25 september, 2015

Vem kan segla

Mallorca 1974: Þarna hafði, að sögn, einn félaginn unnið
talsvert af  freyðivíni í einhverjum leik í skemmtigarði
og hópurinn samfagnaði auðvitað.
Það var mikil tilhlökkun í hópi nýstúdenta frá ML sem hélt til Mallorca vorið 1974. Félagarnir, sem höfðu deilt gleði og sorgum  í fjóra vetur, töldu sig auðvitað vera orðna nokkuð sjóaða á flestum sviðum og hugðu gott til skemmtilegs tíma á sólarströnd.  Eðlilega voru væntingarnar mismunandi til ferðarinnar, en einhverjir, sem voru nú ekki mikið meira en svona nokkuð venjulegir íslenskir sveitamenn sem höfðu kynnst lítið eitt lífsreyndara fólk á Laugarvatni, hugðust heldur betur njóta þess að stíga á erlenda grund í fyrsta skipti af alvöru. Eitt af því fyrsta sem bar fyrir augu var, að því er virtist, venjuleg verslun við hlið hótelsins. Þegar þar var komið inn blöstu við hilluraðir með áfengi af ýmsum tegundum, á verði sem varla gat talist eðlilegt á íslenskan mælikvarða.
Það varð úr við þessar aðstæður, að ég festi kaup á rommi, en það var drykkur sem hafði á sér svona ákveðin suðrænan blæ í huganum. Síðan festi ég kaup á kóla drykk. í framhaldinu smakkaði ég og smakkaði síðan aðeins meira.
Hópurinn naut lífsins á Mallorca og ferðin var eins vel heppnuð og vonir stóðu til og segir ekki meira af henni, en síðan þá hef ég ekki smakkað þennan drykk án þess að vera kominn aftur til Mallorca, tvítugur að aldri.
Þarna er um að ræða þekkt fyrirbæri, tenging bragðs við ákveðnar aðstæður í fortíðinni.

Þessi pistill átti ekkert að vera um romm og kókakóla. Það bara gerðist einhvernveginn í samhengi þess sem hann átti að snúast um.

Hópurinn hvarf frá Mallorca eftir tilskilinn tíma og dreifðist í ýmsar áttir. Miðjarðarhafseyjan skapaði umgjörð síðustu samskipta okkar sem hóps og suma bekkjarfélagana hef ég ekki séð síðan, við aðra hef ég átt í nokkuð reglulegum samskiptum af einhverju tagi.

Þessar vikurnar hefur mér talsvert oftar en áður orðið hugsað til menntaskólaáranna. Fyrst vegna þess að fyrir nokkrum vikum lést Jóhanna Gestsdóttir, sem var bekkjarfélagi á Laugarvatni. Við útför hennar frétti ég af því að önnur bekkjarsystir mín væri langt leidd af samskonar sjúkdómi og hún lést síðan þann 11. september síðastliðinn. Útför hennar fer fram í dag.
Sigurveig um það leyti sem hún kom á Laugarvatn

Sigurveig Knútsdóttir hét hún og þegar hún kom á Laugarvatn hafði hún átt heima í Svíþjóð einhvern tíma. Hún hafði sig alla jafna ekki mikið í frammi, var ekki áhugamanneskja um íþróttir svo ég muni, var meira svona fyrir hugans ævintýr. Hún féll ágætlega inn í hópinn, sem átti oft góðar stundir saman.

Þar með kem ég að tengingunni við bragðminnið sem fjallað er um hér ofar.

Það gerðist nokkuð oft á góðri stund að fólk fór að syngja. Fastur liður í þeim söng var sænska barnagælan "Vem kan segla förutan vind". Þarna kom Sigurveig sterk inn með sænskubakgrunninn sinn. Hún sætti sig ekki við rangan framburð, eða að rangt væri farið með. Mest vinnan hjá henni fór í að kenna meðsöngvurum framburðinn á "skiljas" í þriðju línu, og það gekk misvel að koma honum frá sér svo Sigurveig væri ánægð.  Síðan þurfti hún ítrekað að benda á að maður segir "åror" en ekki "årer".
Ég læt hér textann fylgja og lít á hann sem minningu um ágæta bekkjarsystur.

Vem kan segla förutan vind,
vem kan ro utan  åror.
Vem kan skiljas från vännen sin,
utan at fälla tårar.

Jag kan segla förutan vind,
jag kan ro utan åror.
Men ej skiljas från vännen min,
utan at fälla tårar.




Í hvert sinn sem ég hef heyrt þennan söng síðan hefur Sigurveig komið upp í hugann. Í hvert sinn sem Sigurveig hefur komið upp í hugann hefur mér dottið þessi söngur í hug, ásamt framburðarkennslunni.

Um ævigöngu Sigurveigar frá því leiðir skildust á Mallorca fyrir rúmum fjórum áratugum veit ég afskaplega lítið þó skömm sé frá að segja. Hún fór í listnám og hélt að minnsta kosti eina sýningu á grafíklistaverkum / dúkristum árið 1997. Þá náði hún sér í kennsluréttindi 1995 og starfaði síðan við kennslu í einhvern tíma. Loks  afrekaði hún það að eignast tvær dætur.

---------------

Í pistlinum um Jóhönnu nefndi ég von mína um að allur hópurinn sem eftir væri myndi hittast á Laugarvatni í maí árið 2024 til að fagna saman og minnast. Þá vissi ég ekki að nokkrum dögum síðar myndi annar bekkjarfélagi falla frá.  Ég verð að aðlaga von mína af þessu tilefni og taka undir orð sem enn ein bekkjarsystir mín lét frá sér fara fyrir stuttu, þar sem hún gerði athugasemd við að ég skyldi tala um árið 2024 í þessu sambandi í stað ársins 2019.
Ég vænti þess og vona, að í minningu þessara félaga okkar hittumst við öll á Laugarvatn til að fagna 45 ára stúdentsafmæli í maí 2019.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...