein sem skrifuð var um hann í Óðni árið 1936. Þar segir um ástæður þess að hann gerðist vinnumaður hjá Guðrúnu á Iðu:
Haustið 1903 vildi það hörmulega slys til, að Runólfur bóndi á Iðu druknaði í Hvítá, frá konu og 4 börnum ungum. Þau hjón voru nýkomin þangað austan úr Skaftafellssýslu. Efni voru lítil og ekki annars kostur en að ekkjan yrði að flytjast aftur austur á sína sveit, nema einhver maður fengist til bús með henni. Var nú leitað til nokkurra, en allir neituðu; þótti ráðið ekki fýsilegt. Þá bauðst Páll til; sagðist ekki geta hugsað til, að börnin yr'ðu tekin frá móðurinni og sett niður. Þessu boði var tekið fegins hendi og fór hann að Iðu vorið 1904, og veitti búinu forstöðu með ekkjunni (Guðrúnu Markúsdóttur) til vorsins 1913. Þá voru börnin uppkomin öll, og fluttist þá ekkjan með þeim austur í átthaga sína. Páll vann kauplaust öll árin, og gaf af sínu fje til styrktar að auki, eftir þörfum, svo að stóru nam. 

Á hinum bænum á Iðu bjó Sigmundur Friðriksson (1840-1908) ásamt tveim börnum sínum og öðru fólki.

Eftir að dragferjan var tekin í notkun, sumarið 1903, þurfti að ákveða hvernig rekstri hennar skyldi háttað, og voru um það talsverðar deilur milli hreppsnefndar Biskupstungnahrepps, en oddviti var þá Björn Bjarnarson á Brekku  og, að því er mér sýnist, Guðrúnar Markúsdóttur, ekkju Runólfs Bjarnasonar. Þessar deilur stóðu í nokkur ár og komu til umfjöllunar á fundum sýslunefndar. 

Árið 1905 óskuðu Tungnamenn eftir að sýslunefndin setti reglur fyrir dragferjuna "þar eð hreppsnefndin ekki geti komist að samningum við ferjubændurnar. Sýslunefndin álítur sér ekki skylt, jafnvel naumast heimilt að semja reglugjörð um þetta, sem hafi fult gildi, heyri það beinlínis til hreppsnefndinni, enda hefir sýslunefndin ekki þá staðlegu þekkingu, sem til þess þarf. En með því að sýslunefndin hefir yfirumsjón með þessari ferju, sem öðrum lögferjum, vill hún fyrir sitt leyti kjósa mann til að vera í ráðum með hreppsnefndinni um þetta."

Ferjustaðurinn við Iðu 1947.
Myndin er tekin af Iðuhamri.
Mynd Geir Zoega

Á sýslunefndarfundum var það auðvitað þannig, að þeir sem höfðu valdið, komu saman til að ráða málum og ráðum sínum. Þar inn flutti sýslunefndarmaður Biskupstungnamanna erindi hreppsnefndar og talaði í umboði hennar. Ætti hreppsnefnd í deilum við íbúa, einn eðpa fleiri, má því ætla að sjónarmið þeirra hafi ekki fengið að njóta sín sem skyldi á fundum nefndarinnar.  Íbúarnir gátu komið sínum sjónarmiðum á framfæri með því að skrifa bréf og það var einmitt það sem Guðrún Markúsdóttir á Iðu gerði, árið 1906, en bréf hennar er að finna í bréfasafni sýslunefndar. Ég verð að viðurkenna það, að ekki tókst mér að lesa texta bréfsins fullkomlega og þau tilvik þar sem ég gafst upp við að skilja, eru tiltekin í texta bréfsins, sem hér fylgir:
Af sýslufundi Árnessýslu 1904 má sjá, að kosin?? var maður til að semja við Iðubændur um dragferjuna við Iðuhamar, en með því hann hefur ekki komið að semja við mig um þetta mál, þá varð ég að sleppa ferjurétti mínum sökum svo óaðgengilegra skilmála er tungnahreppsnefnd setti, eða að öðrum kosti leita hans í aðra átt, en hef þó ekki gjört það fyr en nú að ég fer þess á leit. Verð því að skýra þetta mál nokkuð nákvæmar.

Sem öllum sýslubúum mun kunnugt var dragferja sett á Hvítá við Iðuhamar sumarið 1903 af tilhlutan sýslunnar og tungnahrepps. Ferjan kostaði als um 1.000 kr., hún sjálf rúm 800 og strengurinn tæp 200 kr. Enginn getur annað álitið en þetta væri mikil samgöngubót fyrir ferðamanninn á móti því að flytja á róðrarbátum og þá ekki síður þegar skoðað er frá mannúðarlegu tilliti. Því á meðan dragferjan verður brúkuð þarf öngvan hest að sundleggja. Þar á móti verður hún að öllu útgjaldaliður á ferjumanninum og öngvu hægari flutnings aðferð með núverandi fyrirkomulagi því róðrarbáta verður að hafa sem áður, því hún (drf.) verður ekki brúkuð nema að sumarlagi þegar áin er íslaus.

Nú vildi hreppsn. (tungnahr) að ferjan yrði eign ferjubænda með sömu ferjutollum, að öðru en því, að 5 aura skyldi borga fyrir hest hvern er hafður væri í henni, en það var sama gjald og halda í hest á eftir róðrarbát. Að þessum skilmálum gat ég ekki gengið, að minnsta kosti ekki fyr en ég var búin að sjá hvað þessi inntekt hennar næði til að jafna útgjaldalið hennar, sem voru að öllu ný útgjöld, en inntektin að nokkru eða öllu tekin frá róðrarbátnum, en engin sönnun var fengin (í fyrstu) hvort fleiri myndu brúka hana til hestaflutninga en hesta á eftir róðrarbát. Þennan reikning hélt ég sumarið 04 og var það að mjög jöfnu útgjöld og inntekt það árið, en nákvæmur gat hann ekki verið, sem meðfylgjandi skýrslur og athugasemdir sýna. Þessi reikningur var svo sendur til oddvita (t.hr).
Sumarið 1904 samþykti hreppsnefnd að ferjan skyldi vera eign hreppsins, en ég mætti halda hana, með því að borga hana ef hún færist fyrir handvömm, en viðhald hennar og önnur útgjöld – sem hljóta að vaxa með tímanum – var ekki frekar rætt að öðru en lausleg tillaga um að mundi meiga hækka ferjutolla á utanhreppsmönnum – einkum utan sýslu – að jafna á móti útgjöldunum. Þessa samþykt vildi ég ekki gangast undir og get heldur ekki í efnahagslegu tilliti, hvað sem út af bar og fyrir þetta var ég neydd til að sleppa ferjurétti mínum, en skil þó svo 7. gr., að rétti mínum hafi verið misboðið.

Síðan hefur hreppsnefnd haft hana sem eign hreppsins. Hefur hún leitast við að fá aðra að gegna ferjustörfum en ekki komist að aðgengilegri skilmálum – með ferjutolla og annað – en við Sigmund sambýlismann minn, en hverjir þeir eru, veit ég ekki, mér hafa þeir ekki verið kyntir??, enda álit skilmála frá hreppsnefnd og öðrum en sýslunefnd óviðkomandi gagnvart núgildandi ferjulögum.

Iðuferja 1956 (mynd líklegst Jón Eiríksson)
Í vetur eða vor tapaði Sigm[undur] bát sínum í ána, en með því hann hafði ekki annan forsvarlegan ferjubát, sem meðfylgjandi vottorð st.st. (séra Stefán Stephensen] vitnar, þá var minn fenginn, en af því mér hefur gengið fremur ervitt að fá útborguð skuldaviðskifti mín hjá Sigm[undi] og hreppsn[efnd], búin að taka ferjubát minn, þá fór ég þess á leit við oddvita í áheirn Jóns bónda í Skálholti og heimilisfólks míns, að hann hlutaðist svo um, að ég fengi um 10 kr. þóknun fyrir bátslánið og færði hann það í tal við Sigmund á heim. Tómasar hreppstjóra og J[ón] bónda í Skálh[olti]., en hann tók þá dauflega undir að greiða neina þóknun og var því þá slept, eða að minsta kosti hef ég ekki orðið vör við hann; þegar ég var orðin vonlaus að fá neinn greiða þá fór ég þess á leit við séra Stefán í Laugardalshólum að hann gæfi mér meðmæli sín til sýslunefndar ef ég vildi krefjast þess og gaf hann þá góðfúslega það meðfylgjandi vottorð sitt, án þess að ég hefði nokkra heimtingu af honum að geta það fremur en öðrum sérstökum ferðamanni sem??? brúkaði bátinn eftir það.

Þegar fyrst var þröngvað svo að rétti mínum að ég sá mér ekki fært að halda honum, sökum 400-800 kr. ábyrgðar sem ég mátti búast við að borga hvað sem útaf bar, því þó svo væri að orði komist, að mér bæri ekki að borga ferjuna að öðru en ef hún færist fyrir handvömm (og ég af öllum vilja gjörð að láta það ekki ske) þá hafði ég öngva tryggingu fyrir hvort fremur mundi álítast ef óhöpp kæmu fyrir.

Eigi nú einnig að fara að brúka bát minn sem ferjubát eftir þörfum, án nokkurs endurgjalds og eiga á hættu að hann glatist á mína ábyrgð, þar hann er í þess manns höndum er ég get síst treysti til þeirra hluta, þá get ég ekki lengur stilt mig um að snúa mér með þetta mál, er mér virðist að við eiga. Strangri réttarkröfu vil ég þó ekki að sé framfylgt í þessu máli og heldur vil ég gefa eftir bátslánið í þetta sinn, arðleysi hans og viðhaldi í 2 ár og önnur óþægindi sem ég hef orðið fyrir að þessum tíma, en að það þurfi að kosta málarekstur, en vil þar á móti mælast til að þér hr. sýslumaður sem oddviti sýslun[efndar]. hlutist svo um við sýslunefnd að ég hér eftir hafi og haldi ferjurétti mínum óskertum eftir sem áður (þar ég get ekki séð að ég hafi brotið af mér ferjurétt minn) á meðan ég er ábúandi á Iðu og vil þá gangast undir
Niðurlag bréfs Guðrúnar Markúsdóttur

1. að halda ein ferjuna í 2 ár að jöfnu við það sem sambýlismaður minn hefur haft hana, þar ég hef jafnrétti við hann sjá 5. og 6. gr. með þeim skilmálum er réttsýni þeirra mælir með, er um þetta mál – lögferjumál – eiga að ræða, sjá 3,4,5,6,.... 20 og í heild sinni allar greinar ferjulaganna.
2. Með því að semjendur núgildandi laga hafa ekki haft neina hugmynd um dragferju, né tilkostnað við hana, sjá 14, 15 og 19. gr. þá að sá tilkostnaður verði tekin til greina, eða samið við mig um hann.
3. Þá eru og um nokkrar lagagr. sem mér virðist að verði að koma sér saman um við sýslunefnd, þar til önnur, ný lög verða samin og mun ég benda á þær á sínum tíma.

Iðu 29. okt. 1906

Guðrún Markúsdóttir
-------------------
Páll Jónsson


Ári síðar, var ferjumálið enn óleyst og virtist vera í talsverðum hnút, en á sýslunefndarfundi það ár var þetta bókað:
Út af umkvörtunum um margfalda vanrækslu og vanhirðu á dragferjunni við Iðuhamar, skoraði sýslunefndin á hreppsnefndina í Biskupstungum að bæta úr þessu með nýjum, glöggum og haganlegum samningum við þá sem ferjan verður falin, svo og að ganga stranglega eftir því að ferjan verði betur hirt og stunduð eftirleiðis. Jafnframt skoraði sýslunefndin á oddvita sinn að vera til aðstoðar við samningana, ef með þarf og hafa strangt eftirlit með því, að þeir sem ábyrgð og umsjón ferjunnar verður falin, gæti skyldu sinnar í því efni.

Það er fjallað meira um þessar deilur á fundum sýslunefndar og fleiri bréf er þar að finna um þær. Þau koma mögulega hér inn, eftir því sem verk mín vinnast.

Guðrún flutti með börn sín í Meðalland vorið 1913, en þar voru átthagar hennar. Síðar flutti hún til Sigríðar, dóttur sinnar í Hveragerði og var þar til æviloka.30 maí, 2021

Dragferja í ein 14 ár

Eins og við vitum mörg, þá eru Biskupstungur umkringdar ám og fljótum og sú var tíð, að á þeim voru ekki brýr, þannig að það fólk sem þurfti að komast í eða úr sveitinni þurfti að vaða þessar ár, eða, eins og algengara var, að notast við báta. Það var væntanlega til í dæminu að á bæjum sem stóðu við einhverjar þessara fljóta, ættu menn sinn eigin bát. Þar sem hinsvegar var mest umferð fólks voru settar upp ferjur og varð það þá kvöð á viðkomandi bæjum að sinna flutningi fólks frá öðrum bakkanum til hins. Þessar ferjur gengu undir heitinu "lögferjur". Það þýddi það, að búendur á bæjum þar sem slíkar ferjur voru ákveðnar, voru skyldugir til að flytja ferðalanga yfir, ef fært var, gegn svokölluðum ferjutolli, sem var ekki há upphæð og jafnvel engin. Einhvern styrk fengu ferjumennirnir frá hinu opinbera. Ferjubátarnir voru venjulegir árabátar.  

Í kringum Laugarás voru þrjár  lögferjur (í 3 ár voru þær fjórar), eins og alkunna er: 
Tvær á Hvítá, önnur var Iðuferja, sem var þar sem brúin er nú, milli Iðuhamars og Skálholtshamars, en hin Auðsholtsferja, milli Auðsholts og Auðsholtshamars, Laugarásmegin.
Á Brúará var lögferja við Spóastaði fram til 1903. Þegar ákveðið var, vorið 1900, að lögferja skyldi vera, í Reykjanesi í Grímsnesi, sem var talsvert neðar í Brúará, var fallist á þá ósk bóndans á Spóastöðum, að leggja af lögferjuna þar árið 1903. 

Það var Sýslunefnd Árnessýslu sem hafði með ferjumálin að gera, en hver hreppur hafði það hlutverk að sjá til þess að lögferjum væri sinnt svo vel sem kostur var og skiluðu árlegum skýrslum til sýslunefndar um hvernig staðan var á hverri ferju. 

Um aldamótin 1900 jókst umferð um ferjustaðina, ekki síst vegna þess að þá var komið læknissetur í Skálholti. 
Í ljósi þessa fóru Tungnamenn að huga að því að fá uppsetta dragferju við Iðu og sendu í því skyni bréf til sýslunefndar, í apríl 1903, sem hljóðaði svo (bara nokkuð skemmtilegt bréf):

Hreppsnefnd Biskupstungnamanna leyfir sér hjer með að beiðast liðsinnis hinnar heiðruðu sýslunefndar Árnessýslu til að koma á dragferju á Hvítá að Iðu.

Tungnamönnum er það mikið áhugamál, að því fyrirtæki geti framgengt orðið nú þegar í vor, enda munu allir, sem til þekkja, játa að það sé mikil nauðsyn.

Tungnamenn eru verst settir allra Árnesinga að því er snertir samgöngur og aðdrætti, þar sem þeir eigi aðeins eiga lengsta leið í kaupstað, heldur hafa og stórárnar Brúará og Hvítá, sína á hvora hlið og þriðja stórvatnið, Tungufljót, skiptir sveitinni að endilöngu. Að vísu er nú góð brú á Brúará, svo að sjaldnast þarf að sundleggja hesta til Reykjavíkur, þó getur það komið fyrir, því að brúin er svo sett, að bæði er þangað mikill krókur fyrir marga sveitarmenn, svo að þeir nota hana ekki nema í brýnustu nauðsyn, og landslagi er svo háttað beggja vegna við hana, að þar er opt ófært hestum úr því snjór er kominn til muna. Þrátt fyrir það hafa þó flestir Tungnamenn til þessa kosið að sækja heldur yfir Brúará til Reykjavíkur, heldur en niður á Eyrarbakka, og er þó vegamunur svo mikill, að munar hjer um bil 2 dögum í hverri lestaferð. Aðalorsökin til þess er sú, að Hvítá er þröskuldur á leiðinni niður á Eyrarbakka. Hún er, eins og kunnugt er, miklu meira vatnsfall en Brúará og auk þess flugmikil dögum saman, bæði haust og vor, þegar ferðalög eru mest, og stundum svo, að hún er engum hesti fær. Eptir því sem miskunnsemi við skepnur fer í vöxt, blöskrar mönnum meir og meir að sundleggja hesta sína yfir hana hvað eptir annað og hvernig sem á stendur.

Um brú yfir hana á hentugum stað getur ekki verið að tala, til þess er áin langt of breið og því hefur nú verið vakið máls á því, að setja á hana dragferju. Með henni er unnið það þrennt, 1) að ekki þarf að sundleggja hestana, 2) ferðamenn þurfa ekki að telja sig þurfa að spretta af hestunum, jafnvel ekki taka ofan klyfjarnar og 3) hvorki væta sig né farangur sinn, sem opt vill verða á hinum ferjunum.

Vitanlega verður dragferja ekki notuð nema á sumrin, en á vetrin er lítið um lestaferðir yfir Hvítá hvort sem er, nema á ís. Það má telja víst, að er dragferjan væri komin, mundu Tungnamenn snúa verzlun sinni miklu meir til Eyrarbakka og Stokkseyrar heldur en nú, til þess að spara sjer Reykjavíkurferðirnar, sem eru svo miklu lengri, eins og áður er sagt.

Máli þessu til undirbúnings hefur verið leitað álits verkfróðra manna. Herra Páll Jónsson vegagjörðamaður, hefur skoðað ferjustaðinn og gjört mælingar þar, er hann taldi nauðsynlegar. Síðan hefur málið verið borið undir verkfræðing landsins, herra Sigurð Thoroddsen og hefur hann lofað að gjöra uppdrátt af ferjunni og áætlun um kostnaðinn. Var svo ráð fyrir gjört, að áætlun sú kæmist til hreppsnefndarinnar nú fyrir sýslufund, en því miður hefur það brugðist, og getur því hreppsnefndin enga vissa hugmynd haft um kostnaðinn. Þar er þó sú bót í máli, að ráðstöfun hefur verið gjörð til þess að áætlunin verði send oddvita sýslunefndarinnar svo að hún verði þar til sýnis er mál þetta kemur til umræðu í sýslunefndinni. Hið eina sem hreppsnefndin getur byggt á, að því er til kostnaðarins kemur, er það, að dragferjurnar á Héraðsvötnum kostuðu önnur rúml. 1300 kr, en hin rúml. 1000 kr og má ætla, að kostnaðurinn yrði svipaður við dragferju að Iðu.

Nú má að vísu segja, að fyrirtæki þetta sje mest fyrir Tungnamenn, og er það satt, þó má benda á það, að margir eiga erindi yfir Hvítá að Iðu úr öðrum sveitum, ekki síst nú, síðan Skálholt varð læknissetur, og allur helmingur umdæmisins verður að sækja til læknisins yfir Hvítá, og þá einmitt helzt á þessum stað. Þar á og prestur yfir að sækja og sóknarfólk til kirkju sinnar.

En þó væntum vjer, að sýslunefndin líti einkum á það, að hjer er að ræða um mikið nauðsynjamál, sem vert er að styðja, bæði vegna manna og skepna. Það er einnig hið fyrsta fyrirtæki þess kyns hjer um slóðir og sýnist mega fremur njóta þess en gjalda.

Þá er og á það að líta að hjer á sá hluti sýslunnar í hlut, sem á örðugra aðstöðu í samgöngumálum en aðrir. Landssjóður hefur tekið ómakið af flestum öðrum hreppum sýslunnar með því að brúa Ölfusá, svo að nú þurfa menn þar hvorki að sundleggja hesta sína, nje tefja sig, nje gjalda ferjutolla. Leggja Tngnamenn þar árlega til sinn skerf eins og aðrir sýslubúar, til þess að losa þá við töf og kostnað og hesta þeirra við sund, en sjálfir hafa þeir brúarinnar svo að segja engin not. Þykir það, sem og er, ekki nema sjálfsagt, því það heimtar allur fjelagsskapur, að hver veri byrðina með öðrum, en hart mundi oss þykja, Tungnamönnum, ef þeir hreppar sýslunnar, er fengið hafa, án sjerstakra fjárframlaga slíka samgöngubót sem Ölfusárbrúin er, vildu lítið eða ekkert styrkja oss til að fá þá litlu samgöngubót, er nú förum vjer fram á.

Ekki kemur oss þó til hugar að fara fram á það að sýslan kosti dragferju þessa að öllu leyti, en vjer leyfum oss að fara þess á leit, að hin heiðraða sýslunefnd vilji veita allt að helmingi kostnaðarins úr sýslusjóði. Vér ætlum, að vísu, að sýslunefndin vilji heldur veita einhverja tiltekna upphæð til þessa fyrirtækis, enda er oss það jafnkært, en með því að vjer höfum eigi fyrir oss áætlun um kostnaðinn, viljum vjer ekki nefna upphæðina, heldur fela það sýslunefndinni, því að, eins og áður er sagt, treystum vjer því, að áætlunin verði komin til hennar, þegar málið kemur til umræðu.

Að því er snertir framkvæmd verksins sjálfs, skal geta þess, að hreppsnefndin hefur ætlað Páli Jónssyni, verkfræðingi, að sjá um það, og munu allir er þekkja hann, telja allvel fyrir því verki sjeð, er hann á að stjórna.

Biskupstungnahreppi 11. apríl 1903

Undir bréfið rituðu nöfn sín þeir:
séra Magnús Helgason, Torfastöðum,
Björn Bjarnarson, Brekku,
Gísli Guðmundsson, Kjarnholtum,
Ingimundur Ingimundsson, Reykjavöllum,
Geir Egilsson, Múla og
Eiríkur Eiríksson, Miklaholti.
(Þetta bréf er að finna í bréfasafni sýslunefndar Árnessýslu á myndasetur.is)
Páll Jónsson (1853-1939)

Sýslunefnd tók málið fyrir og samþykkti að veita kr. 550 til uppsetningar á dragferju. Tungnamenn reiknuðu með að uppsetningin myndi kosta á bilinu 1.000 til 1.300 krónur, sem eru, uppreiknað skv neysluvísitölu í kringum 300.000 krónur.
Ferjan var sett upp og það var Páll Jónsson sem hafði veg og vanda að því verki. 
Það var svo í september þetta ár, að ferjumaðurinn Runólfur Bjarnason, bóndi á Iðu, drukknaði eftir slys við ferjuna. Um þetta slys var fjallað allnákvæmlega í Þjóðólfi og einnig skrifaði Skúli Sæland, ítarlega grein um það í Litla Bergþór 1. og 2. tbl. 2018. Fyrra blaðið er að finna á timarit.is.

Dragferjan var notuð á þessum stað til 1917, en var þá flutt á Brúará við Spóastaði og var þar, þar til brú þar leysti hana af hólmi 1921.

Fyrstu árin eftir að hún var tekin í notkun var kvartað talsvert undan henni og sýslunefnd sá ítrekað ástæðu til að hvetja  Tungnamenn til að koma á hana skikki.

28 maí, 2021

Guðjón í Reykjanesi

Sýslunefnd Árnessýslu á fyrstu áratugum 20. aldar.
Ágúst Helgason, Árni Pálsson 1859-1941,
Bjarni Halldórsson 1867-1915, Björn Bjarnarson 1864-,
Gísli Scheving, Guðmundur Lýðsson 1867-1965,
 Guðmundur Sigurðsson, Guðmundur Þorvarðarson 1870-1939,
Gunnlaugur Þorsteinsson 1851-1936, Halldór Einarsson 1852-1912,
Júníus Pálsson, Kolbeinn Guðmundsson 1873-1967,
Ólafur Magnússon 1864-1947,  Ólafur Sæmundsson 1865-1936,
Sigurður Ólafsson 1855-1927, Stefán Stefánsson Stephensen 1832-1922,
Valdimar Briem 1848-1930,

Í bréfasafni Sýslunefndar Árnessýslu frá árinu 1901, er að finna bréf frá ábúandanum í Reykjanesi í Grímsnesi, Guðjóni Finnssyni, þar sem hann lýsir óþægindum vegna þess að sýslunefndin hafði ákveðið að í Reykjanesi skyldi vera lögferja yfir Brúará. Bréfið er svona:

Eins og kunnugt er setti sýslunefnd Árnessýslu lögferju hjá mér síðastliðið vor. Eins og á stóð þorði ég ekki að mælast undan að taka við lögferjunni og veit ekki hvort ég hafði ástæður til þess, en það skildist mjer þo ekki, að ferja hlyti að verða mjer byrði. Umferð verður mikil af lausaríðandi og gangandi mönnum, einkum þeim sem leita læknis að Skálholti úr útparti sýslunnar, en lestaferðir engar eða mjög litlar, helst frá Skálholti, sem að líkindum hefur fríjan flutning.Tekjur verða því litlar af ferjunni, en ónæði og kostnaður mikill.
Hingað til hef ég ferjað alla sem leitað hafa til mín og hefur það gengið slysalaust og ég vona að engin kvarti undan að ferjan hafi verið illa stunduð, en við ferjuna hef jeg þó orðið að nota lítt nýtt bátshróf, sem ég átti og sem hafði verið ókleyft að nota, ef tíð hefði ekki verið ágæt og svo að segja aldrei ísskríð á ánni.

Eigi ferja að vera hjer framvegis í fullu lagi er því óhjákvæmilegt að kaupa nýjan, góðan bát, en til þess vantar mig efni og álít ósanngjarnt að mjer sje gjört að skyldu að hleypa mjer í skuld fyrir bát við ferju, sem als ekki getur svarað kostnaði að stunda þótt bátur væri til og engu þyrfti til hans að kosta.

Á það skal jeg líka leyfa mér að drepa, að vegur er lítt fær frá ferjunni, mýrarsvað með fleiri illfærum keldum og þyrfti þar, ef vegur ætti að heita fær, um 400 ....(faðma) brú.

Jafnframt því og jeg því hjer með leyfi mjer að skora á hina heiðruðu sýslunefnd að veita mjer á næsta fundi sínum styrk til að kaupa bát fyrir til notkunar við ferjuna, skal ég einnig benda á það, að nýnefnd vegabót er bráðnauðsynleg, eigi ferjan að koma að tilætluðum notum, einkum vegna þess að læknis er leitað, ekki síður í svartnætti en um bjartan dag. Reykjanesi 16 marz, 1901
Guðjón Finnsson

 Guðjón Finnsson (1853-1923)  flutti í Reykjanes 1899 og bjó þar með fjölskyldu sinni til 1914 þegar sonur hans, Guðmundur tók við búinu og Guðjón hvarf á braut. Kona Guðjóns var Guðlaug  Sigvaldadóttir (1853-1932) sem var 46 ára þarna um aldamótin og þau áttu tvö börn sem bjuggu hjá þeim, Guðrúnu sem var 17 ára og Guðmund, 12 ára. Auk þeirra var á heimilinu vinnukona að nafni Jóhanna Finnsdóttir (1866-1960) og tvö börn hennar og Guðjóns, þau Friðsemd, 7 ára og Anna 6 ára. Þá var þar  vinnumaðurinn Ólafur Grímsson (22) og sveitarómagi Kristín Jónsdóttir (80).

Í sóknarmannatali er Guðlaug sögð vera kona Guðjóns, en í Íslendingabók er hún skráð sem vinnukona í Reykjanesi. 

Ekki neita ég því, að ég þurfti aðeins að velta því fyrir mér hvernig heimilisbragurinn var hjá þessu fólki. Eiginmaðurinn og eiginkonan á saman tvær dætur, sem voru 17 og 12 ára. Bóndinn og vinnukonan áttu saman tvær dætur sem voru 7 og sex ára. Árið eftir höfðu þau, bóndinn og vinnukonan, svo eignast þriðju dótturina.  

Mig langaði að vita aðeins meira um Guðjón Finnson og fann þá út að hann hefði látist með voveiflegum hætti árið 1923.

Hér má sjá nokkrar frásagnir af því í blöðum:

Guðjón Finnsson heitir gamall maður, sem hvarf hjer í bænum á föstudagskvöldið [26. október]. Var hann lengi bóndi austur í Grímsnesi, en hafði verið 3 síðustu árin hjer í Reykjavík. Hann er meðalmaður vexti, þrekinn, alskeggjaður. Eru þeir beðnir að gera lögreglunni aðvart, sem kynnu að verða varir við hann.

Þann 10. nóvember voru komnar fram grunsemdir um að hann hefði verið myrtur og 13. nóvember var greint frá eftirfarandi:

Taska, er Guðjón Finnsson, sem hvart um daginn, hafði meðferðis, hefir fundist rekin við vesturgarð hafnarinnar skamt frá  Örfirisey. Voru í henni sparisjóðsbækur og fleira, sem í henni átti að vera. Er því talið vlst, að maðurinn hafi fallið í hðfnina, en ekki hefir enn fundist líkið. (10/11)

Rannsókn er hafin út af hvarfi Guðjóns Finnssonar og hefir einn maður verið settur í gæsluvarðhald. Líkindi eru til, að hattur Guðjóns hafi fundist í fjörunni vestur í bæ. (28/11)

Í janúar var svo greint frá því að gunuðum drápsmanni hafi verið sleppt: 

Úr gæsluvarðhaldi hefir nú manni þeim verið slept, er setið hefir þar síðan í haust, að Guðjón Finnsson hvarf. Var honum slept fyrir nokkrum dögum. Voru líkurnar með því, að hann væri valdur að hvarfi mannsins ekki svo sterkar, að rjett þætti að halda honum lengur í varðhaldinu. (20/01)

Mál Guðjóns var síðar notað sem eitt dæmi um að réttarfari hér væri stórlega ábótavant. Þannig segir í Lögbergi þrem árum síðar:  

Fjórða dæmið er af meðferð máls manns þess, er Guðjón Finnsson hét og hvarf vofeiflega, en fanst síðar dauður í sjónum; og satt að segja er saga þessa máls, sem greinilega er sögð í bókinni, svo óskapleg, að vér minnumst naumast að hafa séð aumlegri frammistöðu. Fleiri dæmi minnist höfundurinn á, sem sýna berlega, að réttarfarinu þar heima í höfuðstaðnum er meira en lítið ábótavant, og er það illa farið, þegar menn hætta að bera virðingu fyrir réttvísi og lögum. Þá er skamt eftir orðið til menningar og siðferðisþrota. 

Á vefnum gardur.is segir svo um Guðjón: 

Hvarf úr Reykjavík. Þrír menn voru settir í gæsluvarðhald, grunaðir um að vera riðnir við hvarf hans. Tveimur þeirra var sleppt nokkru síðar.

Já, þetta var allt út af einu bréfi í bréfasafni sýslunefndar. Það er ekki nema von að þetta gangi hægt hjá mér. 


Laugarás: leigulóðir 1953

Árið 1953, þegar tæpir sex mánuðir voru til þess tíma er ég hóf vegferð mína um veröldina fyrsta sinni, skilaði Skipulagsstjóri ríkisins, Zophonías Pálsson af sér teikningu af Laugarási, sem sýnir þær lóðir sem þá höfðu verið teknar á leigu. Lóðirnar eru númeraðar frá 1 - 12 í þeirri röð sem þeim var úthlutað. Þarna var hafin bygging brúarinnar á Hvítá, en enn nokkur ár í að smíðinni lyki. Knútur Kristinsson var héraðslæknir. Stefán Diðriksson á Minni-Borg var formaður oddvitanefndarinnar og árið áður voru fyrstu sumabörnin í Krossinum. Sex ára Ásta og 4 ára Sigrún Skúladætur dönsuðu um Hveratúnshektarann og biðu bróðurins í ofvæni.
Þetta ár fékk Guðmundur Einarsson frá Iðu (bróðir Sigurbjörns biskups) lóð 12 og Guðmundur Indriðason fékk lóð til nýbýlisstofnunar, Einar Ólafsson fékk annað land en það sem hann fékk síðan, Skúli Magnússon fékk leyfi til að veðsetja Hveratún.
Á teikningunni má sjá þrjá hveri. Hildarhver nyrst, næst honum Draugahver og talsvert þar fyrir sunnan Bæjarhver. Þarna var fjós og hlaða rétt norðan gamla læknisbústaðarins þar sem Jens og Matthildur búa nú. Þá lá heimreiðin að Sólveigarstöðum gegnum Hverstúnslóðina.

Ýmislegt orðið með öðrum hætti.
Rétt er að taka það fram að ég teiknaði upp teikningu skipulagsstjórans og skrifaði inn á hana.

08 maí, 2021

Tungnamenn vildu kaupa

Ég hef stundum fjallað um Laugarás í þessum pistlum og ekki að ósekju. Uppsveitahrepparnir eignuðust Laugarásjörðina þegar þar var sett niður læknissetur árið 1922 og kaupin voru formlega frágengin 1923. 
Það má auðvitað velta fyrir sér hversvegna það þurfti að kaupa heila jörð, um það bil 350 hektara, fyrir læknissetur, svona í ljósi þess að núna duga 3 hektarar vel fyrir alla þessa starfsemi, þó hún sé orðin margfalt umfangsmeiri en fyrir einni öld.  
Jú, vissulega var gert ráð fyrir því þá, að héraðslæknirinn framfleytti sér og sínum með búskap til hliðar við læknisstörfin, en fyrr má nú aldeilis fyrrvera.
Laugarásjörðin var sem sagt keypt að þar byggt læknissetur.  Árið 1946 hætti héraðslæknirinn að vera bóndi í hjáverkum og síðan hefur hreint engin augljós ástæða verið fyrir því að Laugaráshérað eigi þessa jörð, enda Laugaráshérað ekki til lengur. Það hljóta samt að vera ástæður fyrir því að enn í dag eiga uppsveitahrepparnir jörðina.


Ástæða þess að ég fjalla aðeins um þetta hér og nú, er, að í morgun sýndi Facebook mér minningu frá þessum degi fyrir fjórum árum. Þar er um að ræða pistil sem ég skrifaði, í tilefni af því að sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hafði samþykkt þá skoðun að eðlilegt væri að hrepparnir seldu jörðina.

Seld eða leigð 

Síðan þá er ég orðinn nokkru vísari um þessi mál.

Oddvitanefndin, það er að segja, nefnd oddvitanna sex í uppsveitunum (Biskupstungnahrepps, Hrunamannahrepps, Gnúpverjahrepps, Skeiðahrepps, Grímsneshrepps og Laugardalshrepps) stýrði málum í Laugarási og hittist á fundum einu sinni til tvisvar á ári að jafnaði í því skyni. Þessir félagar fjölluðu þar um stór og smá mál og ég dreg ekki úr því, að án öflugrar aðkomu þessara sex hreppa að uppbyggingu heilsugæslustarfsemi í Laugarási, væri staðan í þeim málum líklega önnur nú.

En Laugarás stækkaði og starfsemi heilsugæslunnar bólgnaði stöðugt. Þar kom að oddvitanefndin kaus undirnefndir, eða stjórnir til að sinna daglegum rekstri heilsugæslunnar og hitaveitunnar í Laugarási. Oddvitarnir héldu áfram að hittast á árlegum fundum og fengu þar skýrslur um starfsemina. 
Þar kom, árið 1979 nánar tiltekið, að þeir komust að þeirri niðurstöðu og það væri sennilega engin ástæða  til þess að þeir væru að reka hitaveitu Laugarási og vildu að Tungnamenn tækju  hana að sér, en þá kom fram einkar áhugaverð tillaga frá Tungnamönnum: 

Gísli Einarsson [oddviti Biskupstungnahrepps] ræddi þessi mál, og vildi hann ræða þessi mál á breiðari grundvelli. Hann sagði að Biskupstungnahreppur vildi gjarnan að þessi mál yrðu tekin vel í gegn og hitaveita verði ekki tekin út úr sér, heldur tæki hreppurinn við öllum eignum héraðsins – nema læknamiðstöðina og þær lóðir sem það þyrfti á að halda – og hitaréttindum.
Gísli gerði að tillögu sinni, að Biskupstungnahreppur tæki jörðina á leigu eða keypti hana. (fundargerð 07 04 1979)


Með þessari tillögu fór allt á hreyfingu. Það var fjallað um málið í öllum hreppsnefndum og Tungnamenn beðnir að setja fram "einhverjar hugmyndir eða tilboð um leigu eða kaup á jörðinni, sem gætu orðið umræðugrundvöllur hjá hreppsnefndum hinna hreppanna." (fundargerð 20 07 1979).

Svo leið eitt ár og hreppsnefndirnar höfðu fjallað enn meira um þetta stóra mál:

Svör hreppsnefndanna voru öll jákvæð hvað varði leigu, en sumar töldu sölu varla koma til greina að svo komnu máli.    Fram kom á fundinum að Hagsmunafélag Laugaráss mælir með að Biskupstungnahreppur taki jörðina á leigu. (fundargerð 11 06 1980)

 Í fundargerð hreppsnefndar Biskupstungnahrepps í framhaldinu kom fram að Skeiðahreppur, einn hreppanna hafi ekki viljað selja jörðina. Ég get ímyndað mér að meginástæðan fyrir afstöðu Skeiðahrepps hafi verið, að oddviti Skeiðamanna, Jón  Eiríksson í Vorsabæ, var nánast allt í öllu í Laugarási í áratugi og hafði sterkar taugar til jarðarinnar. 

Hér er svo einnig samþykkt Hagsmunafélags Laugaráss, sem vísað er til:

Aðalfundur Hagsmunafélags Laugaráss haldinn 2. júní, 1980, skorar á hreppsnefnd Biskupstungna að stefna að því af fullum einhug, að taka jörðina Laugarás á leigu með réttindum og skyldum, af læknishéraðinu.


Ekki treysti ég mér til að segja til um hversvegna Hagsmunafélagið kaus að ganga ekki alla leið og skora á Birskupstungnahrepp að kaupa jörðina. Mögulega taldi fólk þann möguleika ekki vera uppi á borðinu og valdi því þann sem meiri líkur voru á að gengi í gegn. Hugsanlega leit það málið þannig að betra væri að hafa hina hreppana í bakhöndinni, ef  Biskupstungnahreppur sinnti Laugarási ekki sem skyldi.  Hvað veit ég svo sem? 

Það varð svo úr, að Biskupstungnahreppur tók Laugarásjörðina á leigu, og samningur um það var undirritaður þann 6. maí 1981. 

Hagsmunir

Voru það með einhverjum hætti hagsmunir hreppanna, sem réðu því að þeir ákváðu að selja Laugarásjörðina ekki?

Ég leyfi mér hér að setja fram tvær tillögur að ástæðum fyrir því að hrepparnir töldu sig hafa hag af því að halda jörðinni í sinni eigu:


1. Hrepparnir sáu fyrir sér, að þeir myndu mögulega í framtíðinni sameinast og sáu í hendi sér að við slíka sameiningu yrði Laugarás sá staður þar sem stjórnsýsla í nýju sveitarfélagi yrði, auk annarra þjónustustofnana sveitarfélagsins og ýmiss konar atvinnustarfsemi. Þeir litu svo á að það myndi auðvelda sameiningu hreppanna, ef þeir ættu allir saman stað sem væri í hjarta uppsveitanna.

2. Hrepparnir voru á þessum tíma að byggja upp eigin þéttbýlisstaði þar sem þeir komu fyrir stjórnsýslu og opinberri þjónustu. Þeir voru áfram um að byggja upp hver hjá sér og óttuðust að ef þeir seldu Laugarásjörðina myndu þeir missa stjórn á því hvernig þróun byggðarinnar þar yrði. Þeim stóð, sem sagt, ógn af Laugarási og mögulegri uppbyggingu þar.

------------------------------

Hvor þessara tillagna minn aer nær lagi, hef ég ekki hugmynd um, þó sannarlega gruni mig hitt og þetta.28 apríl, 2021

Sérann, stungan og lögbrotið.

Það var einmitt þegar ég var að byrja að sannfærast um, að ég væri ekki til lengur, að allt tók að gerast. Ég ætla ekki að fjölyrða um þakklæti mitt og léttinn sem felst í því að uppgötva að maður er til; hluti af samfélaginu, virkur þátttakandi í göngunni milli fæðingar og dauða; eitthvað meira en algert núll. 
Ég enduruppgötvaði tilveru mína nú á síðustu dögum og er því upprisinn til hópsins telst vera menn með mönnum. 

Þetta byrjaði með því að við fD ákváðum að skipta um bíl, en eins og þeir sem mig þekkja, þá er ég ekkert sérstaklega fljótur til þegar framkvæmdir eru annars vegar.  
Allavega létum við verða af því að kíkja á bílsölu í bænum, svona til að sjá hvaða möguleikar voru í stöðunni. Ef einhver stefna var fyrir hendi þá snérist hún um að skella sér á einhvern "nýjan úr kassanum", sem við gætum kinnroðalaust ekið um vegi landisns næstu árin, en eins og við öll vitum þá mun þrengja æ meira að hreinum jarðefnaelsneytisknúðum bifreiðum, fyrr en nokkurn grunar.  Aðspurður um hve langan tíma það tæki að fá nýjan bíl, kvað sölumaðurinn það geta tekið allt að þrem mánuðum ef sérviska okkar í vali á hinu og þessu væri þess eðlis að slík bifreið væri ekki til á landinu. Ekki ætla ég að hafa um það mörg orð, svo sem, en við fengum að prófa einn, "konubíl" í merkingunn að kona hafði átt hann, ekinn örfáa kílómetra. Það skipti engum togum, að við ókum heim daginn eftir á "séranum", sem ég hef kosið að kalla gripinn.

Það næsta sem gerðist, eftir að ég hafði þurft að sitja undir nánast stanslausri gagnrýni fD á heilbrigðisyfirvöld hér á svæðinu, vikum saman, í svo miklum mæli, að ég var sjálfur farinn að trúa því að ég hefði dottið úr þjóðskrá, að í símann komu skilaboð um að ég skyldi mæta á tilteknum stað á tilteknum tíma þann 29. apríl til að fá í upphandlegginn Astra Zeneca bóluefni við Covid-19.

Þegar þarna var komið var nú farin að léttast á mér brúnin og ég byrjaður að vera til aftur. Ég var farinn að sjá aftur til sólar og lét vaða út í sólstofu eins og hinir öldungarnir hér í umhverfi mínu. Leyfði orkugefandi geislum sólar að baka mig, þó vissulega passaði ég mig á því, að sýna ekki allt (eða of mikið), því það hefði getað valdið umferðaröngþveiti hér fyrir framan.

Svo er að segja frá því tilviki þegar ég sannfærðist endanlega um tilveru mína að morgni þessa sólardags, en þá vorum við fD á leið úr stórverslun við Ölfusárbrú. Í baksýnisspegli sérans birtist þá lögreglubifreið, sem olli því að góð ráð urðu dýr. Það er nefnilega þannig, að til þess að komast heim til okkar úr ofangreindri átt, er um tvennt að ræða: annaðhvort að beygja yfir óbrotna línu, í veg fyrir umferðina sem á móti kemur (og brjóta þannig lög), eða aka langar leiðir, snúa þar við og koma að innkeyrslunni úr hinni áttinni. Með lögreglubifreiðina á hælunum, var tekin ákvörðun í skyndi, um að brjóta ekki lögin, heldur aka langar leiðir til að koma réttu megina að. Til þess að komast hjá mögulegum sektum tilgreini ég ekki hér, hvernig ég fer alla jafna heim til mín við þessar aðstæður. 

Þarna  var ég, tvísannfærður um að ég væri til sem virkur  einstaklingur í samfélaginu, ákveðinn í að kalla ekki fram þriðju staðfestinguna, umkringdur blikkandi ljósum lögreglunnar í Árnessýslu.

Það er ágæt tilfinning að vera til.

22 apríl, 2021

Eyðistaður, umlukinn miðaldamyrkri.

Skálholt 1948 (mynd Guðfinna Hannesdóttir)

"Það er eins og miðaldamyrkrið umlyki Skálholtsstað. Skálholt er að verða eyðistaður þar sem nokkrir trúaðir menn biðja til guðs."
Svo kemst Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra og alþingismaður, að orði í Dagskránni þann 14. apríl, 2021. Þarna er Guðni að fjalla um myndarlega uppbygginguna í Haukadal og telur að rétt væri að Skálholti verði komið í umsjá Haukdælinga, öfugt við það sem áður var.

Það er fjarri mér að fara að fjargviðrast yfir þessum orðum stjórnmálamannsins, enda eru stór orð sú leið sem þeir hafa til að ná athygli og eru vanir því að á orðum þeirra sé ekki tekið sérlega mikið mark oft á tíðum.  Skoðun Guðna er vel þess virði að velta fyrir sér. 

Hefur ekki tekist að endurreisa Skálholt til þess vegs og virðingar sem staðurinn á skilið, svona í ljósi sögu þessa mikla staðar sem miðstöðvar trúar og valds um aldir? Sé það niðurstaðan að Skálholt sé "að verða eyðistaður, umlukinn miðaldamyrkri" hlýtur að þurfa að velta fyrir sér mögulegum ástæðum þess og komast að niðurstöðu um hvort það er kannski sá stallur sem Skálholt á að vera á.

Niðurlægingartími (þarf ekki endilega að lesa)

Eigendurnir
En fyrst aðeins um sögu Skálholt frá því jörðin komst í eigu Hannesar Finnssonar biskups árið 1785, þar til ríkið eignaðist jörðina árið 1935.
Þegar Hannes biskup lést árið 1796 tók ekkja hans, Valgerður Jónsdóttir (1771-1856), sem var 32 árum yngri en Hannes, jörðina í arf. Eftir lát hennar árið 1856 gekk jörðin til dóttur hennar og Hannesar, Þórunnar (1794-1886). Við lát hennar varð jörðin eign sona hennar Árna (1828-1907)  og Steingríms (1831-1913) Thorsteinssona. Árni var landfógeti og Steingrímur eitt þjóðskálda okkar.  Ég er reyndar ekki orðinn alveg viss um að Steingrímur hafi erft jörðina ásamt bróður sínum, en það mun koma í ljós. Hvað um það.

Eftir að Árni lést sat ekkja hans Sophie Christine Hannesdóttir Thorsteinsson (1839-1914) í óskiptu búi til dauðadags. 
Erfingjarnir voru þá afkomendur þeirra Árna landfógeta og Sophie, en þeir voru:
Hannes Thorsteinsson (1863-1931), Árni Thorsteinsson (1870-1962), tónskáld, Þórunn Ziemsen Thorsteinsson (1866-1943)  og börn Sigríðar Thorsteinsson (1872-1905) Árni Pálsson (1897-1970) og Kristín Pálsdóttir (1898-1940).

Þegar ríkið keypti jörðina voru eigendur hennar svo þessir:
1/3 hluti: Þórunn Árnadóttir Siemsen Thorsteinsson (1866-1943) dóttir Árna landfógeta.
1/3 hluti: Árni Thorsteinson (1870-1962) tónskáld, sonur Árna landfógeta.
1/6 hluti: Árni Pálsson (1897-1970), sonur Sigríðar Árnadóttur Thorsteinson.
1/6 hluti: Kristín Pálsdóttir (1898-1940), dóttir Sigríðar Árnadóttur Thorsteinson.


Valgerður biskupsekkja bjó í Skálholti til 1816, en eftir það bjuggu þar leiguliðar á tveim hálflendum, sem voru kallaðar vesturbær og austurbær. Ekki hefur mér tekist að finna út, endanlega hvor bærinn var hvað, en það skiptir nú ekki öllu máli í þessu samhengi. Hinsvegar tel ég að tíminn frá því biskupsstóllinn var fluttur "í bæinn" 1786, og þar til ný dómkirkja var vígð 1963, hafi verið mesti niðurlægingartími í sögu Skálholts. Kirkjan sinnti staðnum ekki og þar var ekki einusinni prestssetur. Á þessum tíma þjónuðu prestar á Ólafsvöllum eða Torfastöðum þessum  mikla stað. Hvernig mátti þetta vera? 

Ábúendurnir
Ég þykist vera búinn  að taka saman lista yfir leiguliðana í Skálholti á þessum tíma. Þarna var bæði fólk sem rak myndarbú og fólk sem miður gekk í baslinu. Þessi listi lítur svona út:  

Vesturbær

1816-1833 Jón Jónsson og Rannveig Jónsdóttir
1833-1860 Eiríkur Jónsson og Guðrún Bjarnadóttir
1860-1874 Erlendur Eyjólfsson og Margrét Ingimundardóttir
1874-1880 Þórður Halldórsson og Margrét Ingimundardóttir
1880-1883 Ingimundur Erlendsson og Guðfinna Erlendsdóttir
1883-1900 Grímur Eiríksson og Guðrún Eyjólfsdóttir
1900-1911 Skúli Árnason og Sigríður Sigurðardóttir
1911-1927 Skúli Árnason og Steinunn Sigurðardóttir (bústýra)
1927-1939 Jörundur Brynjólfsson og Þjóðbjörg Þórðardóttir (Skálholt verður eitt býli)

Austurbær

1816-1834 Jón Jónsson og Halla Magnúsdóttir
1834-1862 Ólafur Helgason og Ingiríður Einarsdóttir
1862-1870 Ingiríður Einarsdóttir og Helgi Ólafsson(sonur hennar)
1870-1877 Helgi Ólafsson og Valgerður Eyjólfsdóttir
1877-1897 Einar Kjartansson og Helga Hjörleifsdóttir
1897-1901 Guðmundur Erlendsson og Þórunn Stefánsdóttir
1901-1911 Jón Bergsson og Hallbera Jónsdóttir
1911-1916 Marel Halldórsson og Valgerður Vigfúsdóttir
1916-1919 Jón Gunnlaugsson og Jórunn Halldórsdóttir
1919-1922 Jón Gunnlaugsson
1922-1939 Jörundur Brynjólfsson og Þjóðbjörg Þórðardóttir
1939-1948 Jörundur Brynjólfsson og Guðrún Helga Dalmannsdóttir
1948-1950 Eyþór Einarsson og Guðfinna Dagmar Hannesdóttir (bústýra)
1950-1993 Björn Guðmundur Erlendsson og Ingunn María Eiríksdóttir
Nú má ég.

Á vígsludegi hinnar glæsilegu dómkirkju, þann 21. júlí, 1963, afhenti kirkjumálaráðherra, dr. Bjarni Benediktsson, þjóðkirkjunni Skálholt til varðveislu og eflingar kristninni í landinu. 
Við getum staldrað við og velt fyrir okkur hvort það hafi verið rétt. 
Hvernig átti þessi staður að verða til eflingar kristninni í landinu? 
Hvernig hefur til tekist? 
Hefur kirkjunni tekist að efla kristnina í landinu, með húsinu og jörðinni sem henni voru færð í hendur á vígsludeginum? 
Er hægt að halda því fram að kirkjan hafi staðið sig í stykkinu, sem eigandi og ábyrgðaraðili staðarins? 
Það er ekki nóg að byggja hús. Fleira verður að koma til.

Þar sem ég er ekki stjórnmálamaður, treysti ég mér ekki til að slá hér um mig með stóryrðum um málefni Skálholtsstaðar, en mér finnst að framundan megi greina bjartari tíma á staðnum. 

Þrennskonar Skálholt.


Kirkjustaðurinn
Það fer ekki á milli mála, að í Skálholti er ein þriggja dómkirkna á Íslandi. Hin íslenska þjóðkirkja á að tryggja það að frá staðnum berist boðskapurinn sem hún stendur fyrir. Henni ber, í samræmi við hlutverk sitt, að efla staðinn sem kirkjustað, ekki bara gagnvart þeim fáu sálum sem í nágrenninu búa, heldur meðal þjóðarinnar allrar. Ekki lítil ábyrgð það. 
Skálholtshátíð er haldin á hverju sumri en ég fæ ekki séð að þar fyrir utan sé mikið um stórar kirkjulegar athafnir í Skálholtsdómkirkju. Ekki fæ ég heldur séð að söfnuðurinn sem kirkjuna sækir heim á öðrum dögum ársins sé ýkja stór. Það er aðallega vegna sérstakra viðburða að fólk fyllir stundum kirkjuna. Fólk safnast þar inn til að kveðja ástvini, vini eða sveitunga. Fólk sækir tónleika talsvert og fólk leggur leið sína í kirkjuna til að njóta menningar og þess andblæs sögunnar sem þar er að finna.

Sögustaðurinn
Það er okkur flestum ljóst, að Skálholt er einn merkasti sögustaður landsins. Ég ætla ekki að fjölyrða um allar þær ástæður sem má telja fram þeirri fullyrðingu til staðfestingar. Biskupssetur um aldir, vettvangur stórra atburða og skólasetur.


Menningarstaðurinn
Dómkirkjan sjálf er listaverk sem Hörður Bjarnason skapaði og altarismynd Nínu Tryggvadóttur og gluggar Gerðar Helgadóttur eru einstök trúarleg verk. Gjafir frændþjóða okkur  setja svip á bygginguna að innan og utan. Uppi í turni er mikið bókasafn sem bíður þess að komast í aðgengilegra húsnæði. Tónlistin fær að blómstra.

Get ég?

Hér er ég sennilega kominn að viðkvæmasta hlutanum í þessum pistli fyrsta sumardegi þessa árs. Er þjóðkirkjan, í þeirri stöðu sem hún er í samfélaginu, fær um að bera ábyrgð á Skálholtsstað og sýna honum þá virðingu sem honum ber? Aðrir eru sjálfsagt betur færir til að svara þeirri spurningu, en fyrir mig get ég sagt, að það stjórnkerfi sem staðurinn hefur búið við frá því þjóðkirkjan fékk hann í hendur, hefur ekki virkað honum í hag. Þar kemur tvennt til:
- Það hefur ekki ríkt einhugur um hvert á að stefna með staðinn. 
Það eru þeir sem vilja að hann þjóni fyrst og fremst hagsunum kirkjunnar, eða trúarinnar. 
Það eru þeir sem vilja líta á hann fyrst og fremst sem sögustað og efla hann á þeim grunni.
Það eru þeir sem sjá hann aðallega fyrir sem stað þar sem menning og listir fá að blómstra. 


Það má segja, eins og þetta hefur blasað við mér, í það minnsta, að milli þessara mismunandi áhersluþátta hafi verið, eða séu, átök sem hafa leitt til þess að fátt hefur þokast í átt til viðhalds á staðnum eða eflingar hans. Þá má jafnvel ganga svo langt að hann hafi stöðugt verið að missa þann sess sem honum var ætlaður með byggingu dómkirkjunnar.
- Þjóðkirkjan er ekki sú stofnun lengur sem hún eitt sinn var og iðkun kristinnar trúar er á undanhaldi, með þeim afleiðingum að fólk er síður tilbúið að láta fé af hendi rakna til viðhalds og uppbyggingar á stöðum eins og Skálholti, þar sem þjóðkirkjan er við stjórnvölinn.

Megum við núna?

Nú hafa verið gerðar þær breytingar á því kerfi sem vonandi tekst að verða til þess að halda áfram verkinu sem upp var lagt með gjöfinni 1963. 

Ég vona, að nú sé búið að gera þær breytingar á stjórnun mála í Skálholti, að það takist að vinna sig í áttina að þeim einhug um framtíð staðarins, sem verður að nást. Hann er alveg nógu stór til að rúma áherslur á þá þrjá þætti sem ég nefni hér fyrir ofan.

Ljósblettir


Kristján Björnsson, vígslubiskup fjallaði um málefni Skálholts í Litla Bergþór í desember síðastliðnum. hann nefnir þar ýmislegt sem gert hefur verið nú siðustu ár, það sem unnið að núna og það sem framundan er. 
Það helsta sem lokið er má segja að séu þau stóru verkefni sem voru endurgerð listglugga Gerðar Helgadóttur og altarismyndar Nínu Tryggvadóttur. Þá er búið a hreinsa upp minjasvæðið og lagfæra undirganginn sem liggur úr kirkjunni út í minjasæðið
Nú er unnið að því að móta Þorláksleið, sem mun liggja frá Þorlákssæti og allt að Þorlákshver, sem er tæplega 5 km spotti, þar sem sagan drýpur af hverju strái.

Framundan eru miklar framkvæmdir við kirkjuhúsið. Þakið verður endurgert, svo og gluggar í turnhúsi, húsið málað að utan og innan, kirkjutröppurnar fá yfirhalningu og fyrirhugað er að endurhanna alla lýsingu í kirkjunni.
Væntanleg er ný klukka í stað þeirra sem féll og brotnaði.
Biskupshúsið, sem nú kallast Gestastofa eða Gestahús hefur verið endurhannað til að mæta nýju hlutverki, sem móttökustaður fyrir ferðamenn, bókasafn og prentsögusetur.
Fyrir utan Þorláksleið, er framundan mikil skógrækt í samvinnu Skógræktarfélags Íslands og Kolviðar, svo hefur verið settur kraftur í að selja veiði í Brúará og Hvítá.
Þeta er svona listi yfir hitt og þetta sem segja má um stöðu staðarins núna. Vísast mætti nefna ýmislegt fleira.
---------------------
Ég hef að undanförnu verið að öðlast meiri trú á að það takist að gera Skálholt að þeim stað í hugum fólks að það afgreiði hann ekki sem eyðistað í miðaldamyrkri, þar sem nokkrir trúaðir menn biðja til Guðs. Hann á meira skilið.

Gleðilegt sumar og þakkir mínar til ykkar, sem hafið látið það eftir ykkur að renna yfir pistla mína á þessum vettvangi.01 apríl, 2021

Nýr mánuður, nýtt vor

Villingarnir undirbúa atriði sitt,
fyrir nokkrum dögum
Ítalir tóku upp á því þegar kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst hjá þeim á vordögum á síðasta ári, að létta hver öðrum lundina með því að safnast út á svalir og syngja, hver fyrir annan. Ýmsir listamenn tróðu upp færðu fram allt það besta sem þeir höfðu að bjóða. Þessi siður breiddist síðan jafnvel til Íslands og naut talsverðrar hylli, þegar verst lét. 

Nú er aftur komið vor og páskahátíð handan við hornið, en enn setur kórónuveiran okkur skorður og þau okkar sem ekki viljum veltast á gosstöðvarnar, er ekki um annað að ræða, en beita hugmyndafluginu til að reyna að leyfa vorinu að umfaðma okkur. 

Þar sem við fD getum með engu móti hugsað okkur að láta ekki gott af okkur leiða, þegar og þar sem brýnust er þörfin, höfum við ákveðið að  létta lund Selfyssinga eftir megni. 
Þar sem við búum við aðstæður, sem fáir eiga kost á að njóta, ætlum við að efna til lítillar, en mikilvægrar vorhátíðar í útistofunni okkar klukkan 16.00 í dag, en þá verður gustlokunin dregin frá og borin verða fram, fyrir nágranna, gesti og gangandi, fjölbreytt atriði, sem við höfum verið að undirbúa nú á fyrsta ársjórðungi.

Fyrir utan það að tveir félagar úr Skálholtskórnum, tenór og sópran, munu flytja nokkra dúetta og einsöngsatriði (það eru nú að koma páskar), höfum við fengið til liðs við okkur nokkrar stórkanónur og þar má t.d. nefna þessar:
Hljómsveitirnar Mána og Skítamóral, sem munu flytja saman og sitt í hvoru lagi órafmagnaða (unplugged) dagskrá, með öllum þekktustu smellum sínum gegnum tíðina. Þessar hljómsveitir hafa lofað okkur að flytja, í það minnsta eitt frumsamið lag hvor. 
Þarna mun einnig koma fram pönkhljómsveit (gjörningahópur) sem var afar þekkt á sínum tíma, fyrir einstaklega frjóa nálgun að pönkinu, en þetta er hvorki meira né minna, en undan sveitin Villingarnir. Þessir félagar eru engum öðrum hljómsveitum líkir og munu án efa snerta strengi í hjörtum okkar, gömlu pönkaranna.

Til að slá síðasta tóninn, höfum við undirstungið bæjarstjórnina í Árborg og Vegagerð ríkisins, með að senda fulltrúa sína til að tilkynna opinberlega, formlega, um sameiginlega ákvörðun sína, sem tengist nýrri gangbraut yfir Austurveginn.

Eins og fyrr segir hefst þessi hátíð kl. 16.00 með setningarathöfn. Þá mun hvert atriðið taka við af öðru, allt til kl. 17.00, þegar gustlokunin verður dregin fyrir aftur og kófið heldur áfram, eins og áður, nema bara miklu skemmtilegra. 

Það þarf ekki að taka það fram, en sóttvörnum verður fylgt til hins ítrasta og hefur hvert smáatriði verið borið undir sóttvarnaryfirvöld, jafnvel þó margir þeirra sem fram koma séu þegar búnir að fá, í það minnsta fyrri skammtinn af Astra Seneca eða Pfizer Biontech.

Ákveðið hefur verið að Austurvegi verði lokað þann tíma sem þessi uppákoma stendur yfir, og umferð verður beint um Suðurhóla á meðan.

Njótum þessa fyrsta dags apríl mánaðar með frábærri skemmtun - kíkjum svo á þetta gos einhverntíma síðar.

Uppfært 1. apríl, kl. 16.30:
Ef svo ólíklega skyldi vilja til að einhver hafi talið sannleikskorn í textanum hér fyrir ofan, þá skal þess getið að hann var settur saman í tilefni dagsins.

06 mars, 2021

Hún Jóra

Jórunn hét stúlka ein; hún var bóndadóttir einhvers staðar úr Sandvíkurhrepp í Flóanum; ung var hún og efnileg, en heldur þótti hún skapstór. Hún var matselja hjá föður sínum. Einhvern dag bar svo við, að hestaat var haldið skammt frá bæ Jórunnar; átti faðir hennar annan hestinn, er etja skyldi, og hafði Jórunn miklar mætur á honum. Hún var viðstödd hestaatið og fleiri konur; en er atið byrjaði, sá hún, að hestur föður hennar fór heldur halloka fyrir. Varð Jórunn svo æf við það og tryllt, að hún óð að hinum hestinum og reif undan honum lærið; hljóp hún þegar með það, svo ekki festi hönd á henni, upp að Ölfusá hjá Laxfossi, þreif þar upp bjarg eitt mikið úr hömrunum við ána og kastaði því nálega út á miðja á; síðan hljóp hún yfir á stillum þessum og mælti um leið:

"Mátulegt er meyjarstig;
mál mun vera að gifta sig."

Heitir þar síðan Tröllkonuhlaup, aðrir segja Jóruhlaup. Þar hélt hún upp Ölfus, austan undir Ingólfsfjalli, og upp í Grafning
, uns hún kom að hamragili því, sem liggur vestur úr Grafningi, skammt frá Nesjum; eftir því fór hún og linnti ekki á, fyrr en hún kom upp í Hengil. Þar tók hún sér bólfestu, og er þar síðan kallaður Jóruhellir, og varð versta tröll og grandaði bæði mönnum og málleysingjum.

Þetta er fyrri hluti þjóðsögunnar um Jóru, en eðli máls samkvæmt er ég á kafi í því þessi missirin, að kynna mér nánasta umhverfi mitt og á sannarlega margt ólært. 

Þegar kemur að þjóðsögum vantar yfirleitt talsvert upp á að þær megi færa upp á raunverulegar aðstæður og maður bara sættir sig við það, enda eru þessar sögur þjóðsögur, eða ævintýri, sem lúta allt öðrum lögmálum en það sem maður gæti sætt sig við með góðu móti í daglegum veruleika - þær eru frekar trumpískar, ef svo má að orði komast.

En aftur að sögunni um Jóru.

Margar spurningar vakna eðlilega við lestur þessarar sögu og hér læt ég gossa þær helstu sem mér koma í hug núna:
- Hvar er þessi Laxfoss, sem nefndur er í sögunni? Er hann kannski Selfoss?
- Hvar hefði Jóra getað fundið "bjarg eitt mikið" hérna sunnan ár, hvað þá hamra, á öllu þessu sléttlendi?
-"kastaði því nálega út í miðja á" - Jóruklettur er miklu nær norðurbakkanum, en hann kann að hafa flust til í jarðskjálftum síðan þetta var.
- Segjum sem svo, að Jóra hafi getað stokkið af bakkanum sunnan megin og út í Jóruklett. Hvernig í ósköpunum datt henni síðan í hug að stökkva alla leið út í Hlaupklett, sem er í það minnsta  fimmföld sú vegalengd sem hún hafði stokkið yfir á Jóruklett? Hversvegna stökk hún bara ekki yfir á árbakkann?
Þannig er, að í framhaldi af færslu sem ég kom fyrir á Fb fyrir nokkrum dögum, þar velti ég fyrir mér nafninu á klettum sem ég hafði þá nýlega gengið á. Þarna var mér tjáð að þessir klettar kölluðust Hlaupklettur. Í framhaldi af því fékk ég síðan upplýsingar um, að nafnið væri til komið vegna þess að Jóra hefði stokkið á hann af Jórukletti, með lærið af hrossinu. Þetta seinna stökk Jóru virðist mér vera harla órökrétt.
- Hversvegna stökk Jóra bara ekki yfir Ölfusá þar sem brú var sett síðar? Þar yfir er nú ekki langur spotti, miðað við þau tröllastökk sem hún valdi til að komast yfir ána.

---------
Ætli ég láti ekki staðar numið hér, í þeirri von að þetta verði ekki til þess að sagan um Jóru missi gildi sitt í hugum fólksins sem þetta les.

Ég hafði val (óður til eldri borgara) (1)

Ég veit það vel, að aldur er afstæður og hef reynt það á eigin skinni, að mat mitt á eigin aldri og því sem honum fylgir er ekki alltaf hárn...