05 október, 2015

Af ljósinu á pallinum

Nú er liðinn sá tími að sólarljósið dugi til að lýsa upp sólpallinn. Í staðinn er nú notast við rafljós til að varpa birtu yfir svæðið.
Fyrir nokkru gerðist þetta:

"Það þarf að kaupa nýja peru í ljósið"

Við athugun varð mér ljóst að þetta var rétt. Langlíf peran sem gegnt hafði hlutverki sínu vel og lengi, gerði það ei meir.

"Er ekki til ný pera inni í búri? Við keyptum einhvern slatta til að hafa til vara".

Það leið ekki á löngu áður en pera sem reyndist vera til, var komin að dyrunum út á pallinn og þar með var kominn þrýstingur sem ekki var hægt að misskilja, á að það þyrfti að skipta um peru.  Ástæðuna fyrir þessum áhuga á peruskiptum má rekja til tiltekins viðhorfs fD til tiltekinnar smávaxinnar nagdýrategundar.
Sem oft áður þá hljóp ég ekki til og það var ekki fyrr en ég heyrði hurðinni út á pall lokað hratt nú rétt fyrir helgina og með fylgdu athugasemdir um að sést hefði til músar á pallinum.  Með þessari þróun mála óx þrýstingur á aðgerðir meira en svo að ég stæðist. og því var það að um helgina skipti ég um peru, setti nýja langlífis orkusparandi peru í ljósastæðið, með tilheyrandi átökum og veseni.

Og það varð ljós á ný.

Það næsta sem gerðist var þetta:
"Ferlega er óþægilegt þetta blikk á ljósinu."

Blikk, já. Hvað skyldi nú vera til í því? Ég athugaði málið og viti menn, ljósið blikkar lítillega. Ég hugsaði hratt, hafandi í huga að líkur hefðu vaxið á að aftur þyrfti að skipta um peru.
"Já, já. Þetta er sérstök tegund að perum sem blikka örlítið, en það dugir til að fæla burt mýs".

"Fæla burt mýs?"

"Já, það er vel þekkt, að þegar mýs lenda í svona ljósi fá þær oftar en ekki flogakast".

Við þessu öfluga svari gerðist ekki annað en fD ákvað að snúa sér að öðru og ég keypti mér smá frest.

Já, svona' er það við sjóinn víða,
sama gerist upp til hlíða,
sveinn og meyja saman skríða,
segjast elskast jafnt og þétt,
hvað er auðvitað alveg rétt.
Í hjónabandi að lifa og líða 
uns lausakaupamet er sett.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...