02 október, 2015

Með mólikúl að vopni

Gönguferð með Jóni
67 ár lífs í þessum nútímaheimi okkar finnst mér ekki vera fullnægjandi ævilengd.
En það er víst ekki spurt að því hvað mér finnst í þeim efnum.
Öll getum við átt von á að sjúkdómar leggi okkur að velli án þess við höfum nokkuð það aðhafst sem gæti stytt ævina umfram það sem venjulegt er hjá fólki í vestrænum samfélögum.
Ætli við séum ekki mörg sem hugsum gott til þess að hætta brauðstritinu og eiga síðan mörg góð ár til að njóta lífsins fram í ellina.
Við sjáum fyrir okkur heimsreisur, eða eitthvert dund í því sem áhuginn beinist að.
Við sjáum fyrir okkur samvistir við börnin okkar og barnbörn, að fylgjast með fólkinu okkar, að samfagna þeim árangri sem það nær í lífinu og hvetja það til dáða, taka þátt í gleði þess og sorgum, lifa.
Við viljum deyja södd lífdaga, sátt við að þann tíma sem við fengum.
En það er ekki spurt að því.

Mig grunar að Hilmar hafi ekki verið sáttur við að hverfa af vettvangi svo snemma.
En það var ekki spurt að því.

Í Sulzbach-Rosenberg
Hilmar Jón Bragason var samstarfsmaður minn í Menntaskólanum að Laugarvatni frá því ég hóf þar störf  árið 1986 og  til ársins 2010. Það eru hvorki meira né minna en nánast aldarfjórðungur, segi og skrifa.
Hilmar var einn þeirra sem kaus að fara á eftirlaun í samræmi við 95-ára-regluna svokölluðu. Hann keypti sér hús í Svarfaðardal og sá sennilegast fyrir sér það sem ég lýsi hér að ofan, en það átti ekki að fara svo. Hann varð að lúta í lægra haldi fyrir sjúkdóminum sem fellir svo marga langt um aldur fram. Hann lést 24. september og útför hans er gerð í dag.

Formlega var Hilmar raungreinamaður og kenndi að mestu raungreinar og stærðfræði. Hann var hinsvegar flóknari persóna en svo að hann félli alveg undir þá klassísku skilgreiningu á raungreinamönnum að þeir séu frekar ferkantaðir í hugsun. Ég vil halda því fram að hann hafi ekki síður átt heima í húmanískum fræðigreinum þar sem það skiptir ekki höfuð máli hvort tveir plús tveir eru fjórir. Þannig fékk hann áhuga á esperanto og varð virkur félagi í samtökum esperantista, þýddi yfir á esperanto og sótti þing esperantista víða um Evrópu. Þetta tungumál var eitt af áhugamálum hans og hann kenndi það í nokkur ár í ML.  Þá var skák einnig áberandi áhugamál hans.

Í samstarfi innan skólans var ávallt hægt að treysta því að Hilmar færi ekki með neitt fleipur, var undirbúinn og búinn að hugsa um þau verkefni sem fyrir lágu. Hann lenti oft í hlutverki málefnalegrar stjórnarandstöðu, veitti aðhald og benti á það sem var illa undirbúið eða mætti við meiri umfjöllun.
Það varð öllum fljótt ljóst að Hilmari var hægt að treysta. Þannig gegndi hann stöðu trúnaðarmanns starfsfólks árum saman. Hann sat einnig í samstarfsnefnd um gerð stofnanasamnings frá því sú nefnd varð til, þar til hann lét af störfum  Þar fylgdist hann vel með og gekk í málin ef eitthvað var með öðrum hætti en vera skyldi.


Þessi ágæti samstarfsmaður var skapmaður talsverður, var fljótur að skipta skapi og hikaði ekki við að tjá skoðanir sína á því sem honum mislíkaði. Hann var fljótur upp og jafnfljótur niður, því var hægt að treysta.
Ég gæti kinnroðalaust talið upp, í tengslum við Hilmar, afskaplega mörg  þeirra jákvæðu lýsingarorða sem eru notuð notuð um fólk eða eiginleika þess, ekki síst að því gengnu. Ég kýs að gera það ekki, enda var Hilmar ekki sá sem sóttist eftir hrósyrðum um sjálfan sig.

Nánast varð samstarf okkar Hilmars sennilega í tengslum við samskipti við menntaskólann í Sulzbach-Rosenberg í Bæjarlandi. Hann var auðvitað þýskumaður par excellence, enda hafði hann stundað háskólanám hjá Þjóðverjum.  Við fórum saman þarna suður eftir vorið 1996 til að undirbúa heimsókn nemendahóps frá okkur þangað og síðan til að taka á móti hópi frá S-R. Samskiptin við þennan þýska skóla stóðu síðan með hléum til 2009.

Þá er það  kennarann Hilmar. Það kom oft fyrir að nemendur í neðstu bekkjum kvörtuðu undan þessum kennara. Það lærðist okkur fljótt að taka þær kvartanir ekki of alvarlega því það var Hilmari ljóst, að til þess að ná árangri í námi verður að vera fyrir hendi agi, bæði agi á sjálfum sér og agi í vinnubrögðum. Hann leit á það sem sitt verkefni, með réttu, að efla með nemendum vísindalega hugsun og öguð vinnubrögð. Hann gerði kröfur til nemenda, með réttu, og þeir hafa síðan verið duglegir að þakka það í þeim könnunum sem gerðar hafa verið meðal fyrrverandi nemenda skólans.
Í efri bekkjum, þegar Hilmar hafði náð fram markmiðum sínum gagnvert vinnu nemenda, naut hann síðan óskoraðs trausts og virðingar.

Eitt mikilvægasta áhugamál Hilmars var útivist, fjallgöngur, skíðagöngur og annað af þeim toga, sem ég kann ekki að segja mikið frá, enda deildi ég ekki því áhugamáli með honum. Jafnskjótt og snjó festi, var hann búinn að taka fram gönguskíðin og haldinn af stað upp í heiði á samt Jóni, félaga sínum.
Ég viðurkenni að ég óttaðist Jón talsvert, lengi framan af, en þegar ég hafði einu sinni náð að klóra honum bakvið eyrað varð hann sáttur við tilveru mína og ljúfastur hunda.
Það óttuðust margir Jón.
-------
Vorið 2012 hélt hópur starfsmanna ML norður land og heimsótti þá Hilmar í Svarfaðardalnum, en þar bjó hann í Tjarnargarðshorni. Hann tók á móti hópnum af mikilum höfðingsskap og hópurinn gæddi sér á dýrindis kjötsúpu. Það var sérlega ánægjulegt að hitta þennan gamla félaga aftur, en þetta var í síðasta skiptið sem ég hitti Hilmar, en við höfum reglulega heyrt af honum og frá honum síðan.

Heimsókn Tjarnargarðshorni 2012: Gríma, Hilmar, Halldór Páll og Guðrún


Tjarnargarðshorn er efsta húsið til vinstri.
Mynd: Árni Hjartarson. 
Engin ummæli:

(Ráð)villtur unglingur með bleika plötu

Sýnishorn af plötubunkanum Ég er sennilega einn þeirra sem aldrei náði þeirri stöðu á unglingsárum, að verða svokallaður töffari. Ég var...