17 nóvember, 2015

Það tókst

F.v. Magnús, Ólafur, Helgi, Halla, Héðinn, Jónína,
Kristján, Páll, Haraldur, Lára, Baldur, Smári,
Björn, Jarþrúður, Jason, Hólmfríður og Eiríkur.
Myndina tók einkaþjónn hópsins 
og notaði til þess myndavél Eiríks Jónssonar.
Þetta á ekki að vera ellibelgsblogg, enda standa vonir til að ævidagarnir sem framundan eru verði margir og vonandi farsælir. Auðvitað er maður samt farinn að hugsa til þess sem bíður, en ég mun örugglega fjalla um það síðar. 
Þetta er hinsvegar nokkurskonar fagnaðarblogg í tilefni af ánægjulegum endurfundum, en fyrir nokkrum dögum gerðist það sem ekki hefur gerst síðan vorið 1974, að stærstur hluti stúdenta frá Menntaskólanum að Laugarvatni það vor,  hittist í eina kvöldstund. Það má halda því fram að það sem varð til þess að hópurinn hittist hafi ekki verið jafn ánægjulegt, en fyrr í haust létust tvær bekkjarsystur okkar þær Jóhanna Gestsdóttir og Sigurveig Knútsdóttir.  Þegar svo var komið fór af stað sá bolti sem varð til þess, að 17 af 25 bekkjarfélögum hittust á Hótel Holti. Hluta þessa hóps hafði ég ekki séð í á fimmta tug ára og því var ekki laust við að ákveðins spennings gætti. Reyndin var, svo undarlegt sem það nú er, að svo virtist sem við hefðum öll hist í síðustu viku. Það var eins og samskiptamynstrið hefði varðveist í frosti og síðan þiðnað í óbreyttu ástandi. Það var ekki fyrr en þetta fólk fór að segja frá hvað hefði á dagana drifið, að mér varð ljóst hvílíkur tími hafði liðið frá því við héldum út í vorið frá Laugarvatni. Fólk sagði frá áratuga námi og störfum, fjölskyldum og rígfullorðnum börnum og barnabörnum, allt án þess að ég hefði haft um það hugmynd. Það kom mér ekki síst á óvart hve mörg orð hver og einn þurfti til að greina frá, oft ansi fjölbreyttu æviskeiði. Þessi liður í dagskránni sem ákveðin hafði verið, stóð yfir ungann úr kvöldinu, og var afar skemmtilegur og upplýsandi, þó kennslufræðilega hefði ef til vill verið æskilegra að fá þessa fyrirlestraröð í smærri skömmtum. Ég stend mig að því að muna hreint ekki allt sem allir höfðu reynt um ævina.

Við strákarnir berum þess meiri merki en stelpurnar að árunum hefur fjölgað (kannski vegna ýmisskonar húðkrema frá L'Oreal, hvað veit ég?), en ekki hafa persónueinkennin breyst umtalsvert. Þetta var svona eins og míkrórannsókn á því sem gerist þegar mannskepnan eldist: sá hlutinn sem sést tekur óhjákæmilegum breytingum, sem eru jafnvel til bóta hjá sumum og auka við virðuleik annarra. Mér fannst á þessari kvöldstund, að innrætið, eða það sem einkennir persónuleikann, hafi haldið sér harla vel og sú breyting sem helst mátti greina fólst í talsvert meiri þroska í viðhorfum og víðari sýn á tilveruna.

Ég sat uppi með að vera  einhverskonar veislustjóri. Það hlutverk var mér ekkert sérstaklega að skapi og má kannski segja að þeir sem ákváðu þá skipan mál, hafi ekki lesið mig neitt sérstaklega vel. Þetta slapp þó allt til.
Ég hef verið afar gleyminn á atburði og aðstæður í fortíðinni, en tókst að tína saman nokkur tilvik sem komu upp í hugann, og las þessar hugsýnir mínar yfir hópinn og það var undantekning ef einhver gat ekki prjónað við, oft í talsvert lengra máli en ég, hvað um var að ræða í hverju tilviki.

Einn gaurinn hafði tínt saman myndaseríu frá árunum á Laugarvatni, þar sem gat að líta einhverja unglinga, sem ekki höfðu hugmynd um hvað ævigangan myndi bera í skauti sér.

Fyrir utan bekkjarsystur okkar tvær, sem hafa nú yfirgefið jarðvistina, vantaði 6 peyja, alla úr eðlis- og náttúrufræðideild. Þetta voru þeir: Heimir Geirsson, Þorvaldur Stefánsson, Hjálmur Sighvatsson, Kjartan Þorkelsson, Magnús Guðnason og Sigfinnur Snorrason. Þeir töldust löglega afsakaðir, að ég tel, en ætli við getum ekki reiknað með að við hittum þá síðar.

Á Holtinu þetta kvöld voru: Baldur Gunnarsson, Eiríkur Jónsson, Helgi Þorvaldsson, Hólmfríður Svavarsdóttir, Jarþrúður Þórhallsdóttir, Lára Hjördís Halldórsdóttir, Páll M. Skúlason, Björn Sigurðsson, Haraldur Hálfdanarson, Jónína Einarsdóttir, Halla I. Guðmundsdóttir, Jason Ívarsson, Kristján Aðalsteinsson, Magnús Jóhannsson, Ólafur Þór Jóhannsson, Smári Björgvinsson og Héðinn Pétursson.

Ég er bara talsvert þakklátur fyrir þessa kvöldstund, skal ég segja ykkur.





Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...