Sýnir færslur með efnisorðinu sumardagurinn fyrsti. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu sumardagurinn fyrsti. Sýna allar færslur

23 apríl, 2020

Sjálfum okkur næg

Aftast á myndninni eru Ellý, frænka úr Vestmannaeyjum
og móðir mín, Guðný Pálsdóttir. Þar fyrir
framan er Ella frænka (formaður félags eldri
borgara í Biskupstungum) og síðan ég sjálfur.
Fremst stendur Magnús bóndi í Hveratúni.
Ég fæddist inn í garðyrkjuna, en sannarlega ætla ég ekki að halda því fram að störfin sem mér var ætlað að sinna á garðyrkjustöð foreldra minna á æskuárum hafi verið sérlega skemmtileg; planta út, binda upp, brjóta þjófa, blaða, hreinsa götur, tína, vökvar (með slöngu), planta út. Nei, mér fannst þetta ekki neitt sérstaklega áhugaverð vinna, en hún var nú bara hluti af því að tilheyra svona fjölskyldu.
Það sem hefur eiginlega valdið mér einna mestum vangaveltum, þegar ég horfi til baka í samhengi við nútíma garðyrkju er, hvernig foreldrar mínir fóru að því að lifa af og ala upp 5 börn á ekki stærri garðyrkjustöð en Hveratún var.  Það var engin lýsing í gróðurhúsum og því lauk ræktun í október og það fór ekki að koma uppskera aftur fyrr en í apríl eða maí. Þetta þýddi að 5 mánuði ársins (svona um það bil) voru engar tekjur af þessum rekstri. Ég skil þetta ekki alveg enn.


Grunnur að gróðurhúsi í Kvistholti steyptur.
Ásamt mér sjálfum ber ég þarna kennsl á soninn
Þorvald Skúla og Skúla Sæland með hjólbörur.
Það leit  lengi vel ekki út fyrir að ég kæmi nálægt garðyrkju eftir að ég hleypti heimdraganum, en það æxlaðist samt þannig, að 1988 byggðum við, Kvisthyltingar 400 ferm gróðurhús, blokk, og hófum að rækta papriku, meðfram öðrum störfum. Þetta kom sér sannarlega vel, þar sem tekjur að aðalstarfi mín voru í mikilli lægð og svo virtist sem það starf þætti ekki ýkja mikilvægt í samfélaginu.
Þessi paprikuræktum bjargaði okkur sannarlega, en hafði það augljóslega í för með sér, að enginn varð frítíminn. Jólafríið fór í að hreinsa húsið, síðan fóru allar helgar í að sá, potta og planta út,  páskfríið fór í að sinna plöntum og sumarfríið frá kennslunni var undirlagt, eins og nærri má geta, því þá var uppskerutíminn.

Kvistholtshjón vinna vorverk í gróðurhúsinu.
Þetta "vinnurugl" var látið ganga fram undir aldamót, en þá var þráin eftir sumarfríi orðin of mikil, auk þess sem tekjuflæðið inn á heimilið orðið umtalsvert betra.
Þriðji þátturinn, og sá mikilvægasti, ef til vill, sem varð til þess að við hættum paprikuræktuninni var sá, að innflutningur á papriku var orðinn hömlulaus. Þetta hafði það í för með sér, að verslanirnar fóru að selja erlendu paprikuna fyrst og þá íslensku þegar upp á vantaði. Sölufélagið seldi svo elstu paprikuna á lagernum í búðirnar, þannig að þaðan kom alltaf gömul og jafnvel krumpuð, íslensk paprika, sem rétt  má ímynda sér að féll neytendum ekkert sértaklega vel í geð. Þar fyrir utan, auðvitað, var íslenska paprikan umtalsvert dýrari en sú innflutta og hver maður, sem vill á annað borð, getur ímyndað sér hversvegna það var nú.

Fjölskyldan tók öll þátt, hver með sínum hætti. Þarna eru
Brynjar Steinn og Guðný Rut að vinna við papriku vorið 1990
Því sem ekki tókst að koma út með þessum hætti var svo hent og það var kallað afföll.  Þetta var nefnilega þannig, að innflutninginn þurftu innflytjendur að greiða fyrir og tapið af því sem ekki seldist lenti á versluninni. Því var henni meira í mun að selja hann en íslensku vöruna, því það sem ekki seldist af innlenda grænmetinu fór í afföll (var hent), eins og það var kallað. Verslunin þurfi ekki að taka þátt í þeim afföllum, það þurftum við, ræktendurnir, að gera.

Eins og hver maður getur ímyndað sér, þá er ég nú loksins kominn að því sem varð kveikjan að þessum pistli á sumardaginn fyrsta, árið 2020, í miðjum heimsfaraldri; faraldri sem ekki sér fyrir endann á, en hefur orðið til þess að ég og sennilega flestir íbúar jarðarinnar, veltum fyrir okkur hvaða áhrif verða af þessu stóráfalli sem nú ríður yfir okkur.

Það voru líka ræktaðar gulrætur um tíma. Þarna brjóta fD og
Brynjar Steinn af  sumarið 2002.
Mín niðurstaða, eða bráðabirgðaniðurstaða, í það minnsta er sú, að við þurfum að fara að hægja aðeins á okkur, ekki bara aðeins, heldur bara alveg heilmikið. Þar er sannarlega að mörgu að hyggja.

Lega þessa lands okkar er þannig, að sumt getum við, en annað getum við ekki.
Við getum framleitt nóg af papriku fyrir okkur og þess vegna eigum að ekki að flytja inn papriku.
Við getum framleitt ísmola og þessvegna eigum við ekki að flytja inn ísmola.
Við getum framleitt nóg af lambakjöti fyrir okkur og þessvegna eigum við ekki að flytja inn lambakjöt.
Við getum ekki framleitt bíla (enn) og þess vegna skulum við flytja inn bíla.
Við getum ekki framleitt tölvuskjái (enn) og þess vegna skulum við flytja inn tölvuskjái. 
Við getum ekki framleitt myndavélar (enn) og þessvegna skulum við flytja inn myndavélar.

Þorvaldur Skúli bindur upp papriku árið 2002.
Það eru ótal ástæður fyrir því, að við eigum nú að stefna að því að verða sjálfum okkur nóg um allt það sem við getum framleitt sjálf. Þar er ekki síst um að ræða matvæli af ýmsu tagi.

Ég þykist vita að til séu þeir sem hafa ýmislegt að athuga við hugmyndir um að stöðva innflutning á matvælum sem við höfum fulla getu til að framleiða sjálf. Það veit ég, að útfærsla á svona hugmyndum er ekkert endilega  einföld, enda ekkert æskilegt að hún sé það.  Mikilvægur þáttur í að hrinda þeim í framkvæmd er, að hætta að hlaupa eftir kröfum innflytjenda um afnám tolla á matvæli. Þeir hafa, að mínu mati, fengið að vaða upp alltof lengi og í alltof miklum mæli. Þegar þeir svo þykjast bera hagsmuni neytenda fyrir brjósti, þá veit ég, að þeir eru að verða rökþrota.  Í þeirra huga snúast kröfurnar hreint ekki um neytendur, heldur hagsmuni þeirra sjálfra.

Við getum ræktað nóg af grænmeti fyrir þessa þjóð og við getum gert það á lægra verði. Til þess þurfum við að búa til aðstæður sem gera það kleift og þar skiptir, til dæmis, raforkuverð miklu máli; vistvæn raforka sem nóg er til af, sem hægt væri að selja á miklu lægra verði en gert er, jafnvel svipuðu og stóriðan greiðir fyrir þessa auðlind okkar.

Hvað með alþjóðasamninga og tollfrelsi eða hvað þetta kallast allt saman? Svar mitt við því er einfalt: flytjum inn það sem við getum ekki séð um að framleiða sjálf, bæði okkar vegna og  umhverfisins vegna. Þær aðstæður sem uppi eru núna: veirufaraldur sem skekur heimsbyggðina og bætist þannig við vaxandi loftslagsvá, ættu að kenna okkur, að hver þjóð verður að vera sjálfri sér næg um þá þætti sem stuðla að því að hún lifi af mögulegar hamfarir. Sú þjóð sem ekki áttar sig á þessu, er ekki í góðum málum.

Verum sjálfum okkur næg.

Gleðilegt sumar og þakkir til ykkar 
sem kíkt hafið að þennan litla miðil minn, á liðnum vetri.

Farinn að nálgast það að ljúka ævistarfinu.
Skúli Magnússon, garðyrkjubóndi í Hveratúni
tínir steinselju.


Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...